06 nóvember, 2019

Skálholt: Hvað með klukkuna?

Svona hefst umfjöllun í mogganum 23. júlí, um atvik það sem varð við upphaf hátíðarmessu á Skálholtshátíð 2002:
KIRKJUKLUKKA í Skálholtskirkju féll niður og brotnaði við upphaf hátíðarmessu í lok Skálholtshátíðar um miðjan síðasta sunnudag. Þrír boltar sem héldu klukkunni uppi gáfu sig og heyrðist mikill dynkur þegar klukkan, sem mun vera um 400 kg að þyngd, féll niður á gólf. Hátt á þriðja hundrað kirkjugesta var í kirkjunni og mun þeim hafa brugðið við dynkinn.
 Ég var þarna staddur, maður með hlutverk. Þegar verið var að hringja síðustu hringinguna, kvað skyndilega við mikill dynkur og maður gat alveg eins átt von á að það sem honum olli, kæmi hreinlega niður í gegnum loft kirkjunnar, en svo varð auðvitað ekki. Messan hófst og henni lauk.

Þarna hafði þessi klukka fallið eftir að boltar sem héldu henni höfðu gefið sig. Guttormur Bjarnason, meðhjálpari við messuna, að mig minnir, sagði í samtali við blaðamanninn:  "þegar hafi verið haft samband við fyrirtæki sem taka að sér að gera við slíkar klukkur og að ljóst er að gert verði við klukkuna.
Síðan eru liðin 17 ár og enn liggur klukkan þarna uppi í turni og bíður þess sem verða vill.

Nú er það svo að þessi klukka verður ekki flutt bara si svona niður úr turninum eins og hver maður getur ímyndað sér. Eina færa leiðin virðist vera, að fjarlægja hana með því að gera op á turninn og hífa hana niður með einhverju öflugu tæki. Síðan þarf að gera við hana, nú eða útvega nýja og hífa hana síðan inn í gegnum gatið áður en því verður lokað.  Ég skil vel að þetta hafi vafist fyrir fólki, enda staðnum  þröngur stakkur skorinn fjárhagslega
.
Auðvitað er hægt að ákveða bara að láta klukkuna liggja þarna áfram um ókomin ár, en í ljósi þess að þarna er um að ræða dómkirkjuna í Skálholti, finnst mér það ekki ásættanleg niðurstaða. Næst þegar ráðist verður í viðhalda á kirkjunni, sem kallar á aðkomu stórra krana, eins og t.d. þegar farið verður í að gera við þakið (svo tenórar Skálholtskórsins þurfi ekki að syngja undir regnhlíf í rigningartíð), ætti að leysa klukkumálið.  Um þetta þarf væntanlega að gera verkáætlun af einhverju tagi.

Þakið, eins veglegt og það nú er eða var, er farið að láta mjög á sjá og ég veit að fyrirhugað er, innan tiltölulega skamms tíma, að koma því í stand. Þá er upplagt að slá þar tvær flugur í einu höggi - jafnvel fleiri, enda löngu orðin þörf á að uppfæra og endurnýja þann búnað sem í klukkusalnum er.



Svo þarf að mála kirkjuna að utan og innan, síðan þarf að laga tröppurnar, og þá þarf að  ........

Skálholt: Hvað með bókasafnið?

Það er heilmikið bókasafn í turni Skálholtsdómkirkju. Það hefur verið sagt, að það sé verðmætara en svo að það verði metið til fjár, en ef það yrði reynt myndi upphæðin velta á tugum milljóna króna. Það má sjá umfjöllun um þetta safn í mogganum frá árinu 2014, en þar er rætt  við Kristján Val Ingólfsson, vígslubiskup.
Í sem stystu máli má segja, að þetta safn er, að stofni til bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar, sýslumanns Dalamanna. Athafnamaður í Reykjavík, Kári Borgfjörð Helgason keypti safnið árið 1962. Hann jók við það og lét gera ýmsar endurbætur á illa förnum safngripum. Kári seldi Þjóðkirkjunni bókasafnið árið 1965 og nú er Skálholtsstaður  eigandi safnsins og hefur verið í næstum 55 ár.  Því var komið fyrir uppi í kirkjuturninum í Skálholti, á tveim hæðum og þar er það enn.
Það þarf nú að fara að ákveða hvað á að verða um þetta bókasafn, sem keypt var til Skálholts fyrir þrjár og hálfa milljón króna árið 1965. Reyndar er framtíð þess rædd allmikið hér og þar, meðal annars innan Skálholtsfélagsins og fram hafa komið hugmyndir um hver æskileg örlög þess geti verið. Það finnst mér dálítið merkilegt, að þetta safn skuli hafa verið lokað uppi í kirkjuturni í ríflega hálfa öld. Hvernig má það vera, eiginlega?  Ætli í svarinu muni ekki felast fernt, í fyrsta lagi fjárskortur, í öðru lagi stjórnunarvandi á Skálholtsstað í þriðja lagi stöðugt veikari staða þjóðkirkjunnar í samfélaginu og í fjórða lagi almennur, dvínandi áhugi á bókum á tölvuöld. Sannarlega veit ég svo sem ekkert um þetta, en það má velta þessu fyrir sér.
Það vantaði ekki, á þeim tím þegar endurreisn Skálholts stóð sem hæst undir forystu Sigurbjörns Einarssonar, biskups, að hugmyndirnar voru háleitar fyrir hönd staðarins. Þegar bókasafnið hafði verið keypt sagði Sigurbjörn meðal annars:
Það þarf bókhlöðu fyrir þetta safn. Út í þetta er lagt í þeirri bjartsýni, að íslenzka þjóðin skilji, hvað hér er í húfi, fyrir hana sjálfa og fyrir Skálholt. Að hún skilji það í fyrsta lagi, að það verði að forða þeim vanza, að annað eins bókasafn og þetta hverfi úr landi. Í öðru lagi, að það beri að halda þessu safni saman, svo að sú vinna, sem í það hefur verið lögð, eyðileggist ekki. Og í þriðja lagi, að þjóðin skilji þá nauðsyn, að Skálholtsstaður eignist slíkt bókasafn.
Það var þá, en það bólar ekkert á bókhlöðunni.
Nú eru aðrir tímar og önnur viðhorf uppi, en safnið er þarna. Það liggur fyrir að það þurfi að flytja það úr turninum í önnur húsakynni í Skálholti. Þar þarf síðan að flokka það og grisja, vel og rækilega, þannig að þau rit sem teljast til gersema fái viðeigandi umönnum, en öðrum verði komið fyrir á staðnum í framtíðarhúsnæði, þau gefin eða þeim hreinlega fargað, eins og raunin virðist vera í æ meiri mæli í nútímanum.



