Það hefur líklega ekki farið framhjá áhugafólki um listgjörninga fD, að hún hefur að undanförnu staðið í ströngu við að steypa furðufugla í yfirstærð, sem síðan eiga að ala aldur sinn utandyra.
Þetta er örugglega hin ágætasta hugmynd, en því er ekki að leyna, að til þess að hún komist í framkvæmd þarf að leysa ýmis hagnýt mál og þar er líklegast stærsta málið: hvernig á að festa lappir við hlunka sem eru holir að innan?
Mér varð það auðvitað á að stinga upp á festifrauði, og þar með var sá þáttur kominn á mína ábyrgð. Allt sem myndi gerast í tengslum við festifrauðið yrði á mína ábyrgð. Ég myndi hafa sagt að þetta yrði svona og svona.
Ég tók á mig þessa ábyrgð og það er komið á annan mánuð síðan keypt var festifrauð á brúsa. Leiðbeiningar utan á brúsanum eru af skornum skammti, en þó sagt að hann innihaldi 500ml sem myndu verða að 25 lítrum. Það voru einnig keyptar lappir: 10 og 12 mm skrúfteinar sem myndu duga til að halda fleiri tonnum af steypu.
Svo bara leið tíminn. Ég vissi að þegar upp væri staðið myndi ég ekki geta staðist þrýstinginn, en hann hefur farið stigvaxandi undanfarnar vikur. Ég var búinn að hugsa framkvæmdina fram og aftur og fannst ávallt að óvissuþættirnir væru of margir, t.d. bara hve hratt frauðið myndi taka sig, eða harðna eða þenjast út. Af þessum sökum og fleiri (skort á framkvæmdagleði sem beinist í þá átt sem um ræðir) var það ekki fyrr en í gær, að óbeinn þrýstingurinn var orðinn meiri en svo að ég gæti staðist.
Í dag voru hlunkarnir bornir út á pall, stillt þar upp þannig að lappirnar myndu standa beint upp í loftið. Það var brotið í þeim sem brjóta þurfti, lappirnar sagaðar í æskilegar lengdir.
Svo koma að ísetningu festifrauðsins.
Ég notaði festifrauð síðast þegar við byggðum íbúðarhúsið. Því var sprautað meðfram gluggum og hurðakörmum og mér þótti það mikið töfraefni. Síðan eru líðin ein 35 ár.
Hvað um það, hvernig sem færi, varð ég að ganga þessa braut á enda og þar með byrjaði ég að sprauta frauðinu inn í belginn á stærsta hlunknum. Var búinn að reikna út að brúsinn myndi duga í alla hlunkana fimm, sem tilbúnir voru á borði úti á palli í 4,5°C hita (á ekki að nota frauðið við lægri hita en 5°C).
Ég sprautaði í belginn. Jú, frauðið þandist eitthvað út, en ekkert í líkingu við það sem það átti að gera, að mínu mati. Ég hafði séð einhversstaðar að til viðbótar við það sem það myndi þenjast strax út, myndi það bæta við rúmmál sitt 33% þegar upp væri staðið. Því ákvað ég, til að hafa vaðið fyrir neðan mig, að setja frauð svo það fyllti hálfan belginn. Þar með hlyti hann að fyllast nokkurnveginn þegar endanlegri þenslu yrði lokið.
Frauðið var sannarlega ekkert að flýta sér að þenjast út, og það varð ofan á að bera hlunkinn inn í stofu (sem er einnig vinnusvæði fD) þar sem hlýrra væri og betra að hafa stjórn á aðstæðum. Þar voru lappirnar 4 settar í, og vonir stóðu til að þær myndu fljótt festast, sem aldeilis varð ekki raunin. Þar með varð úr að reyna að skorða þær einhvernveginn. Til þess náði ég mér í kubba sem ætlaðir höfðu verið eldivið, tróð þeim ofan í belginn og tókst eftir nokkurt streð að skorða lappirnar nokkurnveginn eins og hugsað hafði verið.
Einnig skellti ég frauði í botninn á einum litlu hlunkanna, en þar með tæmdist brúsinn, sem átti að duga til að fylla 25 lítra rúm.
Þar með læddist að mér vondur grunur. Belgurinn á stóra hlunknum tæki kannski 10 lítra, og mögulega hafi farið sem svaraði til eins lítra í belginn á þeim litla.
Hvað yrði þá með þá 14 lítra sem út af stóðu.
Inni í stofu gerðist það hægt en örugglega, að frauðið fór að stækka og það kom að því að nauðsynlegt var að hefja björgunaraðgerðir. Þær hafa staðið síðan. Ég hef skóflað ofan af frauðinu jafnskjótt sem það hefur nálgast að fara upp úr hlunknum. Þessi aðgerð hefur nú staðið í næstum 3 klukkutíma og enn þenst frauðið út. Á tímabili þótti fD þetta vera orðin spurning um að koma sér fyrir á bak við einhverja hlíf, ef hlunkurinn skyldi springa, en af því hefur ekki orðið - enn.
Já, ég veit að einhver besserwisserinn í ykkar hópi mun setja upp svip undir þessari frásögn, og verði honum bara að góðu. Ég er nú búinn að læra eitthvað sem ég kunni ekki áður og bruna inn í framtíðina með tiltekna, nýja þekkingu í farteskinu og sem ég mun mögulega geta notfært mér..
Þegar ljóst var að festifrauðið væri ef til vill ekki það sem best hentaði, náði fD í steypupokann og hrærði í hlunkana sem enn voru frauðlausir.
Síðan heldur lífið áfram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli