Sýnir færslur með efnisorðinu Kúba. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Kúba. Sýna allar færslur

29 mars, 2019

Kúba: næturstaður, snyrtingin og VR

Örin bendir á dyrnar að híbýlum okkar í Havana. Íbúðin er
á annarri hæð í þessum blágræna pastellit.
Havana er jú bara borg, svona í stórum dráttum eins og borgir eru. Umferðin er að vísu talsvert minni en gengur og gerist í höfuðborg okkar og einhvernveginn umtalsvert meiri ró yfir mannlífinu. 

Eftir að við höfðum brunað gegnum neðansjávargöngin og inn í borgina lá leiðin beint í gististaðina sem okkur voru ætlaðir, en þeir voru með svipuðum hætti og verið hafði í Casilda, nema þarna voru þeir allir við sömu gatnamótin í gamla bænum, í húsum sem eitt sinn hýstu betur stæða þegna Kúbu en nú. 
Þar sem rútan var stöðvuð við gatnamót, inni í hverfinu í gamla bænum, voru gestgjafar okkar komnir til að taka á móti hópnum. Þeir tóku töskurnar okkar og fluttu upp í íbúðina, sem var á annarri hæð, í okkar tilfelli (þessara þriggja: ég, fD og fR).
Tilraun til að ná mynd í herberginu.

Þetta var dálítið konungleg upplifun, bæði með því að við þurftum ekki að snerta farangurinn fyrr enn upp í herberginu okkar og vegna þess að í þessari íbúð var afar hátt til lofts. Ég giska á að lofthæðin hafi verið einir 5-6 metrar. Ég freistaði þess að taka myndir sem eiga að sýna þetta.

Í íbúðinni voru þrjú stór herbergi í útleigu og gestgjafinn bjó þar einnig. Því miður talaði hún litla eða enga ensku svo samskipti við hana voru í heilmiklu lágmarki og nánast eins og hún vildi helst ekki vera neitt að reyna að spjalla. Aðbúnaðurinn allur var hinsvegar afskaplega góður, svo því sé nú haldið til haga.

Aðeins meira um herbergin.
Við fengum þarna ágætis herbergi, sem var að vísu gluggalaust, eins og herbergið sem kom í hlut fR. Það var gluggi á þriðja herberginu. Ég verð hinsvegar að segja það að gluggaleysið skipti engu máli, því þarna dvöldum við bara yfir blánóttina í ágætis rúmum. 
Herbergi okkar og fR voru samliggjandi og fljótlega kom í ljós að eitthvað var óvenjulegt við snyrtinguna, en það var salerni og sturta í öllum herbergjunum, sem ekki höfðu verið þar þegar upprunalegir eigendur á 18.eða 19. öld  bjuggu þarna, heldur sett upp þegar íbúðin var tekin í gegn vegna ferðaþjónustunnar.  Það hefur tekið mig nokkra stund að finna réttu orðin til að lýsa samspili snyrtinganna tveggja, okkar fD annarsvegar og fR hinsvegar. 

Setustofa íbúðarinnar og það sést út á svalir.
Kannski má orða það svo, að uppsetning þeirra hafi gert nágrönnunum kleift að skiptast á skoðunum og/eða upplýsingum meðan nauðsynlegum verkum var sinnt á snyrtingunni og þannig mátti spara tíma. Þarna hefðu fD og fR t.d. getað komist að niðurstöðu um veitingastað kvöldsins, þannig að það mál væri þá bara afgreitt þegar þær kæmu síðan út að verkum loknum. 
Á milli snyrtinganna var veggur, bara rétt eins og reikna hefði mátt með, utan það að hann var rétt rúmlega mannhæðar hár, en, eins og áður er getið, var lofthæðin í íbúðinni 5 - 6 metrar. 
Ég neita því ekki, að ég skipulagði nokkuð verkefni mín á snyrtingunni út frá því hvar ég taldi fR vera stadda hverju sinni.
Allt fór þetta vel og ekkert okkar fékk sár á sálina af þessum sökum, í það minnsta.

Dyrnar inn í herbergið okkar fD
Ég vil geta þess hér að ekki hefði ég viljað skipta á híbýlum okkar á Kúbu og einhverju stöðluðu hótelherbergi. 

Við gengum frá okkur í þessum konunglegu híbýlum og svo brunaði hópurinn á veitingastað, þar sem snæddur var ágætur matur og VR* innbyrt af nokkrum krafti. Þriðja konan bættist þarna við sem borðfélagi okkar þriggja. Þar með voru þær orðnar þrjár sem reyndu að hafa stjórn á mér. Undir borðhaldinu varð ég fyrir nokkurri ágjöf, við og við, en stóð það allt af mér af sannri karlmennsku, eins og maður segir.
Þar sem hópurinn yfirgaf veitingastaðinn, belgsaddur, fór rafmagnið af bænum (allavega hluta hans) og raunar ekkert meira um það að segja. Rútan beið okkar og nótt í nýju rúmi eftir heilmikinn dag, tók okkur fagnandi.

*VR merkir Vítamín R, sem er sú skírskotun til þjóðardrykks Kúbverja sem fararstjórinn kenndi okkur að nota. Með tilvísun til yfirstandandi kjaraviðræðna kýs ég að notast við VR.

26 mars, 2019

Kúba: 3.6 eða 7.2, orkute, playa og svín

"Göngum yfir brúna" - milli lífs og dauða
Fjórði dagur marsmánaðar rann upp, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þetta var sá dagur í útgefnu ferðaskipulagi, sem mér leist einna síst á. Framundan var gangan að fossinum þar sem maður gat, kysi maður svo, stungið sér í silfurtært vatnið fyrir neðan fossinn.

