15 október, 2013

Gamall heimur og nýr (1)

Add caption
"Jú, ætli ég láti mig ekki hafa það", sagði fD þegar ég spurði hana hvort hún ætlaði að koma með mér í bæinn, eldsnemma á mánudagsmorgni. Tilefni ferðarinnar var ómótstæðilegt tilboð (ég á erfitt meða að standast ekki ómótstæðilegt tilboð) í að framkvæma ákveðna aðgerð á Qashqai, sem átti að taka 8 klukkustundir (ég mun ekki greina frá því í hverju þessi aðgerð fólst fyrr en fyrir liggur að hún hafi heppnast og sé til þess fallin að vera til eftirbreytni). Ég tók tilboðinu áður en ég komst að því hvað það hefði í för með sér. Til að gera langan aðdraganda stuttan þá héldum við til höfuðborgarinnar eldsnemma á mánudagsmorgni og segir ekki af ferðum okkar fyrr en Qashqai var afhentur á aðgerðarstað. Ég reyndi að fá upplýsingar um, í hverju aðgerðin fælist, nákvæmlega, og hvað hún hefði í för með sér. Svörin voru þess eðlis að ég var ekki miklu nær, þar sem viðkomandi starfsmaður freistaði þess að leiða mig inn í heim sem ég ber lítið skynbragð á. Nóg skildi ég samt til að ég ákvað að hætta ekki við allt saman og við svo búið stóðum við fD á götunni, bíllaus í heilan dag.
Veðrið lofaði góðu, logn og heiðskírt, hiti rétt yfir frostmarki. Það má segja að leiðin hafi legið niður á við til að byrja með, eftir að tókst að ná ásættanlegri niðurstöðu um hvert halda skyldi. Létt á fæti gengum við niður Vegmúla og þegar við komum að Suðurlandsbraut stóð valið á milli þess að fara til vinstri, hægri, nú eða beint yfir. Til að halda fleiri möguleikum opnum var haldið til hægri í átt að Glæsibæ.
"Er Hagkaup ekki opið allan sólarhringninn?" velti fD fyrir sér þegar Glæsibær nálgaðist. Ég, sem fyrr opinn fyrir öllum möguleikum, kvaðst telja svo vera.
"Væri gott að komast inn þangað til hlýnar aðeins."
Á mótum Suðurlandsbrautar og Grensásvegar varð að velja milli heilsuræktarinnar sem fælist í því að ganga um Laugardalinn, og Hagkaupshlýjunnar. Það fyrra varð ofan á, eftir lítilsháttar japl.  Yfir Suðurlandsbrautina á gangbraut með ljósum og svo beygt til vinstri í sömu átt og við höfðum komið úr. Þarna hefði mátt spara 1.6 km göngu með því að fara beint yfir þegar komið var úr Vegmúlanum. Þetta átti að vera heisluræktardagur og því ekki nefnt. Það eru nú meiri flottheitin hjá þessum Reykvíkingum. Þarna gengum við eftir 3ja metra breiðum, malbikuðum gangstíg og við hliðina á honum var síðan jafnbreiður, tveggja akreina, malbikaður hljólreiðastígur. Þetta jaðrar við sóun, ef tekið er mið af gangskábrautinni í Laugarási.
Þegar við vorum komin út undir Laugardalshöll: "Ég nenni nú ekki af fara út fyrir hana" og í ljósi þessarar yfirlýsingar var haldið til hægri, niður í dalinn, nú eftir ómalbikuðum, óakreinaskiptum stíg. Þarna fóru að koma í hugann sögur af líkamsárásum í Laugardalnum. Þarna gat leynst allskyns óþjóðalýður í þéttum trjágróðrinum. Ekki laust við að hert væri á göngunni (jákvætt þar sem þarna var um að ræða heilsurækt). Þarna lá bein leið niður á einhverskonar torg þar sem var inngangurinn í margumræddan grasagarð í Laugardal og þarna var líka Café Flóra (ekki opnað fyrr en 11 (hefði nú verið gott að setjast inn og fá sér kaffisopa til að ná hita í kroppinn). Ég kom, held ég einusinn í grasagarðinn fyrir áratugum síðan. Þar vorum við nú tvö ein, ef frá eru taldar undrandi endur á pollum, sem reyndu að leyna undrun sinni með því að snyrta neðanverða vængi eða stinga höfðum undir vatnsyfirborðið. Þarna inni var bekkur þar sem manni var boðið að setjast og hlusta á skáld. Þarna sá ég engin skáld, ekki einusinni hátalara eða takka til á ýta á. Þar gat hinsvegar að líta nokkurskonar strikamerki (QR-merki (quick response code)). Með því að nota veiðeigandi APP í android símanum mínum hefði ég getað nálgast ljóðaflutninginn, en það gerði ég ekki. (Ég vænti þess að hér staldri lesandinn við og dáist að nútímamennsku minni).
Við gengum áfram inn í grasagarðinn þar sem hver einasta planta er kyrfilega merkt, en þar sem haustið var búið að setja mark sitt á gróðurinn lét ég vera að kynna mér nöfn á gulnuðum laufblöðum eða beygðum spírum.
Þegar við vorum kominn innst í garðinn rak ég augun í gufu sem steig til lofts í nokkurri fjarlægð. Nánari skoðun leiddi í ljós að þarna voru þvottalaugarnar margfrægu, sem ég hafði aldrei séð áður berum augum. Auðvitað gengum við þangað, enn var nægur tíminn (vel rúmir 7 klukkutímar). Jú, jú þetta var svo sem allt í lagi. Öryggið var svo mikið að mús hefði ekki getað framið sjálfsmorð í lauginni. Það grillti í laugarvatnið í gegnum þéttriðið net sem yfir lá.
Eftir heimsóknina í Þvottalaugarnar lá leiðin aftur til baka, nú aðra leið, nær Laugarásnum. Stígurinn sem var valinn liggur meðfram Sunnuvegi.
Eftir því sem nær dró Heimunum hækkaði í hljóðum frá Reykjavíkuræskunni sem sækir sér menntun í Langholtsskóla. Það fór ekki á milli mála að það voru frímínútur og skrækirnir sem vorku framkallaðir með brostum eða brastandi barnaröddum fylltu loftið og höfðu ekkert sérlega róandi áhrif. Við Langholtsskóla sveiði stígurinn til hægri og þar blöstu þær við í mikilfengleik sínum, Álfheimablokkirnar.
Hvað með þær? - Bíður þar til næst.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...