19 nóvember, 2012

Að berjast fyrir málstað

Það gengur mikið á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum af ýmsu tagi þessa dagana vegna svokallaðrar varnarbaráttu Ísraelsmanna. Það eru birtar myndir af líkum palestínskra barna, af þróun ísraelskra yfirráða í Palestínu, af þeim samhljómi sem finna má með Þýskalandi nazismans og Ísraelsríki nútímans.

Fólk er reitt, skilur ekki hvernig það má vera að ástandið sé svona. Fólk krefst þess að þessum ósköpum linni, fer jafnvel á mótmælafundi, auk þess sem það hellir úr skálum vanþóknunar sinnar og reiði hvar sem við verður komið.

Ég fylli flokk þess fólks sem leitar að þeim orðum sem geta hugsanlega orðið til að breyta einhverju, en ég finn þau ekki. Það er að segja, ég finn ekki réttu orðin. Ég finn vissulega óhemju mikið af orðum, en jafnskjótt og þau koma í hugann, átta ég mig á því að þau munu ekki breyta neinu. Ef ég færi að slá þessi orð inn í tölvuna mína þannig að þau birtist einhversstaðar fyrir augum annarra, væru þau þá ekki bara einhverskonar friðþæging fyrir mig? Gæti ég þá kannski bara sagt við sjálfan mig: "Nú er ég búinn að sýna umheiminum hvað mér finnst og get með góðri samvisku farið að skella steikinn í ofninn."  Hvaða máli skiptir það fyrir það fólk sem veit ekki hvort það fær að draga andann á morgun?  Hverju breytir það þótt einhver smáþjóð í Ballarhafi hrópi vandlætingu sína á því sem á sér stað við botn Miðjarðarhafsins? Þau öfl sem þar véla um líf og dauða hafa ekki kvikað neitt umtalsvert frá stefnu sinni eftir átölur frá umheiminum. Þar er það í gangi sem meira að segja "stórasta land í heimi" getur lítið haft um að segja.

Land hinna frjálsu styður aðgerðir herveldisins með ráðum og dáð. Það virðist ekki munu breytast. Meðan svo er, skiptir litlu þó við berjum okkur á brjóst og deilum myndefni sem orð ná ekki að lýsa.  Ég man þegar sex daga stríðið gekk yfir. Ég hélt með Ísrael. Fjölmiðlarnir sem sögðu frá gerðu það einnig. Mín sýn breyttist, en ég spyr mig hvort það breyti einhverju. Það skiptir ekki máli hvað ég hugsa og geri.  Ég veit hvert svarið við því er: "Ef allir hugsuðu þannig, væri leiðin greið fyrir ofbeldismenn, harðstjóra, kúgara eða heimsvaldasinna heimsins greið."

Það er rétt. En hvað svo?


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...