Þegar safnið var keypt


Það er fróðlegt að lesa umfjöllun um aðdragandann að kaupum á safninu í byrjun árs 1965. Þar sýndist sitt hverjum, eins og gengur og gerist, en ég set hér fyrir neðan þrjú sýnishorn af því sem þarna var skrafað og skrifað.

Þjóðviljinn 3. febrúar, 1965

Bókasafn handa Skálholti

Fyrir nokkrum árum keypti kaupmaður einn hér í borg, Kári Helgason, bókasafn það sem Þorsteinn Þorsteinsson sýslumaður lét eftir sig. Hafa blöðin skýrt svo frá að kaupverðið hafi verið um tvær miljónir króna. Síðan hefur kaupmaðurinn aukið safnið, látið binda hluta af því, skrásetja það og hirða um það á annan hátt; og fyrir nokkru bauð hann það falt á nýjan leik, því svo segja lögmál efnahagslífsins að því aðeins sé fjárfesting skynsamleg að hún skili hæfilegum arði á sínum tíma og bækur eru auðvitað eins og hver önnur vörutegund. Hafa blöðin nefnt sex miljónir króna sem einskonar leiðbeiningarupphæð um það hvað safnið eigi nú að kosta.
Svo er að sjá sem hérlendir menn hafi ekki staðið í biðröð til þess að hremma safnið með sex miljónir króna í vasanum, þrátt fyrir alkunna velmegun í þjóðlífinu, því fyrir nokkrum dögum skýrðu blöðin frá því að nú væru allar horfur á því að safnið hyrfi af landi brott; erlendar menningarstofnanir í fjölmörgum þjóðlöndum — að vísu ónafnereindar — biðu þess með óþreyju að klófesta fenginn, hvað sem hann kostaði. Og fréttum þessum fylgdu áhrifamiklar greinar þess efnis að það væri þjóðarvoði, niðurlæging og smán að glata safninu úr landi; nú þyrftu landsmenn að sameinast um að kaupa menninguna af Kára Helgasyni.
Og eins og þegar sjónleikur er settur á svið af snjöllum leikstjóra birtist á örlagastundinni sá sem fer með aðalhlutverkið: biskupinn yfir Íslandi kom fram á sviðið og skoraði á þjóðina að skjóta saman fé og kaupa safnið handa Skálholti. Bað biskupinn menn að gera þetta af ræktarsemi við Skálholt og til guðsþakkar, auk pess „sem það væri þjóðarhneisa" að láta safnið fara úr landi.

En hvers vegna eru gerðar kröfur til allra annarra en Kára Helgasonar kaupmanns í þessu sambandi? Er þjóðarhneisa heimil ef menn hagnast á henni, og þurfa menn þá hvorki að hugsa um ræktarsemi né guðsþakkir? Hér á landi gilda lög sem banna að nokkur fiskstirtla sé seld af landi brott nema með leyfi hins opinbera; hvað er þá sjálfsagðara en að banna sölu menningarverðmæta úr landi í gróðaskyni nema með leyfi, ef slík lagaákvæði eru ekki þegar til? Og hvers vegna biður biskupinn alla aðra en Kára Helgason að gefa Skálholti safnið? Ráðlagði Kristur ekki ríka manninum að gefa eignir sínar til þess að öðlast fjármuni á himnum, og væri andvirði safnsins ekki mjög ákjósanleg gjaldeyriseign á þeim vettvangi? - Austri

Morgunblaðið 17. febrúar, 1965

Hvað get ég gert fyrir Skálholt?

MÁLEFNI Skálholtsstaðar hafa verið ofarlega á baugi með þjóðinni að undanförnu. Í Skálholti er nú risin vegleg kirkja, og aðrar framkvæmdir munu á eftir fylgja. Hinn forni höfuðstaður er að rísa úr rúst. Íslenzka þjóðin stendur í þakkarskuld við Skálholt. Hún er að miklu leyti ógreidd. Það er gott og blessað, að ríki og kirkja hafi frumkvæði og forgöngu um endurreisn Skálholts, en það væri hörmulegt til þess að hugsa, ef málstaður Skálholts ætti lítið sem ekkert rúm í huga hins almenna borgara. Það verður að játa það, að frændur okkar á Norðurlöndum hafa sýnt Skálholti meiri áhuga en við, sem eigum það í hjartastað landsins. Svo búið má ekki lengur standa. Metnaður okkar krefst athafna ekki síður en orða. Við eigum skuld og skyldur við fortíð og sögu.
Merkilegasta bókasafn Íslands á 17. öldinni var í Skálholti, bókasafn Brynjólfs Sveinssonar biskups og bókasafn biskupsstólsins. Bókasafn Brynjólfs biskups dreifðist í ýmsar áttir, sumt af því lenti í sjónum á leið til Danmerkur, handritasafn stólsins var að miklu leyti selt Árna Magnússyni fyrir litinn pening. Skálholt var svipt öllu, sem það átti — svo að segja — um aldamótin 1800, aldagamall arfur var að engu gerður.
Ekki tjáir að sakast um orðinn hlut, en hitt er sjálfsagt að bæta fyrir gamlar syndir, eftir því sem hægt er. Skálholt var til skamms tíma svartur blettur á samvizku þjóðarinnar, tákn niðurlægingar og vanrækslu. Í dag laðar Skálholt gesti að nýju, en betur má ef duga skal. Mörg verkefni bíða, sem betur fer.
Nú er rætt um að kaupa dýrmætt bókasafn til Skálholts. Það vantar fé til kaupanna. Er okkur svo fjárvant, að þetta sé ekki hægt? Á Skálholt ekki nógu marga vini, sem hafa vilja og getu til að leggja fram það fé, sem vantar? Ég trúi ekki öðru. Hvað segið þið Árnesingar, Rangæingar, Skaftfellingar, Vestmannaeyingar, þið sem búið sunnan Hellisheiðar og hvar sem er á landinu? Eigum við ekki að lyfta þessu taki? Það er ekkert Grettistak fyrir svo marga. Skálholti væri það í senn vegsemd og gagn að varðveita bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns og Kára Borgfjörð.
Menntastofnun rís í Skálholti, fyrr en varir, innlendir og útlendir menntamenn eiga eftir að gista staðinn ár hvert um lengri eða skemmri tíma. Gott bókasafn gefur fyrirheit um, að Skálholt geti að nýju orðið afl og hæli bóklegrar iðju. Bókasafn Þorsteins sýslumanns má ekki hverfa af landi brott. Eigum við ekki að sjá því borgið?

