12 apríl, 2024

Raggi og Valur

Oft stendur maður frammi fyrir því að taka afstöðu til álitamála. Þau geta verið bæði smá og stór. 
Þessi smáu, þar sem ekki skiptir svo sem neinu máli hvor afstaðan er tekin, hvorki fyrir mann sjálfan né aðra. 
Þessi stóru, þar sem afstaðan sem tekin er, fylgir manni áfram, hefur áfram áhrif á sálina og kallar á að maður setji spurningamerki við hvort niðurstaðan hafi verið siðferðilega rétt. Þessi stóru álitamál, eiga sér oft margar hliðar, sem erfitt getur verið að greina á milli, eða taka afgerandi afstöðu til. Þau er jafnvel þannig, að maður er ófær um að taka afstöðu til eða frá og lætur því þar við sitja. Erfiðustu málin af þessum toga, sem rekur á fjörur manns í lífinu, snúast um fólk. 

Þeir voru báðir skólabræður mínir, Raggi og Valur. Raggi ári eldri en ég og lengst af í sama bekk í barnaskóla þar sem fleiri en einum árgangi var kennt saman. Valur var einum þrem árum eldri en ég og því átti ég minna saman við hann að sælda á þessum árum. 
Eftir að barnaskólanum lauk, skildi leiðir. Raggi fór sína leið, Valur sína og ég mína. Ekki minnist ég þess að hafa mótað með mér sérstakar skoðanir á þeim bræðrum þarna í barnaskólanum, þeir voru skólabræður mínir og bara ágætir sem slíkir. Þetta voru bara friðsemdarpiltar eftir því sem ég man, hægir og engir prakkarar eða óþekktargemlingar. 

Árin liðu og ég kom aftur í heimasveitina með fjölskylduna og um tíma bjuggum við í húsi við hliðina á Ragga og fjölskyldu hans. Við höfðum ósköp lítið að nágrönnunum að segja, en Raggi var þá mikið að heiman vegna vinnu hér og þar. Valur bjó þá á Gýgjarhóli með móður sinni meðan hún lifði og síðan einn. Samskiptin við hann fólust fyrst og fremst í því, að við vorum lengi saman í Skálholtskórnum, þar sem hann var var í bassanum og skilaði hlutverki sínu sem slíkur harla vel. Fyrir utan samveruna í kórnum vissi ég lítið um líf  Vals eða aðstæður aðrar. Um líf og aðstæður Ragga vissi ég svo sem ekki mikið heldur. Þetta voru samferðamenn þarna í sveitinni, eins og annað fólk sem fetar ásamt manni í gegnum lífið. 

Það var mikið áfall fyrir samfélagið í sveitinni þegar Valur varð Ragga, bróður sínum, að bana. Augljóslega var ekki um annað að ræða en að hann yrði að gjalda fyrir það með fangavist, en í fangelsi dvaldi hann síðan til dauðadags.  
Ég skil vel reiðina sem fylgdi í kjölfar þessa sorgaratburðar, sorg og reiði barnanna sem misstu föður sinn, sorg tveggja bræðra þeirra og sorg annars samferðafólks, sem þekkti þá bræður báða vel. Það er bara allt sorglegt og dapurlegt við þetta mál.

Þarna stóð ég frammi fyrir því að taka einhverskonar afstöðu, ekki út á við, heldur með sjálfum mér. Það var einfalt að taka afstöðu gegn þeim verknaði sem framinn var. Ég fór að heyra sögur um bakgrunn, sem sem ég hafði ekki vitað um, um hitt og þetta sem ég hafði ekki haft hugmynd um. Ég reyndi að leiða þetta hjá mér og þegar upp var staðið stóð eftir samúð með öllum  þeim sem þarna misstu föður, bróður, vini eða nágranna. Í mínum huga var þarna um að ræða hörmungaratburð, sem átti sér stað við aðstæður sem ég leiði hjá mér að reyna að skilja, en verður oft hugsað til.

Raggi lést þann 31. mars árið 2018 og Valur síðan sex árum síðar, þann 14. mars s.l.   


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...