10 febrúar, 2011

Sumarbústaðarferðin

Áður en ég byrja og til að verja mig á tímum hins pólitíska rétttrúnaðar: Auðvitað er ég orðlaus í fordæmingu minni ( ég á ekki orð sem ná yfir hana) á kynbróður mínum sem greint er frá í vinnuferðinni sem fjallað hefur verið um undanfarna daga. Það sem fer hér á eftir eru ábyrgðarlausar vangaveltur og í engu ætlaðar til að varpa rýrð á þá einstaklinga sem þarna var um að ræða. Ef einhver nennir að lesa þetta þá verður hann að hafa það í huga, að alvaran í því sem ég skrifa hér er harla grunn. Ég þekki þetta fólk ekki og því síður aðstæður þess eða persónueinkenni. Hinsvegar verður því ekki á móti mælt að þetta mál hefur fengið allmikla umfjöllun í fjölmiðlum og mér finnst ekki óeðlilegt, þegar svör vantar, að spurt sé.

SKYLDI ÞETTA VERA NÆGUR FORMÁLI?


Hér er hluti úr frétt af vinnuferð sem farin var í sumarbústað fyrir tæpum tveim árum:
Forsaga málsins er sú að konan fór ásamt yfirmanni sínum, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, og yfireftirlitsmanni fyrirtækisins í sumarbústað í Grímsnesi. Tilgangur ferðarinnar, sem var farin í mars árið 2009, var að fara yfir breytingar í starfi hennar sem áttu meðal annars að fela í sér aukna ábyrgð.(DV)
Hér fara tveir yfirmenn í vinnuferð með starfsmanni sem átti von á stöðuhækkun. Ef við höfum þetta bara einkynja ferð (3 karlar eða 3 konur), þá væri væntanlega ekkert sérstakt um þetta að segja. Samsetningin var hinsvegar eins og segir í fréttinni: tveir karlkyns yfirmenn og einn kvenkyns undirmaður. Við þessar upplýsingar verður maður að krefjast þess að forsagan sé lengri en frá greinir í fréttinni. Maður fer að spyrja spurninga. Hvernig gat það átt sér stað að þessi ferð var yfirleitt farin? Hversvegna var ekki hægt að fjalla um breytingar á starfi konunnar bara í fundarherbergi á vinnustaðnum? Þetta veit maður ekki. Ég freista þess að setja mig inn í þessar aðstæður og sé þetta hreinlega ekki fyrir mér sem valkost. Þarna var þetta sem sagt valkostur með þeim afleiðingum sem greint hefur verið frá í fjölmiðlum. Hversvegna var þetta valkostur? Var samband þessara einstaklinga með þeim hætti á vinnustaðnum ef til með þeim hætti, að ekkert þeirra gæti séð fyrir sér að þær aðstæður sem komu upp, gætu komið upp? Var eitthvað í fari þeirra og fyrri samskiptum sem útilokaði  að sú þróun ferðarinnar yrði sem varð?

