Slóðin á myndirnar, sem fyrr
Et maintenant la France: Mánudagurinn, 5. október
ökuferðin, þægindin, sundlaugin
Þetta var dagur hinnar miklu ökuferðar þar sem lagðir voru að baki um það bil 600 kílómetrar áður dagsverkinu lauk.
Flugrútan okkar var svo búin að ekki væsti um mannskapinn þótt ekki væri stansað í hverri sjoppu. Það voru reyndar engar sjáanlegar greiðasölur lengi vel, því ekið var á hraðbraut mestan hluta leiðarinnar. Ekki lagði ég sjálfur í að nýta mér snyrtinguna um borð, en þeir (aðallega þær) sem það gerðu tjáðu það skýrt með látbragði sínu, að þetta væri hið mesta þarfaþing og ekki spillti fyrir að hljómburðurinn var hreint ágætur. Þá á ég auðvitað við að hátalarakerfið teygði anga sína þarna inn svo ekki var hætt við að gestir misstu af neinu því sem fararstjórinn sagði meðan á heimsókn stóð. Þetta var nú útúrdúr sem skrásetjurum ferðasagna sést svo oft yfir.
Ég gef Perlu, formanni aftur orðið: "Töskum hent í hús. Nokkrir voru á öðru hóteli eina nótt (gamalt (eld) gamaldags herbergi í ágætis standi en hörmuleg fúkkalykt". Þess má geta fyrir þá sem ætla að fara til Barr og vantar gistingu, þá heitir þetta hótel Maison Rouge, eða Rauða Húsið.
Hádegisverð snæddum við á aðal hótelinu. Það er eiginlega nýtt og stendur, að því er virtist, í útjaðri bæjarins. Mjög skemmtilegt og bauð upp á ýmsa möguleika. Það var þar sem við áttum að nota öll sundfötin sem voru höfð meðferðis skilmerkilega, eins og okkur hafði eindregið verið ráðlagt. Það hafði nefnilega sést á mynd sem við fengum af hótelinu, að þar var sundlaug fyrir utan. Þegar á staðinn kom var þarna vissulega sundlaug. Hængurinn á málinu var sá, að lofthitinn var 4-10°C og að sjálfsögðu ekki mikið um hveravatn til upphitunar. Í stuttu máli: það fór enginn í sund.
Þetta var enn einn útúrdúrinn.
heimsóknin, flugeldarnir
Eftir hádegisverðinn, sem var vel útilátinn, héldum við sem leið lá aftur til Þýskalands. Hver var að tala um að skreppa til Frakklands að borða?Leiðin lá sem sagt til Múlheim. Þar á Cristine heima, en hún söng með kórnum meðan hún starfaði um tíma á Sólheimum. Foreldrar hennar buðu hópnum heim, eins og hann lagði sig, ríflega 40 manns. Þarna beið okkar hin veglegasta veisla og að sjálfsögðu reyndum við að borða eins mikið og við gátum miðað við allar aðstæður, en það verður vissulega að viðurkennast að það var tiltölulega stutt síðan við borðuðum í Frakklandi. Þar á móti kemur að maður skreppur nú ekki á milli landa tvisvar sama daginn til að borða, nema taka hraustlega til matar síns.
Þessi dagur verður að teljast, ekki bara dagur hinnar miklu ökuferðar heldur einnig dagurinn þegar það fór ekki á milli mála, að ef baðvogin hefði verið með í ferðinni hefði hún slegið feilpúst.
Eftir höfðinglegar móttökur hjá fjölskyldu Cristine héldum við í Lúterska kirkju í nágrenninu þar sem fluttir voru sérlega eftirminnilegir tónleikar. Ekki bara fyrir þá sök, að vegna þess að hver glufa í líkamanum var full eftir máltíðir dagsins og þess vegna hljómurinn í kórnum óvenju "þéttur" eða "massívur", heldur ekki síður vegna þess að "der Frauenkor" - (kvennahluti kórsins), nánar tiltekið félagi í þeim hluta kvennakórsins sem dýpri hefur raddirnar, hélt óvænta flugeldasýningu. Að sjálfsögðu kom uppákoman öllum óvart, enda á viðkvæmasta stað í ljúfu tónverki af kirkjulegum toga (að því er mig minnir). Gögn sem skoðuð hafa verið, þar sem fram koma viðbrögð kórsins við atburðinum, benda til þess að uppátækið hafi einkum haft áhrif á þann hluta hans sem í eru þeir félagar sem tilheyra þeim hluta kvennakórsins sem hærri (grynnri?) hefur raddirnar. Þetta er auðvitað mjög eðlilegt í ljósi þeirrar raddar sem þessi hlutinn syngur: létt, fljúgandi, fjaðrandi, englalegt. Viðbrögðin voru sem sagt í samræmi við röddina. Að sjálfsögðu varð ekki vart við að félagar í hinum karllægu röddum kórsins (den Männerkor) svo mikið sem blikkuðu öðru auganu. Stjórnandinn gerði sitt til að draga úr áhrifum uppátækisins með því að ganga á undan með góðu fordæmi og láta sem ekkert hefði í skorist. Það fór sem sé svo að áheyrendur töldu að flugeldasýningin væri bara hluti af laginu, sem fjallaði um áramótin á Íslandi (það yrði of langt mál að lýsa því sem raunverulega gerðist þarna, nóg er nú samt, en ég reikna með að það verði til í munnlegri geymd um langa hríð).
hremmingarnar
Eftir tónleikana var öllum hópnum síðan boðið í kaffi. Kökurnar höfðu vinir og kunningjar Cristine bakað og þau sáu um að bera fram og um umbúnað allan.
Loks héldum við út í nóttina heim til Frakklands, til bæjarins Barr. Við hjón vorum í þeim hluta hópsins sem gisti í Rauða Húsinu sem nefnt var hér ofar. Þessi hópur var settur úr rútunni á aðalgötunni og átti að bjarga sér heim. Smám saman urðu efasemdirnar skynseminni yfirsterkari innan hópsins þegar einhver kvað upp úr með það að þarna hefðum við aldrei komið. Sumir voru farnir að sjá fyrir sér ráf um götur Barr alla nóttina. Kórstjórinn vildi komast að hinu sanna sem fyrst og hvarf út í nóttina í leit að rauðu húsi, rauða húsinu sem fannst loksins. Þá var rauða húsið fallegt. Að öðru leyti vísast til umsagnar formannsins hér að ofan um þetta hús. C'est la vie.
þriðjudagurinn, 6. október
fararstjórarnir, bókasafnið, dónabúðin
Morguninn eftir þurftum við ævintýrafólkið frá kvöldinu áður, að yfirgefa Rauða Húsið með allt okkar hafurtask og flytja það á aðal hótelið, þar sem fólkið sem þar bjó, var í rólegheitum að snæða morgunverð þegar okkur bar að garði. Brottför var ákveðin kl. 9 og á íslenskan mælikvarða stóðst það bara all vel. Nú fengum við tvo fararstjóra: þær Elisabeth, sem var og er mikill Íslandsvinur, og mun hún sjálfsagt kynna sig sjálf þegar hún kemur hingað í Biskupstungur alveg á næstunni, ef hún er þá ekki þegar komin, og hinn leiðsögumaðurinn var Colette (það flugu um rútuna ýmsar tilgátur um nafn hennar, m.a. að hún héti Collect, Collett og þar fram eftir götunum. Ég veit reyndar ekki hvort það nafn sem ég hef valið henni hér er hið rétta, en mér finnst það bara svo franskt) en hún var þarna sem fulltrúi kórsins sem tók á móti okkur og hafði skipulagt dvöl okkar þarna.Við byrjuðum á að fara til borgarinnar Sélestat, en þar er víðfrægt bókasafn með mörgum fornum handritum. Við fengum leiðsögn um safnið og að því búnu skelltu menn sér á markaðstorgið. Það skipti engum togum að þegar við mættum á svæðið fóru kaupmennirnir að pakka saman. Það sama gerðist í búðinni sem nokkrar kvennanna heimsóttu. Þær höfðu komist þar í gullnámu af alls kyns "dónadóti" ( þær verða sjálfar að svara fyrir það) Þarna heyrðust þær ræða sín í milli um jólagjafir. Ekkert varð úr kaupunum vegna þess að kaupkonan sýndi mjög eindregin óþolinmæðimerki og í ljós kom við eftirgrennslan undirritaðs, sem var þarna einvörðungu í hlutverki túlks, að sjálfsögðu, að konugreyið var að bíða eftir að geta lokað búðinni. Hádegislokun er víðar til en í Biskupstungum, en það er víst, að þarna varð kaupmannastéttin í Sélestat af umtalsverðum viðskiptum, sérstaklega ofangreind kaupkona.
kjötsúpan, ostakaupin, hvíldin
Við svo búið héldum við til næsta áfangastaðar, Auberge Ramstein í Diefentahl. Þar fengum við að borða héraðsrétt þeirra Elsassbúa, sem var nokkurs konar kjötsúpa. Enn gef ég Perlu, formanni orðið: "…kjötsúpu sem samanstóð af svína- nauta og lambakjöti, grænmeti, lauk og ýmsu öðru sem legið hafði í hvítvíni yfir nótt og síðan eldað í fjóra tíma" . Kjötsúpan var alveg ágæt. Eftir þetta fórum við bara heim á hótelið okkar til að hvílast fyrir átök kvöldsins. (Náttúrulega með viðkomu í kjörbúð, þar sem fólk birgði sig upp af ostum, saltkexi og ýmsu öðru - þessi verslunarleiðangur tók svo langan tíma að það gafst minni tími til hvíldar en til stóð)kvöldverðurinn, krumminn, hjartað, móttakan, lævirkjarnir
Að loknum fremur endasleppum kvöldverði (við náðum ekki að borða eftirréttinn) lá leiðin í kirkjuna þar sem aðaltónleikarnir í Frakklandi voru haldnir um kvöldið.Við sungum þarna með kór heimamanna, sem slapp alveg ágætlega frá "Krummi krunkar úti" þrátt fyrir hrakspár.
Þarna var margt fólk, þ.á.m. varaborgarstjórinn í Barr og sendinefnd frá Evrópuráðinu í Strasbourg. Afbragðs tónleikar, að sjálfsögðu. Eftir þá var glæsileg móttaka í ráðhúsinu, þar sem skipst var á kurteisi og Skálholtskórinn söng stóran hluta af veraldlegu dagskránni sinni. Þar söng "der Männerkor" sig endanlega inn í hjarta Elísabetar, sem áður er nefnd. Eitthvað varð þess valdandi að söngurinn var einstaklega hljómþýður og afslappaður þarna í móttökusalnum.
Að lokinni móttökunni var haldið á hótelið til að nýta ostana og hlusta á uglurnar og lævirkjana í skóginum umhverfis hótelið. Enginn fór í sund.
