13 september, 2022

Austfirskar rætur (4)


Það er rétt að geta þess, að síðan ég skrifaði síðustu færslu, hef ég uppgötvað, að þann 12. mars, 1913, daginn eftir að þau gengu í hjónaband, eignuðust Ingibjörg og Magnús andvana son. Ég hef breytt fyrri færslunni til samræmis

Byggðin í Jökuldalsheiði heyrir nú til liðna tímanum. Einu merkin um þá byggð eru bæjarrústir, sem blasa við augum vegfarenda. Allar eiga þær sína sögu, „sigurljóð“ eða „raunabögu“, eins og skáldið segir. Sú saga verður ekki sögð, en hún gæti, ef vel væri á haldið, orðið efni í margar bækur. .. (Björn Jóhannsson: Frá Valdastöðum til Veturhúsa)

Þessi næturstaður var langt frá mannabyggðum; að undanskildum nokkrum öðrum kotum, sem stóðu á víð og dreif um heiðina, var dagleið til byggða og þrjár dagleiðir í kaupstað, jafnvel að sumarlagi.

Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerlíng, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum." Fólkið í heiðinni dró fram allt það besta handa ferðalöngunum: þeir fengu soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt morguninn eftir, kaffi og grjótharðar kleinur. (HKL)

Það hafa sjálfsagt verið sagðar margar sögur af lífi fólks í Jökuldalsheiði og það er sannarlega ekki ætlun mín að fara að bæta þar við neinu umtalsverðu, en ekki neita ég því, að oft hefur mér orðið hugsað til þess hvernig líf afa og ömmu var, á þeim tíma sem þau urðu að ákveða hvert leggja skyldi leið í lífinu og síðan, hvernig líf þeirra í heiðinni var.

Upphafið var að það var ekkert jarðnæði að fá niðri í byggð og fólk fór að leita upp til heiða. Á tímabili var það þannig á Íslandi, að fólk þurfti að hafa land til að geta gift sig. 
Fyrsta heiðarbýlið var byggt 1841 og það síðasta 1862 og byggðust mörg á gömlum seljum. Þegar mest var er talið að um 120 manns hafi búið í Jökuldalsheiði. 
Það voru 16 býli sem byggðust en ekki nema 12-14 byggð á hverjum tíma.   
Því fylgdu ákveðin lífsgæði að búa í heiðinni. Það var silungur í vötnum og fuglinn og jafnvel hreindýr og þetta var yfirleitt grasgefið og það voru tínd fjallagrös. Þetta var svona sjálfsþurftabúskaður. 
Það vor um 75 km leið að fara í Vopnafjörð, þar sem var kaupstaðurinn lengi vel, svo það var ansi langt að fara með klyfjahesta. Þetta snérist um að eiga sitt og vera ekki upp á aðra kominn - svolítil sjálfstæðisbarátta.
En það var svona rómantík hérna og ekkert skrítið, það getur verið alveg yndislegt að vera hérna. - En svo kom veturinn og þá varð harðbýlt og erfitt. (Úr viðtali við Hjördísi Hilmarsdóttur í Landanum í RUV, 4. okt. 2021)


Rangárlón eða Rangalón

Rangárlón eða Rangalón er eyðibýli við norðanvert Sænautavatn. Bærinn var byggður 1844 úr Möðrudalslandi, en fór í eyði 1924 og enn þá sjást bæjarrústirnar greinilega.(Nat.is)

Smá pæling um nafnið á þessu býli:
Því meira sem ég skoða um þennan stað, því sannfærðari er ég um, að hann heiti Rangárlón. Eini gallinn á þeirri niðurstöðu er, að ég hef ekki fundið neina Rangá þarna í nágrenninu.  Þá átta ég mig  ekki heldur á því, hversvegna bærinn heitir RangárLÓN, þar sem hann stendur á bakka Sænautavatns og ekkert lón sjáanlegt í nágrenninu.

Fyrir utan það, að eldri heimildir virðast nota nafnið Rangárlón, þá tel ég aldeilis útilokað, að einhver taki upp á því að nefna bæinn sinn Rangalón - sem væri þá væntanlega andstæðan við Réttalón - fyrir utan það að þarna er ekkert lón, hvorki rétt né rangt.