Ég vissi eiginlega ekki hvernig ég færi að því að tækla þessa göngu, treysti því ekki fullkomlega sem sagt var á skipulaginu, að um væri að ræða "þægilega" göngu, enda, eins og allir vita þá er það sem Everestfara finnst þægilegt, ekki endilega þægilegt samkvæmt mínum málskilningi. (Síðari rannsókn mín leiddi til þeirra upplýsinga að þessi ganga væri flokkuð sem "intemediate" eða miðlungserfið).
Svo var það þetta með sundið. Ekki var annað að skilja, en að fólk yrði að klæðast viðeigandi fatnaði innan fata þar sem ekki var getið um að fataskiptaklefar væru þarna við fossinn. Allavega ákvað ég að fara ekki í þessa göngu í mörgum lögum af fötum, nóg yrði nú samt. Þar með ákvað ég einnig, að ekki myndi ég stinga mér í silfurtæra tjörnina fyrir neðan fossinn. Það er alltaf gott þegar maður kemst að niðurstöðu um málin.

Gengið og gengið
Það var útgefið af fararstjóra, að þessi ganga væri 3,6 km. Fljótlega vaknaði spurning í huga mér um hvort hún væri 3,6 km. aðra leiðina eða báðar. Að þessu spurði ég Guðna þar sem hópurinn beið eftir merki um að leggja af stað. "3,6 km. alls", hljómaði svarið. Nú...kva, bara 1,8 km að fossinum - tertusneið (piece of cake), þetta jafngilti vegalengdinni frá Kvistholti í Skálholt og meira að segja tæplega það. Sú leið telst nú ekki vera stórmál, hluti að 3ja til 4ra kílómetra daglegri göngu okkar fD.
Þar sem reyndin varð sú, eins og ég upplifði hana, að þarna var um talsverð lengri leið en Guðni hafði gefið upp, skoðaði ég málið þegar heim var komið. Þetta fann ég á vefnum "Lonely planet"
This pleasant spot within a protected park consists of a ranchón (farm-style restaurant) serving pez gato (catfish) from the on-site fish farm. Take the Huellas de la História trail (3.6 km) to the refreshing Javira Waterfall. With a stop for lunch in the ranchón (thatched-roof restaurant) it can make an excellent day trip.
Vespuþyrping á klettavegg
Augljóslega þýðir þetta að ganga dagsins var 7.2 km en ekki 3.6.  Ég skil hinsvegar Guðna vel, því hann hefði mögulega orðið einum göngumanni fátækari, hefðu þessar upplýsingar legið fyrir áður en lagt var af stað, og svona eftir á, er ég eiginlega hálf þakklátur honum fyrir að fara þarna fremur frjálslega með sannleikann.
Sannarlega er einnig spurning um það hvort ég er hér að fara frjálslega með sannleikann. Ég hef nefnilega ekkert fast í hendi varðandi þessa vegalengd. Þar með verður að taka þessa umfjöllun mína með hæfilegum fyrirvara, eins og nærri má geta.

Eins og fram hefur komið, lá leiðin, á fyrri hluta þessa dags inn í Parque el Cubano (Cubano garðinn), sem er stutt frá Trinidad. Rútan flutti okkur að upphafsstað göngunnar þar sem okkar beið einhverskonar "kraftdrykkur" Síðan hófst gangan á skemmtilegan hátt með því hópurinn þurfti að ganga yfir hengibrú.

Temaðurinn og kona hans
Þegar yfir var komið tilkynnti leiðsögumaðurinn að framundan væri erfið ganga upp á við næstu 800 metra og ekki var laust við að færi aðeins um mig við þær upplýsingar. En fyrst þetta voru bara 1,8 km að fossinum hlyti ég nú að hafa það.  Svo gengum við upp, upp, upp, þá örlítið niður með von um að nú færi þetta allt að verða betra, bara til þess síðan að halda lengra upp.  Ég reyndi að njóta fegurðar náttúrunnar af fremsta megni og tókst það bara furðu vel, enda varla annað hægt, en hinsvegar fór mig fljótlega að lengja eftir áfangastaðnum. Hann reyndist hinsvegar ekki í augsýn alveg á næstunni.
Fossinn. leðurblökuhellirinn og tjörnin
Það má þakka fyrir það að við og við var gert hlé á göngunni til að virða fyrir sér náttúrufyrirbæri, eins og t.d. heilan klettavegg sem var þakinn vespuhreiðrum (mögulega Zeta vespunnar - ekki veit ég það þó), spætur og eðlur, Hið konunglega pálmatré (The Royal Palm) þjóðartré Kúbverja og fleira og fleira.
Þarna var ég nú bara farinn að sætta mig við hlutina eins og þeir voru og þar kom að við komum að fremur stórum kofa með stráþaki þarna í óbyggðunum. Þar býr maður sem sagður er lifa á því að gefa göngufólki te. Þetta te mun eiga að veita fólki kraft til að ljúka göngunni að Javira fossinum þar sem tjörnin er. Ég varð ekki var við þennan kraft svo sem, enda varla við því að búast að einn tebolli valdi einhverri dramatískri breytingu á lífsneistanum.

Auðvitað komum við loks að fossinum, þar sem einhver úr hópnum skelltu sér til sunds og kíktu á leðurblökurnar, sem þeir einir fengu að sjá sem í tjörnina fóru.
Eftir nokkrar myndir ákváðum við þrjú að halda til baka og segir ekki af þeirri göngu, sem bendir til þess að ekki hafi hún farið sérlega ílla í okkur.
Þær tvæ, fD og fR í karabíska hafinu.

Ég var stoltur af sjálfum mér eftir gönguna og þar með ánægður með að hafa sigrast þarna á sjálfum mér, eina ferðina enn. Þar fyrir utan þakklátur fyrir að hafa fengið að leggja þetta á mig.
Það beið okkar matur í ríkisstað þegar við komum til baka, en þar, eins og víðast annarsstaðar í ferðinni, var matarlystin afar slök. Reyndar var hún það allan tímann, hvernig sem það verður nú útskýrt.
Síðdeginu eyddum við á  Playa Ancón, sem mun eiga að kallast Playa Trinidad í framtíðinni. Þetta var okkar tækifæri til að geta sagst hafa unað okkur á sólarströnd í karabíska hafinu. Ekki slæmt. Ströndin þessi var auðvitað aldeilis ágæt, enda í karabíska hafinu og nú getum við sagt "been there, done that".
Strandferðin hefði átt að nýtast til að safna kröftum fyrir heilgrillaða grísinn (sem varð ekki heilgrillaður vegna þess að það fannst ekki grís að réttri stærð) um kvöldið, en dugði samt ekki til að efna í annað eins kvöld og á La Rosa.
Auðvitað mættum við á staðinn, og borðuðum indælis grísinn, en eitthvað vantaði upp á að tankurinn dygði til frekari afreka þennan daginn. Það sama var hreint ekki að segja um talsvert marga aðra ferðafélaga og mér er ekki kunnugt um allt sem þarna fór fram, sem frétti af einhverju síðar.
Það fór svo að rúmið góða á La Rosa tók mér fagnandi tiltölulega snemma, þetta síðasta kvöld í Casilda.




25 mars, 2019

Kúba: af þrælum, ofþornun og cha-cha-cha

Minning um þrælahald
Þegar búið var að bera í okkur ágætan morgunverðinn  hófst verkefni dagsins, annarsvegar að koma í Valle de los Ingenios, sem er í um 12 km fjarlægð frá Trinidad og hinsvegar að kynnast bænum Trinidad nánar. Að loknum þessum verkefnum yrði fólkinu sleppt lausu í Trinidad til frekara útstáelsis.

Valle de los Ingenios  Dalur sykurreyrsmyllanna  Valley of the Sugar Mills

Þarna er um að ræða þrjá dali, San Luis, Santa Rosa og Meyer sem voru miðstöð sykurframleiðslu á Kúbu á síðari hluta 19. aldar.  Þegar hæst lét voru þarna yfir 50 sykurmyllur og ríflega 30.000 þrælar, sem látnir voru vinna verkin.
Nú er umhverfið þarna ósköp friðsælt, einhverskonar þögul áminning um skelfingar þrælahaldsins. Við nútímafólk ættum svo sem ekkert að vera að hreykja okkur og telja að við séum eitthvað skárri. Það var áhugavert að ímynda sér hvernig þarna var umhorfs fyrir 150 árum.
Sykurpressa í Valle de los Ingenios
Eins og oftar í þessari ferð fann ég fyrir ónotatilfinningu, komandi þarna, sem túristi, kíkjandi við litla stund, takandi myndir, smakkandi á sykurreyrssafa með skvettu af rommi, klifrandi upp í turninn (sem ég gerði reyndar ekki) þar sem þrælunum var skipað til vinnu og þeir kallaðir heim af ökrunum að kvöldi, ekki kaupandi allt handverkið sem var þarna til sölu, stígandi loks aftur upp í loftkælda rútuna með engar áhyggjur af neinu nema ef til vill að hafa ekki tekið með nóg vatn í ferðina eða klínt nægilega mikilli sólavörn nr. 30 á nefið.
Jú, kannski vannst það, að ég varð nokkru betur að mér um mannlegt eðli, þá lítilsvirðingu og niðurlægingu sem mannskepnan er fær um að beita. Auðvitað vissi ég þetta allt fyrir, en komst þarna einhvern veginn aðeins nær því, kannski vegna þess að ég gekk þarna, með einhverjum hætti í sögunni. Gat ímyndað mér að þar sem ég mundaði EOS-inn til að ná góðri mynd, hafi einhverntíma runnið blóð og sviti þræla.
Þetta var áhrifaríkt.

Trinidad

Víða fallegt umhverfi í Trinidad
Það mun hafa verið stofnað til þessa bæjar á 16. öld. Þetta er einn best varðveitti bærinn frá þeim tíma sem sykurvinnsla var aðal atvinnuvegurinn á þessu svæði við Karíbahaf. Nú mun helsti atvinnuvegurinn vera tóbaksvinnsla og í bænum búa um 75.000 manns.

Okkar erindi í þessan bæ á þessum degi var að fá í hann örlitla innsýn, við gengum um götur og snæddum hádegisverð á veitingahúsi sem var ekki ríkisrekið.  Eftir hádegið var okkur sleppt lausum til að kynnast bænum enn betur. Já, já, hitinn var kominn yfir 30°C, göturnar virtust mér allar eins og þó svo við (þessi þrjú) vissum nokkurnveginn í hvaða átt sjóinn var að finna leið ekki á löngu áður en við vissum ekkert hvar við vorum stödd. Það var ekkert kort með í för, vatnið fór minnkandi og sólavörnin greinilega eitthvað misheppnuð. Þar á ofan bættist að í hópnum tók að myndast togstreita á hverjum gatnamótum um það hvert halda skyldi, sem varð ekki auðveldara viðureignar með því að ekkert okkar vissi neitt.
Markaður í Trinidad
Við hefðum getað ráfað þarna fram eftir degi, en miklar efasemdir komu fram um að slíkt myndi leiða af sér jákvæða niðurstöðu.
Það varð úr, að við settumst niður á einhverju torgi í skugga og hugsuðum ráð okkar. Þar sáum við eðlu og gamlan mann taka hádegislúrinn sinn við aflagðan gosbrunn, en héldum að því búnu göngu okkar út í óvissuna. Gangan sú varð ekki löng, enda lækkaði hitinn ekki, sólin var miskunnarlaus, vatnið á þrotum og .... jæja.
Það varð sem sagt úr að við fórum að svipast um eftir leigubíl, sem birtist von bráðar, en þar var ekki ríkisbíll á ferð, heldur svona einkaleigubílstjóri.

Leiðsögn um Trinidad
Guðni hafði bent okkur á að vera ávallt með réttar tegundir seðla í veskinu þegar við tækjum leigubíl og við áttum að spyrja fyrirfram hvert fargjaldið væri. Jú, farið til Casilda átt að vera 8 CUC, sem við töldum bara sanngjarnt. Á áfangastað ætluðum við að vera örlát og borga bílstjóranum 10 CUC (ca. 1200 ISK). Við áttum hinsvegar ekki nema 20 CUC seðil og eins og Guðni hafði bent okkur á þá kvaðst bílstjórinn ekki geta gefið til baka og okkur fannst nú 20 CUC ( 2500 ISK) vera fullmikið fyrir þennan skottúr, nánast bara íslenskt verð. Þessu björguðum við með því að borga 10 evrur eða tæpa 1400 ISK fyrir, og allir voru nokkuð sáttir.

Það sem eftir lifði

Þarfnast ekki útskýringar
Það fór eins og við mátti búast, að ég fór allur frekar að slappast þegar heim var komið, og kúbanskur vindill, Mojito og Piña Colada breyttu ekki miklu um það ástand. Þarna hafði ég greinilega orðið fyrir ofþornun eða sólsting, nema hvort tveggja væri og fram á kvöld mókti ég að þessum sökum, en eitthvað varð til þess að ég hresstist að lokum, svo verulega að síðar um kvöldið olli ég því að söngkonan varð að taka sé hlé í þrjú lög til að ná andanum. (Nei, ég er ekki  enn með sólsting).

Þetta kvöld var skipulagður kvöldverður fyrir allan hópinn á veitingastaðnum La Rosa, sem svo vel vildi til að var bara beint fyrir utan innganginn að herberginu okkar. Það var því ekki valkostur að liggja þetta atriði af sér og við ákváðum bara að taka á því, eins og sannir Íslendingar.

Þannig gerðist það, að ég losnaði úr álögum ofþornunar og ofhitnunar og við héldum til kvöldverðar, þar sem ofgnótt indæls matar var borin fyrir okkur. Undir borðum lék næstum sama hljómsveit og kvöldið áður, í það minnsta var söngkonan sú sama. Þetta var feikna góð söngkona. 
Mojito, Piña Colada og kúbanskur vindill.
La dolce vita.
Hljómsveitin gerði talsvert af því, að kalla fólk upp til að hrista plastflösku með hrísgrjónum í, í takt við tónlistina. Hver á fætur öðrum voru ferðafélagarnir togaðir þarna upp til að hrista.

Svo kom cha-cha-cha.
Söngkonan gerði sér þá lítið fyrir og sveif á mig, sem sat þarna saddur og sæll, og bauð mér upp í dans, sem ég þáði, enda alveg tilbúinn í einhverja vitleysu á þessum tímapunkti. Hún hefði sennilega betur látið þetta ógert, svona eftir á að hyggja. Ég smellti mér í ævafornan dansgír, bjó til mitt eigið ch-cha-cha (sem ég hef aldrei lært) og sveiflaði söngkonunni um gólfið, hring eftir hring, snúning eftir snúning og spor eftir spor.  Svo þakkaði ég fyrir dansinn og settist í sæti mitt í lok dansins, en ég tók eftir því að söngkonan treysti sér ekki í þrjú næstu lög, meðan hún var að ná úr sér mestu mæðinni.
Fleiri úr hópnum létu til sín taka við tónlistarflutning þetta kvöld, en fyrir utan þau sem hristu plastflöskuna, átti Gunnar Rögnvaldsson harla skemmtilega innkomu með söng og gítarleik, sem sannarlega kveikti Íslendinginn í okkur hinum.

Þegar upp var staðið var þetta aldeilis ágætur dagur, en svo tók svefninn við í kúbverskum bæ á strönd Karíbahafsins.

Við fR í tilraun til sólbaðs á svölunum hjá Rósu.



Valle de los Ingenios (Google maps)



22 mars, 2019

Kúba: Sveitir lands, samlokur og svefnstaður

Veitingastaðurinn á leiðinni milli Varadero og Casilda
Ef ætlun mín með þessum skrifum væri, að fjalla svo nákvæmlega um alla ferðina og frásögn af lendingunni á Kúbu kann að gefa til kynna, yrði líkleg niðurstaða efni í heila bók. Framhaldið verður ekki jafn nákvæmt, í það minnsta ekki nema  einstakir þættir.  
Þar með held ég áfram að skanna svona helstu þætti þess að bar fyrir augu eða átti sér stað. 

Leiðin lá úr flugstöðinni í Varadero út í kúbverskt vorið. Ekki svona alveg íslenskt vor. Sól skein í heiði og lofthitinn um 30°C og því engin hætta á að við yrðum loppin.
Það fyrsta sem blasti við var bílastæði flugstöðvarinnar með tveim rútum og einum bíl frá því um 1950: glæsikerru, en af þeim áttum við eftir að sjá harla mikið það sem eftir var ferðar.

