10 apríl, 2008

Hvenær er maður veikur......

.... og hvenær er maður ekki veikur? Það er spurningin. Að þessari spurningu skuli varpað fram hér er engin tilviljun því síðari hluta dags í gær fór ég að finna lítillega fyrir slæmsku í hálsi og taldi það nú ekki geta verið merkilegra en sálrænan fyrirboða kóræfingar sem framundan var í gærkvöldi.
--------------------------------------------------------------
(Best að afgreiða spurningar lesenda strax, en einhverjir munu vafalaust vísa til yfirlýsingar minnar í tengslum við söngleysi á páskum, og telja að ekki sé nú mikið að marka yfirlýsingar úr þessari átt úr því svona er. Ég fékk meira að segja skot af þessu tilefni á ofangreindri kóræfingu. Þessum aðilum kýs ég að svara svo:
Ég hef kannski ekki orðað yfirlýsingu nægilega vel, en hún var svona:
Þetta var í mínum huga dropinn sem fyllti mælinn, og bætist við ítrekað almennt sinnuleysi um velferð kórsins. Ég hef tekið mér ótímabundið frí frá þessum störfum, í það minnsta þar til sú breyting verður á Skálholtsstað sem ég sætti mig við. (24. mars, s.l.)
Auðvitað ber að skilja þetta þannig að ég hyggst ekki taka þátt, sem söngmaður í kór, í athöfnum á vegum Skálholtsstaðar. Það er hinsvegar svo, að fólkið í sveitinni ber þarna ekki sök, og ef um það er að ræða að eðal-tenórraddar minnar sé óskað við athafnir sem snerta íbúana, þá er ég að öllu jöfnu reiðubúinn. Þá er það frá)

Hvað um það, á kóræfingu fór ég með fjöður í hálsi. Þetta gekk vissulega allt ágætlega, jafnvel dúettinn með Braga, en þar voru væntingar miklar, þar sem samskonar samsöngur tenóra á páskum mun hafa kallað fram tár á mörgum hvarmi (Þetta var allavega haft eftir lánstenórnum honum Sæmundi Heiðubróður) Það verð ég að segja að dúett okkar Braga getur ekki hafa kallað fram síðri viðbrögð kórmeyjanna, en þegar téður Sæmundur stóð við hlið Braga í stað mín. Fjöður í hálsi eða engin fjöður í hálsi. (EF MENN HAFA EKKI TRÚ Á SJÁLFUM SÉR Í ÞESSUM EFNUM SEM ÖÐRUM ÞÁ EIGA ÞEIR Í ÞAÐ MINNSTA AÐ ÞEGJA YFIR ÞVÍ)

----------------------------------------------------------------------
Ég mun hafa verið að tala um veikindi.
Nú, nóttin var með óskemmtilegasta móti og þótti mér ljóst, hvað eftir annað, að ekki yrði um það að ræða, að ég héldi til vinnu minnar á þessum morgni. Hvað þá í heilsuræktina með frúnni uppúr kl. 6.
Hvað gerist svo? Jú, var það ekki? Ég reis upp af kodda í morgun á tilsettum fótaferðatíma (reyndar fór frú Dröfn ein í ræktina), aldeilis ekki viss um hvort ég væri veikur; eða nægilega veikur til að það kallaði á fekari rúmlegu. Svona er þetta yfirleitt þegar ég á í hlut.
Niðurstaðan varð sú, að ég ákvað að skella mér til vinnu, hóstandi og með hita, en, að eigin mati, ekki nægilega mikill sjúklingur til að liggja bara í bælinu.

Í ljósi þessa hef ég komist að eftirfarandi niðurstöðu:
ÉG ER HETJA - einn þessara ekki svo mörgu á þessum síðustu tímum, sem líta svo á að það sé aumingjaskapur að sinna ekki vinnu sinni eða námi með smávegis kverkaskít eða hitamollu.

Í því starfi sem ég sinni frá degi til dags eru veikindamál þau mál sem fara hvað mest í taugarnar á mér, svo mjög að eitt sinn fyrir nokkrum árum tók ég mig til, í einu kastinu vegna aumingjaskaparins sem ég upplifði allt í kringum mig, og skrifaði grein sem ég kallað "AUMINGJAVÆÐING" - hún varð mjög löng og fór ekki lengra en í möppu í tölvunni minni. Ég taldi að enginn myndi skilja mig. Síðan greinin var skrifuð hefur ástandið heldur versnað, því nú eru það ekki bara margir nemendur sem eru veikir einu sinni til tvisvar í viku, heldur jafnvel starfsmenn almennt (auðvitað eru þetta lítilsháttar ýkjur, til áhrifaauka)

Hvað er það sem veldur þessu ástandi, eða þessum viðhorfum til þess að vera veikur? Hvenær verður ástandið orðið þannig að ekki verði við svo búið lengur?

Ég held áfram að vera veikur eða ekki veikur og sé til á morgun.

Auminginn er einskis nýtur

4 ummæli:

  1. Tekurðu eftir því að vestrænu viðmiðin gagnvart veikindum eru þau sömu og eru búin að koma okkur í klandur í samskiptum við íslam..... Jah það er merkilegt að velta því fyrir sér :)

    Vestræn og kristileg gildi predika umburðarlyndi umfram allt, og þegar fólk verður(geð)"veikt", þá má engin segja neitt, því það er ljótt að efast um slíka hluti. Eins og það er ljótt að vera ekki umburðalynd gagnavart öfgafullum trúarbrögðum. Við erum bara að grafa okkar eigin gröf hérna. Það þarf að fara taka upp aftur MIKLU strangari aga.

    ....en þetta er svosem eitthvað sem allir vita, en engin þorir að gera neitt í.

    SvaraEyða
  2. Gaman að lesa góðar pælingar.
    Ég vaknaði upp við vondan (í löngu frrrímínútum fyrir hádegi í gær) þegar Kalli sló á öxlina á mér og sagði: "Við söknuðum þín á kóræfingu í gær". Ég var búin að steingleyma æfingunni og komst ekki einu sinni í þann gírinn að þurfa að velta mér upp úr því hvort ég ætti að nenna eða ekki.
    Þegar ég les bloggið þitt er ég náttúrulega bara reið og sár að hafa misst af æfingunni því hvað er ljúfara en fagur tenor beint í hægra eyrað?

    Sjáumst næsta miðvikudag og farðu vel með barkann þangað til. Aumingi eða aumingi ekki ... hú kérs... Kannski verður þín minnst seinna sem samviskusama mannsins sem mætti alltaf í vinnuna hvernig sem á stóð. Sannur Íslendingur. Harðjaxl. Já, þvílík eftirmæli...

    Kveðja, Aðalheiður

    SvaraEyða
  3. Að mínu mati er það helber aumingjaskapur að drullast ekki í vinnu/skóla ef maður getur orðið þar að einhverju liði...
    Þannig að ef þú sérð ekki fram á að geta gert eitthvað af viti í skólanum/vinnunni - vertu þá heima hjá þér!

    Svo lengi sem það er smá hiti og kverkaskítur - ertu ekki nógu veikur :)

    óþolandi þetta "lið" sem má ekki fá smá hita, þá liggur það heima... tvö orð til um svoleiðis fólk: djöfulsins aumingjar!
    :D

    SvaraEyða
  4. Það skyldi þó ekki vera svo, að frú Aðalheiður...........?

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...