28 apríl, 2017

Þegar fólk sponsast eða kúlar yfir sig.

Ég er búinn að tjá mig hér í allmörg ár. Ef allt væri með felldu, ættu fyrirtæki að vera fyrir löngu búin að átta sig á, að það gæti borgað sig að greiða mér fyrir að nefna þau á nafn í pistlum mínum, en svo er ekki. Ég bara skil það ekki.  Auðvitað reyni ég að skilja það og við slíkar tilraunir kemst ég helst að því að þetta blogg mitt hljóti að skorta góð ráð til fólks í einhverri sálarkreppu, fólks sem þráir að vera svalt eða "kúl", fólks sem þráir að finna réttu lausnirnar á vandamálum sínum og ekki til þess fallið að ná til fjöldans.

Því fólki fer fjölgandi, að því er virðist, sem hefur lagt á lífsstílsbloggbrautina og tekist að safna tryggum lesendahópi. Líklega er þarna oftast um að ræða fólk sem hefur eitthvað það fram að færa sem höfðar til fólks, gefur góð ráð varðandi lífið eða lífsstílinn. Þetta fólk getur oft bent þér á eitthvað sem gæti gert líf þitt innihaldsríkara, skemmtilegra eða þess virði að halda áfram að lifa því. Þetta eru svokallaðir lífsstílsbloggarar.
Ég hef svo sem engar athugasemdir við þetta og örugglega skaðar þetta engan, í það minnsta til frambúðar, eða það vona ég.

Þegar lífsstílsbloggari er kominn með álitlegan hóp fylgjenda á einhverju tilteknu sviði, kemur að því að seljendur á vöru eða þjónustu sjá sér hag í því að styrkja viðkomandi, gegn því að hann nefni þá til sögu. Geti þeirra og setji hlekk á heimasíðuna hjá þeim.  Við þetta er viðkomandi lífsstílsbloggari farinn að hafa tekjur af skrifum sínum, sem getur bara verið harla gott mál. Fólk þarf að hafa tekjur.

Þegar lífsstílsbloggarinn er farinn að hafa tekjur af skrifum sínum og farinn að tilgreina hvar hitt og þetta, sem bætt getur líf lesendanna, fæst, er lífsstílsbloggið orðið það sem heitir "kostað" eða "sponsað" á nýslensku.  Bloggið er, sem sagt, orðið að auglýsingu.

Það er nú þannig með mig, að ef ég sé auglýsingu þá veit ég, að eitthvert fyrirtæki er að koma vörum sínum á framfæri.  Það er fullkomlega heiðarleg aðferð við að ná til mögulegra kaupenda.

Það fer illa í mig og mér finnst að komið sé aftan að mér, þegar einhver, sem ég hef reynt að því að gefa mér góð ráð um hitt og þetta, bendir mér á einhverja vöru eða eitthvert fyrirtæki, en getur þess ekki jafnframt að hann fái greitt fyrir ábendinguna.  Slíkt er, að mínu mati, blekking eða svik. Ég trúi því að lífsstílsbloggarinn minn sé raunverulega að ráðleggja eitthvað sem veitir mér lífsfyllinguna sem ég þrái, en kemst svo að því að hann fær laun fyrir það frá fyrirtækjunum sem hann bendir mér á.

Hversvegna að velta sér upp úr þessu?

Auðvitað er fyrir hendi tilefni til þess að ég eyði dýrmætum tíma mínum í að skrifa þetta.  Þar sem ég var að renna í gegnum vefmiðiðil sem ég kíkji gjarnan á (fæ ekki borgað fyrir að nefna hann og nefni hann því ekki), blasti þetta við mér.Þetta vakti forvitni og ég fór inn á viðkomandi blogg. Það sem ég sá þar varð til þess að ég lét mig hafa það að setja hlekk á þessa síðu inn á Fb.

 Kannski var þar um að ræða einhverja fljótfærni, en eftir því sem ég hef velt þessu meira fyrir mér, kemst ég að þeirri niðurstöðu að þetta var fyllilega réttmætt.  Þá á ég við, það var réttmætt að fjalla um fyrirbærið "kostaða lífsstílsbloggara",  Umræddur bloggari birtist þarna aðeins sem fulltrúi þeirra - óheppinn að vefmiðill fór að vekja athygli á barnaafmælisblogginu.

Það var dálítið fyndið að umræddur bloggar vildi ekki fjalla um bloggið sitt opinberlega, að sögn vefmiðilsins. Hvað er blogg annað en opinbert?

Hvað um það, þessi litla sending mín kallaði fram meiri viðbrögð en ég hafði átt von á. Ég birti það sem þar kom fram, hér fyrir neðan, en sleppi nöfnum þeirra sem þar lögðu sitt til málanna, nema mínu.  Ef einhver vill vita hvaða fólk það er, þá er það auðvitað opinbert, enda um samfélagsmiðil að ræða,  og hægt að sjá hér.

Fólki er, eins og áður hefur komið fram, að mínu mati, fullkomlega frjálst að auglýsa vörur og þjónustu á bloggsíðum sínum. Ég fer hinsvegar fram á það, fyrir hönd neytenda þessa lands, sem "velja" að lesa lífsstílsblogg, að í haus bloggsins komi fram hvort bloggarinn þiggur greiðslur fyrir umfjöllunina.  Efst í þessum pistli má sjá hvernig þetta gæti verið.  Þar með væri þetta mál úr sögunni.
Allir sáttir?
Kannski ekki bloggarinn, sem mögulega fengi minna fyrir sinn snúð, enda bloggið ekki lengur að þykjast vera annað en það er.

-------------------------

Viðbrögð við sakleysislegu innleggi mínu. Mér var orða vant þá, en ekki lengur.
  
t
Ummæli
 Já sæll bara ódýrt og gott. Verður spennandi að sjá fermingarveisluna 😉

 Já Það sama datt mér í hug ,, þetta er komið út í þvílíkar öfgar hvernig fólk lætur.

 Máttur samfélagsmiðla og sérstaklega instagram þegar kemur að auglýsingagildi er mikið.

Hún fékk þetta allt saman sponsað fyrir það eitt að vera með ríflega 1000 fylgjendur á instagram og halda úti lífstílsbloggsiðu

 Aumingja barnið...!!!!!

Þetta er greinilega dulbúin auglýsing,kostuð af þeim fyrirtækjum sem að vísað er í þarna.

Páll M Skúlason Ef þú ert það sem kallað er "lífsstílsbloggari" (bara orðið kallar fram gæsahúð) og ert búin(n) að safna að þérgóðum hópi lesenda í leit að lífsfyllingu, eru fyrirtæki tilbúin að halda fyrir þig affmæli eða hvað sem er, gegn því að þeirra sé getið og vörunum hrósað. Ætli þetta sé ekki það sem kalla má "viðskiptahugmynd".
Sá þetta á netinu í morgun, en nennti ekki að lesa. Óraði ekki fyrir því að á Íslandi léti fólk svona. Hélt þetta væri komið frá henni Ameríku. Mér verður líka orða vant.

 Fór þessi veisla fram í Tungunum? He he.

Páll M Skúlason Ekki skal ég segja. Allavega fór hún ekki fram í heimi sem ég þekki. 

Hvort á maður að hlæja eða gráta?

Páll M Skúlason Hlæja fyrst (köldum hlátri) - gráta síðan þjóð sína. Nú eða öfugt 

Þetta er bleikur og hreinn viðbjóður  Mætti alveg senda póst á hana og spyrja hana hvern andsk.... hún sé að gera!!

Hvernig verður fermingarveislan? En er blessuð konan ekki í alvöru að grínast?

Það er val hvers og eins að fylgjast með lífstílsbloggurum sem eins og Tinna er bara að auglýsa vörur væntanlega gegn greiðslu. Það er bara þjóðaríþrótt að óskapast en mér finnst engin ástæða fyrir fólk að vera að baula. Tinna skaðar engan með þessu.

Páll M Skúlason Það er sannarlega rétt hjá þér, Dagur, að hvert og eitt okkar fer þær leiðir í lífinu sem okkur þykir henta best og aðstæður okkar leyfa. Það er annaðhvort val okkar, eða nauðsyn, jafnvel. Lífsstíll okkar tekur mið af því hver við erum, og það sama má segja um skoðanir okkar, hvort sem þær snúa að hinu stóra, eða bara því smáa. 

Það er í raun ekki hægt að áfellast okkur fyrir neitt af ofangreindu. Nú stöndum við frammi fyrir nýjum veruleika, sem gerir okkur, ef við veljum að fara þá leið, berskjaldaðri. Þar með erum við komin inn á hálfgert jarðsprengjusvæði og mikilvægt að við séum í stakk búin að takast á við það að það eru ekki allir jábræður okkar eða jásystur.

Ef við erum ekki undir það búin að takast á við, að það sem við viljum standa fyrir, falli hreint ekki öllum í geð og kalli jafnvel fram viðbrögð, ættum við kannski að hugsa okkur um tvisvar.

Viðbrögð mín hér efst eru til komin vegna þess að þetta skall á augum mínum í fjölmiðli. Það hefur auðvitað ekkert með konuna sem skrifar bloggið að gera, enda þekki ég ekkert til hennar og efast ekki um að hún sé ágætis manneskja. Sé hún sár eftir, er auðvitað sjálfsagt að biðja hana afsökunar á að hafa "óskapast" í henni og "baulað" á hana.
Ég varð orðlaus um stund vegna þessarar birtingarmyndar ákveðinnar "menningar" sem virðist vera að ryðja sér til rúms. 

Ég er sem sagt búinn að fá málið, og mun mögulega nota það í blogginu mínu í framhaldinu í umfjöllun um þá menningu sem Tinna var svo óheppin að að láta birtast fyrir augum mér. Þar með verð ég berskjaldaður og þarf að búa mig undir áfellisdóma.
Bestu kveðjur.

Iss! Nú er greinilega best að þegja 

Páll M Skúlason Það kemur fyrir að það telst góð hugmynd.

 Fólk má nú hafa álit á hinu og þessu held ég .Sem betur fer erum við ekki öll heilalaus.

Ég er allavega alaviss að hún borgaði ekki krónu fyrir þetta sjálf..

 Hérna ... já. Hvað skal segja? 

Páll M Skúlason Láta t.d. í ljós skoðun... 😎


 Ertu að meina þetta með kjánahrollinn og ,,það dó eitthvað inní mér - mómentið" þegar ég ,,lenti" í því að lesa þessa grein? Oh well 

Upplifi þig skemmtilega andsnúin sjálfum þér hér Páll. Athyglisvert. Það er þetta þarna með frelsi einstaklingsins. Fögnum fjölbreytileikanum. Þroskaferli. Taka hverjum eins og hann er hverju sinni og allt það hmmmm. Föllum við ekki öll i einhverjar og allskonar gryfjur á lífsleiðinni. Hef oft hugsað og sagt að heimurinn væri betri ef enginn hefði þörf fyrir að hafa skoðun á náunganum eða gjörðum hans hvað þá vali (oft þó fallið í þá gryfju sjálf þó úr því dragi þó með æfingunni )

Páll M Skúlason Það er einmitt málið, Hulda, Ég er skemmtilega sammála sjálfum mér, en tekst ekki að kalla fram skilning þar sem skilnings er þörf. 
Ég mun tjá mig um þetta á mínum vettvangi, síðar.

 Íslenskan eitthvað að bregðast þér frændi 

Páll M Skúlason Sennilega orðin full gamaldags.

 nja hefur bara þínar skoðanir og skiptir það nokkuð máli þó engin skilji þig ef út í það er farið

Páll M Skúlason Sko, ef maður skilst ekki, þá er lítill tilgangur með því að tjá sig. Samkvæmt þeirri niðurstöðu bíður það mín að temja mér nýslenskuna í ríkari mæli, vilji ég á annað borð setja fram skoðanir. Svo er auðvitað valkostur að þegja bara og láta þeim sem erfa skulu jörðina eftir sviðið. 
 - ýmsum myndi eflaust hugnast sú niðurstaða.

það tel ég nú ekki heillavænlegt, mikilvægt að allar kynslóðir tjái sig og allir. Þannig lærum við að vera gagnrýnin á helst uppbyggilegan hátt á tjáningu okkar sjálfra og annarra
Páll M Skúlason Sannarlega er mikilvægt að alltir sem hafa fyrir það þörf, tjái skoðanir sínar. Það er hinsvegar til lítils þegar lesendurnir vita allt betur og hafa betri eða réttari skoðanir. 
Í þessu finnst mér kynslóðamunurinn endurspeglast að nokkru leyti.
Þetta er allt ágætt.

Er það ekki það sem heitir skoðanaskipti. Mismunandi skoðanir. Er til eitthvað sem heitir betri eða réttari skoðanir. Er það ekki bara hluti af þroskaferli eins og allt annað. Bara spurning enn og aftur um að leitast við að tjá sig uppbyggilega.

Fjölbreytileikinn er frábær. En þegar fólk flippar/kúlar/plebbast/skreytir/sponsast (eða hvað þetta kallast) yfir sig þá má búast við að einhverjar tilfinningar kvikni og tjáningarfrelsið taki við hehe....
Jú mjög líklegt að fullt af tilfinningum kvikni, og ef maður vill greina þetta (eins og mér finnst voða gaman ). þá er möguleiki að skoða hjá sjálfum sér hvaða tilfinningar og af hverju og vanda sig með tjáningarfrelsið og virða (ef við höfum Tyrkland í huga varðandi mikilvægi þess) og skapa þannig uppbyggilega umræðu sem gæti þá bent á kosti og galla svona auglýsinga. ;Þ

Talandi um frelsi manneskjunnar, þá er kannski ekki mikið frelsi til handa þessari þriggja ára manneskju sem auglýsingin snýst um. Hún hefur ekkert um það að segja hvort hún tekur þátt í þessu eða ekki....... Er það yfirhöfuð löglegt að nota börn í svona auglýsingar?
 Þetta er auglýsing fyrir þau fyrirtæki sem standa að þessum ófögnuði. Vonandi ekki alvöru.

Páll M Skúlason Á maður ekki að vita hvenær maður les auglýsingar? Mér finnst ótækt ef það liggur ekki fyrir..

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...