20 desember, 2021

Georg Franzson - minning


Ég vissi hver Georg var áður en hann flutti með fjölskyldu sinni í Laugarás árið 1978 til að reka þar garðyrkjustöðina Birkiflöt, en ekki meira en svo. Aðeins meiri urðu kynnin eftir að þau urðu Laugarásbúar. 
Eftir um tvö ár voru þau hjónin Georg og Brynja Ragnarsdóttir, búin að byggja sér íbúðarhús í Vesturbyggð 5, sem þau fluttu í um 1980. Þá höfðu þau fengið fengið á leigu landið milli sláturhúslóðarinnar og Vesturbyggðar og Georg stundaði þar útirækt. Á þessu landi, sem fékk nafnið Traðir, reis svo tæplega 800 ferm. gróðurhús einum þrem árum síðar. Þá komu börn þeirra Brynju inn í reksturinn.

Brynja, lést árið 1999 og um þrem árum síðar flutti Georg á Selfoss þar sem hann bjó til dauðadags, þann 10. desember s.l., þá rétt að verða 92 ára.   

Georg fæddist í Slesíu og bar þar nafnið Georg Michael Ant­onius Wyrwich, en hörmungar seinni heimstyrjaldar leiddu til þess, að eftir fjögur ár í flóttamannabúðum, lá leið hans, þá 19 ára, til Íslands, þar sem hann fékk vinnu við garðyrkjustörf  hjá Grími Ögmundssyni á Syðri Reykjum. Í stríðinu hafði hann misst föður sinn og tvo bræður. 

Um fimm árum eftir komuna til Íslands gengu Georg og Brynja í hjónaband og eignuðust fimm börn á næstu 9 árum.

Ekki treysti ég mér til að setja mig í spor Georgs, sem barns og unglings í Þýskalandi nazismans og í þeirri upplausn og skelfingu sem styrjöldin hafði í för með sér. Ég reikna þó með að lífsreynslan hafi sett varanlegt mark á líf hans. Hinsvegar minnist ég hans fyrir það hve hress hann var ávallt og góðlegur. 

Útför Georgs er gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag.

Georg og Brynja með börnum sínum.
Aftar f.v. Jón Þór Þórólfsson (sonur Brynju),
Ragnheiður, Hjördís, Eiríkur.
Fyrir framan vinstra megin Heiðrún
og Íris hægra megin. (mynd af Fb)

Engin ummæli:

Blóðugt verkefni

  Gærdagurinn hefði getað orðið dýr.  Ég tók að mér ljósmyndatengt verkefni við Laugarvatn, en þar gullsprettu um 300 manns í kringum Laugar...