Fyrsta verkið, eftir að komið var inn í þetta magnaða land fólst í því að skipta evrum eða kanadadollurum yfir í kúbanska mynt. Fyrir utan flugstöðina var hægt að gera þetta í gegnum lúgur. Þarna var einnig hraðbanki sem maður gat bara tekið út af kortinu sínu, svona eins og víðast annarsstaðar.
Fólkið birgir sig upp af CUC fyrir utan flugstöðina.
Áður en lengra er haldið er rétt að gera örlitla grein fyrir kúbönskum gjaldmiðli. Þar er um að ræða tvennt, CUP og CUC.
CUC er sú mynt sem ferðamenn þurfa að nota og sem hægt er að skipta fyrir erlendan gjaldeyri. Þessi mynt er stundum kölluð kúbanskur dollari og gengi hans er nánast það sama og ameríska dollarans, eða nú um 120 ISK.
CUP er svokallaður kúbanskur pesói, sem landsmenn nota í viðskiptum sín á milli. Þessari mynt er ekki hægt að skipta fyrir erlenda gjaldmiðla. Í hverju CUC eru einhversstaðar um 25 CUP.
Ekki treysti ég mér síðan til að gera grein fyrir samskiptum þessara tveggja mynta innan Kúbu, en þau virðast allavega ganga.

Annað verkið sem sinna þurfti, áður en rútuferð dagsins hófst, var að tryggja nægan vökva, en þarna fyrir utan var að finna sölumenn drykkjarfanga. Úr kæli sínum buðu þeir til sölu tvær tegundir af kúbönskum bjór. Fyrir mér er bjór bara bjór, svo ég tók kostaboði um að kaupa 4 bjóra fyrir 5 CUC, en hafnaði margítrekuðu kostaboði sölumannsins um að kaupa 8 fyrir 10 CUC, en ekki var annað á honum að skilja en að þar væri um að ræða enn betri díl.
Ekki meira um það
Gengið var til rútu og haldið af stað, klukkan farin að ganga fjögur og framundan einhversstaðar um 5 tíma rútuferð til náttstaðar í Casilda, syðst á eyjunni.

Kortið sem sýnir leiðir sem farnar voru í ferðinni.
Set það inn með hverri færslu, til glöggvunar.
Nú er það svo, að rútuferð er rútuferð. Það er brunað áfram um sveitirnar, sem í tilfelli Kúbu voru einstaklega gróðursælar, um vegina sem minntu harla mikið á Biskupstungnabraut eða Skálholtsveg.  Umferðarþunginn þarna var varla til að tala um og framhjá liðu akrar af ýmsu tagi og víðast einnig stórir steypukumbaldar, sem gegnt höfðu oft hlutverki einskonar vinnubúða fyrir fólk sem vann á þessum ökrum. Smám saman minnkaði einbeitingin og frásagnir fararstjórans fóru að fara inn um annað og út um hitt.
Þarna sátum við spennt í öryggisbelti, sem höfðu verið tekin sérstaklega fram af tilefninu. Þau eru að sögn venjulega vandlega falin í rútum á Kúbu, þar sem ástæða þykir til að komast hjá því að þau  slitni óhóflega.

Skipulagt matarhlé

Á áningarstað, saddar og sælar eftir samloku, bjór og búst.
Það lyftist nokkuð brúnin að fólkinu þegar Guðni farastjóri tilkynnti að framundan væri áning á veitingastað. Hún lyftist síðan enn frekar þegar hann gekk um rútuna og gaf farþegum kost á að velja á milli samloku með skinku og osti annarsvegar og samloku með túnfiski, hinsvegar.  Þetta kvaðst hann gera til að veitingastaðurinn gæti verið klár þegar við renndum í hlað.
Þetta var sennilega fyrsta menningarsjokkið sem við, frá landi allsnægtanna, urðum fyrir í þessari ferð og reyndist alls ekki það síðasta.  Fyrsta hugsunin var ef til vill: "Hvaða rugl er þetta?", en það tók önnur strax við: "Hvaða vit hefði svosem verið í því að þessi veitingastaður hefði verið tilbúinn  að 15 mismunandi tegundir af samlokum í plastumbúðum, sem síðan myndu meira og minna renna út og enda loks í ruslinu?" Það sem við þurftum þarna var biti til að seðja hungrið og drykkir til að slökkva þorstann. Snýst þetta ekki bara um það, annars?

Klukkutíma eða svo eftir pöntunina renndum við í hlað, fengum okkar samloku, afar verklega, afar gómsæta og afar ferska, ásamt nýmaukuðu ávaxtabústi eða bjór. Þetta var hreint ágætt. 

Trinidad og Casilda (mynd af Google maps)
Eftir þessa góðu áningu var rennt af stað í síðari legg þennan daginn. Þá lá leiðin meðal annars inn á hraðbraut. Guðni greindi þar frá því að verið gæti að okkur fyndist undarlegt að rútan flakkaði, að því er virðast kynni, að ástæðulausu milli akreina. Fyrir slíku, mögulegu akreinaflakka kvað hann vera þá ástæðu að bílstjórinn veldi þá akrein, hverju sinni, sem skást var við haldið. Svo var ekki meira með það og ekki varð ég var neitt akreinaflakk; sat bara þarna í rútu sem vaggaði alveg sæmilega eftir sem áður.

Segir nú ekki af ferðnni fyrr en komið var í áfangastað í myrkri um kl. 20. Þarna vorum við komin í þorpið Casilda, sem er svona nokkurskonar úthverfi bæjarins Trinidad (sjá kort). Ekki gat maður nú greint hvernig þarna var umhorfs, enda afskaplega mikið myrkur og engin flennigötulýsing.
CAlle Real og La Rosa (mynd af Google maps)

Hópnum var skipt í 5 hús og við þrjú, sem vorum þarna í samfloti vorum sett út við hús sem ber heitið Rósin, Hostal La Rosa, sem stendur, rétt eins og aðrar íbúðir sem hópurinn gisti í, við Calle Real (Real götuna).
Okkur var tekið með kostum og kynjum og hjónin ágætu fóru afskaplega vel með okkur meðan við dvöldum þarna. Úrvalsfólk.

Eftir að töskurnar höfðu verið bornar fyrir okkur, alveg inn á gólf, fór skammur tími í hvíld eftir harla erfiðan dag, áður en haldið var á veitingahús í nágrenninu þar sem lifandi tónlist fór inn um augu og eyru, meðan ofgnótt matar voru gerð skil eins og kostur var á Það var gert um munn, rétt eins og maður gerir yfirleitt.
Hvíldin var kærkomin í notalegum húsakynnum og þar með tek ég mér pásu þar til næst.


Gististaðurinn La Rosa við Calle Real í Casilda.



20 mars, 2019

Kúba: Lending

Helstu viðkomustaðir á Kúbu.
Það er ekki endilega víst að allir vegir séu nákvæmlega rétt valdir, en í stóum dráttum
var ferðalagið svona frá 2.- 12. mars.

Áður en lengra er haldið, er rétt að geta þess að ekkert okkar þriggja sem lögðum í þessa för sem hluti af 30 manna hópi, getur talist til róttækra hægri manna, hægri manna yfirleitt, eða kapítalista. Hvað við erum í stað þessa læt ég liggja milli hluta, enda ekki mitt að skilgreina lífsskoðanir samferðafólks míns.
Ætli megi ekki segja að við séum svona fólk sem er löngu búið að átta sig að að ismar í hvaða átt sem er, ganga ekki upp, einfaldlega vegna þess hvernig mannskepnan er innréttuð. Þeir hljóma oft óskaplega vel, ismarnir, en mannlegt eðli afskræmir þá undantekningarlaust þegar fram í sækir.  Fleira segi ég ekki um þetta, en vona að það sem ég hef sagt, varpi litlu ljósi á það sem kemur hér til umfjöllunar, en ég veit svo sem ekki enn hvað það verður. 

Á leiðinni frá Toronto til Varadero flugvallar á Kúbu, sem er rétt hjá karabískum sólarströndum Kúbverja, þurftum við að fylla úr blað. Þetta var eitt blað þar sem við þurftum síðan að skrifa sömu upplýsingarnar tvisvar (sjá til hliðar). Þetta var svona ígildi vegabréfsáritunar fyrir ferðamenn. Þessa blaðs var okkur síðan gert að gæta eins og sjáaldurs augna okkar, því kallað yrði eftir því þegar við færum úr landi aftur.

Flugvöllurinn í Varadero (mynd af vef)

Aeropuerto de Juan Gualberto Gómez


Á flugvellinum í Varadero fór það fram, sem venjulega fer fram á alþjóðaflugvöllum. Við gengum út úr vélinni inn í flugstöðvarbyggingu og byrjuðum þar á að fara í gegnum landamæraeftirlit. Ég ætla ekkert að neita því að vegna ákveðinna fordóma stóð mér ekki alveg á sama þegar að því kom. Ætli maður sé ekki búinn að sjá of margar myndir af neðferð kommúnískra ógnarstjórna á fólki.
Við blasti röð af dyrum. Við þurftu að velja einar dyr, inn í lítinn klefa, eitt og eitt í einu. Í klefanum sat, á bak við hátt borð, landamæravörður. Honum þurfti að afhenda ferðagögn, vegabréf, vegabréfsáritunarmiðann og farmiðann. Hann skoðaði gögnin, ábúðarfullur og alvarlegur og steinþegjandi, meðan maður reyndi að taka svalann (kúlið) á þessar aðstæður, reyndi að gera ekkert sem hugsanlega yrði til þess að hann seildist undir borðið eftir byssu, nú eða til að ýta á neyðarhnapp.
Manni hefur nefnilega verið sagt að húmor, hvaða nafni sem nefnist, eigi ekki við fyrir framan landamæraverði.  Þar sem ég stóð þarna, í húmorsleysi mínu og beið þess sem verða vildi, gaf vörðurinn mér bendingu um að taka af mér gleraugun. Því næst stillti hann myndavél fyrir framan mig og smellti af. Þá skoðaði hann gögnin enn frekar og horfði á tölvuskjáinn hjá sér. Komst loks að þeirri niðurstöðu að föðurlandi hans myndi að öllum líkindum ekki stafa veruleg hætta af heimsókn minni, Stimplaði í vegabréfið, með þeim afleiðingum, að ég mun, að sögn þeirra sem betur þekkja til en ég, ekki fá að heimsækja land hinna hughraustu og frjálsu næstu tvö árin. Margt finnst mér erfiðara að takast á við í heiminum en það.
Að stimplun aflokinni opnaði vörðurinn dyr mínar inn í Kúbu og enn var mér létt. Svei mér eg ég sá ekki votta fyrir örlitlu brosi út í annað, í þann mund er hann rétti mér ferðagögnin.
Reglur um afgreiðslu komugesta við landamæraeftirlit.
Það var auðvitað ekki svo að allt væri nú búið eftir afgreiðsluna í landamæraklefanum. Fyrir innan dyrnar blöstu við nýjar raðir fólks, sem beið þess að komast í gegnum enn eina öryggisleitina, svona eins og maður fer í áður en maður fær að stíga upp í flugvél.  Ég hef mikið velt fyrir mér tilganginum með þessari leit, en hef ekki forsendur til að setja fram eitthvað um ástæður hennar. Það eina sem mér dettur í hug er mögulegur, skaðlegur búnaður af einhverju tagi, sem farþegar gætu hafa aflað sér á flugvellinum í Toronto. Svo kom  auðvitað upp í hugann sú fullyrðing sem ég heyrði, að á Kúbu væri ekkert til sem héti atvinnuleysi. Þarna höfðu einir 15-20 einstaklingar atvinnu af því að skanna þegar skannaða farþega. Ekki geri ég athugasemdir við það. Nánar má lesa þær reglur sem þarna er unnið eftir á myndinni hér fyrir ofan, vinstra megin (smella á hann til að stækka).

Salurinn sem hópurinn kom þarna inn í er afskaplega stór, hátt til lofts og vítt til veggja. Í honum var fremur skuggsýnt og engin skrautljós að óþarfa auglýsingaskilti. Í fjærhorni þessa salar hægra megin voru svo töskufæriböndin og þar hlupu fíkniefnaleitarhundar fram og til baka, þefandi af farangrinum. Það var eins gott að ég skildi grasið eftir heima! - ef svo má að orði komast.

Töskurnar fengum við með skilum og við blasti frjálsmannleg innganga í landið hans Castrós. Hvernig myndi það nú taka við mér?

Næst: Upp í rútu og af stað


17 mars, 2019

Kúba: Ekki strax .... en síðar.


Ég ætla mér að festa á þetta svæði einhverskonar frásögn af ferð minni til Kúbu nú í fyrri hluta mars. Það gerist hinsvegar ekki í dag, þar sem ég þarf fyrst að koma frá mér einhverjum þeirra hugrenninga sem þessi ferð hefur kallað fram. Ég vona að mér takist það án þess að virðast heittrúaður á einhvern hátt, enda væri slík afstaða hvorki mér né öðru til framdráttar.

Það er eiginlega verst að þær vangaveltur sem mig langar að reyna að koma frá mér, eru svo stórar, að ég átta mig ekki fyllilega á því hvernig ég á að fara að því. Ætli megi þó ekki segja að þær fjalli um líf okkar á jörðinni, hvorki meira né minna.

Einhver kann að velta fyrir sér litla stund, hvort nú hafi ég endanlega misst tökin. Ég hyggst hinsvegar ekki freista þess að bregðast við slíkum, mögulegum pælingum, heldur halda mínu striki, hvert sem það kann að leiða mig.

"The answer to the ultimate question of life, the universe and everything is 42." 
(Adams, D.: The Hitch Hiker's Guide to the Galaxy)

Já, það er engu líkara en ég ætli mér að takast á við þessa ógnarstóru spurningu, en svo er auðvitað ekki. Mig langar frekar að spyrja sem svo: 

Úr íslenskri ofgnóttarverslun
Hvað höfum við gert, hvert hefur það leitt okkur og hvert stefnir?
Þetta er svo sem alveg nógu stór spurning fyrir hvern sem er og svör við henni hljóta að taka mið af ótal umfangsminni spurningum.  

Maðurinn hefur, frá því hann varð að einhverskonar "nútímamanni" í það minnsta, búið yfir allskyns hæfileikum, þar á meðal samkennd, hófsemi, trúarþörf, getunni til að greina rétt frá röngu, sjálfsást, ást til annarra, að hugsa út leiðir til að leysa vandamál, græðgi, undirferli, að skara eld að eigin köku.  
Þetta voru nú bara nokkur atriði af handahófi, en sem gefa til kynna, að maðurinn er bæði góður og vondur. Hann býr yfir miklum andstæðum og það má segja að saga hans endurspegli það. 
Það hafa komið fram einstaklingar og hópar, sem telja sig bera fram hina einu réttu leið fyrir okkur, leiðina að hamingusömu lífi, annað hvort fyrir alla eða bara suma. Það hafa sprottið fram spekingar sem telja leiðina felast í því að allir séu jafnir og aðrir spekingar sem telja að einstaklingsfrelsið muni helst verða okkur til góðs og enn aðrir spekingar sem hafa sett fram kenningar um eitthvað þarna á milli. 
Á tóbaksræktarbúgarði í Viñales á vesturhluta Kúbu
Ég leyfi mér að fullyrða, að engar þessara kenninga hafa gengið, eða ganga upp. Hversvegna skyldi það nú vera?  
Mitt svar er nú, í einfaldleika sínum, allir þeir veikleikar sem mannskepnan býr yfir. Þar eru þrír eiginleikar sem standa upp úr (að mínu mati, að sjálfsögðu): trúgræðgi og valdafíkn
Græðgin og valdafíknin byggja á þeirri trú, að þessir eiginleikar leiði til lífshamingu eða lífsfyllingar. 


Til hvers lifum við?
Við fæðumst einhversstaðar á jörðinni. Það getur verið í Sýrlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Kúbu eða Íslandi. Það sem þá bíður okkar er líf í svona 60 til 80 ár. Við stöndum frammi fyrir því að takast á við þetta líf, og reynum að gera okkar besta til að það sé þess virði að lifa því, hvert með sínum hætti. 
Svo deyjum við.  
"So long, and thanks for all the fish". (Adams, D.)

