Sýnir færslur með efnisorðinu skoðanir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu skoðanir. Sýna allar færslur

21 janúar, 2017

Hetjudraumar

Kynjahlutfall meðal kennara í grunnskólum.
Það fór lítilsháttar hneykslunaralda um samfélagsmiðla fyrir nokkrum dögum þegar framkvæmdastjóri jafnréttisstofu  tjáði sig um ástæður þess að drengir falla frekar út úr skólakerfinu.  Framkvæmdastjórinn var m.a. útnefndur "skúrkur vikunnar": 
Hjörvar Hafliðason og Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmenn Brennslunnar, útnefndu Kristínu skúrk vikunnar fyrir þessi ummæli hennar og gagnrýndu þau harðlega.(Nútíminn 17. janúar)
Það sem framkvæmdastjórinn mun hafa sagt, efnislega, er að piltar falli frekar úr skólakerfinu vegna þess að þeir ala með sér drauma um að verða hetjur eða fáránlega ríkir.
Þetta er auðvitað alveg rétt hjá framkvæmdastjórnanum.
Það sem vantar hinsvegar í málflutninginn er ástæðan fyrir þessum draumum ungra pilta. 

Hér fyrir neðan er að finna hlekki þar sem ég fjalla um uppeldismál eins og ég sé þau vera.
Ég nenni varla að fara enn einu sinni að fjargviðrast út að stöðu uppeldismála í þessu samfélagi, ætla bara segja þetta þessu sinni, en vísa að öðru leyti í það sem ég hef sagt um þessi mál áður. Það sem ég hef sagt hefur ekki fengið neinar undirtektir og ég hef hvergi séð neinn annan halda þessu fram.
Við höfum flest séð skemmtileg myndskeið af því hvernig dýr, sem alin eru upp meðal annarrar dýrategundar en sinnar eigin, hafa aðlagast lifnaðarháttum og atferli tegundarinnar sem elur það upp.
Þetta myndskeið sýnir lamb sem telur sig vera hund:




HÉR er það hundur sem telur sig vera kött.

Svo er hér myndskeið af úkraínskri stúlku sem var alin upp meðal hunda:



Ekki er ég nú svo mikill öfgamaður í uppeldismálum að ég haldi því fram, að uppeldisaðstæður drengja séu fyllilega sambærilegar við það sem sjá má hér fyrir ofan, en samt tel ég að þær séu talsvert langt frá því að vera eins og best getur verið.
Það getur vel verið að við séum sammála um að það beri að ala stráka og stelpur eins upp. Þá er það bara svo, en uppeldið hlýtur þá að vera með þeim hætti að það taki með í reikninginn mismunandi líffræðilega eiginleika kynjanna.

Ég vil halda því fram að drengir fái ekki það uppeldi sem þeir þurfa til þess að geta notið sín sem karlmenn síðar.  

Uppalendur þeirra eru nánast eingöngu konur. Það er þannig með konur, að líffræðilega eru þær eru ekki karlar. Reynsluheimur þeirra er kvenlegur, hugsanir þeirra, skoðanir, atgerfi, útlit, eða bara flest, er kvenlegt. Það segir sig nokkuð sjálft. Af þessum ástæðum hlýtur uppeldið sem þær veita börnum að henta kynjunum mis vel.  Mér finnst að þetta segi sig sjálft.

Uppalendurnir eru fyrirmyndir barnanna. Fáir geta víst neitað því. Það er af foreldrum og kennurum sem börnin öðlast hugmyndir um það hvað þau eru, en þar með er ekki öll sagan sögð.  Tíminn með foreldrunum verður æ styttri og börnin eyða stærstum hluta vökutíma í stofnunum þar sem einvörðungu (nánast) starfa konur.  Tíminn með foreldrunum er frá því um kl . 17:30 til kl 20 á virkum dögum. Hve mikið af þeim tím nýtist til samskipta eða raunverulegrar samveru með foreldrunum? Hve mikinn hluta þess tíma nýta foreldrarnir til þess að ná sér niður eftir vinnudaginn eða sinna nauðsynlegum heimilisverkum. Hvað með helgarnar. Hve mikinn tíma um helgar hafa drengir með föður sínum í raun? 

Ég hef haldið þessum skoðunum fram. Einu viðbrögðin sem ég hef fengið eru að þetta sé bara bull;  rannsóknir sýni að kyn kennara skipti engu máli. Ætli það sé ekki einhver svona rannsókn sem vísað er til?

Dæmi um rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005:
Rannsóknarspurningarnar sem leitast var við að svara voru: Hefur kyn kennara áhrif á kennslu? Finnst nemendum á unglingastigi skipta máli af hvoru kyninu kennari þeirra er? Hvaða eiginleikum telja nemendur að kennari þeirra eigi að búa yfir? Notuð var megindleg rannsóknaraðferð þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 9. bekk á Akureyri. Úrtakið var 266 nemendur eða 134 stelpur og 132 strákar.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að nemendum finnst ekki skipta máli af hvaða kyni kennari þeirra sé. Nemendur hafa hins vegar ákveðna skoðun á því hvaða eiginleika þeir vilja helst hafa í fari kennarans. Hann á einkum að vera skemmtilegur, fyndinn og þolinmóður. Kyn kennara virðist ekki hafa áhrif á kennslu, heldur þykir mikilvægara að kennari sé hæfur í starfi. (úr rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005).

Ég verð að segja það, að á niðurstöðum þessarar rannsóknar get ég ekki tekið mark. Segjum sem svo að lambið á myndskeiðinu hér fyrir ofan gæti svarað spurningunum: Skiptir það máli hvort þú elst upp meðal hunda eða sauðfjár? og Hvaða eiginleika telur þú að góður uppalandi eigi að hafa?  Myndi lambið sem hefur bara alist upp meðal hunda moögulega hafa forsendur til að telja uppeldi meðal sauðfjál betra? Myndi það t.d. hafa hugmyndaflug til að segja að það væri góður eiginleiki uppalenda að geta jarmað?

Nei, strákar skortir fyrirmyndir í skólakerfinu og þar er auðvitað við karlmenn að sakast. Þeim ber skylda til að gera sig gildandi á þessu sviði og ég tel þar mikið vera í húfi.

Líffræðilega eru strákar strákar, hvað sem tautar og raular, en hvað gerir umhverfið úr þeim sem manneskjum?
Ég er ekkert hissa á niðurstöðu framkvæmdastjóra jafnréttisstofu. Ég er hinsvegar hissa á að hann skuli ekki fjalla um ástæður þess að strákar vilja verða atvinnuknattspyrnumenn.

Hlekkir á nokkur fyrri blogg mín um þessi mál:

Kannski bara vitlaust gefið  2013
Alhæfingar rétttrúnaðarins    2012
Það má auðvitað ekki segja það, en .........  2010
Þjóðfélag á hverfanda hveli 1  2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 2  2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 3  2008

13 janúar, 2017

Bráðum verð ég frjálshyggjumaður

Nýleg reynsla mín er þáttur í meðvitaðri stefnu til að grafa undan opinberu heilbrigðiskerfi á Íslandi. Hún er liður í því að breyta viðhorfum þessarar þjóðar í þá veru að hún muni sættast á að okkur sé betur borgið með því að einkaaðilar sjái um heilbrigðisþjónustu.

Nú er tekin við í landinu einhver hægrisinnaðasta ríkisstjórn sem þessi þjóð hefur valið sér og þar með blasir ekki annað við en áfram verði grafið undan þjónustu sem á, ef rétt  væri á málum haldið, að standa öllum jafnt til boða og vera ókeypis, nútímaleg og vönduð.

Það sem mér virðist blasa við okkur er, að áfram verði haldið að svelta heilbrigðisþjónustuna, hækka gjöld á sjúklinga,  og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir einkavæðingu á öllum sviðum.
Fjárfestar stökkva fram, heilbrigðisfyrirtæki spretta upp, frjáls og "gríðarlega hörð" samkeppni fær að blómsta.

"Sjúklingarnir okkar fá 10% afslátt ef þeir læka síðuna okkar eftir aðgerð".
"Sjúklingarnir okkar í þessum mánuði fá bíómiða fyrir tvo í kaupbæti".
"Skurðirnir okkar bera vönduðu handbragði vitni".
"Hjá okkur færðu endurgreitt ef þú ert ekki orðinn góður eftir viku".
"Er þér illt? Leyfðu okkur að lækna þig í glænýrri læknastöðinni okkar, þar sem gluggarnir eru pússaðir á hverjum degi og þú getur speglað þig í ítölsku gólfflísunum".
"Frábærar strandtöskur og sérmerkt strandbaðhandklæði handa öllum sem við tökum úr sambandi".

Þetta er ekki geðsleg tilhugsun.

Í tvígang, að undanförnu, hef ég þurft á þjónustu Landspítalans háskólasjúkrahúss (LSH) að halda.
Í annað skiptið kom ég þar inn og það sem við mér blasti voru ekki gljáfægðir gluggar eða gólf með ítölskum flísum sem hægt var að spegla sig í, heldur var þar allt fremur grámyglulegt og minnti mig óþyrmilega á vestrænt myndefni af austur-evrópskum sjúkrastofnunum á Stalínstímanum.  Bara gólfdúkarnir eru sjálfsagt jafngamlir mér.
Í hitt skiptið átti ég að mæta þangað í litla aðgerð, eftir margra mánaða bið eftir að komast að.
Það á sér stað heilmikill andlegur undirbúningur fyrir aðgerð á sjúkrahúsi. Það þarf að stilla sig af, skipuleggja hitt og þetta, fá frí í vinnu, og svo framvegis.
Jæja, á tilteknum tíma átti ég á að mæta á tiltekna deild á tiltekinni hæð.
Daginn fyrir þennan tiltekna tíma fékk ég tilkynningu um að tiltekinn tími hefði breyst og honum seinkað um 4 tíma.
Á aðgerðardegi, þar sem ég ók inn í höfuðborgina, hringdi síminn og mér tilkynnt, að enn væri frestun fram eftir degi af óviðráðanlegum "akút" ástæðum og að jafnvel gæti farið svo, að fresta yrði aðgerðinni.
Eftir miðjan dag var loks hringt einu sinni enn og aðgerðin slegin af.
Sannarlega tek ég fram að starfsfólkið sem ég hef verið í samskiptum við, er ekki í öfundsverðu hlutverki og hefur undantekningarlaust verið kurteist og skilningsríkt.

Auðvitað velti ég því fyrir mér, eftir svona reynslu, að það væri nú munur ef þetta væri nú bara einkarekið og menn gætu farið á hausinn ef þeir stæðu sig með þessum hætti gagnvart sjúklingum. Það væri hægt að fara í mál og krefjast tuga milljóna skaðabóta.

Þetta má ekki verða raunin og nú skulu ráðamenn þessarar þjóðar andskotast til að sjá til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi rísi úr þessari öskustó. 
Það sem ég óttast hinsvegar er, að þessi þjóð sé búin að opna leiðina að enn frekari  niðurlægingu heilbrigðiskerfisins með því að skapa möguleikann á hægrisinnuðustu ríkisstjórn lýðveldistímans.

Hver var það aftur, sem sagði þessi fleygu orð: "Guð blessi Ísland!"






Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...