Skógum, 9. febrúar 1965 Þórður Tómasson.











Morgunblaðið 10. febrúar, 1965

Biskup festir kaup á bókasafni Kára fyrir 3½ milljón

Skálholtsfélagið leggur fram 600,000 þúsund

„ÞAÐ HEFUR verið gengið frá kaupum á hinu verðmæta bókasafni Kára Helgasonar til handa Skálholtsstað. Kaupverðið, sem samið hefur verið um, er 3½ milljón krónur. Að beztu manna yfirsýn og bókfróðra, þykir það ekki mikið verð. Kári hefur bætt geysilega miklu við safnið, frá því hann keypti það, látið binda fjölmargar bækur inn í gott band og látið skrá safnið að miklu leyti. Ég lýsi gleði minni yfir því, að Skálholtsstað hefur nú verið tryggt þetta verðmæta bókasafn, sem ég vona að verði staðnum til eflingar á komandi tímum".

Þannig mælti herra Sigurbjörn Einarsson, biskup, á blaðamannafundi í gær, þar sem hann skýrði þeim frá þessum tíðindum. Á fundinum var einnig mætt stjórn Skálholtsfélagsins, ásamt Kirkjuráðsmanninum Þórarni Þórarinssyni skólastjóra. Stjórn Skálholtsfélagsins hefur ákveðið að veita kr. 600.000,00 til þess að festa kaup á safninu úr félagssjóði. 
Biskup ávarpaði blaðamenn nokkrum orðum og mælti m.a. á þessa leið: „Ég hef áður lýst þeirri ósk minni og von, að hægt væri að ná þessu dýrmæta bókasafni til Skálholtsstaðar til að prýða og efla þann stað. Til þess að ná því marki voru engin önnur úrræði til, en að leita til þjóðarinnar um framlög. Ég hef lengi alið með mér þenna draum, sem nú er að rætast. Þetta bókasafn mun verða undirstaða að því mennta- og menningarstarfi, sem maður vonar að eflist með tímanum á Skálholtsstað.
Ég fylgdist með því, þegar safnið var nú boðið til sölu, og fékk loforð fyrir því, að sjá þau tilboð, sem í safnið bærust. Þegar þau voru opnuð, var helzt útlit fyrir að safnið yrði selt úr landi. Og þá varð eitthvað að gerast. Gerði ég þá þessa ósk mína heyrum kunna. Hef ég síðan átt samningaviðræður við eiganda safnsins, Kára B. Helgason og umboðsmann hans, Böðvar Kvaran. Og nú hefur sem sagt saman gengið, og kauptilboði mínu, 3½ milljón krónum verið tekið.
Eins og kunnugt er, hefur Kirkjuráð með höndum þau mál, sem snerta samninga. Rétt er að benda almenningi á þá staðreynd að gefnu tilefni, að Skálholt er að lögum sjálfseignarstofnun, sjálfstæður fjárhagsaðili. Og þótt hið árlega ríkissjóðsframlag, 1 millj. kr., sé auðvitað góðra gjalda vert, þá hrekkur það hvergi nærri til nauðsynlegra framkvæmda í Skálholti. Má í því sambandi t.d. benda á framkvæmdir til að ná í nægilegt neyzluvatn, svo að ekki sé minnzt á að bora eftir heitu vatni.
Kaupverð safnsins verðum við því að fá hið bráðasta og rúmlega það, því að eftir er að koma safninu fyrir og útvega því góða vörzlu. Það þarf bókhlöðu fyrir þetta safn. Út í þetta er lagt í þeirri bjartsýni, að íslenzka þjóðin skilji, hvað hér er í húfi, fyrir hana sjálfa og fyrir Skálholt. Að hún skilji það í fyrsta lagi, að það verði að forða þeim vanza, að annað eins bókasafn og þetta hverfi úr landi. Í öðru lagi, að það beri að halda þessu safni saman, svo að sú vinna, sem í það hefur verið lögð, eyðileggist ekki. Og í þriðja lagi, að þjóðin skilji þá nauðsyn, að Skálholtsstaður eignist slíkt bókasafn. Við höfum fram til þessa enga ástæðu til annars en bjartsýni. Viðbrögð almennings hafa þegar verið jákvæð, og nægir að benda á samskot stúdenta í íslenzkum fræðum og ýmislegt fleira, sem fram hefur komið. Þetta hefur verið á algeru byrjunarstigi, en nú tekur annar þáttur við. Stjórn Skálholtsfélagsins, sem mætt er á þessum fundi hefur ákveðið að hefja fjársöfnun með því að leggja fram úr sjóði félagsins, sex hundruð þúsund krónur. Þetta er söfnunarfé, sem stjórnin hafði beðið átekta með að ráðstafa. Þessi upphæð gerir Skálholti kleift að festa bókasafn Kára í sinni eign. Stjórn Skálholtsfélagsins hefur ákveðið að beita sér fyrir fjársöfnun meðal almennings í því skyni að greiða safnið allt. Sú söfnun verður héðan í frá nefnd SKÁLHOLTSSÖFNUN. Sú, söfnun á að innheimta það fé, sem almenningur í landinu ætlar sér örugglega að leggja Skálholtsstað til sérstaklega með tilliti til þessa máls.
Væntum við þess, að þetta framlag félagsins verði öðrum góðum og hollum félögum hvatning.
Ég vil sérstaklega taka fram, að eigandi safnsins, Kári B. Helgason, hefur verið mjög þægilegur og sanngjarn í öllum viðræðum. Hann hefði að vísu getað gert sér meira úr því peningalega, á öðrum vettvangi, en það var einlæg ósk hans að safnið hyrfi ekki úr landi.
Það er áformað að byggja skólastofnun í Skálholti, og þá stofnun hefði vantað bókasafn og lestrarsal, og leiðir þá að sjálfu sér, að safnið fái þar verðug húsakynni.
Það er ósk mín og von, sagði biskup að lokum, að almenningur skilji þörfina á þessu safni til handa Skálholti, og þá er víst, að ekki mun langur tími líða, þar til safnazt hefur upp í andvirði þess".