miðvikudagurinn, 7. október
mjólkurafurðin, myrkraverkin, útinnbrotið, ylhýra
Ostarnir fóru bara nokkuð vel í fólkið. Það var ekki hægt að merkja annað af þeim frásögnum sem tóku að berast meðal manna þennan morgun. Maður getur helst ímyndað sér að það hafi verið einhver efni í þessari frönsku mjólkurafurð sem ollu þeim uppákomum og hremmingum sem virðulegir Tungnamenn lentu í þessa nótt og morguninn eftir. Sennilega hefur þarna verið á ferðinni óminnissveppurinn illræmdi sem þekktur af því að birtast þar sem hans er síst vænst. Þarna var tekið dæmi af manninum sem vaknaði við að hann þurfti að sinna kalli náttúrunnar um miðja nótt, en hafði þá steingleymt hvar hann var. Hann ráfaði um í myrkrinu í leit að vísbendingu um langa hríð. Hann fann ískalda hönd ókunnra afla umlykja hjarta sitt. Hann gerði sig líklegan til að gefa sig þeim á vald, þegar hann rakst á rofann og sá ástvinu sína hvíla í sakleysi sínu svífandi á vængum svefnsins á hótelherbergi í Frakklandi.Önnur saga fjallaði um hjónin sem læstu að sér þegar þau gengu til náða. Það, í sjálfu sér, er í hæsta máta eðlilegt við þær aðstæður sem þarna voru. Þegar síðan kom að morgunverði daginn eftir, og reyndar heldur stutt í brottför, uppgötvuðu þau sér til töluverðrar hrellingar að það var enginn lykill í skránni, þar sem þau voru viss um að þau hefðu skilið hann eftir. Upphófst þarna leitin mikla, leitin að lyklinum. Gerðust þau æ streittari og sveittari við leitina eftir því sem brottfararstund nálgaðist og líkur á að fá einhvern morgunverð minnkuðu. Það fór svo, að til þess að missa ekki af smá morgunverðarbita klifruðu þau út um gluggann. Þau sáu ekki að það hefði leitt neitt af sér að reyna að hringja í móttökuna til að láta hleypa sér út, því þar gekk víst ekki að nota ástkæra ylhýra. Morgunverðinn fengu þau og þar sem enn voru nokkrar mínútur í brottför klifruðu þau aftur inn um gluggann til að greiða sér og svona. Auðvitað var lykilskömmin það fyrsta sem þau sáu - þegar þau kíktu á bak við sjónvarpstækið. Þeim er enn hulið hvernig hann komst þangað.
gönguferðin, jólagjafaleitin, siglingin, kapítulinn
Leiðin þennan síðasta dag okkar í Frakklandi lá til Strasbourg, en borgin sú er m.a. þekkt fyrir það, að þar hefur Evrópuráðið aðsetur. Það verður nú að segjast eins og er að það litla sem við sáum af þessari borg þennan dag bauð af sér góðan þokka. Þeir eru farnir að taka upp á því þarna að skikka langferðabifreiðar til að leggja óravegu frá miðborginni og var tækifærið þarna nýtt til að teygja úr sér á hressilegri gönguferð. Í fjarska sást í turn dómkirkjunnar og að sjálfsögðu var ferðinni heitið þangað. Dómkirkjan eru nú bara kapítuli út af fyrir sig. Fegurð hennar, stærð, umhverfi og ævafornt klukkuspil. Allt átti þetta sinn þátt í að hún stendur upp úr þessum degi í Strasbourg.Fólkið tók sér ýmislegt fyrir hendur þarna, hver fór í sína áttina, sumir fóru í siglingu á ánni Ill, aðrir mældu göturnar, enn aðrir heimsóttu stórverslanirnar eða útimarkaðina og það voru meira að segja dæmi um einhverja sem fóru á síður siðsama staði í jólagjafaleit. Hver flýgur eins og hann er fiðraður, eins og þar stendur.
torfhleðslan, áminningin, musterið
Eftir heimsóknina til borgarinnar skruppum við heim til Barr þar sem beið okkar eftirrétturinn frá því kvöldið áður, og síðan var haldið sem leið lá til þorpsins Epfig. Heimsóknin þangað hófst með því að við komum í kirkjuna. Ekki verður annað sagt en að hún hafi komið gestunum umtalsvert á óvart. Hún er ævaforn, frá 11. öld að mig minnir, og mjög ólík öðrum þeim kirkjum sem við höfðum áður séð í ferðinni og má með sanni segja að þær hafi ekki verið svo ýkja fáar. Ég vil jafnvel ganga svo langt að þegar þarna var komið hafi mátt segja að sérfræðingar um byggingarlist og búnað kirkna í Þýskalandi og Frakklandi, hafi verið á ferð. Þetta segi ég til að leggja áherslu á séreinkenni kirkjunnar. Ef ég ætti að skella einhverju fram væri það helst það að meðal þeirra byggingarefna sem mest voru áberandi í kirkjunni voru hauskúpur og til að þétta hauskúpuvegginn voru notuð önnur mannanna bein. Þetta var svona nokkurs konar torfhleðsla úr mannabeinum. Torfveggir - beinveggir.Um tilurð þessarar hleðslu fengust fá svör. Eitthvað var franska byltingin nefnd, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Auðvitað má líta á þennan vegg sem áminningu til okkar mannanna um hversu litlu máli við skiptum hver um sig í sköpunarverkinu. Við erum bara örlítið brot af vegghleðslunni á þessari jörð. Við eigum ekki að gera okkur of háar hugmyndir um okkur sem hluta af því lífi sem á jörðinni er. Við skiljum síðan líkamann eftir hérna niðri en göngum að öðru leyti inn í musterið. Andinn hverfur úr einu musteri og í annað. Ég er viss um að þarna gefast margir möguleikar á efni í góða prédikun.
rausnin, lofræðurnar
Perla, formaður segir svo frá:"Þannig var að Elísabet, fararstjóri okkar í Barr stundar það að versla á mörkuðum og hitti þar konu sem hún keypti hjá egg. Hún fór að segja þessari konu, sem hún reyndar þekkti ekki neitt, að hún ætti von á kór frá Íslandi. Konan sagði henni bara um leið að koma með kórinn í heimsókn til sín, og þar með var það ákveðið. Þau tóku á móti okkur af þvílíkri rausn. Amma, afi, frænka, frændi, mamma, pabbi og litlu börnin. Þar var vínsmökkun: einar átta tegundir, brauð, pylsur og margt fleira."Heimsókn okkar til þessarar ágætu fjölskyldu var undra vel heppnuð, en að henni lokinni var haldið á hótelið þar sem lokasamkoman var haldin. Og enn er það Perla, formaður sem fær orðið: "….þar sem áhangendur (eins og þau vildu kalla sig) og makar héldu lofræður hver í kapp við annan". Sameinaður maka- og áhangendakór söng þjóðlega söngva og allir voru góðir vinir.
fimmtudagurinn, 8. október
hamskiptin, tiltækið, vöruvagnarnir, vopnið
Þessi hluti ferðarinnar var tími umskipta. Svona eins og þegar lirfa er að breytast í púpu. Lirfan er búin að éta fylli sína af grængresinu og er tilbúin í næsta þroskastig, púpustigið, þar sem hún síðan býr sig undir að verða að fögru fiðrildi, sem flögrar um loftin blá, gefandi af sér fegurðina. Eigum við ekki bara að halda því fram að Skálholtskórinn hafi með þessu tiltæki sínu verið að stuðla að því að auka við fegurðina í mannlífinu hérna uppi á Íslandi.Aksturinn til Frankfurt er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Fólkið fór dálítið inn í sig í hugsanir sínar. Var það ekki þessi blanda söknuðar og tilhlökkunar sem allir kannast við þegar komið er að ferðalokum?
Það síðasta sem við sáum að meginlandi Evrópu þennan dag var malbikið á flugvellinum nokkrir vöruvagnar og einmana miðaldavopn, vafið í pappír. Vopnið átti að vera hluti af farangrinum í vélinni sem var á norðurleið, til landsins nyrst í Atlantshafinu, þar sem skammdegið var að setjast að, en það fór hvergi. Hvar það er nú veit undirritaður ekki.
tímalaust
ferðalokin
Nú gæti ég auðveldlega bætt við nokkrum blaðsíðum um fjáröflunarnefndina, fararstjórann, kórstjórann, bílstjórann, ferðafélagana alla og hina og þessa aðra sem eiga skilið hrós og þakkir fyrir yfirmáta skemmtilega ferð á þessu hausti. Það er aldrei hægt að þakka of mikið, en þakkir eru vandasamt fyrirbæri og ekki á allra færi að framkvæma svo vel sé. Ég held að stærsta þakklætið birtist í fólkinu sjálfu sem fór ferðina, og er enn brosandi, tveim mánuðum eftir að henni lauk.Á því er sannarlega hægt að taka mark.
