31 ágúst, 2017

31 rauð rós, súkkulaðikaka og vínarbrauð

Á þessum degi, 31. ágúst, anno 2017, lýk ég starfi mínu fyrir þá góðu stofnun, Menntaskólann að Laugarvatni.  Ugglaust mun ég síðar fjalla um ýmislegt sem þar gerðist, á þeim árum sem ég gekk þar um ganga, fyrst sem nemandi í 4 ár og síðan sem starfsmaður í 31.

Eins og nærri má geta hef ég orðið nokkuð góða sýn á þessa stofnun í gegnum súrt og sætt, en það er ekki bara hún sem slík sem skiptir mestu, heldur fólkið sem ég hef kynnst og unnið með. Það hefur verið af ýmsu tagi, allt frá því að vera nánast stórundarlegt og upp í það sem kalla má eðal. Sem betur fer tilheyrir langstærstur hluti hópsins síðarnefnda flokknum frekar.

Ég fór nú bara úteftir í morgun, svona rétt eins og aðra morgna á þessu hausti, nákvæmlega þegar ég var tilbúinn. Gerði síðan nákvæmlega það sem mér datt í hug, en það fólst aðallega í því að undirstinga fólk (í eldri kantinum flest) vegna myndasöfnunar minnar fyrir vef NEMEL (Nemendasamband Menntaskólans að Laugarvatn). Þessi söfnun er langt komin, en það eru ennþá gloppur sem ég er óðum að fylla í.  Ég ætla mér ekki að hætta þessari söfnun fyrr en á þennan vef eru komnar myndir frá öllum árum sem skólinn hefur starfað, en fyrir þá sem ekki vita, þá var hann stofnaður 1953.

Jæja, svo skellti ég mér í kaffi á kennarastofuna, svona rétt eins og maður gerir. Mér fannst eitthvað óvenju fjölmennt þar, Helga Kristín, frænka*  (sem áfram mun halda þarna á lofti merki ættarinnar, vel og rækilega) tók til við að bera súkkulaðikökur á borð, ásamt þeyttum rjóma.  Magnús, Selfyssingur, reyndist hafa kippt með sér vínarbrauðslengju neðan að.

Það næsta sem gerðist var að frænka tilkynnti að þetta væri til komið vegna þessa síðasta dags míns í starfi, sem ég brást við með því að halda þakkarræðu, sem var ekki löng, en  ræða samt.
Þegar henni var lokið og neyslan á veitingunum rétt hafin, birtist Áslaug, staðgengill skólameistara, með fangið fullt af rauðum rósum, eina fyrir hvert ár. Þetta gerði hún fyrir hönd starfsmannafélagsins, STAMEL.
Auðvitað kallaði þetta á aðra þakkarræðu, sem var einnig mjög stutt.
Þegar veitingunum höfðu verið gerð skil, kvaddist fólk og þakkaði fyrir samstarfið og þessu lauk síðan með því Pálmi dró fána lýðveldisins í hálfa stöng (sjá neðst), sem er svo sem vel skiljanlegt.
Allt þetta stand snerti mig eðlilega. Það hefði sjálfsagt snert mig enn meira ef ég hefði nú verið að yfirgefa húsnæðið endanlega, en svo er auðvitað ekki. Ætli ég verði ekki þarna í einhverju formi, meira og minna komandi vetur.

Mér fannst flestir hafa talsverðar áhyggjur af því sem við tekur hjá mér. "Hvað ætlarðu eiginlega að gera í fyrramálið?"
Ég hef nú bara áhyggjur af því hvernig best verður að skipuleggja það sem bíður mín, enda á besta aldri og tilbúinn að kýla á þær áskoranir sem framundan eru.
Ég neita því hinsvegar ekki, að einn strengur í mér mun sennilega sakna þess að hverfa út úr þeim líflega vinnustað sem ML hefur verið.

Starfsfólk ML, fyrr og nú:  Kærar þakkir fyrir samstarfið og umhyggjusemina.
----------------
Vegna þessa með fánann: Fáninn var í framhaldinu dreginn að hún, þar sem Laugvetningar fagna í dag undirritun samnings um íþróttamannvirkin á Laugarvatni. Pálmi gerði samt hlé á drættinum um stund og að því leyti er það sem sagt er hér að ofan rétt með farið.  Upphafstónar jarðarfararsálmsins "Kallið er komið, komin er nú stundin...." heyrðust hljóma undir athöfninni á kennarastofunni.

*dóttir Mannsa frænda, en við Mannsi (Sæbjörn Eggertsson) erum systkinasynir

29 ágúst, 2017

HPH: Sextíu ára - 60+ - á sjötugsaldri

Það sem hér fylgir gerir það í tilefni af því að Halldór Páll Halldórsson, skólameistari fyllir sjötta tug ævi sinnar í dag. Þar sem hér er ekki um að ræða minningarorð eftir látinn mann, er hér fram borið ýmislegt sem ekki yrði sagt ef svo væri.

Við Halldór Páll höfum starfað sama í næstum tvo tugi ári og það er sökum þess langa tíma sem ég leyfi mér að fara út á ystu nöf í því sem hér fylgir, hvort sem er í máli eða myndum.

Ef einhver hefur haldið því fram eða er þeirrar skoðunar að pilturinn nálgaðist fullkomnun eitthvað meira en við hin, þá er það auðvitað ótrúlegur misskilningur.

Ég hef ákveðið, að skrifa ekki samfelldan texta af þessu tilefni, heldur henda á loft smámyndum til að freista þess að búa til mynd af karlinum, oftar en ekki örlítið skreytta, svona til fullnægja þörf minni fyrir að bæta heldur í, en hitt.
Ég þykist þess fullviss að Halldór Páll sætti sig við þetta án þess að eftirmálar verði af hans hálfu, enda að verða síðustu forvöð, þar sem ég er í þann mund að hverfa ínn á svið þar sem ábyrgðarleysið eitt ríkir..

Samstarf okkar hefur verið eins og maður getur ímyndað sér að best verði. Við erum reyndar ótrúlega ólíkar persónur og þessvegna snertifletir til núnings af einhverju tagi, varla finnanlegir.

Þá skelli ég mér í mannlýsinguna, sem er hreint ekki í stíl við það sem gerist í Íslendingasögum: "Hann var hárprúðr maðr á yngri árum, en svá mun eigi lengr vera".

Leggjum þá af stað:
(þennan hluta mun ég síðan fjarlægja áður en varir)
Honum er ekkert vel við að viðurkenna það þegar hann hefur rangt fyrir sér. Þá finnur hann oftar en ekki einhverja leið út úr því, þannig að maður maður gæti, með góðum vilja, sannfærst um að það sem rangt hafði verið, væri í rauninni rétt. Það var einmitt þannig þegar hann fór upp í vitlausa (eða rétta) rútu á Kýpur fyrir nokkrum árum.

Honum er mikið í mun að vera þar sem hlutirnir gerast.
Honum finnst gaman á fundum.
Hann á ekki hundinn sinn.
Hann sést stundum á gangi með plastfötu, bæði um ganga skólans og utandyra.
Það stendur stundum plastfata í dyrunum á skrifstofunni hans.
Hann kann að gyrða sig í brók.
Hann afneitar ítrekað raunverulegum pólitískum skoðunum sínum.
Hann hefur tileinkað sér þýska orðaröð þegar hann vill vera formlegur.
Hann er íhaldssamur umbreytingasinni.
Það hefur orðið léttara yfir höfðinu á honum með árunum.
Hann sækir sér í pólitíska næringu hjá hársnyrtinum sínum.
Hann ýtir við fólki með ýmsum hætti.
Hann minnir fólk á.
Hann ekur á vinstri akrein þegar það er hægt.
Hann gerir  yfirleitt það sem er rétt, hvort sem það er rétt eða ekki.
Hann hefur gaman af að sýna óvenjulegar hliðar á sér.
Hann er búinn að vera lengur en hann ætlaði í upphafi.
Hann kann að tala við mæður.
Hann endar alltaf ræður með því að hvetja fólk til að njóta vel, en ég á enn eftir að skilja það..
Hann er gjarnan langorðari en ástæða væri til.
Honum leiðist ekki að tala.
Hann er ekki nýjungagjarn þegar kemur að bifreiðaeign.
Hann er, eins og stundum vill vera, eðlisþykkur.
Hann gefur sig úr fyrir að vera mikill göngumaður (frásögnum hans
af gönguafrekum hefur farið fækkandi).
Hann á það til að henda fram vísum.
Hann söng, en annað og merkilegra varð til þess að hann hætti því.
Hann gerir kröfur, en er harla sveigjanlegur þegar á hólminn er komið.
Hann getur hlegið að sjálfum sér og þá ískrar oft í honum..
Hann er alltaf að hugsa um fjárheimildir og fjárhagsáætlanir.
Hann á það til að hverfa heim í Garð til að vinna.
Hann spjarar sig á Spjör, Spjararbóndinn.
Hann tekur stundum upp á því að senda tölvupósta.
Hann treystir ólíklegasta fólki.

Sannarlega gæti ég haldið lengi áfram, því af nógu er að taka, en þessi gallagripur hefur átt afar mikinn þátt í því að starf mitt við ML hefur gengið þokkalega áfallalaust.

Heill þér, sextugum, Halldór Páll og njóttu vel í námi, lífi og starfi. Það má öllum ljóst vera að námi okkar í þessu jarðlífi lýkur aldrei.
😎





28 ágúst, 2017

Sjö manna maki

Einhver myndi segja að þessi pistill einkenndist af svokölluðu "karlagrobbi" sem sagt er að einkenni ákveðinn tíma í ævi karlmanna; tímann þegar þeir eru stignir út af vinnumarkaðnum og enginn getur lengur krafið þá um að sanna mál sitt.
Karlagrobb hefur mér sýnst felast í sögum sem viðkomandi segja af afrekum sínum og ævintýrum, oftast sem þeir eru einir til frásagnar um, enda oftar en ekki allir aðrir sem að sögunum koma, komnir yfir móðuna miklu.
Dæmi um upphaf svona sögu gæti verið: "Þegar ég var þarna um árið á vélbátum Narfa BS53 frá Súgandafirði, gerði á útmánuðum þetta aftakaveður á norðaustan. Ég .................."  og svo framvegis. Eftir því sem aldurinn færist síðan meira yfir eiga minningarnar það síðan til að verða ævintýralegri og svakalegri, eins og er auðvitað alveg eðlilegt. Fortíð okkar litast nefnilega sterkari litum eftir því sem lengra líður.

Jæja, þá er inngangurinn búinn og ég skelli mér í karlagrobbið, sem jafnframt má líta á sem nokkurskonar gagnrýni á samfélagsþróun, hér og annarsstaðar; kannski aðallega sem slíka.


Það var áður fyrr talað um að menn (aðallega var það nú reyndar notað um karlmenn) væru þúsundþjalasmiðir. Auðvitað er svona fólk til enn, meira að segja má finna þessi eintök innan stofnunarinnar sem ég hef verið að vinna hjá: bæði karla og konur.  Þróunin hefur hinsvegar legið eindregið í þá átt að þessi tegund fólks sé í útrýmingarhættu. Í staðinn eykst sérhæfing og fólk verður í æ meira mæli aðeins fært um að smíða eina til tvær þjalir. Þannig væri hægt að tala um einhvern sem "tveggjaþjalasmið"; hann gæt t.d. ekið bíl og borið á pallinn, en ekkert annað. Hann kynni t.d. ekki að skipta um dekk, eða setja í þvottavél.

Ég........loksins kemur að því ......... ólst upp í heimi sem var talsvert einfaldari en sá sem við lifum nú. Stærsti munurinn felst líklega í tækni og tækjum. Það var vissulega til útvarp, en auðvitað var sjónvarpið ekki komið, svo ekki sé nú talað um tölvur og allt sem nöfnum tjáir að nefna og sem tengist þeirri þróun allri saman.  Ég læt vera að taka afstöðu til þeirrar þróunar hér, enda stærra mál en svo.

Ég hef stundum verið spurður að því hvort lífið hafi ekki verið óþolandi leiðinlegt í gamla daga, þegar allt var svarthvítt. Ég neita því ekki, að stundum velti ég fyrir mér hvað í ósköpunum við notuðum allan þann tíma í sem við notum nú í allskyns afþreyingu. Hvað gerðum við t.d. á kvöldin? Jú, það var spennandi framhaldsleikrit í útvarpinu, lög unga fólksins, útvarpssagan, það var lesið og börn léku sér úti við.  Ég veit ekkert hvort það var eitthvað betra fyrir okkur sem manneskjur, svo sem, en þannig var þetta bara.

Mér finnst að við höfum kannski verið að ýmsu leyti tengdari raunveruleikanum en nú er. Heimurinn var miklu minni og viðráðanlegri og maður þurfti að takast á við fjölbreytilegri verkefni í þessum afmarkaða heimi. Það þurfi það gefa hænunum, vökva (í gróðurhúsunum) og sinna ýmsu sem til féll á garðyrkjubýli. Síðar þurfti að gera við bíldruslur, byggja hús, grafa skurði, takst á við áföll. Í sem stystu máli: bjarga sér við ólíklegustu aðstæður.

Ég dreg þetta saman svona: heimurinn var hlýrri, raunverulegri og nánari, en hann er nú.

Oh, it's a fine life, the life of the gutter. It's real: it's warm: it's violent: you can feel it through the thickest skin: you can taste it and smell it without any training or any work. Not like Science and Literature and Classical Music and Philosophy and Art.                                                                                                        -G.B. Shaw: Pygmalion (My Fair Lady)

Ætli sé ekki rétt að fara nú að koma mér að kjarna málsins og ástæðu þess að ég skrifa þennan pistil.
Eins og ég greindi frá í síðasta pistli er ég nú um það bil að stíga út af hefðbundnum vinnumarkaði. Við þau tímamót hefur það blasað við, að það myndaðist lítið skarð sem þurfti að fylla í innan stofnunarinnar.  Ég er nú búinn að komast að því, að hvorki meira né minna en sjö starfsmenn hafa tekið að sér þau verkefni sem ég sinnti.
Tveir deildu á sig því sem tilheyrði stöðu aðstoðarskólameistara.
Þrír taka að sér þann hlutann sem notaður var til ljósmyndurnar og myndvinnslu fyrir vefinn.
Einn tekur að sér textaskrif vegna heimasíðu.
Einn tekur að sér ýmsa upplýsingavinnslu.
Samtals eru þetta þá sjö manns.
Auðvitað tek ég það fram, því ég þykist vita, að einhverjum geti fundist ég seilast, með þessu, heldur langt í karlagrobbinu, að þarna tekur þetta fólk að sér afmarkaða hluta þess starfs sem ég sinnti,  vissulega misstóra hluta og allt er þetta auðvitað öndvegisfólk.  Ég vil þar á móti halda því til haga, að starfið sem ég sinnti var óhemju fjölbreytt og skemmtilegt og gaf mér færi á að reyna mig á ólíkum sviðum.

Það sem ég er svo að fara með þessu snýst um þá skoðun mína, að við, í þessu nútímasamfélagi, séum æ meir að missa sjónar á heildarmyndinni. Við verðum í æ ríkari mæli fagidjótar, þar sem við verðum sérfræðingar á æ afmarkaðri sviðum, t.d. fuglafræðingar sem eru sérhæfðir í rjúpunni, eða píplagningamenn sem hafa hitalagnir í fjölbýlishúsum að sérgrein. Frábært fólk á sínu sviði, en lætur sig oft litlu skipta allt hitt. Fyllir kannski hóp þeirra sem tjá sig fjálglega um mál í athugsemdum á samfélagsmiðlum, án þess að hafa nokkra innsýn eða skilning.

Það má alveg halda því fram að þetta einkennist dálítið af fortíðarþrá hjá mér, en það er í rauninni ekki svo, því þó svo ég sé ekki kominn með Netflix, eða búinn að fara í Costco eða HogM og bíði í viku eftir að sjá næsta þátt af breska sakamálaþættinum á RUV, þá held ég að mér hafi tekist að fylgjast nokkuð vel með og hef bara gaman af ýmsum þeim tækninýjungum sem spretta fram. Ég er meira að segja farinn að gæla við þá hugmynd að kaupa mér 75" HDR tæki á vegginn í Kvistholti, en á enn eftir að rökræða það um stund við fD.



24 ágúst, 2017

Það þarf að finna nýjan takt, svo einfalt er það.

Ilmurinn í loftinu gefur til kynna að haustið sé í nánd.
Ys og þys sumarsins tekur enda, haustverkin taka við og síðan kemst allt í fastar skorður vetrarins áður en varir.
Börnin byrjuð í skólanum, en hann er líklega sá þáttur í lífi okkar sem setur okkur hvað mestar skorður.
Sumum okkar.
Fara á fætur, koma börnunum í skólann og skella sér í vinnuna.
Taka síðan við börnunum úr skólanum, græja kvöldmatinn, koma börnunum í rúmið, fara að sofa til að vakna aftur til nýs vinnudags.
Ætli þetta sé ekki svona hjá flestum barnafjölskyldum.
Ákveðinn rammi sem skólinn setur.
Ef ekki væri skólinn væri ýmislegt hægt, en það verður að bíða næsta sumars.

Ilmurinn í loftinu setur okkur í ákveðnar stellingar.
Mörgum reynist þetta erfitt.
Frelsið fyrir bí og framundan fjötarnir sem náttúran klæðir gróður jarðar í, og fjötrarnir sem binda okkur í klafa kaldra og dimmra vetrarmorgna, mánuðum saman.
Ekkert ljós eða birta nema skíman í kringum jólin, flugeldarnir og áramótabrennurnar.
Eftir það frost og snjór fram á vor.
En það kemur vor.

Ég hef lifað þessu taktfasta lífi í áratugi.
Ilmur haustsins hefur minnt mig á það, fyrst af öllu, að skólinn sé framundan.
Nýtt skólaár, nýr vetur, enn á ný nýjar áskoranir, fleira nýtt fólk, ávallt ungt fólk, ávallt yfirkomið af spennu vegna komandi vetrar, ávallt með fyrirheit um að standa sig.

Unga fólkið fyrir 35 árum er að komast á sextugsaldurinn núna.
Eftir 35 ár verður unga fólkið núna komið á sextugsaldurinn og unga fólkið fyrir 35 árum að njóta síðustu sólargeislanna í lífi sínu.
Það verður farið hausta í lífi þess. Ilmurinn fer ekki á milli mála.

Nú þarf ég að fara að finna mér nýjan takt.
Framundan er líf án skóla.
Vekjarklukkan hefur ekkert hlutverk lengur.
Enginn kaldur bíll til að setja í gang á frostköldum morgni.
Bjallan er hætt að klingja í eyrunum.
Ungmennin hætt að spyrja hvort tíminn sé ekki a[ verða búinn.
Engar frekari tilraunir til að fá unglinga til að sjá lífið í víðara samhengi.
Enginn Shakespeare.
Enginn tilhlökkun vegna jólaleyfis eða skólaloka að vori.

Nýr taktur.
Ég átta mig á, að alla ævi, frá fimm ára aldri hefi ég verið í skólatakti.
Fyrst hjá Sigurbjörgu í Launrétt, þá í Reykholtsskóla, Héraðsskólanum á Laugarvatni, Menntaskólanum að Laugarvatni, Lýðháskólanum í Skálholti, Háskóla Íslands, Reykholtsskóla og Menntaskólanum að Laugarvatni.
Þetta er dálítið merkilegt, svona þegar maður horfir til baka.
Lífið hefur verið skóli, þar sem stundataflan hefur rammað inn hvern dag.
Framundan er engin stundatafla.
Bara dagur eftir dag.
Hver dýrðardagurinn á fætur öðrum, þar sem stærsti vandinn mun líklega felast í því að forgangsraða öllu því sem ég þarf að koma í verk.

Ég þarf að koma ýmsu í verk, svo lengi sem heilafrumurnar starfa með nokkurnveginn eðlilegum hætti.
Ég þarf að búa til stundatöflu.
Virkja vekjaraklukkuna aftur.
Skella mér í hressingargöngu á frostköldum vetrarmorgnum,
Vera kominn heim áður en snjallsíminn hringir inn í fyrsta tíma.
Setjast að skilgreindu verkefni í skilgreindan tíma.

Hlakka til að takast á við nýtt líf.

22 ágúst, 2017

Ég, lestrarhesturinn

Þetta er nú bara sett hér inn í geymslu.
Fyrir nokkru fékk ég eftirfarndi sendingu í skilaboðum á samfélagsmiðli:

Heill þér Tungnamaður : - )
Ég sé um Lestrarhestinn í Dagskránni og leita að fólki sem les bækur.
Má ég senda þér spurningar sem þú færð sjö heilaga daga til að svara?
Að því loknu sendir þú mér svörin ásamt vænlegri mynd og ég les yfir og bý til fyrirsögn og svo birtist það í Dagskránni fljótlega

Eftir nokkur orðaskipti varð úr að ég tók þett að mér, fékk sendar spurningarnar og þegar tími vannst til, svaraði ég þeim eftir bestu getu.   Afraksturinn birtist síðan í Dagskránni þann 17. ágúst. 
Um þetta hef ég ekki fleiri orð, en þetta er hinn óritrýndi texti sem frá mér fór.
---------------------------------------------------
Helstu punktar um æviskeiðið
Ég fæddist og ólst upp í Laugarási í Biskupstungum fyrir allmörgum árum. Þar hef ég eytt lunganum úr ævinni, síðustu áratugina með eiginkonunni Dröfn Þorvaldsdóttur, leikskólakennara, en börn eignuðumst við fjögur. Foreldrar mínir voru Guðný Pálsdóttir, frá Baugsstöðum í Flóa og Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi, sem eyddi æsku og unglingsárum á Héraði áður en hann hélt suður á bóginn.
Ég lauk stúdentprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1974, BA prófi í ensku og uppeldisfræði, auk diplómanáms í opinberri stjórnsýslu frá HÍ. Eftir þetta tók stafsævin við, en ég byrjaði sem grunnskólakennari í nokkur ár. 1986 kom ég til starfa í ML, fyrst sem enskukennari, bætti síðan námsráðgjöf við og loks stöðu aðstoðarskólameistara. Frá þessu hausti lýkur opinberum starfsferli mínum og annað tekur við.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Að langmestu leyti nota ég lestur til að skapa aðstæður fyrir góðan nætursvefn. Þær bækur sem ég les til að ná því arna eru aðallega þess eðlis að falla ekki undir það sem kallað er „fagurbókmenntir“, heldur nær því sem kalla má „léttmeti“. Bókin sem ég er að lesa einmitt um þessar mundir er spennuþrungið léttmeti af þessu tagi.

Hver er uppáhalds barnabókin þín og hvers vegna?
Af einhverjum ástæðum kemur Bláskjár, eftir Franz Hoffmann alltaf fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til barnabóka. Þessi bók hafði töluverð áhrif á mig á sínum tíma. Hinsvegar las ég heil reiðinnar býsn sem barn og unglingur; lagði helst ekki frá mér bækurnar fyrr en þeim var lokið og þá skipti tími sólarhrings engu máli. Þetta voru bækur Ármanns Kr. Einarssonar og Stefáns Jónssonar meðal annars. Einnig kom Enid Blyton sterk inn auk þess sem ég held að ég hafi lesið allar bækurnar um kappann Bob Moran og Hauk flugkappa, svo eitthvað sé nefnt. Svo þróaðist smekkurinn eftir því sem árin liðu þó vissulega gætu einhverjir talið hann fremur óþroskaðan enn þann dag í dag.

Segðu frá lestrarvenjum þínum?
Ég las mikið alveg fram á fertugsaldurinn. Svo dró bara einhvern veginn smátt og smátt úr því án þess að ég tæki í rauninni eftir því. Skýringuna uppgötvaði ég síðan þegar í ljós kom að ég þurfti orðið að nota lesgleraugu. Eðlilega þurfti ég að lesa heilmikið vegna vinnunnar, aðallega bókmenntaverk eftir breska og bandaríska ritjöfra. Í gegnum þann lestur áttaði ég mig á muninum milli vandaðra bókmennta og léttmetis, en hann felst, að mínu mati, í því að það er hægt að velta fyrir sér ræða það fyrrnefnda. Hið síðarnefnda styttir stundir, kryddar og stuðlar að slökun, svona rétt eins og svefninn sjálfur, en um hann segir Shakespeare í Makbeð:
„... svefninn góða,
sem greiðir flókinn rakþráð vorra rauna,
er hvers dags ævilok og stritsins laug,
særðum hug balsam,
best og hollust næring,
sem lífið ber á borð."

(Makbeð. Þýð. Helgi Hálfdánarson)

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Höfða til og höfða til. Eftir því sem árunum fjölgar hefur áhuginn á sögulegu efni vaxið, ekki kannski vegna áhuga á sögunni sem slíkri, heldur til þess að taka saman brot héðan og þaðan og skrifa síðan sjálfur um sögulegt efni, aðallega sem tengist nærumhverfi mínu. Ég er meira og minna lesandi allan daginn, en þar er ekkert eitt sem upp úr stendur.

Er einhver bók eða skáld sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig? Hvers vegna?
Ég er ekki þeirrar gerðar að halda upp á rithöfunda eða skáld. Vissulega ólst ég upp við þá hugmynd að bækur skiptu máli á hverju heimili. Fyrir um 30 árum fékk ég tilboð um að kaupa Íslendingasögurnar og Laxness eins og hann lagði sig með afborgunum. Ég stóðst ekki mátið og rökstuddi þetta fyrir sjálfum mér og frúnni sem svo, að með kaupunum myndi ég hafa nóg að lesa þegar ég kæmist á eftirlaun. Þá sá ég auðvitað ekki fyrir þá þróun sem orðin er og sé nú fram á að reyna að skipta tímanum réttlátlega milli Facebook og Gísla sögu Súrssonar eða Heimskringlu. Það verður eitthvað. Þar fyrir utan stend ég frammi fyrir því að þurfa að fara losa mig við bækur, sem stöðugt safnast inn á heimilið. Vonandi þurfa þær ekki að enda í pappírsgámi, en bókasöfn teljast ekki lengur sérlega ákjósanlegur arfur.

Ef þú værir rithöfundur hvernig bækur myndir þú skrifa?
Ég myndi annarsvegar skrifa hugljúfa spennusögu í þó nokkrum bindum (svona í Taggart-stíl). Sagan myndi gerast í heimavistarframhaldsskóla, þar sem enginn dagur væri öðrum líkur; hver uppákoman tæki við af annarri meðal nemenda og starfsfólks ekki síður. Þar væri að finna fjölbreyttan hóp skrautlegra persóna sem myndu lenda í ótrúlegustu ævintýrum. Aðalpersónan, húsbóndinn á heimavistinni, myndi verða miðpunkturinn í þessari sögu, enda bærust flest málin inn á hans borð til úrlausnar. Ég held ég skelli mér bara í að skrifa fyrsta hluta.
Hinsvegar myndi ég skrifa ljóðabókina „Þorpið í skóginum“ sem innihéldi prósaljóð af dýrasta tagi.