-------------------------------------------------------
Myndirnar sem hér eru birtar tók ég í og úr turni Skálholtsdómkirkju þann 5. nóvember.  Þá er ein mynd sem birtist í mbl. þegar blaðamannafundur var haldinn til að greina frá kaupum á bókasafninu

04 nóvember, 2019

Þorrablót Þorvaldsdætra á blómatíma hressleikans

Þorvaldsdætur 2010, f.v. Dröfn, Auður, Sóley, Pálína (Palla)
Sú var tíð, að Þorvaldsdætur höfðu þann sið að skiptast á að halda þorrablót á heimilum sínum. Sú var tíð, en síðan eru nú liðnir einir þrír til fjórir áratugir og margt hefur breyst, eins og gengur.
Það var þó nokkuð gert úr þessum samkomum, matarborð svignuðu, það var sungið og trallað og flutt skemmtidagskrá og þar fram eftir götunum. Jú, það voru allir í stuði.

Á þorra árið 1991, þegar eyðimerkurstormurinn "Desert Storm" gekk yfir á Arabíuskaganum, Heklugos stóð yfir og eitt mesta fárviðri í manna minnum gekk yfir á Íslandi, var þorrablót Þorvaldsdætra haldið í Kópavogi.

Við fD vorum bara flott á því og fengum okkur hótelherbergi á Holiday Inn í Sigtúni og þar samdi ég, það sem ég taldi að gæti talist einhverskonar skemmtiatriði á samkomunni. Samsetningur þessi rataði síðan í hendurnar á mér nú fyrir skömmu. Til þess að þessi andans arfur úr fortíðinni glatist nú ekki, set ég hana hér inn.

Annarsvegar er um að ræða kveðskap undir Pálshætti, sem ég kalla svo og í kjölfarið fylgir prósaljóð.

Það þykir víst þjóðlegt og flott.


Það þykir víst þjóðlegt og flott
og þjóðinni ekki til ama
að þykjast ver' að geraða gott
en, Guð minn, bara´ öllum er sama.

Það þykir víst þjóðlegt og flott
og þekkilegt flestöllum konum,
að kreista fram karlmannlegt glott
og kalla fram virðing hjá sonum.

Það þykir víst þjóðlegt og flott
þó þrælar það fái' ekk'i að reyna,
á hóteli að hafa það gott,
ja, helvíti, já það ég meina.

Það þykir víst þjóðlegt og flott
en þekkir samt ekki þjóðin,
að gantast og gera sér gott
og glettast við Þorvaldsfljóðin

Ég ákvað að birta ekki tvö erindi samsetningsins þar sem ritskoðun aldurs og reynslu telur þau ekki birtingarhæf.


Svo er það prósaljóðið:

Nú, þegar ...


, þegar sólargeislarnir eru að safna kröftum fyrir vorið,
, þegar lömbin eru að gerjast í mæðrum sínum,
, þegar þjónar stríðsguðsins mæta örlögum sínum í eyðimörkinni,
, þegar tilvonandi landsfeður reyna að gera sig gáfulega í fjölmiðlum,
, þegar gróðurinn vaknar austur í Biskupstungum í skini gervisóla,
, þegar árið 1991, ár eldgosa, jarðskjálfta og stórstyrjalda er nýhafið,
hittast Þorvaldsdætur í makindum með slekti sínu
og blóta þorra, eins og ekkert hafi í skorist.
Ekki nema það þó.


Já, það eiga allir sína sögu. 😉

27 október, 2019

Doktoraþorpið bætir í

Ég hef ekki lagt á mig að fara út í einhverjar samanburðarrannsóknir til að komast að því hvort fjöldi langskólagengins fólks er meiri í Laugarási en í öðrum byggðarlögum, enda engin þörf á slíku. Það breytir því ekki, að mér finnst áhugavert að fylgjast með því hve mörg Laugarásbörn hafa lokið doktorsprófi í einhverri vísindagrein.  Þegar ég tók þetta saman að gamni mínu fyrir fimm árum sýndist mér að frá því í kringum aldamótin hefðum við eignast sex doktora. Ég gerði lítillega grein fyrir þessu í þessari færslu:


Þessum hópi tilheyra þessi:
Helga Gunnlaugsdóttir frá Brekkugerði, 1997
Eiríkur Sæland frá Sólveigarstöðum, 2002,
Tómas Grétar Gunnarsson frá Asparlundi, 2005
Guðbjört Gylfadóttir frá Launrétt 2, 2010
Atli V. Harðarson frá Lyngási, 2013
Þorvaldur Skúli Pálsson frá Kvistholti 2014.


Síðastliðinn föstudag bættist sjöundi doktorinn í hópinn, þegar Elín Ingibjörg Magnúsdóttir frá Hveratúni varði doktorsritgerð sína við háskólann í Uppsölum. 
Peripheral Regulation of Pain and Itch, kallar hún þetta verk. Að því er mér skilst, þá rannsakaði Elín hvaða áhrif breytingar á/í frumum geta haft á verki og kláða. 

- - - - - - - 

Nú má velta fyrir sér ástæðum þess að svo margir Laugarásbúar hafa kosið sér þetta hlutskipti og það gerir bara hver fyrir sig, þar á meðal ég.  

Ég er auðvitað stoltur fyrir hönd afkomenda Guðnýjar og Skúla í Hveratúni yfir því, að í þessum hópi eru þrjú barnabarna þeirra, þau Eiríkur, Þorvaldur Skúli og Elín.


Elínu og fjölskyldu hennar færi ég hamingjuóskir á þessum tímamótum.


23 október, 2019

Hvernig flutt var yfir á

Það var ástæða fyrir því að mér kom í hug þessi gamla gáta í dag:

Hvernig flutt var yfir á
úlfur, lamb og heypokinn?
Ekkert granda öðru má,
eitt og mann tók báturinn.

Það var nú ekki svo, að þarna væri um stórkostlega samanburðarhæft tilvik að ræða - miklu einfaldari þraut blasti við okkur fD og í sem stystu máli, þá féllum við á því prófi og það með glans.

Nú segi ég bara söguna nákvæmlega eins og hún varð til í raunheimum.

Dekkjaskiptin

Það er komið fram í síðari hluta október og allra veðra von. Því var tekin ákvörðun um að panta tíma í dekkjaskipti á Vélaverkstæði Guðmundar og Lofts á Iðu, en Iða er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Kvistholti og milli þessara tveggja staða rennur Hvítá hjá Iðu og til að komast á milli er ekið eða gengið yfir Hvítárbrú, sem opnuð var 1957 og hefur þjónað okkur vel og dyggilega síðan.
Ég pantaði sem sagt tíma í dekkjaskipti fyrir heimilisbílana tvo. Já, þeir eru tveir. Ekki má nú víst minna vera, á þessum tímum umhverfismeðvitundar.
Tíma fékk ég í dag og mátti koma öðrum bílnum yfir ána í morgun, en síðan kæmi ég bara með hinn þegar sá fyrri yrði klár. Þetta hljómaði allt afskaplega einfalt.
Ég ók svo Qashqai sem leið lá yfir ána að Iðu í morgun (eftir að hafa verið búinn að steingleyma þessum tíma og eftir að fD hafði með einhverjum hætti munað eftir honum) og skildi hann þar eftir hjá Lofti, sem kvaðst myndu hringja í mig þegar dekkjaskiptum væri lokið. Þessa sömu leið ók fD á Yaris sínum til þess að ég þyrfti ekki að ganga heim í ísköldum norðaustan strekkingnum. Þegar ég hafði skilað Qashqai af mér héldum við heim aftur til að sinna því sem sinna þurfti. 
Leið nú nokkur tími, en þá hringdi Loftur og kvað vera kominn tíma til að skipta á bílum. 
Þar með settumst við fD upp í Yaris og ókum sem leið lá, yfir ána, að Iðu. Þar tók ég við Qashqai og við skildum Yaris eftir og fD fékk far með mér heim þar sem við hófum aftur að sinna því sem sinna þurfti. 
Á tilsettum tíma héldum aftur út yfir á að Iðu, á Qashqai og nú til að ná í Yaris. Hann var tilbúinn þegar við komum þangað og við gengum frá málum áður en við héldum heim, yfir ára, enn til að sinna því sem sinna þurfti og sinna þarf.
Þarna voru báðir heimilisbílarnir komnir heim í hlað, tilbúnir til vetraraksturs. 
----------------------------------------------------------------

Á einum timapunkti í þessu ferli laust mig í höfuðið sannleikurinn um ótrúlega hugsanaskekkju sem við höfðum bæði gerst sek um.  
Hver var hún?  

Rétt er að geta þess, að  annað okkar ekur báðum heimilisbílunum, en hitt aðeins öðrum.
Einnig er rétt að geta þess, að hvorugt okkar, tel ég, yrði metið vera komið með einhverskonar aldurstengdan kvilla í höfðinu.


20 október, 2019

Ég vissi það reyndar alltaf.....

Bubba og Valdi með dætrum sínum árið 2000
f.v. Pálína, Auður, Dröfn og Sóley 
...að ég væri einhverskonar snillingur. Þannig hefur mér stundum þótt ég vera bara nokkuð glúrinn á ýmsum sviðum, en síðan gleymt því jafnharðan. Síðan tínist eitt og eitt snilldarverkið upp úr lúnum skúffum, þar sem það hafði þá legið í einhverja áratugi, grafið og gleymt.
Svo er um þetta sem ég ætla nú að skella hér inn til varðveislu í skýinu, hvað svo sem er nú á það að treysta.

Tengdaforeldrar mínir þau Guðbjörg Petrea Jónsdóttir (Bubba)(1920-2005) og Þorvaldur Runólfsson (1920-2007) náðu áttræðisaldri aldamótaárið 2000.
Fyrir veisluna, sem Bubbu var haldin þessu tilefni, æxlaðist það svo, að mér var falin einhverskonar veislustjórn, sem ég tók auðvitað alvarlega, rétt eins og allt sem ég tek mér fyrir hendur. Svo alvarlega tók ég þetta hlutverk mitt, að ég samdi mikla drápu, sem átti í upphafi að fjalla um ævi  afmælisbarnsins, en gerði það svo ekki í raun, undir  bragarhætti sem ég held ég kalli bara Pálshátt og sem gæti orðið góð fyrirmynd mörgu ungskáldinu.
Hvað svo sem má um það segja, þá kemur hér drápan/bragurinn/ljóðið, eins og hún/hann/það fannst neðst í gamalli kommóðuskúffu:

1. þáttur

Kópavogur, þar sem kúrir hver við sitt,
þangað fór ég til að nálgast mitt.
Sú ferð var farin fyrir löngu.

Fyrir góðum fjórðungi aldar ég fann
það fljóð er til fylgdar mér ég vann
og foreldrarnir fylgdu með.

Sína framtíð saklaus sveitapiltur síðan skóp
með sendibílstjóranum og afgreiðslustúlkunni í Kóp
og yngstu dótturinni á bænum.

Eldri systur, ekki færri en eina' og tvær
sá ég síðla kvölds í gær
á heimleið af ónefndum stað, - en ekki meira um það.

Guðbjörg Petrea gengur hér um sali
svo hnarreist að það tekur engu tali
og skemmtir sér.

Hvert örstutt spor á ævilöngum vegi
færði hana fram að þessum degi.
Átta tugir ára eru að baki - sem er bara vel af sér vikið.

Sögu hennar segja má svo gjörla
því í ljóði þessu má engan veginn örla
á rangfærslum af neinu tagi.

Um æði margt í lífi hennar veit ég ekki
og er rangt fer með þá kastast mun í kekki
milli mín og áðurnefndra Þorvaldsdætra.

Upp skal þó dregin mynd af lífi
þó ekki teljist nákvæm öllum lýði
og jafnvel í mörgum atriðum röng.

