Ætli það séu ekki svona 15-20 ár síðan ég fór að átta mig á að það umhverfi sem ég ólst upp í var stórhættulegt, ef ekki beinlínis banvænt, og að foreldrar mínir hafi verið allsendis ófærir um að hugsa um velferð mína og öryggi. Hvað var fólkið eiginlega að hugsa? Þá fór ég einnig að átta mig á að ég var í rauninni lítið betri sjálfur, þegar kom að því að ala upp mín eigin börn. Skeytingarleysi mitt um öryggi þeirra kann að hafa, á einhverjum tímapunktum, leitt til þess að nær lá stórslysum.
Hér fyrir neðan er listi yfir helstu hættur sem börnum voru (og eru, að einhverju leyti) búnar í þorpinu í skóginum, sem virðist nú, við fyrstu sýn vera einstaklega kyrrlátur og barnfár staður.
1. Hverasvæðið.
Í 50 metra fjarlægð frá heimili mínu rann hveralækur með ríflega 90°C heitu vatni. Hann var ekkert afgirtur og yfir hann lá trébrú sem í minningunni var orðin feyskin. Hinumegin við lækinn var síðan heitur garður þar sem við ræktuðum grænmeti á sumrin, þar bakaði mamma rúgbrauð og þar voru þvegnir þvottar. Leiðin lá oft yfir þennan læk í algeru eftirlitsleysi. Það munaði oft ekki miklu að ver færi en til stóð. Fyrir utan lækinn voru hveraholur hér og þar á svæðinu, sem hrópuðu á aðgát. Ég slapp sem sagt við hverina.
Mér er kunnugt um eitt barn sem hefur látið lífið í hver í Laugarási. Það var þriggja ára stúlka sem brenndist til bana þann 15. júní 1943.
Þegar garðyrkjubýlum í Laugarási fjölgaði, aðallega á sjöunda áratugnum, var hveralækjunum lokað og þeir leiddir í pípum að dæluhúsi. Nú er það eiginlega bara yfirfallið sem rennur út í lón og þaðan í Hvítá.
2. Hvítá
Eitt vatnsmesta jökulfljót landsins, Hvítá, rennur í skeifu framhjá Laugarási og það þarf ekki mikið ímyndurnarafl til að átta sig á þeim hættum sem það býr yfir. Þarna vorum við nú oft að leik niðri á eyrinni fyrir neðan brúna því þar var (og er) fíngerður sandur sem gaman gat verið að dunda sér í. Þá var skammt niður á bakkann þar sem stundum var sandbleyta og þá var orðið skammt út í straumhart fljótið. Það er í rauninni furðulegt að fljótið skuli ekki hafa tekið meiri toll en raunin er á síðustu áratugum.
Í maíbyrjun 1979 hreif fljótið með sér tveggja ára stúlku og 1955,
rétt fyrir jól, fórust tveir bræður sem freistuðu þess að fara yfir á ís.
Brúin yfir Hvítá var tekin í notkun 1957 og stórbætti auðvitað samgöngur.
Þetta eru og hafa verið stærstu hætturnar sem fylgja því að búa í Laugarási, en auðvitað eru þær fleiri:
3. Skurðirnir
Þorpið byggðist að stórum hluta upp nálægt hverunum og í mýrlendi sem kallaði á framræslu. Því voru grafnir skurðir þvers og kruss á lóðarmörkum. Með árunum breyttust þessir skurði í dýki sem gátu verið harla varsöm, ekki síst þegar barnaskarinn í Laugarási átti í hlut. Þá stytti unviðið sér gjarnan leið til að komast milli bæja og stökk yfir leðjufulla skurðina. Það kom fyrir að ekki tókst að stökkva nægilega langt, en afleiðingarnar urðu aldrei þær sem þær hefðu getað orðið.
