30 júlí, 2023

Dagur til að gleyma, en læra samt af.

Egilsstaðir og Lagarfljót ofan af Fjarðarheiði.
Ekki hyggst ég hér skrá í smáatriðum ferð okkar frú Drafnar umhverfis landið, enda um hina ágætustu ferð að ræða í öllum meginatriðum. Sérstaklega þykir okkur vænt um ágætar móttökur á heimili frænda míns Sæbjörn Eggertssonar og Arndísar Þorvaldsdóttur konu hans, á Egilsstöðum, en þar fengum við að gista í tvær nætur.  
Það er hinsvegar svo, eins og alkunna er, að engar fréttir eru góðar fréttir og ég held mig við það hér, enda mikilvægt að halda til haga því sem miður fer, svo hægt sé að draga af því einhvern lærdóm - þannig höfum við það á Íslandi. Af þessum sökum, og í samhengi við áður skráða pistla, eins og til dæmis þennan hér: Þá er það frá , sem er frá því í mars, 2018, hyggst ég einbeita mér að rétt rúmum sólarhring ferðarinnar, sólarhring sem best væri að gleyma, en það gengur auðvitað ekki, því að það verður að draga lærdóm af því sem þá gerðist.

Upphaf máls


Síðdegis, laugardaginn 22. júlí, stödd á Egilsstöðum, vorum við fD orðin ásátt um að halda af stað heim daginn eftir, suðurleiðina, þó svo áður hafi verið höfð um það nokkur orð að hún væri bæði "löng og leiðinleg". Þegar raunin hafði síðan orðið sú, að norðurleiðin þótti heldur ekkert sérstök, var sem sagt niðurstaða um að halda suður um og leita uppi einhvern þann gististað sem ætti hugsanlega möguleika á að hýsa okkur eina nótt. Þar með tók ég fram símann minn og hóf leit, sem í langflestum tilvikum skilaði engu. Þar kom þó, að upp dúkkaði laus nótt á gististaðnum Gerði, sem var vel í sveit settur, miðað við ferðaráætlun. Ég pantaði og greiddi fyrir bústað/"bungalow", kr. 25.000 og þótti bara vel sloppið miðað við stuttan fyrirvara. Með þessum gjörning var allt orðið klárt varðandi heimferðina og við skelltum okkur út að borða, af því tilefni, meðal annarra. Það gekk ágætlega fyrir sig á veitingastað sem ég kýs að nefna ekki vegna framhaldsins. 

Atburðir næturinnar og morgunsins

Mynd af vef.

Segir nú ekki af málum fyrr en kl. 2 um nóttina, þegar ég vaknaði af værum blundi með hamagang í maganum, sem gerði ekkert nema ágerast. Það sem fylgdi læt ég liggja milli hluta, enda yrði sú frásögn hreint ekki þess eðlis að myndi kæta nokkurn mann.  Á því sem þarna fór fram, gekk fram á morgun og ég orðinn flak eitt. Frændi fór um víðan völl að leita eftir aðstoð heilbrigðisþjónustu á svæðinu, án árangurs og ég svo sem ekkert á því að þörf væru á slíku, þar sem ástandið var farið að réna þegar annað fólk, ósnert af magakveisu, reis úr rekkju.  Fyrirhuguð kynnisför um Skriðdal var slegin af, bæði vegna mín og þess að veðurfarið gaf ekki tilefni til þess að virða fyrir sér útsýnið í þeim fagra dal. Þá var ljós að ekki myndi ég njóta sunnudagskaffihlaðborðs kvenfélagsins í sveitinni, væntanlega með brauðtertum og rjómatertum eins og hver gat í sig látið.  
Í sem stystu máli, þá var þessi dagur allur frekar hörmulegur, þó auðvitað reyndi ég að bera mig vel.  Sannarlega velti ég því fyrir mér, hvernig þetta gat gerst, en varð litlu nær, þar sem ekkert þeirra þriggja sem tóku þátt í borðhaldinu með mér og borðuðu og drukku það sama, fann fyrir neinum einkennum. Þetta var því og verður líklegast óupplýst.

Haldið heim á leið


Við lögðum í hann suður á tilsettum tíma og stefndum á næsta gististað, Gerði, sem er í bæjaþyrpingunni þar sem Þórbergssetur er að finna. Til að flýta för ókum við fjallveginn Öxi í heilmikilli rigningu, eftir malarvegi, á bílnum sem ég hafði eytt hálfum degi í að þvo og bóna fyrir ferðina. "Það er best að skola bara af honum á Djúpavogi" hafði frændi sagt og því var haldið þangað. Þar er hinsvegar ekki þvottaplan við eldsneytisáfyllingarstöð, heldur einhversstaðar niðri við höfn, að skemmst frá því að segja, að þvottaaðstaðan fannst ekki, þrátt fyrir tilraun til að spyrja til vegar.  Það varð, af þessum sökum úr, að gera næstu tilraun til að skola skítinn af á Höfn, sem gekk eftir. Þaðan héldum í átt að gististaðnum, sem nálgaðist óðum. Tilhlökkunin var mikil að komast í hvíld, enda ég alveg búinn á því. Í huganum var ég farinn að sjá fyrir mér risastóran bústað, með arni og 50" sjónvarpi, baði, en varla heitum potti. Allavega stað til að hvílast og safna kröftum fyrir síðasta legg ferðarinnar. Ekkert átti að geta komið í veg fyrir, að vel færi um okkur þessa síðustu nótt.