Lagt í hann 


Ekki veit ég neitt um hvernig ferð fjölskyldunnar frá Freyshólum upp í Jökuldalsheiði var háttað og þá er ekki um annað að ræða en beita ímyndunaraflinu.
Rökréttast finnst mér að lagt hafi veri í hann um vorið 1918, þegar lömb voru orðin nægilega stálpuð til að ráða við ferðalagið. Þá voru klyfjahestar og/eða hestvagn, notaðir undir það sem nauðsynlegt var að hafa með sér.  Það var nú ekki eins og fólk á þeim tíma sem þarna er um að ræða, hafi á sófasett, sjónvarp, eða frystikistu, svo þetta hefur ekki verið neitt í stíl við það sem nú er.

Þetta var fólkið sem lagði upp í ferðina frá Freyshólum:
S. Ingibjörg Björnsdóttir, húsfreyja, 24 ára
Magnús Jónsson, bóndi, 30 ára
Alfreð Magnússon sonur þeirra, að verð  4 ára.
Haraldur Magnússon, sonur þeirra, 2 ára
Sæbjörg Jónasdóttir, móðir Ingibjargar, 47 ára, sem kom frá Seyðisfirði
Sigbjörn Sigurðsson, 60 ára, sem kom frá Seyðisfirði.
Svo var "bumbubúi" (nútíma orðfæri) með í för og sennilegast einhverjir aðstoðarmenn.

Í september 1918 tók ég saman ýmislegt um ævi föður míns í nokkrum þáttum og til þess að fara nú ekki að endurtaka það sem þar kom fram bendi ég á það hér: Að efna í aldarminningu (2) Kannski er rétt að taka það fram, að þá vissi ég ekki að þau Sæbjörg og Sigbjörn hefðu farið með og dvalið hjá þeim fyrsta veturinn í Rangárlóni.

Ferðin

Milli Freyshóla og Rangárlóns eru um 100 km. Hestamaður sagði mér að dagleið  ríðandi væri nálægt 40 km. Ef kýr hefur verið með í för og eitthvert fé með lömbum, má því alveg reikna með að ferðin hafi tekið, tja, þrjá daga.  Hópurinn hefur því þurft að gista á leiðinni og þá sennilega á bæjum í Jökuldal - en ekki veit ég neitt um það, frekar en annað varðandi þetta ferðalag.

Mynd Björn Björnsson, af Sarpur.is
Í áfangastað

Svo komu þau loks í Rangárlón og hver veit hvernig staðan var þar, en ekki held ég nú að þar hafi þeirri beðið glæstar byggingar.  Í sóknarmannatali í Eiríksstaðasókn í árlok, eða síðla árs 1916, voru skráð hjón, tæplega fimmtug með 3 börn sín , 2-23ára og tökubarn.  Næst þegar prestur skráði sálirnar í sókninni, í lok 1917, var Ranagárlón ekki talið þar með, sem bendir einfaldlega til þess að þar hafi enginn búið í jafnvel heilt ár, þegar fjölskyldan frá Freyshólum koma á staðinn. Það þarf ekki frjótt ímyndunarafl til að sjá fyrir sér, hvernig húsakosturinn hafi verið við þessar aðstæður.

Á Rangárlóni

Haustið 1918 bjuggu í Sænautaseli, sem var við suðurenda Sænautavatns,ung hjón, Guðmundur Guðmundsson (36) og Jónína Guðnadóttir (31), ásamt 6 ára syni sínum Pétri og Petru Jónsdóttur, móður bóndans (63). Þetta fólk var, sem sagt, nágrannar hinna nýju Rangárlónsbúa, sem við manntalið hafði fjölgað um einn, en fjórði sonur  Magnúsar og Ingibjargar fæddist þann 29. september og fékk hann nafnið Skúli.
Ég ætla nú ekki að reyna að sjá fyrir mér hvernig lífið hefur gengið fyrir sig fyrsta veturinn, en vísast kom sér vel að hafa þau með sér, þau Sæbjörgu, sem titluð var ráðskona Sigbjörns og Sigbjörn sem var skráður húsmaður.  
Veturinn leið og dýrð sumarsins 2019 tók við, það haustaði og þau Sæbjörg og Sigbjörn dvöldu á Rangárlóni annan vetur. Þann 29. nóvember fæddist fimmta barn hjónanna, Björg, en hún náði ekki inn í sóknarmannatalið 1919. Björg var skírð þann 1. ágúst, 1920.  

Svo leið veturinn og aftur kom fagurt sumar árið 1920 í heiðinni. Kirkjubækur segja, að Haraldur hafi farið í Freyshóla, sem tökubarn, á þessu ári, en hann var samt einnig skráður á Rangárlóni.  Ég get mér þess til að eitthvað það hafi hrjáð piltinn sem varð til þess að talið  væri að honum væri betur borgið niðri í byggð, en ég veit auðvitað ekkert um það.
- smella til að stækka -

Sæbjörg og Sigbjörn
fluttu sig um set í heiðinni, að Grunnavatni, sem var í um 10 km  frá Rangárlóni.  Þar lést húsfreyjan á í byrjun september og þá voru þar eftir ekkillinn Guðni Arnbjörnsson (77) ásamt syni sínum Björgvin (28).  Sæbjörg og Sigbjörn voru á Grunnavatni til ársins 1924, en Guðni lést í nóvember það ár.  
Frá Grunnavatni héldu þau síðan í Hákonarstaði, ásamt Björgvin og þar dvöldu þau til 1929, en héldu þá á Seyðisfjörð aftur og bjuggu þar á Lækjarbakka. Þá var Sigbjörn 71s árs en Sæbjörg 59 ára. Þarna bjuggu þau  þar til Sæbjörg lést þann 16. apríl, 1946. 74 ára að aldri. Sigbjörn lést árið eftir á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði, í 90. aldursári.  Sæbjörg var skráð ekkja, þegar hún lést, svo aldrei gengu þau skötuhjúin í hjónaband, þrátt fyrir áratuga sambúð.   

En aftur að Magnúsi og Ingibjörgu á Rangárlóni, árið 1920. 
Svo kom haustið og veturinn og Magnús, Ingibjörg og voru einu íbúarnir á býlinu ásamt börnum sínum. 
Árið 1921 voraði sem fyrr og síðan leið sumarið, og enn einn veturinn framundan.  Þann 17. september fæddist enn eitt barnið, Sigfríður. Hún náði ekki inn í sóknarmannatalið fyrir þetta ár, en þarna var Una Vigfúsdóttir, nokkur, skráð vinnukona á Rangárlóni. Ekki hef ég fundið neitt handfast um hana, en tel líklegt að hún hafi fæðst 1886. 

Rangárlón kvatt

Ætli maður verði ekki að gera ráð fyrir að fjölskyldan á Rangárlóni hafi kvatt heiðarbýlið vorið eða í sumarbyrjun árið 1922. Þetta voru Magnús (33), Ingibjörg (28), Alfreð (7). Haraldur (5), Skúli (3), Björg (1) og Sigfríður á 1. ári. 
Það geta svo sem verið ýmsar ástæður fyrir því að Rangárlónshjónin ákváðu að yfirgefa heiðina. Kannski er bara ágætt að segja sem svo, að saman hafi farið, að barnahópurinn var orðinn ansi stór við erfiðar aðstæður á veturna og að Guðmundur, kominn á sjötugsalldur, og  Sigurbjörg á Freyshólum hafi þarna ákveðið að bregða búi og flytja að Strönd.
Fjölskyldan tók sig upp, í öllu falli og flutti í Freyshóla. 

---------------------------------

Hér held ég að séu ágæt kaflaskil og held svo bara áfram næst.

Engin ummæli:

Ein(n) heima

Fólkið á myndinni er sannarlega sprækt, en óþekkt að öðru leyti. Ég fæ það stöðugt á tilfinninguna, að fólks, sem hefur yfirgefið vinnumarka...