29 september, 2013

95 ára unglingur

Ég hef stundum kallað föður minn "gamla unglinginn". Þetta með að hann sé orðinn gamall, segir sig svo sem sjálft, maðurinn kominn vel á tíræðisaldur. Unglingsnafngiftin er nú til komin einfaldlega vegna þess hve vel honum hefur tekist að viðhalda æsku sinni í anda. Hann á afskaplega létt með að gera að gamni sínu, tala þvert um hug sér til að ögra til umræðna og skopskynið er aldrei langt undan. Þessir eiginleikar hans hafa kosti og galla. Kostirnir eru þeir að hann er einstaklega auðveldur í umgengni og kvartar aldrei og kveinar. Gallarnir eru þá augljóslega sá persónueiginleiki hans að vera ekkert fjalla um líðan sína, þarfir, vonir eða væntingar. Það er eitthvað sem hann heldur mikið til hjá sjálfum sér. Hann biður ekki um aðstoð nema í ýtrustu neyð. Það hefur löngum einkennt hann að fara sínar eigin leiðir  án þess að vera mikið að ræða það. Þannig var það þegar hann kom heim einn daginn fyrir um 50 árum, akandi á brúna
Sigurður Blöndal og Skúli.
Landróvernum, splunkunýjum úr kassanum, án þess nokkur úr fjölskyldunni hefði grun um að það stæði til að kaupa bíl.
Ég held að mér sé alveg óhætt að halda því fram að pabbi sé bara ansi skemmtilegur kall, þó ekki hafi hann nú verið sérlega áberandi, eða látið mikið fara fyrir sér út á við.

Hann fæddist á Rangárlóni í Jökuldalsheiði á þessum degi árið 1918. Foreldrar hans voru þau Ingibjörg Björnsdóttir, fædd á Seyðisfirði og Magnús Jónsson frá Freyshólum ( í Vallahreppi) á Héraði. Fyrstu 4 æviár hans, bjó fjölskyldan á Rangárlóni og börnunum fjölgaði. Hann var þriðji í röð 6 systkina að komust á legg. Tveir eldri bræður hans voru Alfreð og Haraldur, en yngri en hann voru þær Björg, Sigfríður og Pálína. Um 1922 flutti fjölskyldan í Freyshóla, en þegar pabbi var 6 ára fór hann í fóstur í Mjóanes til Sigrúnar og Benedikts Blöndal. Þau stofnuðu Húsmæðraskólann á Hallormsstað nokkrum árum síðar og hann flutti þangað með þeim og ólst upp hjá þeim eftir það.
Skúli og Guðný
Um tvítugt, eftir að hafa stundað nám í Menntaskólanum á Akureyri í tvö ár, hugðist hann fylgja eftir þeim fyrirætlunum sínum að læra garðyrkju. Til að komast í það nám þurfti hann að hafa starfað í greininni í einhvern tiltekinn tíma og það varð úr að hann hóf störf hjá Stefáni og Áslaugu á Syðri-Reykjum hér í Biskupstungum. Á þeim tíma sem hann var þar mótaðist samband þeirra mömmu og þau hófu síðan búskap sinn í Hveratúni árið 1946. Ári síðar fæddist fyrsta barnið, en þau urðu 5 þegar upp var staðið.
Í Hveratúni bjuggu þau svo bara allan sinn búskap. Mamma lést árið 1991 og því hefur pabbi búið einn í ríflega tuttugu ár.
Fyrir rúmu ári flutti hann svo á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu og dvelur þar í góðu yfirlæti, gerandi að gamni sínu við konurnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...