Innritun í gistihúsið


Allt leit þetta vel úr, þar sem við ókum í hlað í Gerði og drifið í að klára innritun og fá í hendur lykið að slotinu sem beið okkar.  Ljúfmennska einkenndi enskumælandi konuna í móttökunni og hún fór strax í að leita að bókun okkar. Það kom tiltölulega fljótt í ljós, að hún átti ekki í erfiðleikum með að  vinna nafn mitt, vegna þess hvernig það er stafsett, helldur vegna þess, að það var bara ekkert á lsitanum yfir gesti þessa kvölds. "Wait a minute, I'll just call our booking office. Have some coffee while we sort this out". Þar með tók hún upp símann og hringdi og auðvitað fór það samtal fram á ensku. Um leið og ég heyrði hana segja "last night" í símann, tók ég fram símann minn til að geta staðfest bókun þessa nótt. Auðvitað þyrmdi yfir mig, þegar við mér blasti staðfesting á bókun fyrir síðustu nótt, en ekki þá sem var framundan. Ég var því tilbúinn því em konan í móttökunni upplýsti mig um, að loknu símtali sínu við bókunarskrifstofuna. Við vorum sem sagt á ferðinni sólarhring of seint.
Nú voru góð ráð dýr, eins og hver maður getur ímyndað sér. Lá það virkilega fyrir okkur að þurfa að aka alla leið heim þetta kvöld og komandi nótt, ofan á allt annað sem á daginn hafði drifið?
"Don't worry" sagði konan þar sem við henni blasti upplitið á mér eftir þessa uppgötvun. "We'll try to solve this, Just sit down and relax". Slappa af, já. Það þótti mér hægara sagt en gert, en niður settumst við fD og biðum þess sem verða vildi nokkra stund, eða þar til maður nokkur opnaði útidyrnar og spurði mig (á íslensku) hvort ég væri ég, sem ég játti auðvitað. Þarna var á ferð eigandinn, eða "bossinn", en þeir eru kallaðir til í svona tilvikum. Hann hafði verið einhversstaður úti að sinna girðingavinnu, þegar hann fékk símtal um vandamálið sem uppi var. 
Eftir stuttar umræður um stöðuna sagði hann okkur að það væri eitt laust herbergi í gamla hreppstjórahúsinu á Reynivöllum, en að þar væri reyndar ekki sér baðherbergi. Léttirinn var auðvitað mikill og okkur nokk sama hver þægindi myndu fylgja gistingunni. Síðan fegnum við miða með aðgangskóða að lyklaboxi í anddyri Reynivalla og leiðbeiningar um hvernig við kæmumst þangað. Þá skrifaði hann símanúmerið sitt á miðann, ef við skildum eiga í einhverjum vandræðum með að finna húsið, sem er í um 3 km fjarlægð frá Gerði. 
Allt gekk þetta síðan eins og í sögu, þar til ......

Herbergismálið


Reynivelli fundum við án vandkvæða. Við ákváðum að athuga fyrst hvort við kæmumst í herbergið, áður en við færum að flytja inn farangurinn. Lyklaboxið í anddyrinu opnaðist eins og það átti að gera. Þar var Assa-lykill, sem síðan gekk að herbergi númer 57. Ekki nóg með það, herbergið var risastórt með uppbúnum rúmum fyrir fjóra, hreint og fínt. Þetta leit allt mjög vel út, og þá ekkert annað að gera en ná í farangurinn. Ég fór úr jakkanum og setti á stól og hélt svo af stað út í bíl. Þá heyrði ég hurðina lokast, en það tók fD að sér og spurði í framhaldinu hvort ég væri ekki með lykilinn. Auðvitað var ég ekki með hann, því hann var í jakkavasanum og jakkinn á stólbaki í herberginu. Í jakkavasanum var einnig miðinn með símanúmeri eigandans, svo enn voru góð ráð dýr.  
Ég fór nú að líta í kringum mig í húsinu, en þar var sameiginlegt eldhús og, eins og við mátti búast, leiðbeiningar um umgengni þar. Á því balaði var, eins og við mátti svo sem búast, símanúmer sem hringt skyldi í ef einhver vandræði mættu gestum. Það er ekki um annað að ræða en hringja í þetta númer, sem reyndist vera númerið hjá eigandanum. Ekki veit ég hvort hann var þarna aftur farinn að lagfæra girðingarnar sínar, en mér tókst að greina honum þannig frá aðstæðum okkar, að viðbrögð hans voru hin ljúfustu. Hann sagði okkur að bíða smástund, hann skyldi bjarga þessu. Svo kom hann bara með "master" lykil og opnaði fyrir okkur.  Þar með tókst okkur loks að fara að vinna í að koma okkur í  ró. Ekki meira um það.

Við erum full þakklætis til gestgjafanna í Gerði, en öll þeirra viðbrögð við undarlegu eldri borgurunum sem þarna voru á ferð, einkenndust að ljúfmennsku og hjálpfýsi.

Lærdómurinn

Ekki segir meira af ferð þessari, en af henni er ýmislegt að læra:
a. Ekki fara á veitingastað - eldaðu sjálfur.
b. Láttu aðra athuga hvort þú bókaðir rétta daga á gististað.
c. Ekki skella hurð í lás, nema þú sért örugglega með lykilinn á þér.Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Laugarás: Fagmennska, eða annað.

Þann 13. júní birtist á island.is  island.is   tilkynning frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem greint er frá því á vorið 2025 verði hei...