07 október, 2012

Að svindla? - Ekki séns.

Hjálparfoss
Áður en af stað er farið með þessar skriftir vil ég taka fram, að ég er ógurlegur andátaka- og andþemamaður. Það, til dæmis, hvarflar ekki að mér að fara að safna yfirskeggi í mars, eða klæða mig upp í kúrekafatnað til að fara í partí þar sem er kúrekaþema. Þá er það frá.
-----
Þrjátíu mínútur á dag, að lágmarki. Einn hreyfimöguleikinn er ganga, en reyndar ekki tekið fram hvar í litrófi göngutegunda hana er að finna. Það er, svo nokkur dæmi séu tekin, hægt að ganga rösklega (fD segir að í því felist að maður á ekki að geta talað undir göngunni því allt súrefni og orka eigi að nýtast beint í ganglimina), svo er hægt að tala um svona stinningsgöngu, samanber stinningskaldi. Það má nefna það sem maður kallar í daglegu máli LABB (hvaðan sem það orð kemur nú, eins ótótlegt og það nú er). RÖLT er þarna einhversstaðar líka. Ég hef kosið að ganga stinningsgöngu.

Í Sandártungu í Þjórsárdal
Þetta göngutal er nú ekki komið til af engu. Stofnunin sem ég vinn við hefur í heild sinni, verið skráð í Lífshlaupið svokallað. Þarna er um að ræða eitthvað á þriðja hundrað manns sem á að hreyfa sig í það minnsta 30 mínútur á dag til að hala inn stig fyrir sína stofnun, nú eða sitt lið, því innan stofnunarinnar hefur fólkinu verið skipt upp í hópa, hver bekkur myndar einn hóp og starfsfólk myndar siðan einn sameiginlegan og þar hafa allir verið settir inn jafn vel þeir sem engar líkur eru á að hreyfi sig.
Það er eitthvað þessu sinni, sem veldur því að ég hef tekið þá ákvörðun að ganga í 30 mínútur á dag í hálfan mánuð. Þegar ég hef ákveðið svona þá verður því ekki haggað. Í myrkri og slagveðursrigningu skal ég ganga svo tryggt sé að það verði allavega ekki mín sök ef liðið sem ég er í tapar.  Ég sé, þegar ég skoða frammistöðu liðsfélaganna, að talsvert vantar upp á að ýmsir málsmetandi aðilar, sem ættu nú, samkvæmt starfslýsingu að vera á fullri ferð allan daginn, hafa í engu sinnt því að skrá hreyfingu sína og hafa þannig markvisst dregið úr sigurlíkum liðsins. Það er ekki  gott.

Skaftholtsréttir
Í dag lá leið í Þjórsárdal til að auka fjölbreytni í gönguleiðum. Ekki það að ekki sé nóg ag þeim í Laugarási - það er nú öðru nær, auðvitað. Það þótti bara við hæfi, í nafni víðsýninnar, að skoða haustfegurðina í Þjórsárdal. Fegurðin hefð getað verið meiri í raun, en samt er nú ekki hægt að kvarta. Rúmur tími var genginn og haustlitir myndaðir

Ég veit nú ekki hvaða merkingu þessar
tölur hafa í keppninni, en svo virðist
sem aðeins einn skóli komi til
greina sem sigurvegari.
Við heimkomu var afrek dagsins skráð. Annað kom ekki til greina. Það þarf að sinna því sem maður tekur að sér.

Staðan í keppninni milli framhaldsskóla landsins er nú fremur óhagstæð öðrum stofnunum en minni. Hinsvegar er liðið mitt ekki á nógu góðu róli. Það gengur ekki að unglingar sigri fullþroskaðar manneskjur með þessum hætti. Það er enn eftir ein og hálf vika og ýmislegt hægt að gera til að bæta stöðuna.

Áfram nú. Engar 0 mínútur!
Þarna má enn sjá
of mörg núll




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...