11 október, 2013

Skynsemi lítillætisins


"The only true wisdom is in knowing you know nothing"
Hin sanna viska felst í því að vita að maður veit ekki neitt. Sókrates (499-370 f.Kr.)
"Le coeur a ses raisons que la raison ne connait pas"
Hjartað á sér rök sem rökhugsun okkar þekkir ekki. Pascal (1623-1662)


Það er mörg spekin sem við leitum í til að sannfæra sjálf okkur og aðra um að þær ákvarðanir sem við tökum byggist á skynsemi. Að sjálfsögðu er ekkert við því að segja, en við getum varla ætlast til þess að aðrir deili skilyrðislaust þeim skynsamlegu ákvörðunum sem við tökum, eða þeim skynsamlegu skoðunum sem við höfum.
Fyrirbærið skynsemi er afstætt hugtak sem byggir á þeirri reynslu og upplýsingum sem einstaklingurinn býr yfir. Ákvörðun eins, sem hann telur vera skynsamlega, virðist öðrum vera harla óskynsamleg.

Smella til að lesa
Tilefni þessa pistils er umræða sem kemur upp aftur og aftur um mikilvægi þess að bólusetja ungabörn. Þar skiptist fólk í hópa sem báðir telja sig vera skynsama. Skynsemi þeirra byggir á þeim upplýsingum sem þeir hafa, lífsskoðunum, trú, eða einhverjum rökum sem þeir búa sér til með einhverjum hætti - hvað veit ég?
Skynsemin segir mörgum að við eigum að taka mark á þeim læknisfræðilegu rökum sem þar til bærir sérfræðingar bera á borð fyrir okkur, eða sögulegum staðreyndum um mikilvægi eða gagnsemi þessara bólusetninga.
Skynsemin segir öðrum að við eigum að taka mark á þeim læknisfræðilegu rökum sem þar til bærir sérfræðingar bera á borð fyrir okkur, eða sögulegum staðreyndum um þann skaða sem þessar bólusetningar geta haft í för með sér.
Hver á svo að meta hvor hópurinn er skynsamur?
Auðvitað get ég gert það og fer létt með það. Ég býst hinsvegar við því að margir telji það mat mitt ekki skynsamlegt.
Ef ég ákvarða sem svo, að annar hópurinn byggi skoðun sína á hindurvitnum, eða þá að hinn á oftrú á vestræn læknavísindi, sem séu í besta falli ekki í takti við náttúruna, hvað er ég þá nema hrokafullur gagnvart öðrum hópnum? Er ég í stöðu til að leggja mat á hvað er skynsamlegt í þessum efnum? Jú, vissulega, ef ég hef að baki mér allar staðreyndar upplýsingar sem geta varpað ljósi á málið. En auðvitað hef ég þær ekki. 

Orðabókarútskýringar:
Skynsamur: Greindur, vel gefinn
Skynsemi: Gáfur, vit, hyggja greind, þekking.
Skynsemisstefna: Sú skoðun að leggja beri sérstaka áherslu á skynsemi í stað tilfinninga og hvata.
Samkvæmt þessu skortir þann greind sem er óskynsamur og hann er einnig illa gefinn. Með því að telja ákvarðanir annarra eða skoðanir óskynsamlegar, erum við að leggja dóm á greind hans eða gáfur. 

Sannarlega bera tilfinningar og hvatir okkar skynsemina oft ofurliði, en þýðir það þá að okkur skorti greind eða að við séum illa gefin? 

Hér eru nokkrar spurningar sem má telja að snúist um skynsemi:
Er skynsamlegt að:
- kjósa Framsóknarflokkinn?
- selja Kínverjum land?
- ganga í ESB?
- lesa svona blogg?
- trúa á líf eftir dauðann?
- kaupa Skoda?
- eignast barn?
- prófa fíkniefni?
- kaupa 50" flatskjá?

Svona má lengi spyrja. Við öllum þessum spurningum eru jákvæð og neikvæð svör, sem viðkomandi telja að byggist á skynsemi, en þegar grannt er skoðað byggjast þau ef til vill frekar á tilfinningum eða hvötum. 
Þá má spyrja: Eru tilfinningar okkar og hvatir merki við greindarskort?

Niðurstaðan er:
Hættum að ofnota orðið SKYNSEMI, sýnum frekar skynsemi.



2 ummæli:

  1. Þetta er áhugavert hjá þér Páll: "Er ég í stöðu til að leggja mat á hvað er skynsamlegt í þessum efnum? Jú, vissulega, ef ég hef að baki mér allar staðreyndar upplýsingar sem geta varpað ljósi á málið. En auðvitað hef ég þær ekki."
    Það er satt að enginn getur vitað allt. Ég veit t.d. talsvert um bíla en veit hinsvegar næstum ekki neitt um það hvernig á að gera við bíla. Þegar bíllinn minn bilar leita ég til bifvélavirkja á verkstæði sem hefur starfsleyfi sem slíkur og jafnvel meðmæli frá bílaumboðinu sem seldi mér bílinn. Þeir greina bilunina og gera við hana. Þú myndir líklega leita álits annarra, t.d. nuddara eða stöðumælavarðar því þú virðist leggja álit allra að jöfnu.
    Þegar Heilsugæslulæknirinn í Laugarási, Sóttvarnarlæknirinn á Suðurlandi, Landlæknir, Alþjóða heilbrigðismálastofnunin og næstum allir læknar og sérfræðingar heimsins í smitsjúkdómum eru sammála um að öll börn ættu að vera bólusett þá eru það upplýsingar sem ættu að nægja öllum skynsömum einstaklingum.

    En hvers vegna má fólk ekki bara byggja afstöðu sína til bólusetninga á tilfinningum, trú eða hvötum eins og þú leggur til? Fyrir því eru einkum tvær ástæður:

    1. Foreldrar bera ábyrgð gagnvart börnum sínum, börn eru ekki eign foreldra til að leika sér með eftir eigin geðþótta. Það ríkir t.d. almenn sátt um að foreldrar geti ekki neitað börnum sínum um blóðgjöf af trúarástæðum. Hvers vegna líðum við það að 20% foreldra á suðurlandi bólusetji ekki börnin sín?

    2. Við berum ábyrgð á heilsu annarra. Það er viss hópur í samfélaginu sem má ekki bólusetja, t.d. vegna ónæmissjúkdóma. Aðrir hafa ekki verið bólusettir sökum ungs aldurs. Fjölgun óbólusettra í Bretlandi og BNA hefur þegar leitt til þess að tilfellum af fyrirbyggjanlegum sjúkdómum hefur fjölgað til muna og hefur dregið kornabörn og aðra sem eru veikir fyrir til dauða. Sjá t.d. hér: http://edition.cnn.com/2013/09/12/health/worst-measles-year/index.html?hpt=us_c2
    ...og hér: http://www.visir.is/frelsi-til-ad-valda-thjaningum-og-dauda-/article/2012709299987

    Það getur vel verið að þér þyki svona ákveðin afstaða hrokafull. Það kann vel að vera. En hún er ekki hættuleg. Sú skoðun að það sé betra að sleppa bólusetningum við hættulegum smitsjúkdómum er beinlínis lífshættuleg. Ekki aðeins fyrir þann sem hefur þá tilteknu skoðun heldur fyrir samfélagið í heild.

    SvaraEyða
  2. Allt í lagi með það Valgarður.
    Ég tel sjálfan mig vera afskaplega skynsaman mann, eins og nærri má geta. Því fékk ég ráð hjá hinum skynsömu sérfræðingum sem sjá um viðhald á bifreiðinni sem ég, í skynsemi minni, keypti fyrir nokkru - ráð varðandi góðan stað til að umfelga. Að ráðum þeirra tók ég skynsama og upplýsta ákvörðun um að fá þá sem mæælt var með til að skella nýjum heilsársdekkjum undir bifreiðina, sem þeir gerðu á vandkvæða. Ég fór síðan í vor, í skynsemi minni, aftur á þessan stað, og allt fór á besta veg. Nú var ég orðinn aldeilis öruggur, því flest mælti með því að það væri skynsamlegt hjá mér að láta þessa ágætu menn umfelga og því fór ég til þeirra enn og aftur nú í haust. Þá gerðist þetta: http://kvistholt.blogspot.com/2013/10/rju-hjol-undir-bilnum-minum.html

    Árið 2006 þurfti ég lán. Í skynsemi minni leitaði ég ráða hjá þeim sem vissu best. Eftir vandlega íhugun og að bestu manna yfirsýn (sérfræðinga í lánamálum) tók ég lán sem var blanda af svissneskum frönskum og japönskum yenum. Um það þarf ekki fleiri orð.

    Ég reikna með að heimspekingar hafi fjallað um þetta fyrirbæri, skynsemi, frá þeim tíma sem sú grein varð til og því ætla ég mér ekki að ná utan um það í nokkrum línum hvað í því felst.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...