12 apríl, 2008

Helvítis ári sniðugur poki

Það er svo að víðar er ritstíflan en í Ástralíu. Því verður sá sem er með ritræ.... að taka að sér að skrá það sem skrá þarf eða ekki.
Frúin tekur sig stundum til og býr til hitt og þetta eins og flestir þeir sem þetta lesa vita nú fyrir. Eitt það nýjasta í þessari flóru er hliðartaska, eða hliðarveski sem mun vera unnið þannig, að fyrst er prjónað eftir kúnstarinnar reglum, í þessu tilviki úr rauðum lopa. Þegar prjónaskapnum er síðan lokið er þetta sett í þvottavél, á suðu og kemur þaðan út sem fullbúið hliðarveski/hliðartaska. Þessu næst liggur leiðin á Selfoss að vanda, í helgarinnkaupin með þennan ágæta grip. Með í för er innkaupalisti frá gamla unglingnum í Hveratúni. Þegar heim er komið þarf auðvitað að gera upp skuldir vegna innkaupanna. Frúin fer ofan í hliðartöskuna/hliðarveskið til að ná í skiptimynt, því rétt skal vera rétt. Þeim gamla verður nokkuð starsýnt á gripinn en segir loks: 'Helvítis ári er þetta sniðugur poki'. Frúin lýsti því yfir skömmu síðar við undirritaðan að henni væri alveg sama þótt hann hafi kallað hliðartöskuna/hliðarveskið poka.
Allir sáttir

Hliðarpokar hanga vel.

1 ummæli:

  1. Kannast við svona poka. Spúsan dundaði sér heillengi við prjónaskap í den. Rétti mér svo afurðina til þvotta. Ég var náttúrulega furðu lostinn yfir því að setja svona flottan prjónaskap í þvottavél. Setti því að viðkvæmustu stillinguna og þvoði.
    Ekki þótti þetta nógu vel þvegið svo þvotturinn var endurtekinn.
    Tvisvar.
    Þá fór spúsan að inna eftir hitastiginu á þvottavatninu. Var farið að renna í grun að ekki væri allt með felldu...

    SvaraEyða

Laugarás: Fagmennska, eða annað.

Þann 13. júní birtist á island.is  island.is   tilkynning frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem greint er frá því á vorið 2025 verði hei...