09 janúar, 2011

Er ég að verða úr leik?

Skömmu fyrir áramótin fékk ég bréf. 
Auðvitað er það ekki merkilegt í sjálfu sér. Bréf fær maður með reikningum fyrir veitta þjónustu eða yfirlitum yfir fjármálalega stöðu, nú, eða eins og í síðasta mánuði, með jólakortum. 
Þetta bréf skar sig nokkuð úr bréfaflórunni. Annars vegar var það ekki með glugga en merkt Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hinsvegar var nafn mitt og heimilisfang handritað utan á umslagið.

Eðlillega velti ég fyrir mér hvað svona bréf gæti hugsanlega innihaldið. Var verið að tilkynna mér um löginheimtu vegna vangoldinna  lífeyrisgreiðslna? Var þetta hótun um að setja ógreidd skuld í innheimtu?
Eðlilega opnaði ég þetta bréf á undan öðrum, þar sem innihald hinna virtist í samræmi við það sem ég hafði átt von á.

Upp úr umslaginu komu blöð með þéttskrifuðum texta, eyðublaði og svarumslagi. Auðvitað byrjaði ég á að lesa bréfið og þar er ekki laust við að fyrstu viðbrögð mín hafi verið svipuð og þeir lýsa sem hafa komist í bráða lífshættu, en verið til frásagnar um upplifun sína. Æviskeiðið skaust hjá með ógnarhraða með vangaveltum (á ógnarhraða líka) um hvernig ég hafi gengið götuna fram eftir veg. Var nú svona komið? Engu verður nú breytt. Framtíðin teiknuð upp af hinum óskeikula arkitekt mannlegs lífs.

MEMENTO MORI, enn á ný. Búinn að uppfylla formlegar kröfur sem gerðar eru til mannkyns um að fjölga sér og uppfylla jörðina. Búinn að fá að upplifa tilfinninguna sem í því felst að verða afi. Laus við skuldaklafa og blómaskeiðið liðið. Á lygnum sjó, að mestu í sátt við guð og menn. Ekkert eftir nema áfallalaus sigling til hafnar. Kannski eftir að skipta um bíl einu sinni eða tvisvar og hlusta á sunnudagsmessur.

Fyrirsögn bréfsins er þessi:
VAL MILLI 32 ÁRA REGLU OG 95 ÁRA REGLU.
Að öðru leyti fer bréfið í að útskýra muninn á þessum tveim reglum, í lokin er komið að erindinu:
Miðað við að ég haldi áfram að greiða í lífeyrissjóð þá get ég hafið töku lífeyris (ELLI-lífeyris) í mars árið 2014, samkvæmt 95 ára reglunni, en við 64 ára aldur skv. þeirri 32 ára.  Ég get, með öðrum orðum, lokið ævistarfinu í upphafi árs árið 2014 - eftir 3 ár. Blöskrar nokkrum viðbrögð mín í ljósi þessa?
Eyðublaðið er mér ætlað að fylla út, setja í svarumslagið og setja ófrímerkt í póst.

Ég velkist ekki í vafa um svar mitt.

Hvað sem líður árafjöld fer ég ekki ofan af því lífsviðhorfi mínu, að maður er ekki eldri en honum finnst hann vera. Það er enn margs að njóta og margt að gera. Þetta er rétt að byrja.


2 ummæli:

  1. Bara orðinn löggiltur hvíldarþegi eftir 3 ár :)
    Þið eruð sem sagt á leiðinni út til Portúgals eða Kanarí til að velja ykkur lítinn sætan bústað til að búa í næstu 30 árin.
    Góða skemmtun.

    SvaraEyða
  2. Lagboði: Upp undan bænum í blómskrýddri hlíð....

    Hann rífur upp bréfið og ráðvilltur sér
    að reynslan og árin, þau skila sér hér
    og nú skal hann njóta þess nokk, hreint í gegn
    að nýtast sem úreltur lífeyrisþegn.

    Næst skokkar að speglinum, skyggnist í hann
    og sko, þarna sjá má einn fínindis mann
    sem á lítið erind‘ í ellinnar sjóð
    og ALLS ekki hreint neitt á Kanaríslóð.

    Næst er það innvolsið, einnig skal það
    athugast vandlega – já, nema hvað?
    En þar er víst ekki neitt athugavert
    allt bara farsælt og hreint ekki skert.

    Því skaltu Páll minn nú puðrast með bréf
    -persónulega þér leyfi ég gef-
    kveikja í því úti, með kurt og með pí
    og kátur svo starfa og skemmt þér – hi, hí!!

    Hirðkveðill tjáir skoðun sína á að Kvistholtsbóndi "bregði búi" fljótlega

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...