Toronto úr CN-turninum
Líf okkar milli fæðingar og dauða getur verið til einskis, það getur stuðlað að bjartari framtíð þeirra sem koma á eftir okkur, en það getur einnig eyðilagt möguleika þeirra á hamingjuríku lífi, eða lífi, yfirleitt. 

Tilgangur lífs okkar getur aldrei orðið annar en að ala af okkur og móta framtíð komandi kynslóða. Allar okkar eignir og upplifanir um ævina eru í raun ekki til neins fyrir okkur sjálf, svona þegar upp er staðið. Þær geta hinsvegar haft áhrif á afkomendur okkar svo lengi sem jörðin verður byggileg.
En hve lengi verður hún það?
Ekki lengi ef okkur tekst ekki að hætta að hugsa í núinu.
Ekki lengi ef við hægjum ekki á okkur, hættum að hugsa um veraldleg gæði fyrst og fremst og byrjum í staðinn að hugsa inn á við, huga að því sem stendur okkur næst og velta fyrir okkur hvað það er sem raunverulega skapar lífshamingjuna, hætta að velta okkur upp úr hlutum sem, í hinu stóra samhengi skipta nákvæmlega engu.

Hendur í Havana
Kommúnistaríkið Kúba verður víst seint talið fyrirmyndarríki. 
Ég mun fjalla síðar um hvernig hún blasti við mér. 
Það jákvæða sem ég upplifði var, að mér fannst fólkið talsvert lífsglaðara en þekkist hjá okkur, það var meiri ró yfir lífinu, samskipti barna og foreldra nánari, samkennd meðal íbúanna meiri, hjálpsemi við brugðið. Mér fannst fólkið, á heildina litið, vera hamingjusamt, þó svo ekki virtist nú beinlínis mulið undir það.  

Svo flugum við í þrjár klukkustundir til Toronto í Kanada, sem segja má að sé alger andstæða að mörgu leyti. Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt um Kanadabúa út frá stuttri viðdvölinni. Um göturnar, í skugga háreistra glerveggja  stormaði fólk með heyrnartól og Starbucks kaffimál, í eign heimi á einhverri vegferð. Ég sá færri bros, en þeir Kanadabúar sem við þó hittum, virtust ánægðir með lífið, en það voru helst þjónustufólk og leigubílstjórar. 

Nei, ég á ekki neitt endanlegt svar, frekar en aðrir. 

Skilti rétt fyrir neðan Niagara fossana
Ég vil ljúka þessu og þar með afgreiða þessar vangaveltur mínar með því að spyrja þig, lesandi góður aðeins um hamingjuna (ef þér er sama um hana, skaltu bara láta eiga sig að lesa spurningarnar - þitt er valið): 
Finnurðu hamingju þína aukast og að þú finnir til aukinnnar lífsfyllingar þegar:
- þú getur valið milli 20 tannkremstegunda í Bónus?
- þú getur valið milli 50 sjónvarpsdagskráa?
- þú getur keypt nýjasta farsímann?
- þú færð mörg læk á Facebook?
- þú bjargar kvöldinu með því að leyfa börnunum þínum að "horfa"?
- þú ert búinn að setja inn illgirnislega athugasemd við einhverja frétt eða frásögn á netinu?
- þú losar þig við ruslið úr bílnum í vegarkanti?
- þú vinnur 10 tíma á dag?
- þú ferð út að borða þrisvar í viku?
- þú horfir á fréttir sem greina frá hörmungum fólks í Austurlöndum?
- þú lest fyrir bönin þín áður en þau fara að sofa á hverju kvöldi?
- þú spjallar við börnin þín við matarborðið?
- þú gefur fuglum í garðinum?
- þú leggst til hvílu eftir að hafa gert eitthvert góðverk?
- þú ferð til sólarlanda á hverju ári?
- þú getur keypt nautalund frá Ástralíu í Bónus?
- þú getur fengið frægan ost frá Frakklandi í búðinni. 
- þú getur sturtað klósettpappírnum í klósettið?
- þú getur gengið um götur og torg í merkjafötum?
- þú varst fremst(ur) í röðinni þegar bandríski kleinuhringjastaðurinn var opnaður á Laugavegi?

Ég get sannarlega haldið áfram lengi með þessar spurningar, en veit ekki hverju það myndi breyta. 
Þegar upp er staðið er það eina sem við, aumar manneskjurnar, getum gert, er að reyna að vera almennilegar manneskjur, sem tilheyra samfélagi og taka á sig samfélagslega ábyrgð. Ef okkur tekst það þá erum við á réttri leið.

Ytra prjál, hvaða nafni sem það nefnist, er lítið annað en sóun á auðlindum heimsins. 

Þá er ég búinn að koma þessu frá og í framhaldinu ætla ég að fjalla, með einhverjum hætti, um ferð mína til Kúbu fyrir skömmu, en þangað brá ég mér með eiginkonunni Dröfn Þorvaldsdóttur (hér eftir fD) og góðri vinkonu okkar Ragnheiði Jónasdóttur (hér eftir fR). 
Ég hugsa að ég verði lengi að vinna úr þeirri upplifun sem það var að koma til Kúbu og þeim hugrenningum sem heimsóknin vakti. 

Hvernig var að að vera Vesturlandabúinn, sem hefur miklu meira en allt til alls, sem brá sér í heimsókn til kommúnístaríkisins Kúbu? 
Var þessi ferð kannski bara enn eitt dæmið um flottræfilshátt eða sjálfsupphafningu (Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn!) - tilraun til að geta svo sagt frá því þegar heim væri komið, hve sigldur maður er nú orðinn? 
Hver veit? 
Kannski.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...