Ekki neita ég því að maríuerluparið sem tók sig til, að því er virðist upp úr þurru, á þjóðhátíðardeginum, við að efna í hreiður í fuglahúsi, sem Álaborgarmaðurinn smíðaði fyrir áratugum síðan í handmennt í Reykholtsskóla, gladdi mig.
Maríuerlupar kom sér upp ungum í þessu húsi fyrir tveim árum okkur til ómældrar ánægju. Reyndi aftur í fyrra, en hætti við, að öllum líkindum vegna ógnandi tilburða krumma, sem þá hafði komið sér upp ungviði í Ólafslandi svokölluðu.
Fyrr á þessu voru varð vart við parið þar sem það kannaði aðstæður, en ekkert varð þá úr framkvæmdum.
17. júní hófst verkið hinsvegar af fullum krafti og hver goggfyllin á fætur annarri hvarf inn í húsið og Kvisthyltingar glöddust. Sannarlega þótti þetta heldur seint farið af stað og talið líklegt að fyrra varp parsins hafi farist fyrir með því egg eða ungar hafi endað í hrafnskjafti.
Eftir margar ferðir með efni fór að rigna og það sem meira var, það settist hrafn um stund í trjátopp í Sigrúnarlundi. Hreiðurgerðinni var hætt og ekkert hefur gerst í húsinu síðan. Það síðasta sem ég sá til parsins í kringum þessa tilraun til hreiðurgerðar var annað þeirra norpandi í hellirigningu um kvöld, skammt frá húsinu, skömmu eftir að krummi hafði sest í furutoppinn.
Ég velti því fyrir mér hvernig maríuerla tekur ákvarðanir. Kannski bara svona: "Þarna er krummi uppi í tré og núna veit hann að ég er að fara að búa til hreiður í húsinu og hann kemur svo þegar ég er búin að verpa og tekur eggin". Það getur svo sem verið að það hafi verið úrhellið sem fældi parið frá, en það hóf síðan hreiðurgerð á öðrum stað í nágrenninu og ekki veit ég hvernig það hefur gengið.
Ungar krumma hér í næsta nágrenni, eru allir þrír farnir úr hreiðrinu. Sá fyrsti virðist hafa hrapað til dauða eftir átök við systkin sín, löngu fyrir tímann. Sá næsti virðist einnig hafa yfirgefið hreiðrið heldur snemma því hann er ófær um að fljúga og virðist hafa tognað eða brákað væng við brottförina úr laupnum. Hann heldur til hér uppi í brekku fyrir neðan Kirkjuholt og væri sjálfsagt gustukaverk að einhver áhugamaður um hrafnauppeldi tæki mál hans til umfjöllunar. Sá þriðji virðist hafa komist klakklaust frá þessu. 30% árangur - ekki veit ég hvað hrafnshjónunum
finnst um það.
Þetta var stutt yfirferð um fuglalífið í grennd við Kvistholt þetta vorið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli