Þann 15. febrúar, 1913, birtist í blaðinu Suðurland, sem gefið var úr 1910-1917, bréf frá Páli nokkrum Jónssyni, um fugla sem hann hafði séð í Laugarási. Í sama blaði er birt svar P. Nielsen við spurningu Páls. Þarna kemur einnig við sögu einn þeirra einstaklinga sem birst hafa í myndaleik í fb-hópnum Laugarás - þorpið í skóginum.Vepja (mynd Alex Máni)
Hér er bréf Páls og svar P. Nielsen. Fyrir neðan er svo gerð grein fyrir persónum sem við sögu koma:
Hvaða
fugl?
Þann
15. þ. m. átti ág erindi að Laugarási. Sá ég þá einkennilegan fugl setja á
hveramosanum. Hann flaug frá mér í svo sem 10 faðma fjarlægð. Hann var hvítur á
bringu, dökkur á bak, með uppmjóan kamb upp úr hnakkanum, alt að því 3-4 þuml.
háan. Vængirnir sýndust mér vera jafnbreiðir fram: margar flugfjaðrir
jafnlangar. Að fluglagi og flughraða var hann einna líkastur tjaldinum. En ekki
var hann eins stór og tjaldur, að minsta kosti ekki búkurinn. Nákvæmlega get ég
ekki lýst honum. Ég var á svo hraðri ferð, að ég gat ekki gefið mér tíma til að
veita honum frekara athygli.
Þann 17. þ. m. kom Guðmundur Ófeigsson[1] í
Fjalli til mín, — mjög vel greindur og gætinn maður, er hafði fyrir 10 árum
dvalið 5 ár í Laugarási. Ég spurði hann, hvort hann hefði ekki á þeim árum
séð einkennilega fugla. Hann sagðist hafa séð þá 3 eða 4 sinnum á þeim tíma.
Lýsti hann þeim með hvitri bringu og Ijósdökku baki, á stærð milli stelks og
tjalds, og að öllu leyti svo, að ég heyrði að hér var um sömu fuglategund að
ræða og ég hafði séð. Hann sá þá einusinni í hveralæknum (synda eða vaða?). En
í honum er að jafnaði ekki nema 30-40 stiga hiti. Rödd þeirra hafði hann heyrt.
Hún líktist einna helzt veiku urghljóði.
Þann 18. þ. m. (í gær) fór ég aftur að
Laugarási til að forvitnast um fuglinn. Þá sá ég hann þar ekki. Ég spurði
fólkið í Laugarási, hvort það hefði séð þesskonar fugla. Það hafði heyrt til
þeirra undanfarna daga, en ekki veitt þeim frekar eftirtekt. Þó sagði
vinnumaður, að hann hefði séð þá koma 2 saman framan yfir Hvítá fyrir fám
dögum. Lýsing hans var hin sama og hjá mér að öðru en því, að hann sagði þá
hafa hvítan kraga um hálsinn. — Gísli bóndi[2],
sem nú hefir búið 6 ár í Laugarási, veit ekki til, að slíkir fuglar hafi komið
þangað á þeim árum, fyr en nú. En hann hét að veita þeim eftirtekt og láta mig
vita, ef hann sæi þá eftirleiðis.
Það er einkum einkennilegt við þessa fugla,
að þeir eru svo sjaldséðir hér. Vera má raunar að þeir komi oftar en eftir er
tekið, Maður verður að hafa allan hugann við nauðsynjar daglega lífsins, en
leiða hjá sér alt er fjær liggur, og má ekki ámæla manni fyrir það. En þar eð
þessi fuglateguhd er ókunn hér, mundi mörgum þykja gott að „Suðurland“
útvegaði upplýsingar um hana: Hvað hún heitir og hvar hún á heima og hvernig
hún hagar ferðum sínum o. fl. o. fl.
Iðu 19. janúarm. 1913
Páll Jónsson. [3]
-------------
Mér hefir verið gefinn kostur á að lesa
framanritaða lýsingu á fugli þessum, áður en hún var send „Suðurlandi“, - og
held ég að hér sé ekki um annan fugl að ræða en þann, sem á dönsku nefnist „Vibe“,
á latínu „Vanellus cristatus" og þýðir „cristatus“fugl, sem hefir kamb eða
fjaðratopp á höfði. Á íslenzku nefnist hann „ísakráka“, og bendir það á,
að fuglinn oftast hefir sést hér að vetrinum til, eins og líka hefir átt sér
stað núna. Annað íslenzkt nafn er „Vepja“, sem auðsjáanlega er búið til
úr „Vibe“, og er líklegt að Jónas Hallgrímsson á sínum tíma hafi gert það.
Ísakrákan er mjög fallegur fugl. Ennið og
fjaðrakamburinn sem beygist dálítið fram, framhálsinn, efri partur brjóstsins
og vængjafjaðrirnar, er alt gljáandi svart; á bakinu eru fjaðrirnar dökkgrænar með
purpurag!já, bringu- og hálshliðarnar hvítar; nefið svart og fæturnir
dökkrauðleitir. Á vetrin er framhálsinn hvítleitur og bakfjaðrirnar gulkantaðar.
Lengdin er kringum 13".
