24 september, 2013

Laugarás - Christiania

Á leið í vinnuna í morgun heyrði ég fréttaritara í Kaupmannahöfn fjalla um málefni sem tengjast Christianiu, sem var eins konar fríríki (getur verið að svo sé enn) og íbúar þar fóru sínu fram oft í trássi við það sem yfirvöld á hverjum tíma voru að stússa annarsstaðar. Þarna dafnaði menning sem vék frá norminu. Ég þykist nú ekki vita um þá sögu alla, en líklega fer að styttast í að þetta svæði í Kaupmannahöfn missi sérstöðu sína.
Það sem fréttaritarinn sagði fékk hugann ósjálfrátt til að hvarfla til stöðu mála í Laugarási, því ýmislegt var þar með sama eða svipuðum hætti og lýst var. Í famhaldinu velti ég fyrir mér fleiri sameiginlegum þáttum:

1. Íbúar Christianiu eru að eldast og barnafólk er orðið fátt. Mig grunar að meðaldur í Christianiu og Laugarási sé ekki ósvipaður. Einhvern heyrði ég segja frá því fyrir nokkru, að næsta vetur verði 1 nemandi í grunnskóla úr Laugarási.

2. Christiania hefur lengi vel heldur skorið sig úr í umhverfi sínu. Íbúarnir hafa byggt upp samfélag sem víkur talsvert frá því sem er í kring. Svæðið hefur verið nokkurskonar fríríki. Þarna er að finna talsverðan samhljóm við Laugarás, sem er nokkurskonar fríríki, en þá aðallega vegna þess að uppsveitahrepparnir, sem eiga landið, virðast ekki geta hugsað sér að standa að neinni sameiginlegri starfsemi á því, eða halda málefnum svæðisins á lofti. Hver um sig vill halda sínu sem næst sér.

3. Það orð hefur farið af Christianiu að þar neyttu menn fíkniefna umfram það sem tíðkast fyrir utan. Sannarlega hafa menn lagt stund á framleiðslu fíkniefna í Laugarási, og þannig má finna samhljóm með hverfunum tveim.

4. Í Christianiu er mikið um smáfyrirtæki sem stunda sölu og þjónustu og þar mynda fyrrum hippar kjarna þeirra íbúa sem þar hafa ílengst. Þarna er sannarlega samhljómur með því Laugarási er húsdýragarður, heimasala á grænmeti, lífræn ræktun, völundargarður og fleira af þessum toga - allt svona dálítið hippalegt.

Sannarlega er margt sem þarna er með svipuðum hætti þó stundum sé það með öfugum formerkjum.

Nú þarf ég bara að fara að heimsækja Christianiu og finna þar aftur tóninn sem mér líkar svo undur vel.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...