Því fólki fer fjölgandi, að því er virðist, sem hefur lagt á lífsstílsbloggbrautina og tekist að safna tryggum lesendahópi. Líklega er þarna oftast um að ræða fólk sem hefur eitthvað það fram að færa sem höfðar til fólks, gefur góð ráð varðandi lífið eða lífsstílinn. Þetta fólk getur oft bent þér á eitthvað sem gæti gert líf þitt innihaldsríkara, skemmtilegra eða þess virði að halda áfram að lifa því. Þetta eru svokallaðir lífsstílsbloggarar.
Ég hef svo sem engar athugasemdir við þetta og örugglega skaðar þetta engan, í það minnsta til frambúðar, eða það vona ég.
Þegar lífsstílsbloggari er kominn með álitlegan hóp fylgjenda á einhverju tilteknu sviði, kemur að því að seljendur á vöru eða þjónustu sjá sér hag í því að styrkja viðkomandi, gegn því að hann nefni þá til sögu. Geti þeirra og setji hlekk á heimasíðuna hjá þeim. Við þetta er viðkomandi lífsstílsbloggari farinn að hafa tekjur af skrifum sínum, sem getur bara verið harla gott mál. Fólk þarf að hafa tekjur.
Þegar lífsstílsbloggarinn er farinn að hafa tekjur af skrifum sínum og farinn að tilgreina hvar hitt og þetta, sem bætt getur líf lesendanna, fæst, er lífsstílsbloggið orðið það sem heitir "kostað" eða "sponsað" á nýslensku. Bloggið er, sem sagt, orðið að auglýsingu.
Það er nú þannig með mig, að ef ég sé auglýsingu þá veit ég, að eitthvert fyrirtæki er að koma vörum sínum á framfæri. Það er fullkomlega heiðarleg aðferð við að ná til mögulegra kaupenda.
Það fer illa í mig og mér finnst að komið sé aftan að mér, þegar einhver, sem ég hef reynt að því að gefa mér góð ráð um hitt og þetta, bendir mér á einhverja vöru eða eitthvert fyrirtæki, en getur þess ekki jafnframt að hann fái greitt fyrir ábendinguna. Slíkt er, að mínu mati, blekking eða svik. Ég trúi því að lífsstílsbloggarinn minn sé raunverulega að ráðleggja eitthvað sem veitir mér lífsfyllinguna sem ég þrái, en kemst svo að því að hann fær laun fyrir það frá fyrirtækjunum sem hann bendir mér á.
Hversvegna að velta sér upp úr þessu?
Auðvitað er fyrir hendi tilefni til þess að ég eyði dýrmætum tíma mínum í að skrifa þetta. Þar sem ég var að renna í gegnum vefmiðiðil sem ég kíkji gjarnan á (fæ ekki borgað fyrir að nefna hann og nefni hann því ekki), blasti þetta við mér.Þetta vakti forvitni og ég fór inn á viðkomandi blogg. Það sem ég sá þar varð til þess að ég lét mig hafa það að setja hlekk á þessa síðu inn á Fb.
Það var dálítið fyndið að umræddur bloggar vildi ekki fjalla um bloggið sitt opinberlega, að sögn vefmiðilsins. Hvað er blogg annað en opinbert?
Hvað um það, þessi litla sending mín kallaði fram meiri viðbrögð en ég hafði átt von á. Ég birti það sem þar kom fram, hér fyrir neðan, en sleppi nöfnum þeirra sem þar lögðu sitt til málanna, nema mínu. Ef einhver vill vita hvaða fólk það er, þá er það auðvitað opinbert, enda um samfélagsmiðil að ræða, og hægt að sjá hér.
Fólki er, eins og áður hefur komið fram, að mínu mati, fullkomlega frjálst að auglýsa vörur og þjónustu á bloggsíðum sínum. Ég fer hinsvegar fram á það, fyrir hönd neytenda þessa lands, sem "velja" að lesa lífsstílsblogg, að í haus bloggsins komi fram hvort bloggarinn þiggur greiðslur fyrir umfjöllunina. Efst í þessum pistli má sjá hvernig þetta gæti verið. Þar með væri þetta mál úr sögunni.
Allir sáttir?
Kannski ekki bloggarinn, sem mögulega fengi minna fyrir sinn snúð, enda bloggið ekki lengur að þykjast vera annað en það er.
-------------------------
Viðbrögð við sakleysislegu innleggi mínu. Mér var orða vant þá, en ekki lengur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli