13 september, 2022

Austfirskar rætur (5) LOK

1922
Árið 1922, líklegast um vorið, eða snemmsumars, fluttu afi og amma frá Rangárlóni í Freyshóla, eins og áður hefur komið fram. Þá fóru systir afa og hennar maður í Strönd. Ekki veit ég hverjar voru ástæður þessa.  Sóknarmannatal Vallanessóknar sem viðaði virð árslok, greinir frá því að þá hafi þessi verið í Freyshólum:
Magnús Jónsson, bóndi, 34 ára
Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir, hs. kona, 29 ára
Alfreð Magnússon, 8 ára
Haraldur Magnússin 7 ára
Skúli Magnússon, 4 ára
Björg Magnúsdóttir 3 ára
Óskírð stúlka. 1s árs
Ljósbjörg Magnúsdóttir, móðir bónda, 74 ára
Jón Björgvin Guðmundsson, vinnum. 18 ára.

Jón Björgvin var sonur þeirra Guðmundar og Sigurbjargar, sem búið höfðu á Freyshólum, systursonur Magnúsar, sem sagt.

1923
Þetta ár leið og árið 1923 gekk í garð. Þegar á leið það var Ingibjörg enn þunguð og þann 14. október kom Fannay Magnúsdóttir í heiminn.  Hún var síðan skírð þann 5. desember, ásamt systur sinni, sem hlaut nafnið Sigríður. Þrem dögum eftir skírnina lést Fanney og var jarðsett þann 31. dessember. Banameins hennar er ekki getið.

Á þessu ári fór Ljósbjörg í Gunnlaugsstaði og Jón Björgvin fór sem vinnumaður í Strönd.

1924
Svo hélt lífið áfram á Freyshólum. Árið 1924 fól ekki í sér neinar breytingar.

1925
Ljósbjörg (77), Guðmundur (65), Sigurbjörg (47) og Jón (21) voru öll komin í Ketilsstaði, en enn var fjölgunar von hjá Ingibjörgu og Magnúsi.  Þann 16. júlí komu tvíburar í heiminn og þær voru skírðar daginn eftir, enda munu þær hafa verið fyrirburar. Þær fengu nöfnin Guðfinna og Pálína. Guðfinna lést þann 21. júli (eftir því sem mér sýnist í prestþjónustubók), en Íslendingabók segir hana hafa látist þann 27. júlí.

1926
Á þessu ári hvarf Skúli, á áttunda ári, frá Freyshólum og eftir voru Magnús og Ingibjörg með fimm börn, 0-12 ára gömul. 

Skúli fór sem fósturbarn í Mjóanes til hjónanna Benediks og Sigrúnar Blöndal. Þau höfðu þá flutt í Mjóanes tveim árum fyrr frá Eiðum. Með þeim var Tryggvi Gunnar Blöndal, bróðir Benedikts, þá 10 ára. Sama ár og þau fluttu eignuðust þau soninn Sigurð. 

Um dvöl Skúla hjá þeim Sigrúnu og Benedikt, fyrst í Mjóanesi og síðan á Hallormsstað, hef ég þegar fjallað: Að efna í aldarminningu (4) og læt ég það duga.

Víkingsstaðir koma við sögu síðar, en þar bjuggu á þessu ári Guðmundur Þorbjarnarson, bóndi (48) og kona hans Aðalbjörg Stefánsdóttir (40) me sex börnum sínum, móður bónda Ingibjörgu Guðmundsdóttur (67) og Einari Jónssyni Long (57) - en hann var síðar á Hallormsstað.

Ljósbjörg (78), Guðmundur (68) og Sigurbjörg 48) og Jón Björgvin (22) voru áfram á Ketilsstöðum. Þar var Jón búinn að ná sér í konu, Hildi Stefánsdóttur (29).

1927
Á þessu ári fluttu Magnús og Ingibjörg í Víkingsstaði með börn sín fimm, sem eftir voru heima. Hjónin sem þar höfðu verið, fluttu til Seyðisfjarðar. 

Nú var Jón Björgvin Guðmundsson (23) orðinn bóndi á Freyshólum og þar var kona hans og barn á fyrsta ári, Stefán að nafni. Foreldrar Jóns voru þarna komnir líka og Ljósbjörg (79). magnað hvað Ljósbjörg var mikið á ferðinni. 

1928
Jæja, nú var að færast einhver ró yfir mannskapinn, því enginn hreyfði sig frá sínum bæ.

1929
Haraldur (14) var ekki nefndur meðal heimilisfólks á Víkingsstöðum. Þetta ár var hann vikapiltur á Litla-Sandfelli hjá þeim Runólfi Jónssyni (27) og Vilborgu J. Jónsdóttur (23). 

1930
Haraldur  var þetta ár einnig á Litla-Sandfelli, en árið eftir var hann kominn í Seyðisfjörð til ömmu sinnar og afabróður. 

Ljósbjörg var áfram á Freyshólum, orðin 82 ára.

1931
Enginn Haraldur enn á Víkingsstöðum, en ég fann hann á Lækjarbakka á Seyðisfirði, skráðan sem fósturson Sæbjargar ömmu sinnar og Sigbjörns, föðurbróður. Þarna var hann 16 ára. 

Sæbjörg og Sigbjörn fluttu á Seyðisfjörð eftir ár sín í Jökuldalsheiði og þar lést Sæbjörg í apríl 1946, 65 ára að aldri. Sigbjörn lést rúmu ári síðar.  

1932
Hér var Haraldur (17) kominn aftur frá Seyðisfirði og börnin á bænum þá aftur orðin fimm að tölu. Ljósbjörg varð 84 ára á árinu og enn á Freyshólum..

1933
Allt við sama á Víkingsstöðum.

1934
Haraldur var aftur farinn að heiman og ekki fann ég hvert.

1935
Jæja, Haraldur (20) var kominn aftur og hafði verið í Gíslastaðagerði. 

1936
Öll fjölskyldan á Víkingsstöðum.

1937
Sigfríður var komin í Ketilsstaði og Haraldur í Hallormsstað, vinnumaður hjá Guttormi Pálssyni, skógarverði. Alfreð var kominn með titilinn "húsmaður" á Víkingsstöðum.

1938
Alfreð (24) var orðinn bóndi á Víkingsstöðum. haraldur og Sigfríður voru snúin til baka.

1939 - 1940 (seinni heimsstyrjöld)
Enn vóbreytt á Víkingsstöðum, 7 manns í heimili og Alfreð bóndinn.

1941
Ljósbjörg lést í hárri elli á Freyshólum, þann 5. janúar, 92 ára að aldri. Á Víkingsstöðum var áfram sama fólk með heimilisfesti.

1942
Hér var komin til sögunnar ný húsfreyja á Víkingsstöðum, Guðrún B. Þorsteinsdóttir (22), sem fæddist í Kambaseli á Djúpavogi, en kom í Víkingsstaði frá Gíslasöðum. Annað var óbreytt á bænum.

1943
Engin breyting.

1944
Hér fæddist þeim Alfreð og Guðrúnu dóttirin Þórný Sigurbjörg og Björg hafði hleypt heimdraganum. Hvert hún fór er mér ekki fulljóst.

1945
Sonurinn Benedikt bættist við hjá Guðrúnu og Alfreð og Pálína eignaðist soninn Sæbjörn Eggertsson.

1946
Óbreytt á bænum.

1947
Guðrún og Alfreð eignuðust þriðja barnið, dótturina Ljósbjörgu. Sigfríður (26) hélt út í heiminn og á þessu ári var hún skráð í "Kaupfélaginu".

1948 - 1951
Allt við það sama á Víkingsstöðum og Sigfríður áfram í Kaupfélaginu, 1948, en árið eftir var hún skráð í "Spítalanum" og árið þar á eftir á "Spítalanum III"

Magnús Jónsson, eftir að hann
kom í Hveratún.

1952

Á þessu ári var Magnús (65) ekki lengur skráður á Víkingsstöðum.  Það er mér ljóst, að þó svo afi hafi verið skráður á Víkingsstöðum til 1951 þá kom hann í Hveratún árið 1950, til Skúla sonar sína og Guðnýjar Pálsdóttur. Þar var hann síðan til dauðadags, 16. janúar, 1965. Ég veit að hann hafði starfað við múrverk og hann hélt því eitthvað áfram, en skrokkurinn var orðinn lélegur.

Ingibjörg var á Víkingsstöðum til dauðadags 17. nóvember, 1968.

---------------------

Það er mér ljóst, að kirkjubækurnar segja ekki nema hluta sögunnar um þá forfeður mín sem hér hafa komið við sögu  og þekking mín umfram það sem þessar bækur segja, er harla brotakennd.

Það liggur við að ég skori á ykkur (en geri það samt ekki) afkomendur Alfreðs, Bjargar og Pálínu að fylla í eyður og greina frá sögu þeirra eftir uppvaxtarárin á Víkingsstöðum. Þið sem ólust upp með ömmu, megið einnig gefa af henni fyllri mynd.  Þá er saga Sigfríðar og Haralds ósögð, held ég. 
Ég yrði harla glaður ef svona frásagnir birtust á síðu niðja Ingibjargar og Magnúsar á Facebook - nú eða annarsstaðar. 😇



Sigfríður, brosmildur, grallaraspói.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...