04 október, 2013

Þrjú hjól undir bílnum - mínum

Ég hef óendanlega trú á fólki og fagmennsku. Ég hef ótrúlegan skilning á ófullkomleika mannsins. Ég hef mikinn skilning á að mannfólkið geti gert mistök, því ekki einu sinni ég hef sloppið við að gera eitthvað rangt, misstíga mig eða segja eitthvað sem betur hefði verið ósagt.
Það er í þessu ljósi sem ég læt frá mér það sem hér fer á eftir.

Ég og Qashqai skelltum okkur í höfuðstað Suðurlands í dag (höfuðstað og höfuðstað - það má nú deila um það eftir skilningsleysi það sem stjórnvöld í þessu þorpi hafa sýnt á mikilvægi þess að taka þátt í nauðsynlegri þjónustu við skóla á Suðurlandi), til að nálgast þjónustu á hjólbarðaverkstæði og þar með leggja okkar af mörkum til að skjóta stoðum undir tilveru íbúa þar.
Það er spáð snjókomu næstu daga og ég er forsjáll maður, sem er meira en hægt er að segja um ýmsa aðra, því enginn beið eftir umfelgun og ég gat rennt Qashqai snyrtilega inn á gólf. Því næst fór ég inn í móttökuna og þar var bíleigandi að ganga frá sínum málum og spurði sá meðal annars hvort ekki hefðu örugglega allar rær verið hertar - spurning sem mér fannst nokkuð út í hött og það sama gilti augljóslega einnig um starfsmanninn sem svaraði spurningunni játandi.

Þegar ég hafði tékkað okkur inn og látið í ljós óskir mínar (umfelga Qashqai), fór ég afsíðis, í ágæta setustofu þar sem hægt var að njóta þess að lesa Se&hör á íslensku. Ég las og las og las meira - veit orðið margt um brúðkaup fræga fólksins íslenska (6 blaðsíður að myndum með hverju brúkaupi og hnyttnar lýsingar á því sem fyrir augu bar á þeim).

Eftir um það bil 25 mínútur af lestri og skoðun kom maður og tjáði mér að Qashqai væri klár. Ég greiddi fyrir (ISK1650 fyrir hvert dekk) fór síðan fram í vélasalinn, en þá reyndist annar maður vera að leggja lokahönd á umfelgunina en hafði hafið hana.  Allt í lagi með það.

Ég settist inn og bakkaði út, betur en flestir aðrir. Síðan ók ég af stað frá dekkjaverkstæðinu og út á þjóðveg nr 1, en þar var talsverð föstudagsumferð. Mér fannst ég heyra lítilsháttar marr eða brak, sem svo hvarf og taldi það hlyti að stafa af því að nú voru TOYO harðskeljadekkinn komin undir og bíllinn þyrfti lítilsháttar aðlögunar að þeim við. Eftir um 50 metra akstur á þjóðvegi 1 fór að braka aðeins meira - að mér læddist illur grunur, en ég neitaði samt að trúa að eitthvað væri ekki eins og það átti að vera og ók um 50 metra í viðbót, en þá þótti mér liggja fyrir að ekki yrði af frekari akstri fyrr en ljóst væri hvað þarna var um að vera. ÞAr með stöðvaði ég Qshqai úti í kanti. Sennilega til að hugsa málið og leggja drög að því sem tæki við næst. Fyrsta niðurstaða mín var að freista þess að halda til baka - sú niðurstaða reyndist hinsvegar harla vanhugsuð, því um leið og ég lyfti tengslafetlinum (kúplingunni) heyrðist mikið brak og Qashqai pompaði lítillega niður vinstra megin að framan. Í beinu framhaldi þess atviks ákvað ég að stíga út og athuga hverju þetta sætti.
Þá varð mér eftirfarandi ljóst: allar rærnar sem höfðu það hlutverk að festa hjólið við Qashqai að öðru leyti, lágu á þjóðvegi 1 og hjólið hallaði eins og það væri laust - sem það var, auðvitað.

Þarna var nú ekki um annað að ræða en ganga til baka á dekkkjaverkstæðið og gera þeim sem þar starfa, að lagfæra það sem lagfæra þyrfti. Þarna fékk ég 100 metra göngu, sem auðvitað er jákvætt í sjálfu sér. Á verkstæðinu tilkynnti ég um ofangreint atvik. Viðbrögðin voru nú ekki beinlínis eins og himinn og jörð hefðu farist. Þarna voru tveir menn fyrir að sinna verkum sínum við umfelganir. Annar, sá sem lokið hafði umfelguninni á Qashqai, brást við og fór út í dyr til að sjá hvar Qashqai stóð í 100 metra fjarlægð. Hann hvarf síðan bak bakvið. Hinn virtist láta sér þetta í léttu rúmi liggja, en ég neita því ekki að ég hefði vilja sjá meiri viðbrögð hjá honum, t.d. þannig að hann fyndi til með mér í þessum raunum öllum saman, en því var ekki að heilsa.
Eftir þetta tók eitt við af öðru. Sá sem ábyrgðina tók á sig fór með mér á staðinn og hafði tekið með sér græjur til að lyfta upp og festa rær. Það verk tók lengri tíma en til stóð í fyrstu, af ástæðum sem ég nenni ekki að fjölyrða um, en m.a. þurfti hann að fara aftur á verkstæðið til að ná í nýjar rær og loks þegar allt var tilbúið til að festa hjólið á, varð rafknúin græjan, sem til slíks er ætluð, rafmagnslaus. Því varð að grípa til handvirks felgulykils til að klára verkið og ganga úr skugga um hvort fleiri hjól væru laus. Svo var allt klárt og ég var beðinn afsökunar á óþægindunum, en það sem dró nokkuð úr vægi þeirrar beiðnar var glottbrosið sem henni fylgdi. Ég kvaðst skyldu reyna, enda er ég eins og ég greini frá hér efst uppi.

Að þessu búnu hélt ég mína leið.

Hér eftir mun ég spyrja, um leið og ég geri upp eftir felguskipti, hvort ekki sé örugglega búið að herða allar rær.  Um leið þakka ég fyrir að rónum hafði bara verið tyllt á, um leið og ég bý til aðstæður þar sem hjólið flýgur af þar sem ég ek heim til mín á löglegum hámarkshraða.

Ég var varla kominn heim þegar þessi samskipti áttu sér stað á Fb:

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...