Það getur enginn brosað svona lengi í plati.
Þetta fólk tók þátt í ferðinni
|
|||
A = alt B = bassi S = sópran T = tenór M = maki Á= áhangandi
|
|||
sr. Egill Hallgrímsson, prestur
|
Skálholti
|
||
Valur Lýðsson
|
B
|
Gýgjarhóli
|
|
Guðni Lýðsson
|
B
|
Kistuholti 11
|
|
Þuríður Sigurðardóttir
|
M
|
Kistuholti 11
|
|
Haukur Haraldsson
|
B
|
Stóru-Mástungu 1
|
|
Ásta Bjarnadóttir
|
S
|
Stóru-Mástungu1
|
|
Sigurjón Kristinsson
|
B
|
Kistuholti 21
|
|
Kristbjörg Sigurjónsdóttir
|
M
|
Hellu
|
|
Páll M. Skúlason
|
T
|
Kvistholti
|
|
Dröfn Þorvaldsdóttir
|
S
|
Kvistholti
|
|
Gísli Guðmundsson
|
T
|
Norðurbrún (þá)
|
|
Svanhildur Eiríksdóttir
|
M
|
Norðurbrún (þá)
|
|
Kjartan Jóhannsson
|
T
|
Gilbrún (þá)
|
|
Steinunn Bjarnadóttir
|
S
|
Gilbrún (þá)
|
|
Úlfur Óskarsson
|
T
|
Sólheimum (þá)
|
|
Þorleifur Sívertsen
|
T
|
Sólheimum
|
|
Kristín Helga Kristinsdóttir
|
A
|
Sólheimum
|
|
Perla Smáradóttir, formaður
|
A
|
Miðholti 3
|
|
Guðjón R. Guðjónsson
|
M
|
Miðholti 3
|
|
Helga Wiebe
|
A
|
Þýskalandi
|
|
Cristine A,
|
A
|
Mulheim
|
|
Aðalheiður Helgadóttir
|
A
|
Varmagerði
|
|
Skúli Sæland
|
M
|
Varmagerði
|
|
Geirþrúður Sighvatsdóttir
|
A
|
Miðhúsum
|
|
Camilla Ólafsdóttir
|
A
|
Ásakoti
|
|
Hjalti Ragnarsson
|
M
|
Ásakoti
|
|
Katrín Þórarinsdóttir
|
A
|
Selfossi
|
|
Margrét Oddsdóttir
|
S
|
Reykjavík
|
|
Hólmfríður Bjarnadóttir fararstjóri,
|
S
|
Skálholti
|
|
Hilmar Örn Agnarsson, kórstjóri
|
Skálholti
|
||
Berglind Sigurðardóttir
|
S
|
Espiflöt
|
|
Helga María Jónsdóttir
|
S
|
Efri-Brekku
|
|
Jóhannes Helgason
|
M
|
Efri-Brekku
|
|
Sigrún Reynisdóttir
|
S
|
Engi
|
|
Ingólfur Guðnason
|
M
|
Engi
|
|
Sigurlaug Angantýsdóttir
|
S
|
Heiðmörk
|
|
Ásrún Björgvinsdóttir
|
S
|
Víðigerði
|
|
Ólafur Ásbjörnsson
|
M
|
Víðigerði
|
|
Gunnar Ingvarsson
|
Á
|
Efri Reykjum
|
|
Kristín Jóhannessen
|
Á
|
Efri Reykjum
|
|
Gísli Einarsson
|
Á
|
Kjarnholtum
|
|
Ingibjörg Jónsdóttir
|
Á
|
Kjarnholtum
|
|
Grétar Hansen, bílstjóri
|
meginlandi Evrópu
|
Engin ummæli:
Skrifa ummæli