4. Brúsapallurinn
Í Laugarási var kúabú og við aðalveginn var brúsapallur (Helgi Indriðason, bóndi fór þangað með mjólkurbrúsana, sem mjólkurbíllinn flutti síðan á Selfoss). Brúsapallurinn var talsvert vinsæll, bæði sem staðurinn þar sem Laugaráskrakkarnir hittust á kvöldin og einnig sátu bílnúmeraáhugamenn þar og skráðu númer þeirra bíla sem óku hjá. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér hættuna sem börnunum stafaði af þessum brúsapalli, en ekki er mér kunnugt um að þarna hafi orðið slys.
5. Hverabrekkan
Á vetrum þótti brekkan henta vel til vetrarleikja. Þá var farið efst upp og síðan brunað niður brekkuna, en neðan hennar er beygja, sem kallaði á það að sleðamenn kynnu að beygja, eða hægja nægilega á til að fljúga ekki út í skurð. Það kom fyrir, þó ekki væri nú mikill umferðarþunginn, að bíll kom akandi í átt að brekkunni í þann mund er lagt var af stað af brekkubrúninni. Slík tilvik hefðu getað farið öðruvísi en raunin varð. Ekki minnist ég þess að þarna hafi orðið slys, þó sannarlega biðu aðstæðurnar upp á slíkt.
6. Tjörnin
Þarna lék ungviðið í Laugarási þegar þannig viðraði. Tjörnin er á túninu fyrir austan Laugarásbýlið. Þarna renndu menn sér á skautum og skíðasleðum og oft ekki ljóst hver traustur ísinn var, en ekki minnist ég þess að hann hafi gefið sig.
7. Dýin
Sem áður er sagt er lægðin sem stór hluti þorpsins er í, botnlaus mýri. Í þessari mýri voru dý. Ef maður gekk út á bakka þeirra dúaði hann. Það var ekki hægt að sjá til botns, þó svo vatnið væri tiltölulega tært. Í þessum dýjum voru brunnklukkur og því þurfti maður að loka munninum vandlega, en þær leituðust, að sögn, við að fljúga upp í fólk. Það hefði verið erfitt fyrir barn sem dytti í svona dý, að hafa sig upp úr því af eigin rammleik. Ég minnist þess ekki að neinn hafi farið svo óvarlega og hafa lent í dýi. Það dý sem ég man best eftir var þar sem nú stendur gróðurhús í Lyngási.
Þær eru örugglega margar fleiri, hætturnar sem börn í Laugarási ólust upp við á síðari helmingi síðustu aldar og það væri sannarlega þess virði að fá frásagnir af ýmsum ævintýrum og uppátækjum frá þeim tíma..
Ástæða þess að ég er að renna í huganum yfir allar þær hættur sem ég ólst upp við, er sú skoðun sem ég hef nú haft alla tíð, að hluti af því að vaxa úr grasi sé, að læra að þekkja þær hættur sem fylgja því að vera til. Banaslys eru sannarlega alltaf hörmuleg, og þegar börn láta lífið í slysum er varla hægt að finna orð sem geta tjáð sorgina sem fylgir. Það breytir ekki þeirri skoðun minni að börn verða einhvernveginn að fá að læra á hætturnar í umhverfi sínu. Það tel ég að gerist ekki með því að girða fyrir allt það sem mögulega getur valdið slysum. Það þurfa að vera aðstæður til að reyna sig og upplifa ævintýri. Það gerist ekki með ofurverndun, jafnvel fram eftir öllum aldrei, eins og mér virðist vera orðin raunin. Er nú ekki til einhver millivegur?
Það var viðtal við mann í fréttum í sjónvarpi fyrir nokkrum vikum. Sá deildi þessari skoðun með mér, en því miður hef ég ekki fundið út hver hann er. Ég hugsa að ég geri það að markmiði mínu að finna vísindalegar rannsóknir sem leiða í ljós að það skiptir máli fyrir þroska barna að takast á við hættur í um hverfi sínu. Hvernig eiga þau annars að vera í stakk búin til að takast á við umhverfið sem ábyrgir, fullorðnir einstaklingar?
Heilsugæslustöðin í Laugarási |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli