07 janúar, 2011

Enn handboltapirringur

Ég veit að það er ekki til neins að tjá sig í þá veru, að það eigi skilyrðislaust að sýna landsleiki í opinni dagskrá í sjónvarpi - með þeim rökum helstum, að

a. skattgreiðendur taka þátt í að halda úti landsliðum í ýmsum greinum og að af þeim sökum sé það ekki rétt að þeir sem kjósa að vera ekki áskrifendur að einkareknum sjónvarpsstöðum eigi þess ekki kost að fylgjast með landsleikjum.

b. við erum ein þjóð (viljum allavega stundum halda því fram) og eigum því að geta notið þess sem getur sameinað okkur, saman, án tillits til efnahags eða skoðana að öðru leyti.

c. það er mikilvægara nú, en nokkurntíma, að efnahagur ráði því ekki hvort okkur gefst kostur á að fylgja eftir fyrirbærinu sem okkur er sagt að sé "strákarnir okkar".

Maður er alltaf að vona að fjari undan þeirri hugsjón, að það eigi að vera fjármagnið sem ræður öllum hlutum, en það virðist borin von. Sem skattgreiðandi (einn af ekki nógu mörgum reyndar) tel ég, að ef þessi þáttur íþróttanna á að ganga fjármagninu á hönd með þessum hætti, þurfi að taka opinberar styrkveitingar í grundvallarendurskoðun. Það hlýtur að vera eðlilegt að þeir sem borga njóti, og þeir sem borga ekki njóti ekki.

Það fer tvennum sögum af því hve margir af þeim leikjum sem um er að ræða verða sýndir í opinni dagskrá - sumsstaðar eru þeir tveir og annarsstaðar þrír. Ef við sættumst á þetta, þá stöndum við enn frammi fyrir því að þeir sem taka sjónvarp heim til sín í gegnum loftnet, hafa ekki þann möguleika. Ég ímynda mér að það eigi t.d. við um margt eldra fólk. Mér kemur í hug gamall maður mér nákominn, sem hefur fylgst af miklum áhuga með handboltalandsliðinu, en þess ekki kost nú að sjá einn einast leik.

Þetta er dapurlegt.

1 ummæli:

  1. Allt er hér komið á undarlegt stig
    og aldrei neitt "strákarnir sameina mig"!
    En víst er mér sama og virðist það rétt
    að vilji menn hnuðlast með bolta á
    sprett
    þeir geri það víða og gleðji það menn-
    þá gott um það segi þótt hissi mig enn.
    Álit mitt er víst að ef við þá styðjum
    ættum að sjá -(fyrir þá)- sem það biðj'um.

    Allt skiptir þetta víst engu þó máli
    ofar í skýjunum flest er í báli
    alls konar dýr þaðan á okkur dynja
    svo ætla má brátt fari heimur að hrynja
    af sinni brautu og beint oní skurð
    sem bíður í hvolfin'- og verður svo urð.

    Hirðkveðill tjáir sig um áhorfsmöguleika á boltaíþróttir.

    Þetta er eins og að kosta barn í dýran heimavistarskóla og vera meinað að fylgjast með gengi þess.... nema manni sé kengsama;)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...