01 janúar, 2011

Síðustu skrefin

Enn á ný lýkur áfanga í manngerðu tímatalinu. Við slík tímamót er við hæfi að þakka ykkur sem þetta lesið, lesturinn á árinu og vonast til þess að mér auðnist að halda einhverjum dampi í þessum skrifum áfram - aðallega auðvitað fyrir sjálfan mig. Það má með sanni segja, að ég gæti skrifað misspekingslegar færslur mínar með penna í þar til gerða kompu, en það er bara hreint ekki jafn skemmtilegt. Því mun ég halda áfram á þessum slóðum enn um sinn. Ég verð þó að viðurkenna, að þörfin til þess arna kemur og fer. Um þessar mundir er hún ekki sérlega mikil, ekki síst vegna þess að athygli mín hefur verið á öðrum slóðum.

Við, afinn og amman, höfum notið þess vera með nánast fullt hús af okkar fólki um jól og áramót. Þar á meðal er pilturinn Gabríel Freyr, sem senn fyllir fyrsta árið sitt. Eins og nærri má geta situr hann ekki aðgerðalaus stóran hluta vökutíma síns, heldur bræðir hörðustu hjörtu með léttri lund og uppátækjum. Við fD fengum að gæta kappans hluta úr degi og kvöldi meðan foreldrarnir skelltu sér út á lífið. Það má segja að um hafi verið að ræða fullt starf fyrir tvo að sjá til þess að færi samkvæmt settum reglum. Meira að segja það dugði ekki til því pjakkurinn var vakandi þegar foreldrarnir komu aftur upp úr miðnættinu. Þar sem við hefðum átt að setja hnefann í borðið og viðhalda uppeldinu fór allt úr böndum með því að það mistókst að halda ströngum andlitssvip gagnvart grallaralegum uppátækjum. Þetta hefur verð harla ánægjulegt, allt saman.

---------------------------------

Mér þótti ekki leiðinlegt undir lok ársins, að fregna af niðurstöðum rannsóknar, sem reyndar verða birtar nú eftir áramótin, sem staðfesta það sem ég hef haldið fram (aðallega auðvitað með sjálfum mér) svo lengi sem ég man eftir: Þeir sem teljast til svokallaðra hægri manna hafa til að bera þætti í heilanum sem greina þá frá þeim sem aðhyllast svokallaðar vinstri skoðanir. Mandlan (amygdala) í hægri mönnum mun vera stærri. Þessi hluti heilans tengist ótta og tilfinningum. Þessar niðurstöður skýra margt, til dæmis hvernig hræðsluáróður virkar betur á suma en aðra. Samkvæmt þessum niðurstöðum láta hægri menn stjórnast af ótta við vondu kallana og einföldum, skýrum skilaboðum sem hafa tilfinningalegar skírskotanir frekar en rökrænar.  Hér er komin, í mínum huga, skýringin á því hversvegna, nánast undantekningalaust, fólk sem segist vera ópólitískt, er í raun hægri sinnað. Skilaboð hægri manna, byggjast oftast á tilfinningum:  "Hann er svo myndarlegur", "hann er af svo góðum ættum". Með sama hætti höfða skilaboð hægri manna um andstæðinga í stjórnmálum til óttans og tilfinninganna: "Hvað er eiginlega að fólki sem kýs svona rugludalla?" "Nú er í gangi viðtal kjána við rugludall.", "Sjálf minnir Jóhanna dálítið á Brezhnev gamla sem lenti í því að ræðuritarinn gleymdi að taka afritið sem hafði verið á bakvið kalkipappírinn.(rússagrýlan, gamla)".
Já það verður gaman að sjá niðurstöðurnar úr þessari könnun.

--------------------------

Megi nýtt nýtt ár standa undir þeim væntingum sem þú hefur til lífsins og tilverunnar.

2 ummæli:

  1. Ei er myglan í mér stór
    enda lítið hædd við kór
    hægri manna hríðskjálfandi
    haldand' ei um völd í landi
    myglan hvar nú minnka skal
    menn svo finni vor í dal.

    Myglan skal ei meira dafna
    má þar geta ótal nafna
    mann' og kvenn' er mættu lifa
    mjúklynd' hér og létt svo tifa
    hefðu ei, -þau heiðurshnossin-
    haft í tannfé bláa krossinn.

    SvaraEyða
  2. Mygluljóðið er að sjálfsögðu eftir Hirðkveðil Kvistholts - gjört þann annan dag janúar 2011

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...