14 nóvember, 2021

Rúnurnar og Stebbi

 

Það er haust. Lítilsháttar næturfrost skilur eftir þunnt skæni á pollunum. Ég reyni að hitta á þá alla til að upplifa framhjólin á Fergusoninum brjóta sig í gegnum þessa áminningu um að veturinn nálgast. Gulbrúnt, leirblandað pollavatnið brýst upp úr mölbrotnu skæninu og augun leita að næsta polli til að hitta á. 

Stebbi er í bænum.
Hann fer þangað stundum og kemur þá til baka, umluktur keim af kaupstaðarlykt, búinn að útrétta og lyfta sér upp.
Það getur sennilega verið einmanalegt að vera ráðsmaður í Höfða, þó Rúnurnar séu indælar konur, svo sem. Ekki hef ég hugmynd um hvernig sambandi Stebba og Rúnanna er háttað og velti því ekki einusinni fyrir mér.

Stebbi í Höfða
(mynd Tómas Jónsson í
Héraðsskjalasafni Árnessýslu)

Þau eru bara þarna uppi í Höfða. Stebbi kemur stundum heim, en ég sé aldrei Rúnurnar nema þegar við þurfum að bjarga mjólkurflutningunum fyrir Stebba, þegar hann þarf að fara í kaupstað.
Fergusoninn er alltaf í Hveratúni þegar Stebbi fer af bæ og við pabbi brunum síðan upp í Höfða til að ná í mjólkurbrúsana og koma þeim fyrir mjólkurbílinn. Pabbi leyfir mér að keyra Fergusoninn á leiðinni uppeftir, en aldrei til baka. 

Áfram liggur leið og ég finn fullt af pollum til að stýra ofaní, þarf stundum að sveigja til og frá þegar þeir standast ekki á. Framdekkin á Fergusoninum eru ekki eins og á venjulegum traktorum. Þau eru breið, annað alveg slétt, en hitt er með sjáanlegu myntri.
Pabbi gerir engar athugasemdir við aksturslagið - vill kannski ekki draga úr nautn minni af akstrinum. Hann situr á hægra brettinu og hefur vakandi auga með að ég geri enga vitleysu. Ég er á þrettánda ári og upplifi ótrúlegt vald mitt - með stjórn að vélknúnu farartæki. Það er eitthvað alveg sérstakt við það, að fá að snerta á einhverju sem bara fullorðnir fá að gera.  

Rúna Jóns (eða Rúna hin) vinstra megin og Rúna Víglunds. 
(mynd frá Svövu Theódórsdóttur)
Í hlaðinu í Höfða stöðva ég Fergusoninn og drep á honum. Rúna Víglunds kemur út úr fjósinu beint úr mjöltunum. Hún er í fjósafötunum, fjósapilsi og peysu. Pilsið er engan veginn á litinn, úr einhverskonar striga, og það glansar á það. Sennilega er það ekki þvegið oft. Hún er með skuplu á höfðinu, eða klút og bíður okkur góðan daginn og býður okkur inn í kaffi. Við fáum alltaf kaffi þegar við komum í Höfða. Við göngum í bæinn, fyrst inn í forstofuna og síðan inn í eldhús, en þar er Rúna Jóns, einnig í fjósagallanum. Hún hefur farið á undan inn til að hella upp á. Þær eiga von á okkur. 
Rúna Jóns setur bolla fyrir okkur og Rúna Víglunds skenkir síðan kaffið. Fyrst hellir hún í bollann hjá pabba, svo minn, þá bolla Rúnu Jóns og loks í sinn. Það er spjallað um daginn og veginn meðan þessi athöfn á sér stað, spurt frétta og rætt um hitt og þetta. Mér finnst það dálítið sérstakt, að þar sem Rúna hellir í bollana þarf hún frá svo mörgu að segja og um svo margt að spyrja, að hún hættir ekki að hella kaffinu þegar hún færir könnuna milli bollanna og þessvegna fer kaffið líka á borðið.  Ég er alltaf jafn undrandi þegar þetta gerist og bíð þess í hvert skipti sem við flytjum mjólkina frá Höfða.  Báðar Rúnurnar eru afskaplega hlýjar konur, í minningunni, og ég sé þær enn fyrir mér í eldhúsinu í Höfða og held að ég hafi hvergi séð þær annarsstaðar en þar og hef líklega ekkert pælt í því þá, hvernig lífi þeirra var háttað.  

