Varðandi þetta með rómantíkina þá má kannski segja að þar sé nokkuð jafnt á komið, því fD á ekki yfir höfði sér þann dóm að verða kölluð einkar rómantísk, þó ekki efist ég um að hún telji sig búa yfir þeim eiginleika í ríkum mæli.
Á þessum degi eru fjórir áratugir liðnir frá því við gengum í heilagt hjónaband í Skálholtsdómkirkju. Það var sr. Guðmundur Óli Ólafsson sem sá um það sem að honum sneri. Tveim árum síðar fluttum við í Reykholt þar sem við stóðum við í 5 ár, en þá var íbúðarhúsið í Kvistholti komið það langt að hægt var að flytja inn með börnin þrjú sem þá höfðu litið dagsins ljós. Það síðasta bættist síðan við fimm árum síðar.
Síðan höfum við gengið lífsins veg svona rétt eins og það gengur fyrir sig. Eins og oft vill verða, hefur þessi ganga ekki alltaf eftir sléttu malbiki, Það hafa komið kaflar sem ef til vill má líkja við ferðamannabrautir í uppsveitum, en þeir eru nú harla fáir.
Ef ég ætti að nefna eitt ár sem kemur fyrst upp í hugann og sem felur í sér ótrúlegar andstæður, yrði það árið sem George Orwell notað á eina frægustu bók sína. Ég hygg, svona fyrir mína parta, að varla sé hægt að finna annað ár ævinnar, sem hefur þroskað mig meira og hraðar. Á þessu ári sigldum við sennilega úfnasta sjóinn á þessari leið.
Það á hinsvegar ekki að líta til einstakra ára eða atburða þegar fjallað er um þann umtalsverða tíma sem hér er undir, heldur þá heildarmynd sem sjá má út úr honum. Heildarmyndin er bara hreint ágæt, verð ég að segja..
Við fD getum verið ánægð með börnin fjögur sem við höfum sent út í veröldina. Þar er á ferð rétthugsandi og ábyrgt fólk.
Við getum verið sátt við að hafa byggt húsið okkar í Laugarási, Þorpinu í skóginum, sem hefur verið skjól okkar og samastaður í 33 ár.
Við getum verið ánægð með að hafa tekist að losna úr fjötrum skulda þó heimilistekjurnar hafi ekki alltaf dugað milli mánaðamóta.
Við getum verið ánægð með að hafa ekki í lífi okkar troðið öðrum um tær, eftir því sem við best vitum.
Við getum sennilega bara verið ánægð með hvort annað og okkur sjálf, svona ef grannt er skoðað.
Hvert verður svo framhaldið?
Hver veit. Það gætu verið kaflaskil framundan. Það er hinsvegar þannig, að þegar maður er búinn að lesa einn kafla, tekur annar við, nema auðvitað ef bókin er búin. Næsti kafli byggir oftar en ekki á því sem þegar hefur verið lesið.
Það er eins með lífið. Maður byggir alltaf á því sem búið er.
Vegurinn áfram er framhald af veginum sem farinn hefur verið. Beygjur við og við, vissulega, en alltaf framhald.
Ef einhver ætlar að halda því fram, að myndin sem fylgir sé ekki þrungin af rómantík, þá er mér að mæta. Annað eins hefur varla sést.
Gleðilega páska
Engin ummæli:
Skrifa ummæli