Fuglategund þessi á heima í Norðurafríku,
Suðurasíu og allri Evrópu, en verpir ekki norðar en 60° og því ekki á Íslandi. Í
Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en þó einkum á Hollandi, er fugl þessi mjög
algengur og kemur fyrstur allra farfugla á vorin til þess að verpa. Snemma í
apríl verpir hann 4 eggjum á stærð við lóuegg og mjög lík þeim; þau eru
mesta sælgæti, ennþá bragðbetri en Kríuegg, en aftur á móti er kjötið
ekki gott.
Fæðan er helzt maðkur og skorkvikindi eins
og hjá mörgum öðrum vaðfuglum, ennfremur einstaka jurtategund ef þröngt er í
búi.
Þótt ísakrákan eigi ekki heima hér á landi,
flækist hún þó ekki svo sjaldan hingað, helzt á haustin og vetrin. Haustið 1875
sáust nokkrir fuglar í Grímsnesinu og haustið 1876 var einn (karlfugl) skotinn
í Mosvallahreppi í Ísafjarðarsýslu. 1. jan. 1877 var einn (kvenfugl) tekinn
lifandi í heygarði hér á Eyrarbakka, mjög aðfram kominn af sulti og kulda, og
var hann drepinn samdægurs. Í maganum var ekkert annað en fáeinir smásteinar.
Snemma í janúar 1879 kom hann í stórhópum og hélt sér um tíma við sjó hér
sunnanlands. 2. febr. 1882 sáust 5 í Ölfusinu og var einn skotinn. 7. des. 1889
var einn (kvenfugl) skotinn hér við Eyrarbakka. Ennfremur var einn skotinn í
Ölfusinu 17. febr. 1895 og seint í febrúar s. á. sáust þrír við Eyrarbakka.
Áttunda marz 1901 sást einn við Stokkseyri og í miðjum desember s. á., hélt
lítill hópur til við Gamlahraun. 6. marz 1907 var ungur karlfugl skotinn við
Eyrarbakka og 17. jan. 1912 fanst einn með brotinn væng hér í þorpinu, hefir að
líkindum flogið á símaþræðina. Norðanlands sést ísakrákan ein staka sinnum í
janúar og febrúar og hefir etatsráð Havsteen skotið hana 1877, 78 og 79.
P. Nielsen[4].
[1] Guðmundur Ófeigsson
Árið 1902 voru komin í
Laugarás: Guðmundur Ófeigsson (1865-1943) og kona hans Guðríður
Erlingsdóttir (1861-1936) með börn sín: Jóhann (1896-1904), Sigríði
(1897-1980), sem varð síðar húsfreyja í Núpstúni í Hrunamannahreppi, Jón
Erling (1899-1985), sem varð síðar bóndi á Galtastöðum og Vilborgu
Þuríði (1900-1987), sem varð síðar húsfreyja í Reykjavík.
Guðmundur og
Guðríður höfðu þá verið á Fjalli á Skeiðum en síðar bjuggu þau á Galtastöðum í
Gaulverjabæjarhreppi. Þau voru í Laugarási til ársins til 1908 og Guðmundur var
þar bóndi fyrstu tvö árin, en síðan bar hann titilinn húsmaður. (laugaras.is)
[2]Gísli og Sigríður (mynd úr Litla Bergþór)
Árið 1907 voru komin í Laugarás Gísli Guðmundsson
(1876-1959) bóndi og Sigríður Ingvarsdóttir (1882-1972) kona hans með
soninn Erlend (1907-1997).
Annað barn þeirra
Gísla og Sigríðar fæddist í Laugarási árið 1909 og hlaut nafnið Jónína
Þorbjörg (1909-1979).
Gísli og Sigríður fluttu úr Laugarási 1916 í Úthlíð og Hrauntún í Bisk.
Erlendur varð bóndi í Úthlíð og sjómaður og síðar bóndi í Dalsmynni. Hann
eignaðist Hrein, Eyvind, Örn, Sigrúnu og Eddu með konu sinni Guðrúnu
Guðmundsdóttur.
Jónína varð húsfreyja í Úthlíð, og eignaðist Gísla, Ingibjörgu, Björn, Sigrúnu,
Kristínu, Jón Hilmar og Baldur, með eignmanni sínum Sigurði Tómasi Jónssyni. (laugaras.is)
[3] Páll Jónsson
Páll var “vegagjörðamaður”
og sá um uppsetningu dragferjunnar á Hvítá hjá Iðu árið 1903.
Skömmu eftir að
ferjan hafði verið sett upp, drukknaði bóndinn og ferjumaðurinn Runólfur
Bjarnason við notkun hennar. Frá þessu slysi var sagt í Þjóðólfi og Skúli Sæland, sagnfræðingur
skrifaði grein í Litla Bergþór 1. tbl. og 2. tbl, 2018.
Eftir lát Runólfs
hélt ekkjan, Guðrún Markúsdóttir áfram búskap á Iðu og Páll Jónsson, sem hafði
sett upp dragferjuna, kom til hennar sem fyrirvinna (starfsheiti í
sóknarmannatali). (laugaras.is)
[4] P. Nielsen
Peter Nielsen (fæddur 27. febrúar 1844 í Ringkøbing, dáinn 9. maí 1931 í Reykjavík)
var veðurathugunarmaður í Húsinu frá 1880 til 1911 og faktor (verslunarstjóri) við dönsku
verslunina á Eyrarbakka. Hann ástundaði náttúrufræðilegar athuganir víðsvegar um
Suðurland og var frumkvöðull í fuglavernd á Íslandi. Safn uppstoppaðra
íslenskra spörfugla gaf hann barnaskólanum á Eyrarbakka.
(Wikipedia)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli