26 október, 2021

Kvistholt: Greypt í stein

 

Hann var þarna, þessi veggur, sem stakk dálítið í augu, mín augu, altso. Það var dálítið með hann eins og svipaðan vegg á dæluhúsi hitaveitunnar. Mér fannst að það vantaði eitthvað á hann. Þetta var vorið 1982, þegar smiðir slógu upp fyrir kjallaranum í Kvistholti. 

Þetta var einum 16 árum áður en lög um listskreytingar opinberra bygginga tóku gildi og sú aðgerð mín sem lýst verður hér fyrir neðan kann að hafa haft áhrif á þá lagasetningu. Ég trúi því bara. 


Þarna var búið að planta út og tiltölulega rólegur tími, milli þess sem einstakir verkþættir byggingarinnar stóðu yfir. 

Mér fannst að eitthvað vantaði á þennan vegg og að endingu varð það úr að ég myndi koma fyrir í honum einhverju varanlegu. Þar með hófst hönnunarferli og í framhaldinu uppsetningarferli, en það hófst á gólfinu í bílskúrshluta pökkunaarhússins í Hveratúni. Ég varð mér úti um lista sem ég heflaði og pússaði, áður en ég mátaði þá við mótið sem ég hafði útbúið á gólfinu.   Þegar allt var klárt þar, merkti ég alla listana svo þeir myndu nú rata á réttan stað ínnan á mótunum.  

Þarna tók síðan við hin eiginlega uppsetning verksins sem síðar var einskonar einkennismerki Kvistholts og Kvisthyltinga. Ég hefði svo sem gjarnan viljað hafa mótað einhverja útgáfu af kvisti þarna á vegginn, en það hefði tekið meiri tíma og verið flóknara í vinnslu.

Uppsetningin á listunum innan á vegginn reyndist ekki sérstökum vandkvæðum bundin, enda hafði ég auðvitað vandað til hönnunar og allrar útfærslu. Hvern lista negldi ég á sinn stað innan á mótin  og var bara harla sáttur í verklok. 

Þessu næst hófst járnabindingin og þá kom innra byrði mótanna og loks var slegið upp undir plötuna, þar sem öll steypa átti að fara fram í einum rykk, 

Þegar plötuuppslátturinn var klár, var jarnabundið af miklum móð, áður en  steypubíllin og kraninn komu frá Selfossi og gæðasteypan var hífð á sinn stað. Allt gekk þetta sérlega vel fyrir sig, en engir aukvisar sem að komu: ættingjar og nágrannar. 

Merkið tilbúið innan á mótunum.


Komið að því að slá upp fyrir plötunni yfir kjallarnum. Þarna er rotþróin komin
og ekki sé ég betur en Þórir Sigurðsson sé að aka fullhlöðnum bíl úr Asparlundi.
Það ver einmitt Þórir sem kom með rotþróna.

Talsverð streita í kringum þetta steypustand, en með góðra manna hjálp fór það allt vel.

Kannski hlakkaði ég mest til að sjá hvernig verkið myndi birtast þegar timbrinu hafði verið slegið utan af veggjunum í kjallaranum, en eins og við mátti búast, var að það vonum. 

Merkið í hvíta rammanum.

Þarna var merkið enn, þegar nýir eigendur tóku við Kvistholti, vorið 2020.

Svo liðu árin og merkið var á sínum stað. Það var bara þarna og það má segja að það hafi einhvern veginn síast inn í undirmeðvitundina. Þannig var það eiginlega aldrei spurning, þegar fD ákvað að fara að kynna þau verkefni sem hún var að vinna að og þegar ég ákvað einnig að merkja mér myndirnar sem ég tók; þetta merki kom strax til skoðunar og úr varð að ég teiknaði það upp til þess arna og þar gegnir það enn hlutverki sínu hjá fD. Ég fór aðeins aðra leið með myndamerkinguna.
Engin ummæli:

Ýmislegt leiðir af leiklestri

Frá því í menntaskóla hef ég haft talsverðan áhuga á leiklist, það verður að segjast. Það var Kristín Anna Þórarinsdóttir , leikkona, sem ko...