30 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (5)

Athugasemd neðst, ef athugasemdar er þörf.
...framhald af  (1), (2), (3) og (4)
Ja, hvað skal segja?  

Feneyjadagur
Ekki varð annað séð, að morgni 5. dags þessarar kórferðar (22. júní), en að fólk hefði haft sæmilegt taumhald á sér á Borgo la Caccia kvöldið áður. Enginn svaf yfir sig, sem var eins gott því þarna var dagurinn tekinn snemma og framundan heill dagur Feneyjaferðar. 
Feneyjar kallast Venezia á máli innfæddra. Fólksflutningabifreiðar þeirra Ítala eru af nýjustu og bestu gerð og bílstjórarnir alla ferðina stóðu sig óaðfinnanlega. Ferðin til Feneyja var hinsvegar dálítið löng, kannski vegna þess að þar höfðum við fD verið áður, í lúxusferð með Hófí hjá  Bændaferðum á fljótandi hóteli. Við  reiknuðum ekki með að sjá eitthvað nýtt þarna, sem varð svo sem raunin.

Hinsvegar reyndum við að hegða okkur eins og við værum orðin heimavön og lá nærri nokkrum sinnum að það yrði dýrkeypt, en ekki svo nærri að það sé umfjöllunarvert hér. 
Eftir að strætóbátur hafði skilað hópnum á bryggju skammt frá Markúsartorginu, gekk hópurinn, eftir miklar brýningar um tímasetningu á brottför síðdegis, sem leið lá að torginu þar sem hina frægu basíliku heilags Markúsar er að finna.  Við fD höfðum, held ég, ætlað okkur að fylgja bara hópnum til að njóta leiðsagnar fararstjórans inn á torginu, en það fór á annan veg, þar sem náttúrukraftar gripu í taumana, með þeim afleiðingum að ég og tveir aðrir eiginmenn, stóðum og biðum frúnna þriggja sem hurfu inn þrönga götu, eftir að hafa séð skilti á vegg, sem á voru letraðir stafirnir W og C.
Sá staður sem hér var um að ræða, reyndist vera talsvert lengra í burtu en vonast hafði verið eftir og því var hópurinn horfinn veg allrar veraldar, þegar aðgerðum lauk og frúrnar snéru til baka. Eftir þetta vorum við fD bara þarna á röltinu, aðallega eftir rangölum borgarinnar, stöðugt ögrandi ratvísinni eða til að kíkja í eitt og eitt glas af Aperol spritz eða Negroni (annar ofurvinsæll sumardrykkur þarna syðra).  
Þegar upp var staðið vorum við búin að þræða ótrúlegustu rangala, en hefði getað gengið betur að villast. Þarna í Feneyjum eru nefnilega tveir aðal staðir sem fólk verður að fara á: Markúsartorgið og Rialto brúin. Milli þeirra liggur sannarlega ekki bein leið, eins og glöggt má sjá af kortinu hér vinstra megin.

Það kom sér því sannarlega vel, þar sem við fikruðum okkur frá Markúsartorginu að Rialto brúnni og síðan til baka, að búa yfir þeirri grundvallar þekkingu, að Feneyingar hafa fyrir löngu sett upp merkingar á húsveggi, sem eiga að koma í veg fyrir að fólk verði til í rangölum borgarinnar. Þannig segja þessi skilti annaðhvort "PER RIALTO" (til Rialto) eða "PER S. MARCO" (til Torgs heilags Markúsar) með örvum í viðeigandi áttir og svei mér ef þetta bara virkar ekki fullkomlega. 

Klukkan 17.20 var brottfarartíminn settur og þá skyldu allir ferðalangarnir vera komnir að skýrt tilgreindri bryggju, tilbúnir að stíga um borð  í strætóbátinn. Aðdragandinn að því að þessi tími rynni upp var nokkuð spennuþrunginn. Þurfti mögulega að senda leitaflokka eftir einhverjum ferðafélögum? Hafði kannski einhver lagt sig og gleymt að láta símann hringja? Hafði Aperol spritzið reynst einhverjum óvenju gott?
Ótal spurningar, en fátt um svör. Það þarf ekki að fjölyrða um  það, að allur hópurinn var mættur á tilgreindum stað vel fyrir tilgreindan tíma, eins og Selfyssinga er siður. Það vantaði í rauninni bara einn, þar sem óðum nálgaðist brottfarartímann: sjálfan fararstjórann! Hvað væri þá til bragðs að taka? Strætóbátsbílstjórinn var farinn að spyrjast fyrir um ábyrgðarmann hópsins og það var farið að fara lítillega um, allavega einhverja samviskusama, en auðvitað birtist týnda dóttirin svo 15 sekúndum fyrir réttan tíma og allt féll í ljúfa löð og strætóinn flutti þennan túristahóp yfir að rútustæðinu. Þaðan lá leið aftur til Desenzano. 
Þó svo ég hafi ekki ætlað að minnast á veður, þá var það þennan daginn afar þægilegt, skýjað að mestu og hitinn einhvern slatta fyrir neðan 30°C. 
Þar sem svefninn tók við þreyttum ferðalöngum, má reikna með að þeir hafi farið í gegnum næsta kvöld í huganum, fullir af spennu, kvíða eða tilhlökkun, eða bara öllu í bland.



Myndin efst, var reyndar tekin árið 2018 og síðan "lagfærð" í Photoshop. Sem sagt "falsfrétt".

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...