Fleiri spurningar vakna:
1. Konan fór með körlunum í vinnuferð í sumarbústað, en þar átti að dveljast yfir nótt. Ef við gefum okkur, að báðir karlarnir hafi verið í sambúð með konum og bætum við þeirri vitneskju, sem fram kom í einhverri fréttinni af þessu, að konan bjó með karlmanni, þá vakna spurningar:
   a. Hvernig kynnti konan sumarbústaðaferðina fyrir manni sínum? Sagði hún honum frá því að hún væri að fara í bústaðinn með tveim karlmönnum? Hvernig brást hann við? Hversvegna?
   b. Hvernig kynntu karlarnir sumabústaðarferðina fyrir konum sínum? Hvernig brugðust þær við? Hversvegna?
   c. Var konan í þeirri stöðu að hún treysti sér ekki til að leggja til að halda vinnufundinn á saklausari stað en í sumarhúsi með heitum potti, í Grímsnesinu?
   d. Var beri karlinn allan tímann með það í huga sem síðan gerðist í kringum pottferðina?
   e. Hvert var þá hlutverk "yfireftirlitsmanns fyrirtækisins", eins og hinn maðurinn er kynntur í fréttinni? Átti hann að hafa yfireftirlit með því sem fram fór, kannski? Hvar var hann þegar umræddir atburðir áttu sér stað? Studdi hann þann bera í aðgerðum sínum? Óttaðist hann þann bera og lagði ekki í að styðja konuna? Fór hann kannski að sofa strax eftir að fundinum lauk og áður en tillaga um pottferð var lögð fram, ítrekað?  Til að fara ekki með fleipur viðurkenni ég að í fréttum kemur eftirfarandi fram um aðkomu yfireftirlitsmannsins:
Ekki voru gerðar athugasemdir við hegðun hins mannsins, sem fór íklæddur skýlu í pottinn.(Vísir) 
   f. Hversvegna harðneitaði konan ekki að fara í heita pottinn? Var það vegna þess að hún taldi að neitun sín myndi hafa neikvæð áhrif á starfsframann? Þekkti hún kannski þann bera ekki af neinu því sem gæti gefið tilefni til að hænn ætlaði sér eitthvað annað með pottferðinni en að slaka á í heitum potti að loknum löngum og vel heppnuðum vinnufundi? 
   g. Var pottferðin hluti af upphaflegu skipulagi ferðarinnar í huga þess bera? Var þarna um að ræða skyndihugdettu hans í ljósi þess að það var ekkert vesen að hita pottinn?
   h. Hversvegna ákvað sá beri að fara ber í pottinn? Var það vegna þess að hann hafði gleymt viðeigandi nektarvörn heima? Var hann stoltur af vaxtarlagi sínu og taldi að það hefði jákvæð áhrif, fremur en hitt? Var hann orðinn ölur mjög þegar þarna var komið sögu? Reyndist hann hafa misskilið merki frá undirmanni sínum? 

Kvaðst konan hafa farið fram og sest í sófa í stofunni þar sem yfirmaður hennar reyndi að fá hana til að halda um hendur sínar. Fór hún aftur inn í herbergið og lagðist til svefns. (DV)
Síðar um kvöldið ruddist framkvæmdastjórinn inn í herbergið og bað konuna um að taka í hönd sina.(Vísir)
   i. Eins og þetta er sett fram hljómar það frekar sakleysislega. Var það hinsvegar kannski svo, að þarna væri um að ræða einskonar yfirfærða merkingu á orðinu "hönd"?  Það er varla raunhæf skýring þar sem í frétt DV er talað um "hendur". Var sá beri kannski bara að leita huggunar vegna persónulegra vandamála sinna?
------------------------
Ég fæ nú örugglega ekki svör við öllum þessum spurningum mínu, enda ekki af stað farið í þeim tilgangi. 

Það sem upp úr stendur er, að þarna virðist miðaldra, hvítur karlmaður hafa gengið þá braut sem aldrei skyldi gengin. Þetta dæmir þýðir þó ekki að bara það að þú sért hvítur, miðaldra karlmaður hafi það sjálfkrafa í för með sér að þú komir fram með þessum hætti.

Telji einhver sér svo misboðið með þessum pistli, að ekki verði við unað, bið ég hann að hafa samband og þá mun ég fjarlægja hann af þessu virðulega vefsvæði.

3 ummæli:

  1. Um vinnuferðir m.m.

    Aldrei skal ég aftur fara
    utan bjóðist nú með því:
    heitur pottur, herrar naktir
    og hitt og þetta svínarí.

    Enda til þess eru ferðir
    eins og þessi, trúðu mér:
    Skemmta sér og skæklast um
    og skríkja doltið - vera ber:)

    Kæri svo, því kona er ég
    kvennaréttur minn er stór,
    eins þó fari oní pottinn
    eftir pínu rauðvínsþjór.


    Sei, sei já...


    Hirðkveðill birtir hér sínar dýpstu þrár, væntingar og langanir.

    SvaraEyða
  2. Vá hvað var erfitt að komast í gegnum þennan texta!!! Er ekki ennþá viss um að ég skilji út á hvað hann gekk :)

    SvaraEyða
  3. http://www.dv.is/frettir/2011/2/9/faer-baetur-eftir-kynferdislega-areitni-yfirmannsins/

    Hér má lesa um þetta - harla einfalt :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...