Verði svo, þá vil ég fá að heyra
og ekki mun þá kveða um það meira
Nú er tíminn til að stöðva þennan lestur finnist mönnum nóg komið af svo góðu.

2. þáttur

Bubba fór í bæinn og Bubba fór í búð.
Hún valdi Valda og varð þá stillt og prúð.
Með honum hefur arkað æviveg
og arkar enn, svo undur skemmtileg.

Fyrir lá að fara´ í gegnum lífið,
en ekki veit ég hvort það fékk á vífið
að eignast dætur, eina, tvær og þrjár og fjórar,
sem allar eru orðnar stórar.

Gestir myndu ganga héðan burtu
og geysast heim og fá sér kalda sturtu,
ef bragur yrði borinn hér á borð
um dætur upp á fleiri þúsund orð.

Bíða mun slíkur bragur betri tíma,
enda mikil ógnar ofboðs glíma.
Eflaust mun hann aldrei ná í höfn,
Auður, nei Sóley, nei Palla, nei Dröfn.    (þetta var oft viðkvæðið hjá Bubbu þegar hún var að ávarpa einhverja dætranna)

Hvert örstutt spor í átt á Álfhólsvegi
var örstutt spor í átt að þessum degi.
Verkið dætra virtist ekki létt
og yfirborðið sýndist fellt og slétt.

Undirbúning hófu allar fyrir löngu
um höf og lönd var staðið mjög í ströngu.   (ein dætranna bjó í Danmörku)
Um málið var talað og talað og talað,
og talað og talað og talað og talað.

Í dag er stund, í dag er tími góður
til að fagna traustri tengdamóður,
með flatkökum og frómas fylltum maga
og iðrumst síðar, það er önnur saga.

Til lukku með lífið, frú mín góð,
hér læt ég flakka þetta fagra ljóð.
Áfram munum bera lífsins okið
en ljóðinu er, í það minnsta, hér með lokið.

------
Ég segi ekki meira!

15 október, 2019

Söngferð í suðausturátt.

Ferðalangarnir í Vecsés
Sökum þess að ýmislegt er og hefur verið í gangi hjá þessum pistlaskrifara að undanförnu og er enn og verða mun, ef að líkum lætur, hefur hann ekki fundið nauðsynlegan tón til að setjast yfir þennan miðil um tíma. Nú skal hinsvegar láta á það reyna hvernig til tekst.
Þessi pistlaskrifari er auðvitað ég.

Það eru mál sem tengjast fyrirhuguðum breytingum á lífsháttum, lífsskilyrðum og bara lífinu svona almennt hjá okkur fD, sem hefur átt hug minn allan að undanförnu, en um það hef ég kosið að fjalla ekki á þessum vettvangi, enda vandséð hvernig best væri að taka á þannig málefnum, fyrir utan það, að þar er um að ræða mál sem ekki eiga endilega að rata á vettvang sem þennan.
Ég hyggst hinsvegar gera því öllu skil þegar sá tími kemur.

Heimsóknin til Orbans.

Dagana 5. - 10. þessa mánaðar tók ég þátt í einkar ánægjulegri ferð Skálholtskórsins til Ungverjalands. Það var eiginlega alveg kominn tími á að þessi kór sleppti fram af sér beislinu með þessum hætti, en ég fór í síðustu ferð af þessu tagi haustið 2008, þegar Guð var beðinn að blessa Ísland og allt það var í gangi. Síðan hefur margt gerst í kórþátttökumálum mínum: ég hætti ósáttur í nokkur ár, en svo rann smám saman af mér og ég byrjaði aftur. Svona getur þetta verið.

Jæja, það er þessi ferð til Búdapest í Ungverjalandi.
Ég ætla mér ekki að skrifa sögu hennar hér í neinum smáatriðum en kannski geta nokkurra þátta með aðstoð mynda. Mér myndi hugnast það vel ef aðrir sem þarna voru á ferð myndu nú skrásetja það sem þarna fór fram.
Vinstri neðst: Jón Bjarnason kórstjóri.
Hægri efst Csaba Oppelt, fararstjóri
Það sem mér finnst einna mest til um ferðina, fyrir utan auðvitað félagsskapinn, sönginn og fleira, var fararstjórinn okkar, Csaba Oppelt; Ungverji sem sem talar glimrandi íslensku  og afskaplega vel að sér um ungversk málefni. Þarna var á ferð þægilegur maður, sem hafði alltaf stjórn á hlutunum án þess nokkurntíma að sýna annað en ljúft viðmót. Mér fannst ég einu sinni sjá á honum örlítil streitumerki, en það var þegar við þurftum að ganga talsverðan spotta í myrkri, til að ná í næstu lest sem kæmi eða kæmi kannski ekki, til að flytja okkur frá bænum Vecsés sem er í rúmlega 20 km fjarlægð í suðaustur frá Búdapest. Auðvitað fór það allt vel, enda kórfólk, fylgdarsveinar og meyjar allt hið prúðasta og ábyrgasta fólk.  Csaba stóð sig afar vel, sem sagt.

"Meðan birgðir endast"
Fyrir utan þessa dagsferð til Vecsés lá leið einn daginn norður með Dóná. Sú ferð hafði verið kynnt okkur með þessum hætti:
Ferð í Dónárdalinn, meðal annars farið á flottan veitingastað þar sem boðið er upp á villibráð af ýmsu tagi. Drykkir innifaldir að vild.  Ekki vitað hve langan tíma þessi ferð mun taka en við komumst að því – meðan birgðir endast allavega J 
Mér finnst einhvern veginn að þetta feitletraða hafi einna helst gripið athyglina, en ekki verður því haldið fram að fólk hafi beinlínis oltið inn í rútuna að aflokinni dvöl þarna í Visegrád.

