08 október, 2009

Moggamengunamartöð

"Ég fékk mér heilsubótargöngu í morgun til þess að vígja nýju blátunnuna"
Það er gamli unglingurinn sem hefur orðið. Hann hafði komist að því við lestur bæklingsins um blátunnuna, að í hana skyldi mogginn fara að loknum lestri. Hann tók sig, sem sagt, til og bar í tunnuna stærðar haug af mogganum, sem hafði safnast umm hjá honum undanfarnar vikur.

Hann er í þeirri aðstöðu að fá moggann hvort sem hann vill eða ekki. Það er hinsvegar augljóst, að hann vill hann þó svo Tíminn hefði verið hið eina sanna dagblað.
Aðspurður um hvort hann óttaðist ekki að smitast af boðskap moggans svaraði hann því til, að svo væri ekki því það sæti ansi lítið eftir að lestri loknum.

Hvað um það, hann flutti moggastaflann í blátunnuna nýju, sem stendur enn þar sem starfsmenn sorpfyrirtækisins höfðu skellt henni niður - á hálfgerðum berangri - þó slíkt fyrirbæri sé nú ekki til í Laugarási.

Sá gamli hafði síðan heyrt það að spáð er víðáttubrjáluðu veðri í nótt og á morgun og velti því fyrir sér hvort ekki séu líkur á að tunnan fjúki af stað og mogginn með og síðan úr tunnunni og út um allt.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig staðan í trjágróðrinum í Laugarási verður í fyrramálið. Ætli maður sitji uppi með moggann fyrir augunum eftir allt?
Ja, hann Davíð!

1 ummæli:

  1. Já. Ætli hann hafi ekki fyrirskipað óveðrið til að bera boðskapinn sem víðast.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...