f.v. Ásmundur Benidiktsson, Guðmundur Jónsson og Páll Guðmundsson. Því miður hef ég ekki fundið myndir af konum, sem þarna koma við sögu og skipta miklu máli. |
Nú ætla ég hinsvegar að skoða leiðina sem forfeðurnir fóru til að mynda afa á Baugsstöðum, Pál Guðmundsson.
Það vill svo til, að ég er áður búinn að skrifa nokkuð um þetta viðfangsefni, annarsvegar í tilefni af því, að ég tók á móti frænda mínum frá Kanada fyrir fimm árum. Hann heitir Jón Ásmundsson (John Asmundson). Þau skrif má finna hér: Jón frændi Þarna er að finna allmikið um Ásmund Benidiktsson og Sigurlaugu Jónsdóttur sem fluttu í Haga í Gnúpverjahreppi frá Stóruvöllum í Bárðardal. Hinsvegar sá ég ástæðu til að fjalla um þetta fólk þegar ég kom að Fjalli á Skeiðum fyrr í sumar og fór þá að afla mér upplýsinga um tengsl ættmennanna við þann bæ. Þá umfjöllun má finna hér: Tengslin við Fjall á Skeiðum
Þar sem ég er búinn að gera Þingeyingunum nokkuð góð skil að ég held, með skrifunum sem ég vísa til hér að ofan, mun ég einbeita mér að langafa, Guðmundi Jónssyni og hans sögu, þar til þau Guðný voru komin sem hjón á Baugsstaði.
Einhver ykkar muna kannski það sem fram kom í þessum þætti. Þar kemur það fram, í sem stystu máli, að árið 1788 keypti Einar Jónsson (1719-1796) hálfa Baugsstaði. Við þessum helmingi tók síðan sonur hans, Jón Einarsson (1765-1824). Jón var kvæntur Sesselju Ámundadóttur (1778-1866). Þau eignuðust dótturina Margréti (1804-1897). Margrét giftist Jóni Brynjólfssyni (1803-1873) á Minnanúpi í Gnúpverjahreppi og þau eignuðust síðan, meðal margra annarra barna, Guðmund Jónsson (1849-1918). Einmitt, þar var kominn langafi minn og einnig skýringin á því að fólk ofan úr Gnúpverjahreppi settist að í vesturbænum á Baugsstöðum.
Tengsla Guðmundar Jónssonar við Baugsstaði, verður fyrst vart í kirkjubókum Gaulverjabæjarsóknar árið 1861, en þá er hann, 13 ára gamall, talinn til heimilis í vesturbænum, hjá ekkju sem þar bjó Guðrúnu Guðmundsdóttur (45) og Jóni Einarssyni (39) fyrirvinnu. Þau kom ekki frekar við sögu þessa, Guðmundur var vikadrengur og síðan hjú til 17 ára aldurs, þarna í vesturbænum í 5 ár. Það vekur athygli mína, að hann er einnig talinn til heimilis hjá foreldrum sínum á Minnanúpi á þessum tíma, sem helgast væntanlega af því, að prestarnir skráðu þessar upplýsingar á mismunandi tímum.
Víkjum sögu í Gnúpverjahreppinn aftur. Það var fremur rólegt yfir heimilinu á Minnanúpi og í mörg ár gerði fólk þar ekki annað en bæta við sig árum í samræmi við það hvernig tíminn leið.
Árið 1870 Þegar Guðmundur var 22 ára og enn í foreldrahúsum, fluttu þau Ásmundur Benidiktsson (43) og Sigurlaug Jónsdóttir (41) norðan úr Bárðardal með 7 börn sín. Meðal þeirra var Guðný Ásmundsdóttir, þá 18 ára. (Elsta barn þeirra, Benedkt Ásmundsson, var ekki skráður með fjölskyldunni þarna).
Það má ljóst vera að þarna voru þau Guðmundur og Guðný á þeim aldri þegar fólk er farið að skoða umhverfið í leit að maka, Nema hvað. Verðum við ekki að gera ráð fyrir því, að þau hafa fljótlega vitað hvort af öðru, en kirkjubækurnar eru fremur fáorðar um samdráttinn - nefna hann ekki einu orði.
Guðmundur, þá orðinn 28 ára, birtist loks sem vinnumaður í Haga, þar sem Guðný var enn hemasæta (25). Hann er svo þarna í Haga næsta ár og tilhugalífið sjálfsagt að komast á annað stig, enda birtist færsla í sóknarmannatalinu árið 1879, þar sem Guðný og Guðmundur eru skráð sem hjón, meira að segja "geðug hjón". Hann var þrítugur en hún var 26 ára.
Árið eftir (1880), er Guðmundur húsmaður í Haga, Guðný er kona hans, og fæddur sonurinn Siggeir, þann 10. júní. Allt eftir bókinni, sem sagt. Árið eftir, 14. mars, eignuðust hjónin annan son sem hlaut nafnið Ásmundur. Hann var skírður þann 14. mars, 1881. Hann virðist hafa dáið á fyrsta ári, en þess er ekki getið í prestþjónustubók.
Flutt að Baugsstöðum
Svo var það árið 1882 sem Guðmundur (33) og Guðný (29) fluttu í vesturbæinn Baugsstöðum ásamt syninum Siggeir (3).
Svona eignaðist Guðmundur Jónsson vesturbæinn á Baugsstöðum:
Guðni Jónsson segir svona frá því hvernig vesturbærinn á Baugsstöðum erfðist milli kynslóða í ritinu Bústaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi:
Helming Einars Jónssonar erfði einkasonur hans, Jón hreppsstjóri Einarsson á Baugsstöðum, en eftir hann ekkja hans Sesselja Ámundadóttir, og seinni maður hennar Þorkell bóndi Helgason, að nokkru, en að sumum hluta Einar bóndi í Hólum, sonur Jóns hreppsstjóra Einarssonar. Hluta Einars í Hólum erfði Bjarni, sonur hans, en hluta Sesselju og Þorkels erfði dóttir hennar, Margrét Jónsdóttir á Minna-Núpi.Báða þessa parta eignaðist sonur Margrétar, Guðmundur bóndi Jónsson á Baugsstöðum með erfð og með kaupi. Árið 1910 eru þáverandi Baugsstaðabændur Guðmundur Jónsson og Jón Magnússon eigendur jarðarinnar, En núverandi bændur þar [1952], Páll Guðmundsson og Ólafur Gunnarsson, uppeldissonur Jóns Magnússonar, eiga nú jörðina, sinn helminginn hvor. Baugsstaðir hafa þannig að mestu leyti haldist í eigu sömu ætta, síðan þeir urðu aftur bændaeign fyrir meira en 160 árum."
Næst verð ég aftur á Baugsstöðum og held áfram þar sem frá var horfið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli