09 september, 2023

Hótelið

Weis stue í Rípum
Við höfðum þann háttinn á, þar sem við fD ókum um mið og suður Jótland í 4 daga fyrir skömmu, að treysta á það að geta pantað hótelgistingu svona eftir hendinni: ákváðum fyrst hvert ferðinni var heitið næst og síðan kom það í minn hlut að leita að gistingu á bókunarsíðum.  Þetta reyndist vera hin skemmtilegasta iðja. Þessi aðferð skapaði talsvert frelsi, varðandi tímasetningu og staðsetningu á gistingu.  Eftir að hafa dvalið eina nótt í gamla ráðhúsinu í Grásteini (Graasten) (1) ákváðum við að velja næstu gistingu á vesturströnd Jótlands og fyrir valinu varð bærinn Ribe (Rípar) (9), en þar búa 8-9000 manns. Þetta er elsti bær í Danmörku og mun hafa orðið verslunarstaður á 8. öld. e.kr.   Auðvitað var ég ekki tilbúinn að greiða stórfé fyrir gistingu og beindi því fyrst og fremst sjónum að því sem vel taldist viðráðanlegt.

Viti menn, eitt hótelið reyndist vera bæði ódýrt (10.000 kr. nóttin) og var með ágætiseinkunn (8,4 Alletiders) á bókunarsíðunni. Jú það var mynd af hótelinu á síðunni, sem ég sýndi fD, sem brást bara jákvætt við tillögunni.  Það varð því úr að ég bókaði gistingu í Weis stue í Ribe næstu nótt og þar með héldum við út í daginn, eyddum talsverðum tíma í Dybböl (2), áður en við kíktum á Sönderborg (3), brunuðum gegnum Broage (4) til að komast að landamærunum við Þýskaland í Padborg (5). Þar ókum við yfir landamærin, bara til að keyra svo til baka.

Smella á myndina til að stækka hana.

Eftir að hafa farið til Þýskalands (allavega 50 metra inn í það) lá leiðin til norðvesturs til Tinglev (6) og Tönder (7). Til að losna við að fara fjölfarnari leiðir  til Ribe (9) fann ég þarna vestast smábæ sem kallast Höjer (8). Þaðan lá síðan leið eftir "sveitavegum", norður til Ribe (9), þar sem hótelið okkar beið, tilbúið að tryggja ánægjulegan nætursvefn og aðbúnað, enda "alletiders".

Weis stue í Ribe (9)


Fyrst aðeins um sögu þessa húss. Hér er sögu þess að finna á ensku  og hér er hún á dönsku. (ég nenni ekki að þýða þetta fyrir ykkur). Í sem stystu máli, þá er þessi hótelbygging frá því um 1600 og að innan er hún frá 1704.
Heimilisfang Weis stue er Torvet 2 í Ribe og auðvitað stillti ég GPS tækið á það. Nú vill svo til, og því komumst við sannarlega að, að "Torvet" er ævafornt torg bæjarins og á því miðju stendur Ribe dómkirkja, mikið mannvirki.
Hér fyrir neðan má sjá hvernig það gekk fyrir sig hjá okkur að komast í herbergið okkar á Weis stue.

Skýring: 
A. Gula brotalínan sýnir leið okkar inn í miðbæinn og síðan út úr honum, á bílastæði sem við fundum (rauður kross). Þar mátti leggja í tvo tíma.
B. Hvíta punktalínan síðir gönguleið okkar inn á torgið, þar sem okkur tókst að afla upplýsinga um hvaða hús væri Weis stue.
C. Gráa brotalínan sýnir leiðina sem ekin var á bílastæðið þar sem okkur var bent á að leggja.
D. Rauða punktalínan sýnir svo gönguleið okkar frá bílastæðinu að hótelinu, með tannburstana.

GPS græjan leiddi okkur sem dagt inn á torgið við dómkirkjuna, en það varð okkur fljótt ljóst, að þar var ekki ætlast til að fólk væri að aka bílum, nema í algerum undantekningartilfellum. Ég tók þann pól í hæðina, að ef einhver gerði athugasemd við aksturinn, myndi ég bara kenna GPS-inu um, verandi útlendingur sem ekkert skildi og ekkert vissi.  
Inn á torgið komumst við óáreitt. Þar var enginn möguleiki á að stöðva, hvað þá leggja bíl, svo leiðin lá bara áfram yfir torgið og svo bara áfram - eitthvert (sjá gulu brotalínuna). Allt í einu rakst ég á bílastæði þar sem leggja mátti í 2 klst. Ekki var um annað að ræða en leggja þar og hefja síðan leitina að hótelinu fótgangandi (sjá hvítu punktalínuna). Niður á torgið komumst við, vandræðalaust, skimuðum eftir hótelinu, en það reyndist ekkert auðfundið svo ég spurði starfsmann á hótel Dagmar, sem stendur við torgið. Það vafðist ekki fyrir honum að liðsinna mér - benti á lítið hús í 20 m. fjarlægð. Á því hékk, við nánari eftirgrennslan, skilti með nafni þess: Weis stue.
Ekki fjölyrði ég um samskiptin við starfsfólk hótelsins, en það varð fljótt ljóst, að við þyrftum að leggja bílnum talsvert frá - í 7-8 mínútna göngufjarlægð, sem fD fullyrti að væru 12 mínútur. Allt í lagi með það, svo sem. 

Vistarverurnar

Stiginn upp á 2. hæð og vinstra megin er opið inn á salernið.
Okkur voru sýndar vistarverurunar, en þær voru eftirfarandi:
Það var gangur þvert í gegnum húsið og út í bakgarð við hliðina sem nýr frá torginu. Um miðjan þennan gang var hurðarhleri, sem lokað var með einskonar klinku (að sögn fD voru dyrnar svipaðar þeim sem voru á hænsnakofanum við Álfhólsveg 17 á sínum tíma). 
Þegar dyrnar (ca 60 cm breiðar) voru pnaðar, blasti við jafn breiður, snarbrattur stigi upp á 2. hæð (íslenska málvenjan). Upp hann klifruðum við og sumum okkar leist orðið ekkert á blikuna og höfðu á því orð.  Þegar upp á aðra hæð var komið, mátti sjá nokkrar dyr, þar á meðal einar að baðherbergi (1-2 ferm.) og aðrar að salerni (1 ferm).
Stiginn upp á 3. hæð (okkar hæð).
Þarna var vaskur, en öðru þurfti að 
sinna fyrir neðan stigann

Þessi aðstaða til snyrtingar var ætluð íbúum í herbergjunum 7 (4 á 2. hæð og 3 á þriðju) sem hótelið státaði af.  Aðrar vistarverur á þessari hæð voru væntanlega herbergi, en okkur var ekki ætlað að kynnast því nánar, enda var herbergið okkar á 3. hæð (ísl. málvenja). Upp á þá hæð lá annar stigi, nokkru mjórri en sá fyrri, en jafnbrattur, ef ekki brattari. Þegar upp var komið, blöstu við þrennar dyr, þar af einar að tilvonandi herbergi okkar, sem reyndist bara vel viðunandi að stærð.

Næst voru lagðar línurnar fyrir framhaldið. Ekki mun ég hér greina frá öllu því sem sagt var um þær aðstæður sem við vorum þarna komin í, en mér fannst þetta nú bara nokkuð spennandi. Okkur var ljóst, að ekki myndum við fara að burðast með neitt þarna upp nema það allra bráðnauðsynlegasta. Í framhaldinu var síðan lagt í hann, gangandi að bílnum á 2ja tíma bílastæðinu (hvíta punktalínan) Þaðan var svo ekið á bílastæðið þar sem við áttum að geta lagt í 48 tíma (ljósgráa brotalínan). Þar þurfti síðan að tína saman það allrabráðnauðsynlegasta fyrir nóttina (og EOS-inn). Því næst lá leiðin eftir rauðu punktalínunni, gangandi á hótelið og við tók að koma sér fyrir, sem var einfalt, þar sem ekki var um neinn umtalsverðan farangur að ræða.  Kvöldverð gátum við snætt í golunni við hótel Dagmar, þar sem fD freistaði þess að koma í veg fyrir að hún þyrfti að leggja leið sína um miðja nótt niður stigann á snyrtingu á 2. hæð. Þetta gerði hún með því að takmarka mjög vökvainntöku, sem reyndist svo ekki til neins þegar upp var staðið. 

Herbergið. Við gluggan má sjá kistuna með brunastiganum.
Okkur þykir ágætt, undir svefninn, að glugga aðeins í bók, en það reyndist ekki sérlega auðvelt, þar sem perur í ágætum lömpum við rúmið, voru varla nema 5 wött. Rúmið var hinsvegar ágætt, og herbergið vel þrifið.
Til umræðu kom hvað maður gæti tekið til bragðs, ef eldur kæmi nú upp í þessu forna húsi. Við eftirgrennslan kom í ljós, að fyrir innan gluggann á herberginu var kista. Þegar hún var opnuð blasti við kaðalstigi, sem skyldi notaður í neyðartilvikum. Ekki taldi fD lýkur á að hún myndi láta sér detta í hug að fara að príla niður þennan stiga. Ég held nú að hún hefði látið sig hafa það, ef hún stæði frammi fyrir vali milli gereyðandi eldtungna og stigans.

Nóttin í þessu gamla hús var alveg ágæt, ef frá er talið nauðsynlegt príl, hálfsofandi niður 60 cm stigann niður á hæðina fyrir neðan.

Morgunverð gátum við fengið á hótel Dagmar, þarna við hliðina á sérkjörum og það nýttum við okkur. Eftir það kvöddum við þennan einstaklega eftirminnilega gististað. Mér fannst hann "alletiders" og afskaplega gaman að fá að setja sig lítillega inn í aðstæður, svipaðar þeim sem fólk bjó við fyrir nokkrum öldum.  


 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...