27 september, 2013

Frá núllpunkti

VARÚÐ - RANT
Baráttan um athygli mannanna og ekki síst þeirra sem ungir eru, er í algleymingi. Það er svo margt skemmtilegt í gangi að við eigum erfitt með að velja úr því öllu: vinir okkar á Fb, snapptsjattið, Gray's Anatomy, Dr. Phil, The Biggest Loser, Happy endings, Diary of a Nymphomanic, og svo framvegis og svo framvegis.
Hver í veröldinni getur ætlast til þess, þegar við höfum svo margt skemmtilegt að velja úr, að okkur detti til hugar að gera eitthvað leiðinlegt? Jú, við lærum það með tíð og tíma, að við getum ekki treyst endalaust á að einhver borgi ofan í okkur matinn, ali upp börnin okkar, sjái um allar okkar þarfir, stórar og smáar. Við verðum víst, með góðu eða illu, að axla þá ábyrgð að sinna því sem lífið færir okkur. Það er stundum leiðinlegt og jafnvel ömurlegt eða fáránlegt, en það er samt þannig. Við reynum kannski í lengstu lög að komast hjá því að axla sjálf ábyrgðina á öllu því sem að okkur snýr - leitum leiða til að gera aðra ábyrga fyrir ýmsu eða lýsum þá seka um ýmislegt sem við eigum í raun að bera ábyrgð á sjálf.

Ég hef oft spurt sjálfan mig hvenær er réttur tími fyrir einstakling að byrja að taka ábyrgð á sjálfum sér. Sjálfsagt er það misjafnt eftir því hver á í hlut.
Það má líka spyrja hve lengi eiga foreldrar að taka á sig alla ábyrgð á börnum sínum, námi þeirra, líkamlegum þörfum og félagslegu umhverfi: öllu því sem mögulega felur í sér eitthvað leiðinlegt. Hvenær rennur upp sá tímapunktur að foreldrar sleppi takinu, losni undan ábyrgðinni, líti svo á að þeir séu búnir að skila af sér einstaklingi sem er tilbúinn að takast á við líf í heimi hinna fullorðnu?

Það er svo gaman að vera ungur og geta lifað í núinu eins og enginn sé morgundagurinn og engin fortíðin. Allir dagar eru byrjun og allir endir. Er það ekki þannig hjá dýrunum sem fylgja, væntanlega hugsunarlítið (þó ég viti nú ekki mikið um hugsun dýra), einhverjum erfðum lífsferli, þar sem megin markmiðið virðist ekki vera flóknara en það að ná sér í eitthvað að éta og fjölga sér.

Það liggur við að mér finnist að við mennirnir séum að einhverju leyti að þróast í þessa átt.
Það sem er gamalt er víst ömurlega leiðinlegt, maður elskar ekki það sem er erfitt, maður er ekkert að pæla í framtíðinni því breyting á því sem er í dag virðist óhugsandi. Lífið á að vera skemmtilegt, alltaf. Maður á að fá það sem mann langar í, núna. Það eru bara helv....tis hálfvitar sem segja manni eitthvað annað, eða krefjast einhvers annars af manni. Það er þeim að kenna ef maður getur ekki gert það sem maður vill, þegar maður vill.

Sú skoðun, að undirbúningurinn fyrir fullorðinsárin eigi að vera skemmtilegur og bara skemmtilegur, er að verða áberandi. Það er dregið í efa að einstaklingur eigi að þurfa að sanna kunnáttu sína, færni og getu með því að standa fyrir máli sínu. Það er erfitt og getur skaðað sálarlífið. Það er dregið í efa að það eiga að gera kröfu um það að grunnskólabörn eigi að geta lesið sér til gagns texta sem eru skrifaðir fyrir 60 árum. Það er dregið í efa að það sé mikilvægt að grunnskólabörn "kunni" eitthvað. Það þurfi ekkert að kunna, því þekkingin er alltaf í fingurgómunum (bara að hún sé ekki eldri en vikugömul). Það sem leggja ber áherslu á er að fólk sé fært um að leita upplýsinga um það sem það þarf á hverjum tíma. Til þess þarf lítið meira en kunna að slá á lyklaborðið.

Ég veit það vel, að það sem ég hef verið að þusa um hér að ofan, eru talsverðar alhæfingar. Það sem ég held þó að sé raunin í afar mörgu tilliti sé að málfari, lesskilningi, þekkingu á fortíðinni, skilningi á því sem framtíðin kallar á, sé að mörgu leyti mjög ábótavant.

Ég skil grunnskólann, því samkeppnin um sál og huga barna og unglinga er ójöfn, eins og svo oft er þegar barist er við óvígan her. Hvernig geta menn ætlast til að einhver læri/lesi sér til um/ fjalli um Jónas Hallgrímsson? Það er ekki einu sinni til APP um hann (eða er það?)!

Við eigum eða áttum öll foreldra, afa og ömmur, langafa og langömmur; fólk sem smátt og smátt leiddi til þess að við urðum til og síðan það sem við erum. Við verðum sjálf einhverntíma langafar eða langömmur. Munum við geta rætt við barnabörnin - nú eða barnabarnabörnin. Eigum við nokkuð að vera að pæla í því?

Kannski er ég bara að missa af öllu þessu skemmtilega. Orðinn svona "grumpy old man"

#agaleysi   #sjálfhverfa   #undanlátssemi   #gekt leiðilegt   #ömurlegt   #fáránlegt

Það hafa nú ekki margir undir þrítugu komist hingað. Ef einhverjir gerðu það, þá eru þeir í góðum málum. #meðetta.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...