11 september, 2022

Austfirskar rætur (3)

Magnús Jónsson og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir.
Ætli ég byrji ekki á smá pælingum um hvernig það gerðist, mögulega, að Ingibjörg og Magnús náðu saman, með þeim afleiðingum sem afkomendur þeirra hafa síðan upplifað á sjálfum sér.

Kóreksstaðir og Kóreksstaðagerði 1905
Ég hef ekki fundið öruggan snertiflöt á mögulegum kynnum afa og ömmu í tengslum við þennan bæ. 
Dóttir þeirra Páls Geirmundssonar ömmubróður Ingibjargar, bjó í Kóreksstaðagerði til 1906, svo varla hefur stúlkan verið þar eitthvað eftir þann tíma. Ingibjörg, þá 11 ára, var í Kóreksstaðagerði 1904 með fósturforeldrunum. Þetta var sama ár og Magnús, þá 15 ára, fór frá Freyshólum í Ketilsstaði, þar sem hann var vinnumaður. 
Það er spurning hvort árið 1905 hafi verið nokkurskonar úrslitaár, en þá var Magnús (17) kominn í Kóreksstaði og dóttir Páls Geirmundssonar bjó enn í Kóreksstaðagerði. Það má alveg reikna með að Ingibjörg (12) hafi þá dvalið í Kóreksstaðagerði yfir sumarið. Hver veit?


Vallaneshjáleiga 1912
Ingibjörg kom frá Seyðisfirði í Vallaneshjáleigu, sennilega um vorið og Magnús kom frá Hólum, sennilega á svipuðum tíma. Það er auðvitað mögulegt að þetta hafi verið skipulagt hjá þeim, eftir bréfasamskipti síðan á Kóreksstaðaárunum. Það er líka möguleiki, að þetta hafi bara verið alger tilviljun.

Ættartengslin
Ljósbjörg hefur, án efa, verið í samskiptum við hálfbróður sinn, Jónas Valgerðarson Hansson, afa Ingibjargar og ekki ólíklegt að fjölskyldan hafi verið við útför hans á Seyðisfirði, en hann lést 1906, eins og áður hefur komið fram. Mér finnst lítill vafi leika á því, að Magnús og Ingibjörg hafi þekkst nokkuð vel, þó ekki væri nema vegna ættartengslanna. 
Ljósbjörg (65) var í Vallaneshjáleigu með syni sínum, Magnúsi (25) og barnabarni hálfbróður síns, Ingibjörgu (19), árið 1912. Ætli hún hafi átt einhvern þátt í að koma þeim í hnapphelduna? 

Sambúðin hefst

Auðvitað kemur mér ekkert við hvernig það kom til að afi minn og amma stofnuðu til hjúskapar 11. mars árið 1913. Mér finnst áhugavert að reyna að gera mér grein fyrir því hvernig mál þróuðust þannig að ég varð til. Það er, sem sagt, hrein og tær sjálfhverfa, sem ræður för. 
Það er líklegt að ástæðan hafi verið sú, að Ingibjörg varð þunguð og nauðsynlegt að barnið teldist skilgetið þegar það kæmi í heiminn. Daginn eftir brúðkaupsdaginn varð Ingibjörg léttari og eignaðist son, sem fæddist andvana, svo ekki hefur farið mikið fyrir hveitibrauðsdögum ungu hjónanna. 

Frá Vallaneshjáleigu í Freyshóla
Ég geri ráð fyrir að ungu hjónin hafi flutt frá Vallaneshjáleigu í Gunnlaugsstaði vorið 1914, þegar annað barnið var væntanlegt, en það fæddist þann 7. júni og fékk nafnið Alfreð. Ekki var viðdvöl þeirra á nýja staðnum löng, en fluttu þau í Freyshóla ári síðar.  Framundan var að reyna að átta sig á hvernig best væri að haga framtíðinni. Ekki töldu þau það neina framtíðarlausn, að vera í vinnumennsku á hinum og þessum bæjum í héraðinu. Það voru engar jarðir lausar til ábúðar og þau hafa örugglega velt ýmsum möguleikum fyrir sér.  Það varð um það niðurstaða, að þau flyttu á æskuheimili Magnúsar, þar sem fyrir var systir hans, Sigurbjörg og fjölskylda hennar. 

Tvíbýli á Freyshólum. 
Meðalstærð jarða á Íslandi mun vera um 1000 hektarar. Ég sá jörðina Freyshóla auglýsta til sölu fyrir nokkrum árum og þá var hún sögð 272 hektarar. Ætli megi ekki ætla, að hún hafi alltaf verið af þeirri stærð, fjórðungur af meðalstærð jarða?  Í öllu falli held ég að fullyrða megi að Freyshólar hafi varla borið tvær fjölskyldur. 
Hvað sem þessu leið, fluttu Magnús og Ingibjörg í Freyshóla, líklegast vorið (eða á útmánuðum) 1915 og þá var þriðja barn þeirra á leiðinni, Haraldur, sem fæddist þann 4. september. 
Þarna var stofnað annað býli á Freyshólum og þar bjuggu afi og amma með synina tvo til vors (líklegast) 1918. Þau hafa örugglega verið á fullu við að fylgjast með jörðum sem kynnu að losna, því varla hafa þau séð fyrir sér að hokra á landlítilli jörðinni til frambúðar. Það losnuðu greinilega engar jarðir og þá þurfti að hugsa út fyrir rammann. 

Um Guðrúnu Jónsdóttur og fjölskylduna á Kóreksstöðum. (smá hliðarspor)

Árið 1916 lést Sveinn Björnsson, bóndi á Kóreksstöðum, mágur Magnúsar, faðir Guðrúnar Sveins, úr lungnabólgu, 53 ára að aldri. Guðrún, systir Magnúsar var áfram á Kóreksstöðum með börn sín 4, sem líklega hefur ekki gengið til lengdar.  
Þannig var, að í upphafi ársins 1916 voru þessi á bænum:
Sveinn Bjarnason, bóndi (53) - hann lést úr lungnabólgu 20. apríl þetta ár.
Guðrún Jónsdóttir, kona hans (32)
Guðrún Björg Sveinsdóttir (10)
Björn Sveinsson (8)
Þórína Sveinsdóttir (6)
Ester Sveinsdóttir (1)
Einar Sveinsson (á 1)
Guðrún Sveinsdóttir, móðir bónda (87) - hún lést 2. febrúar þetta ár.
Geirmundur Magnússon, vinnumaður (33) hætti líklega um vorið.
Una Kristín Árnadóttir, vinnukona (20)
Síðari hluta ársins var kominn annar vinnumaður á bæinn: Pjetur Pjetursson (38). í sóknarmannatali ársins 1917 er kynnt til sögunnar óskírð stúlka á 1. ári, dóttir Guðrúnar og Pjeturs. 
Í framhaldinu hvarf þessi fjölskylda frá Kóreksstöðum. Guðrún og Pjetur áttu síðan eftir að giftast og þau eignuðust 5 börn saman, en Guðrún átti 6 börn með Sveini Björnssyni.
Ég gæti auðveldlega haldið áfram með þessa systur Magnúsar afa, móður Guðrúnar Sveins, en læt það eiga sig, að öðru leyti en því að í lok árs 1918 var hún komin í Freyshóla með tvö barna sinna og eignaðist þar son í lok árs. 

...... áfram inn á hina réttu braut.

Sannarlega veit ég ekki hvað olli því að tvíbýlið á Freyshólum gekk ekki til langframa, en grunar,að jörðin hafi einfaldlega ekki borið tvær fjölskyldur. Á fyrri hluta ársins 1918 var orðið ljóst að enn væri fjölgunar von hjá Ingibjörgu og Magnúsi. Eftir frostaveturinn mikla, sem gekk yfir fyrri hluta árs 1918, kann ástandið á Freyshólum að hafa verið orðið óburðugt og ekki um annað að ræða en taka af skarið. Niðurstaða varð um að fjölskyldan myndi flytjast að Rangárlóni í Jökuldalsheiði. 

-------------------------------------
Ég ætlaði nú ekki að dvelja svona lengi við þessi sex á frá 1912-1918, en, það er ekki alltaf svo að maður ráði sínum næturstað. Svo virðist þetta bara hafa verið áhugaverður tími.
Áfram gakk.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...