Hetjutorgið í Búdapest
Að öðru leyti dvaldi hópurinn í Búdapest í góðu yfirlæti, bæði með skipulagðri skoðunarferð um merkustu staði borgarinnar og á eigin vegum. Ég tek það auðvitað fram, að við fD fórum EKKI í verslunarmiðstöð þar sem við hefðum vísast getað keypt okkur farsíma á þriðjungi þess verðs sem tíðast á norðuslóðum. Svona staðir höfða bara ekki til mín, hafa ekki gert og munu sennilega aldrei gera. Við erum meira upptekin af því þessa mánuðina að grynnka á dóti fortíðar og höfum uppgötvað við það þann stóra sannleik, að stærstur hluti þess dóts sem maður hefur safnað inn til sín gegnum tíðina, hefur ekkert varðveislugildi, nema síður væri.
Það var hinsvegar ánægjulegt að rölta eftir Váci út (Vaci gata), sem er nokkurskonar Laugavegur þeirra Búdpestunga. Hver smáverslunin á fætur annarri, litlir veitingastaðir, rólegt umhverfi.

Horft af Kastalahæðinni "Citadella"
Það er alveg hægt að lifa á svona ferð lengi, trúi ég. Þakklátur er ég þeim sem tóku að sér umsýslu með þessu og einnig kórstjóranum og Csaba.








Í lest á leið til Vecsés

Í leit að fataverslun á Vaci götu

Að láta tælast af saltsölumanni í Vaci götu

Í Nagy Vásárcsarnok sem er risastór innimarkaður við endann á Vaci götu.

"Hvítárbrú" þeirra Búdpestunga. Þessi ber nafnið Erzsébet híd, eða Elísabetarbrúin.


28 september, 2019

Fátt segir af þokunni

"Svartagil!! Við áttum að fara að Svartagili!  hérna!". 
Auðvitað beygði ég. Svo tók við malarvegur, sem brátt sveigði burt frá fjallinu.
"Ætli þetta sé ekki örugglega rétt?"
Eftir um kílómeters akstur í áttina að Þingvallavatni voru vonir farnar að dofna um að við værum á réttri leið, en þá blasti við beygja til vesturs og síðan til norðurs og í átt að fjallinu, Vonir glæddust. En svo kom aftur beygja á veginn til suðvesturs og vonir dofnuðu. Það sem hélt voninni hinsvegar á lífi var slóði sem lá áfram og í átt að fjallinu.
"Prófum þennan. Hann virðist liggja þarna inn í gilið".
Slóðinn lá þarna eitthvert inn úr og það var meira að segja lítil brú ("Þú ferð ekki lengra!"), sem lá yfir lítinn læk og sauðfé á beit og beitarhólf og svo bara gufaði slóðinn upp.
Þarna tóku við ýmsar vangaveltur.
"Ég veit nú ekki hverskonar leiðbeiningar þetta eru eiginlega! Afhverju er þetta ekki betur merkt?"
Þarna sáust engin merki um göngustíga en nýlegar mannaferðir, yfirleitt, svo það var bara snúið við. Reynt að gúgla, án þess að komast nær upplýsingum um hvar hefja skyldi gönguna á fjallið.

Þetta átti að vera gangan sem hafði það markmið eitt að finna grænan póstkassa einhversstaðar uppi á Ármannsfelli, samanber Ármannsfellið fagurblátt og fannir Skjaldbreiðar, og svo framvegis.  Sannarlega voum við orðin nokkuð viss um hvar Ármannsfell var, en eins og flestir vita eru ýmsir möguleikar á uppgöngu á það.  Þeirrar sem taldist vera heilsueflandi, leituðum við lengi, lengi og vorum næstum búin að aka í kringum fjallið þegar tekið var á það ráð að hringja "í vin". Þar fengust leiðbeiningar sem leiddu okkur nær einhverskonar sannleika. Sannleikurinn var þó ekki meiri en svo, að hann kostaði okkur kílómetra lengri göngu en ástæða hefði verið til.


Svo tók gangan við og þar sem ganga er bara ganga, segir fátt af henni, en því vil ég halda til haga, að fjallgöngur hafa aldrei verið neitt sérstakt áhugamál hjá mér og því var það fyrir lítt orðaðan hópþrýsing og ekkert annað, að ég lét hafa mig úti í þessa för. Ég hugsaði á endanum sem svo, að ég gæti þó allavega tekið nokkrar myndir. Þar með burðaðist ég þarna áleiðis með helstu linsur og EOS-inn.
Útsýnið reyndist síðan ekkert sérstakt: móða og mistur.  Það var aldrei ætlun mín að klífa þetta fjall nema að hluta til, en samferðafólkið gerði heilmikið úr því að það ætlaði að finna póstkassann og skrifa nöfn sín í bókina. Ég setti mér þó mí hóflegu markmið og smám saman þokuðumst við upp hlíðina, með  hvassviðri í fangið. Þetta fannst mér vera talsvert feigðarflan sem engan veginn myndi til góðs.
Til að gera langa sögu styttri þá var viðhaldið óorðuðum þrýsingi á mig, sem varð til þess að markmið mín og um freista þess að ná kannski upp í miðjar hlíðar, enduðu með því að toppnum var náð, en þá skall á niðadimm þoka svo leitin að póstkassanum tók á sig undarlegar myndir, sem skiluðu sér að lokum inn í EOS-inn, áður en haldið var aftur niður hlíðina, undan hvassvirðinu og eftir nokkur skakkaföll.


Svo sem búast mátti við, lauk göngunni þar sem Qashqai beið þolinmóður, miklu lengra burtu en þörf hefði verið á og þar með lauk tilraunum mínum til að klífa fjöll, í það minnsta þar til skrokkurinn og sálin verða tilbúnari, sem ég útiloka auðvitað ekki að verði, svo sem.

Hvað er svo satt af ofanskráðu verður hver og einn lesenda að meta fyrir sig.




Koma heim og heita því
að leggja aldrei upp á ný.
Dreyma margar næstu nætur
hrap í björgum, brotna fætur.
Segja löngu seinna frá því:
„Sjáið tindinn, þarna fór ég!
(úr ljóðinu "Fjallganga", eftir Tómas Guðmundsson)



























Ég tel rétt að þakka göngugörpunum Ragnheiði Jónasdóttur og Dröfn Þorvaldsdóttur fyrir hvatninguna og samfylgdina. Án óþreytandi hvatningar frá þeim hefði ég líklega aldrei lagt Ármannsfell að fótum mér.

20 september, 2019

Ég biðst afsökunar, áður en ...

Þorrablót Skálholtssóknar 1995: PMS
Ég veit ekki hvað ég var að hugsa.
Eina afsökunin sem ég hef fyrir þessu athæfi er dómgreindarskortur. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig mér datt í huga að gera svo lítið úr konum. Það er ekki einusinni hægt að halda því fram, að ég hafi geislað af kvenlegri fegurð eða kynþokka. Nei, þarna lítilsvirti ég konur og biðst afsökunar, í samræmi við það sem telst við hæfi á þessum síðustu tímum. Það sama má reyndar segja um marga aðra sem hafa freistað þess að búa til útgáfu af sjálfu (lesist: sjálfri eða sjálfum) sér við sambærilegar aðstæður, eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan.

Ég get þó þakkað almættinu fyrir, að ég skyldi ekki einhverntíma hafa málað mig svartan í framan á þorrablótum fortíðarinnar.
Auðvitað verðum við ávallt að hafa í huga, að það sem við gerum í dag, mun án efa verða notað gegn okkur í framtíðinni, ef það telst þá þess eðlis að geta sært eitthvað (lesist: einhvern eða enhverja) eða gert lítið úr einhverju (lesist: einhverri eða einhverjum).

Ráð mitt til okkar allra er þetta:
Ekki gera neitt
sérstaklega ef fræðilegur möguleiki er á því að það snerti einhvern viðkvæman streng hjá einhverju (lesist: einhverri eða einhverjum) einhverntíma. Hvaða rétt höfum við svo sem til að reyna að kalla fram hlátur í einhverjum hópi, ef það er á kostnað einhvers?

Þú áttir að hugsa út í þetta, kanadíski forsætisráðherra. Þú ert greinilega óhæfur til að gegna þessu embætti, í ljósi þess sem þú gerðir.


Þorrablót Skálholtssóknar 1991: Renata og Óskar (mynd: ÁS)


Þorrablót Skálholtssóknar 1991: Gústaf, Gunnlaugur og Jakob (mynd ÁS)


Þorrablót Skálholtssóknar 1971 - ekki viss á öllum nöfnum, en frá hægri: Gunnlaugur, Ingólfur, Björn. Vantar þann sem lengst er til vinstri þó ég kannist við svipinn. (Mynd: ES)

18 september, 2019

Leikstjóri fer yfir feril sinn

Anna Helga Schram og Óskar Bjartmarz í hlutverkum
sínum í "Happinu" á sviðinu í Aratungu.
Kristín Anna Þórarinsdóttir, leikkona var betri en engin við að smita mig af leiklistarbakteríu á Laugarvatni. Ég var ekki laus við hana þegar ég hóf kennslu í Lýðháskólanum í Skálholti í framhaldi af stúdentsprófinu, haustið 1974. Bakterían varð svo til þess, að það kom í minn hlut að leikstýra skólaleikritinu sem var sýnt í maí, 1975. Sú eldskírn mín tókst nú ekki ver en svo, að tveir leikendanna, þeir Eyþór Árnason og Ellert A. Ingimundarson lærðu leiklist í framhaldinu. 

Leikritið sem tekið var fyrir verður víst seint talið meðal helstu perla í leikbókmenntum heimsins, en það var "Happið" eftir Pál J. Árdal. Bara hið ágætasta leikrit, í einum þætti, minnir mig. Það var fyrst sýnt sýnt á Akureyri veturinn 1897-98, bara nokkuð vinsælt leikrit sem var sýnt víða um land á sínum tíma og fram eftir tuttugustu öldinni. 
Eyþór Árnason og Þórdís H. Einarsdóttir í
hlutverkum sínum í "Happinu"
"Happið" er léttur gamanleikur sem gerist í sveit hjá Halli nokkrum hreppstjóra í Dölum. Dóttir hreppstjórans Valgerður er skotin í kennaranum Gunnari en faðir hennar vill að hún giftist ráðsmanninum Helga og er hreppstjórafrúin manni sínum sammála. En Helgi verður brátt ruglaður í ríminu þvi fleiri stúlkur eru á heimilinu. Ekta finn gamaldags róman.

Tilefni þess að ég finn mig knúinn til að útbúa þennan pistil er, að ég fann þrjár myndir frá uppsetningu á þessu leikverki í lýðháskólanum á vormánuðum 1975. Á efstu myndinni eru þau Anna Helga Schram og Óskar Bjartmarz í hlutverkum sínum. Myndin til hægri er af þeim Eyþór Árnasyni og Þórdísi H. Einarsdóttur í sínum hlutverkum og sú þriðja er af þeim Evu Arnþórsdóttur og Ellert A. Ingimundarsyni í sínum.

Því miður hef nú ekki verið í neinum umtalsverðu sambandi við lýðháskólanemendurna mína frá því leiðir skildi vorið 1975. Þau fóru hvert í sína áttina  og ég í mína, eins og verð vill. Þrem peyjum hef ég aðeins getað fylgst með vegna þess að þeir hafa birst á opinberum vettvangi.

Óskar Bjartmarz var lengi í lögreglunni og gæti verið enn. Hann var nokkuð áberandi þegar Kárahnjúkastíflan var í byggingu, en þá gegndi hann söðu yfirlögregluþjóns á Austurlandi.

Eva Arnþórsdóttir og Ellert A. Ingimundarson
í hlutverkum sínum í "Happinu"
Eyþór Árnason lagði stund á leiklist og starfaði líklega eitthvað við það, en lengst af var hann einhverskonar sviðsstjóri hjá Stöð 2 og og nú í enhver ár í Hörpu. Auðvitað má ekki gleyma því að Eyþór er ljóðskáld og hefur gefið út nokkrar ljóðabækur. 

Ellert A. Ingimundarson  gerðist einnig leikari og hefur verið talsvert áberandi á því sviði,bæði á leiksviði og í kvikmyndum.  Þá á hann og rekur með fjölskyldu sinni veitingastaðinn Eldofninn í Grímsbæ.

Um aðra nemendur lýðháskólans þennan vetur veit ég því miður ekkert að ráði, en aman væri, þó eki væri nema frétta af því hvað blessaðir ungarnir, sem nú eru allir komnir vel inn á sjötugsaldurinn, eru eða hafa verið að bardúsa.

Myndirnar fann ég í gamalli hirslu, þar sem ýmislegt birtist mér, sem þyrfti að komast á safn með tíð og tíma.




Lýðháskólanemar og starfsfólk veturinn 1974-75


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...