03 október, 2009

Landið

Ísland er ekkert að víla fyrir sér að leyfa börnum sínum að njóta andstæðna.

Í gær sátu ökumenn fastir í faratækum sínum á heiðum uppi. Það ringndi og/eða snjóaði á láglendi. Hvassviðrið feykti haustgulum blöðum trjánna burt til að þau gætu orðið jarðvegur næsta árs. Í dag skín sólin aftur og gærdagurinn er horfinn. Sólin er að vísu ekki jafn hátt á lofti og á sumarsólstöðum, en hún er þarna og gefur fyrirheit um að það komi aftur sumar.

Í fyrra engdust sakleysingjar í gjöreyðingarárás bankahruns, blámannaheimsku og græðgi. Traust hvarf og trúin á að landið gæti risið á ný fauk burt með haustvindunum. Kannski sest trúin einhvers staðar aftur innan skamms og skýtur rótum.

Síðustu ár flæktist þjóð í kaldbláum vef gróðapunga, illvirkja, falsspámanna og svikara. Þjóðin hlaut skaða af. Hugtakið "landið bláa" fékk nýja og ógeðfellda merkingu. Það er samt von um að vefurinn rakni og þjóðin verði aftur frjáls. Það eru merki á lofti, lágt eins og vetrarsól. Blái vefurinn er farinn að trosna þó einkennileg öfl hans reyni enn að veiða sakleysingja með bláskrift sinni.
Á dimmasta vetri, þegar eilíf nótt virðist ráða ríkjum, skín alltaf lítill sólargeisli lágt á lofti, sem boðar vor, sem boðar sumar. Það er hægt að treysta landinu. Traustið á mönnunum bíður betri tíma.


1 ummæli:

  1. Hmm.
    Ég sé að þú trúir ekki á Ragnarrök. Tímann þegar Blái Úlfurinn gleypti Vonarsól landsmanna.

    SvaraEyða

Laugarás: Fagmennska, eða annað.

Þann 13. júní birtist á island.is  island.is   tilkynning frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem greint er frá því á vorið 2025 verði hei...