03 nóvember, 2013

Gamall heimur og nýr (2)

Það er nú að verða langt síðan fyrri hluti þessarar umfjöllunar um gönguferð í höfuðborginni var settur hér inn og það liggur við að það sé farið að fenna yfir fínustu smáatriðin í þeirri ferð. En það er nú svo að ef maður segir A þá verður að koma B á eftir og því held ég áfram þar sem frá var horfið.
Við fD vorum komin í Álfheima í gönguferðinni og okkur fannst, að nokkrum hluta til, að þar værum við komin heim. Það má segja að þar höfum við hafið sjálfstætt líf okkar saman í blokkaríbúð í Álfheimum 36, 4. hæð til vinstri í upphafi árs1977. Þá höfðum við búið eitt ár inni á tengdaforeldrum mínum í Kópavogi og hjá vinkonu okkar henni Guðrúnu á Silfurteigi 2.

Það sem merkt er með gulu
eru taldir vera gluggarnir
á umræddri íbúð áð Álfheimum 36.
Íbúðin í Álfheimunum var í eigu þeirra Sigrúnar og Bergsteins, foreldra Ara, mágs míns og þar fengum við að vera í einhvern tíma áður en sú íbúð var seld. Skömmu eftir að við fluttum þarna inn fæddist frumburðurinn. Hann var nú ekki rólegasta barn sem foreldrar gætu eignast og vegna þess hve lítið hann eyddi tímanum í svefn þroskaðist hann hratt, líflegur og skemmtilegur. Það má segja að tíminn í Álfheimum 36 hafi verið ákveðin eldskírn fyrir okkur sem fullorðna, ábyrga, sjálfstæða einstaklinga, eða svo verður maður líta á þá reynslu.
Svo fluttum við úr þessu hverfi, en sökum þess hve við bjuggum á mörgum stöðum í þau 4 ár sem við gistum höfuðborgarsvæðið, virðist fara á milli mála hve lengi var búið á hverjum stað, og jafnvel í hvaða röð staðirnir voru. Það stefnir í að þetta þurfi að rannsaka betur.  Á þessum tíma telst mér til að við höfum búið á 5 stöðum. Ég er sannfærður um að ekki hafi farið svo vegna þess að við værum neitt sérstaklega slæmir leigjendur.

Hvað um það, Álfheimarnir vöktu upp minningar þarna á gönguferðinni sem svo hélt áfram á þessum fagra haustdegi. Næsti áfangastaður var Glæsibær, þar sem reyndist vera hið ágætasta kaffihús og staður til að setjast niður og safna kröftum fyrir næsta legg göngunnar.
Að innbyrtu kaffi og einhverju brauðmeti, lá leiðin í Skeifuna. Þar sem fyrir lá að við þyrftum að eyða talsverðum tíma, hugðumst við líta í verslanir í leiðinni, og ég sá fljótlega eina, sem hefur allskyns raftæki á boðstólnum. fD sá aðra sem vill selja annað, s.s. fatnað og glingur af ýmsu tagi, og auðvitað fórum við þangað - hverjum hefði svo sem dottið annað í hug? Í framhaldi af þessari var síðan farið í aðrar svipaðar og sem seldu ekki raftæki.
Þá var komið að því að feta nýja slóð. Það gekk ótrúlega vel að finna göngubrúna yfir Miklubraut og það var bara nokkuð sérstök tilfinning að ganga yfir hana. Í beinu framhaldi af því lá leið um það hverfi borgarinnar þar sem götunöfnin enda á gerði eða garður og síðan um götur sem enda á leiti. Á þessari leið bar það helst til tíðinda að á sá fyrsta sinni hvar Grensásdeild er til húsa og það fannst mér heilmikil uppgötvun. Leggurinn endaði í Kringlunni. Um þann áningarstað segi ég ekkert, utan það að þar álpaðist ég til að kaupa útsölubækur sem ég þurfti síðan að rogast með það sem eftir lifði gönguferðarinnar. Í stað þess að setjast að snæðingi í glamrinu í Kringlunni var stefnan sett á veitingastað sem selur kjúklinga á Grensásvegi. Til að komast þangað þurftum við að ganga aftur yfir Miklubraut á göngubrú og þar með endurupplifðum við slíkt ævintýri.
Ekkert sérstakt bar til tíðinda á þessari leið, utan tvennt: við sáum heim í Álftamýri 42 þar sem við áttum viðdvöl á höfuðborgarárunum og við létum verða af því að líta hinn sérstaka heim sem Góði hirðirinn í Fellsmúla er. Ég gæti auðveldlega týnt mér í þeirri veröld sem þar blasti við, en nú var að styttast í að Qashqai væri tilbúinn, svo áfram var haldið, með tóman maga eftir mikla brennslu.
Eftir seðjandi kjúklingamáltíð á þannig veitingastað, röltum við síðasta spölinn upp Ármúlann, þar sem rauða drottningin beið, svo skínandi fín að það lá við að sólgleraugu væru við hæfi.

Segir nú ekki meira af 10 km göngu um höfuðborgarsvæðið.
Þakkir séu já.is og Google streetview fyrir myndir - svo ekki sé nú minnst á sjálfan mig.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...