Eftir kaffið höldum við pabbi aftur heim, eftir að hafa sett brúsana í kerruna. Pabbi keyrir Fergusoninn til baka og reynir frekar að sneiða hjá pollunum. Það er ekki fyrr en löngu seinna sem ég átta mig á því, að maður á að reyna að komast hjá því að keyra ofan í alla polla sem maður sér. 

Við skellum brúsunum á brúsapallinn og þaðan bara heim. Mjólkurflutningunum er lokið þennan daginn.  Stebbi kemur úr kaupstað síðdegis, með grænmetisbílnum. Hann kíkir inn í kaffi og býður pabba sopa úr pela sem á stendur VAT69. Hann segir frá ferð sinni, þakkar greiðann og heldur síðan af stað á Fergusoninum upp í Höfða, þar sem Rúnurnar bíða. Skyldi hann sneiða hjá pollunum?

-------------------------

Þetta var árið 1965 eða 1966 og ég var þá á 12. eða 13. ári. Þrennt man ég í rauninni frá mjólkurflutningum okkar pabba: ég að keyra Fergusoninn ofan í pollana með ísskæninu, aðferð Rúnu Víglunds við að hella í kaffibollana og pilsinu hennar Rúnu Víglunds. 

Þóra Guðrún Víglundsdóttir (1918-2002) var dóttir þeirra Jóhönnu Ketilríðar Þorsteinsdóttur (1880-1954)  frá Höfða og Sigurðar Víglundar Helgasonar (1875-1944).  
Úr minningargrein um Víglund:

Árið 1907 gekk hann að eiga Jóhönnu K. Þorsteinsdóttur í Höfða. Byrjuðu þau ungu hjónin þar búskap sama ár og bjuggu þar jafnan síðan. Varð þeim 8 barna auðið, og eru 5 þeirra á lífi: Sesselja, gift Sigurði Þórðarsyni verslunarstjóra í Rvík, Gunnþórunn, gíft Þorsteini Gíslasyni, vjel«tjóra í Hafnarfirði; Magnús, stórkaup maður í Rvík, kvæntur Ragnheiði Guðmundsdóttur, stud. med., og Guðrún og Þorsteinn, sem bæði eru enn í föðurgarði.

Guðrún Jónsdóttir (1899-1995). Um Guðrúnu og Eirík bróður hennar segir Bjarni Harðarson í athugasemd á Fb.:

Þau voru ekki frá Bryggju þó Eiríkur hafi fæðst þar - heldur eiginlega úr Skálholtssókn, María móðir þeirra var fædd í Laugarási. Jón faðir þeirra var fæddur í Höfða. Móðir Jóns var ein hinna mörgu og fögru Kópsvatnssystra. Jón og María bjuggu víða í sveitinni og aðallega á rýrum kotum eins og Bryggju, Tjarnarkoti og Torfastaðakoti - jú og í Laugarási líka smátíma.

Stefán Benedikt Guðmundsson (1912-1972) frá Minni-Brekku í Fljótum.Foreldrar hans voru Guðmundur Stefánsson (1867-1927) og Ólöf Pétursdóttir (1872-1952) bændur Minni-Brekku, Fljótum, Skagafirði.

Engin ummæli:

Ýmislegt leiðir af leiklestri

Frá því í menntaskóla hef ég haft talsverðan áhuga á leiklist, það verður að segjast. Það var Kristín Anna Þórarinsdóttir , leikkona, sem ko...