12 ágúst, 2017

Götuheiti í fokki.

Ég átta mig á því að fyrirsögn þessa pistils er fremur vandræðaleg, komandi frá málfarsfasistanum, mér. Fyrirsögnin er bara í stíl við þann vandræðagang sem virðist vera uppi þegar nöfn á götum og vegum í Laugarási eru annars vegar.
Ég ætla hér að birta helstu rök mín fyrir að halda þessu fram og meira að segja ganga svo langt að birta myndir máli mínu til stuðnings.

Ég byrja á kortinu sem fylgir já.is og  tína til það helsta sem þar er að sjá:
1. Vegurinn frá Skúlagötu að Ferjuvegi heitir HÖFÐAVEGUR.
2. Vegurinn sem er framhald Skúlagötu, upp brekkuna og í Austurbyggð, kallast AUSTURBYGGÐ.
3.  Vegurinn inn eftir allri Vesturbyggð kallast SKYRKLETTAGATA.
4. Á þessum vegi er síðan að finna hliðargötu sem kallast KLETTAGATA,  en úr Klettagötu kemur hliðargata sem heitir fyrst BRENNIGERÐI, en síðan HOLTAGATA.
5. Við endann á Skyrklettagötu (ef hún heitir það) er stutt gata sem heitir ÁSMÝRI.
6. Í framhaldi Ferjuvegar til vesturs má sjá götuna KIRKJUHOLT. Ekki verður annað séð að símaskúrinn græni hafi fengið hið virðulega heiti LAUGARÁS og heimreiðin að Asparlundi er í gegnum hlaðið í Kirkjuholti. Áhugavert.

Næst birti ég mynd úr kortasjá Loftmynda.

1. Gatan milli Skúlagötu og Ferjuvegar heitir SKÓGARGATA.
2. Gatan upp brekkuna í framhaldi Skúlagötu, inn í Austurbyggð heitr ekkert.
3. Gatan inn í Vesturbyggð heitir VESTURBYGGÐARVEGUR


Þá er komið að uppsveitakortinu, sem dreift er til ferðamanna.
1. Gatan milli Skúlagötu og Ferjuvegar  kallast HÖFÐAVEGUR.
2. Ekki er ljóst hvað leiðin upp brekkuna kallst, en sennilega HVERABREKKA, þar sem gamla læknishúsið ber nafnið Hverabrekka.
3. Vegurinn ínn í Vesturbyggð (Hvaða svæði í Laugarási kallast yfirleitt Vesturbyggð?) virðist ekki heita neitt fyrr en hann skiptist í SKYRKLETTAGÖTU og HOLTAGÖTU.
4. Svo er það þessi HLÍÐARVEGUR þarna efst?


Loks leita ég á náðir GOOGLE sjálfs. Hann er ekkert að flækja málin.
1. Vegurinn milli Skúlagötu og Ferjuvegar kallast HÖFÐAVEGUR.
2. Vegurinn inn eftir allri Vesturbyggð kallast ÁSMÝRI.
3. Áin sem liðast framhjá Laugarási kallast ÖLFUSÁ.


Það eru sjálfsagt til önnur kort með öðrum götunöfnum, en þegar upp er staðið þá tel ég nú að það hljóti að vera á borði yfirstjórnar sveitarfélagsins að sjá til þess að svona hringlandaháttur sé ekki fyrir hendi.
Það er heilmikið verk framundan við að:
1. ákveða endanlega heiti gatna eða vega í Laugarási.
2. tryggja að þessi nöfn séu rétt á opinberum kortum af svæðinu.

Ég hef hvergi rekist á að nafnið Dungalsvegur/Dungalsgata/Dunkabraut eða annað sem minnir á nafna minn Dungal sem fyrstur settist að við Höfðaveg/Skógargötu, árið 1962 og kallaði býli sitt Ásholt.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...