Auðvitað er það ekki ætlun mín, að fara að hefja rauðvín upp til skýjanna. Mér finnst það yfirleitt ekkert sérstakt - en stundum á það við og stundum ekki.
Það er ekki í frásögur færandi, svo sem, og þó, að við fD fengum fyrir skömmu ágæta gesti í heimsókn, þar sem neytt var fremur sérstakrar máltíðar. Það þótti við hæfi að neyta lítilsháttar rauðvíns með matnum, alla vega með matnum. Hvað gerðist svo í framhaldinu á ekki erindi inn á miðil sem þennan.
Ljósið yfir matarborðinu var slökkt og þess í stað fengu tvö kertaljós að njóta sín og varpa mildri birtu sinni yfir matargestina, matinn og rauðvínið.
Það lá fyrir að ein rauðvínsflaska myndi engan veginn duga viðstöddum og því voru fleiri til staðar, eftir því sem á þyrfti að halda. Maður veit nefnilega aldrei, við svona aðstæður. Maður veit heldur aldrei, við svona aðstæður hvaða tegund rauðvíns telst sæmilega drykkjarhæft og því var til staðar önnur tegund, svona til öryggis.
Mynd 2 |
Ég fékk það hlutverk að finna tappatogara til að draga tappann úr rauðvínsflöskunni hinni fyrstu og fórst mér það vel úr hendi, enda hef ég, á langri ævi, lært, eða búið mér til aðferð sem dugar, við að draga tappa úr rauðvínsflösku.
Rauðvínsflöskum nútímans er lokað með tvennum hætti. Annarsvegar er þeim lokað með korktappa (reyndar oftar, nú orðið, með einhverskonar plasttappa), sem er á kafi í stútnum á rauðvínsflöskunni og síðan er einhverskonar plasthulsa sett yfir, sem nær niður á stútinn. Þessi plasthulsa mun vera þarna aðallega af útlitslegum ástæðum.
Hinsvegar, er um að ræða rauðvínsflöskur, þar sem tappinn er skrúfaður á. Þessi tappi er þá úr einhverri málmtegund, sennilega áli. Mér hefur skilist að þessari aðferð við að loka rauðvínsflöskum, sé aðallega beitt, þegar um er að ræða heldur ómerkilegra rauðvín, en um þetta þori ég ekki að fullyrða.
Mynd 3 |
Ég beiti þeirri aðferð á rauðvínsflöskur af þessu tagi, að ég nota endann (oddinn) á tappatogaranum til að rjúfa plasthulsuna rétt fyrir neðan toppinn á rauðvínsflöskunni (mynd 2), dreg endann síðan hringinn og viti menn, þá blasir tappinn við, en það er einmitt hann sem ég þarf að draga úr. Ég held að allir viti hvernig tappatogara er beitt: Endanum er stungið í tappann, sem næst miðju hans og síðan er tólinu snúið réttsælis, þar til það telst vera komið nægilega djúpt til að hægt sé að ná tappanum úr rauðvínsföskunni í heilu lagi (mynd 3). Maður reynir að hugsa þá hugsun ekki til enda, ef hluti tappans verður eftir í flöskustútnum, meðan gestirnir bíða af eftirvæntingarfullri hógværð eftir að fá rauðvín í rauðvínsglösin.
Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, en sem fyrr, dró ég tappann úr í heilu lagi og við þekkjum öll (eða allflest) hvernig hljóð heyrist, þegar tappinn sleppir endanlega tengslum sínum við toppinn á rauðvínsflösku. Þannig hljóð heyrði ég þarna og sannarlega hafði hreint ekki átt von á öðru.
Í beinu framhaldi tók ég til við að hella í glösin, í þeirri röð sem siðareglur segja að eigi að hella rauðvíni í rauðvínsglös.
Mynd 4 |
Svo var skálað í gleði yfir því, að nú gat máltíðin hafist fyrir alvöru og hún fór vel fram. Með matnum dreyptu gestir á rauðvíninu, og eftir því sem lengra leið á máltíðina lækkaði í rauðvínsglösunum, rétt eins og fara gerir, þegar rauðvíns er neytt með mat.
Þar kom, að það hafði lækkað það mikið í glösunum, að þau kölluðu á áfyllingu og ég hafði skilið það svo, að það væri mitt hlutverk að sjá um að fólk hefði ávallt nægt rauðvín í rauðvínsglösunum, til að skola matnum niður með. Af þessum sökum náði ég í aðra rauðvínsflösku og tók til við að beita sömu aðferð við að opna hana og ég hef lýst hér að ofan. Það var rökkvað við matarborðið, eins og ég hef áður greint frá, aðeins þessi tvö kertaljós, sem vörpuðu kertaljósastemningu yfir borðhaldið.
Spjall gestanna við þessar dulúðugu, en líflegu aðstæður, snérust um ýmis, áhugaverð málefni, sem ég hafði áhuga á að fylgjast með, þó svo ég þyrfti að draga, á sama tíma, tappa úr annarri rauðvínsflösku. Við það beitti ég sömu aðferð og ég lýsti hér fyrir ofan, og endurtek því ekki frásögn af henni. Munurinn núna var sá, að plasthulsan vildi ekki gefa sig jafn auðveldlega og sú fyrri hafði gert. Ég beitti tappatogaranum efst við stútinn, ég beitti honum aðeins neðar, ég beitti honum jafnvel efst í toppinn. Plasthulsan gaf sig ekki, og ég velti augnablik fyrir mér, hvort þessi rauðvínsframleiðandi væri farinn að nota harðplast í hulsurnar á rauðvínsframleiðslu sinni. Það, sem sagt gekk hvorki né rak, að komast í gegnum plasthulsuna. Umræðurnar voru hinar líflegustu og ég var með hugann við þær, á sama tíma og ég freistaði þess að opna rauðvínsflöskuna, svo fagmannlega og virðulega sem mér var unnt.
Þar kom, að ég sá ekki fram á að ljúka verkinu, nema ég breytti um nálgun og því var það, að ég stóð upp frá borðum og náði mér í hníf.
Mynd 5 |
Þar kom, að ég sá ekki fram á að ljúka verkinu, nema ég breytti um nálgun og því var það, að ég stóð upp frá borðum og náði mér í hníf.
Um leið og ég fylgdist af áhuga með umræðunum, snéri ég mér frá borðinu og stakk hnífsoddinum í hulsuna við stút rauðvínsflöskunnar og þá fyrst gaf hulsan sig og mér tókst að skera blátopp hennar af. Þá blasti við mér hvítur tappinn og mér fannst hálfur sigur unninn, hafði þó engin orð um það, enda snérust umræðurnar við borðið um allt annað en rauðvínsflöskutappa.
Nú var komið að því, að beita tappatogaranum að tappann. Ég setti oddinn á honum, eins og Mynd 3 sýnir og snéri svo réttsælis, eftir að hafa tryggt að ég hefði hitt í miðjuna. Nú bar svo við, ólíkt því sem vant er, að tappatogarinn rann í gegnum tappann, rétt eins og um loftin blá, sem kom mér mjög á óvart; svo mjög á óvart að ég missti þráðinn í umræðunum við borðið.
Ég dró tappann úr og hann reyndist vera örþunnur, svona um það bil 2 millimetrar. Ég neita því ekki, að það flaug í gegnum hug mér, hvort þarna væri um að ræða alveg nýja tegund vísindalega þróaðra rauðvínstappa. Það flaug líka í gegnum hug mér hvort þarna gæti verið um að ræða gallaða rauðvínsframleiðslu, sem hættulegt gæti verið að hella í glös hjá gestum. Það flaug ýmislegt í gegnum hug mér við þessar aðstæður, en niðurstaða mín varð sú, að bera málið undir gestina.
Þá gall í einum: "Áttu bara ekki að skrúfa tappann af?"
Njótið laugardagsins með UB40
Engin ummæli:
Skrifa ummæli