08 febrúar, 2011

Að notfæra sér aðstæður

Það gerðist um helgina, sem hlaut að gerast fyrr eða síðar: ég varð að takast á við að hætta orðspori mínu sem maðurinn sem verður aldrei veikur. Þetta lagðist að um helgina, auðvitað. Á mánudagsmorgni var ekki um annað að ræða en að tilkynna á vinnustaðinn að ekki gæti orðið af því að ég kæmi til vinnu þennan morguninn.
"Nú, er það út af stormi í Laugarási?" Það var fJ  sem svaraði loks í símann á kennarastofunni, (enda átti ég ekki von á að fG á skrifstofunni kæmist til vinnu eftir stanslausa snjókomu alla nóttina). Að sjálfsögðu var ekki svo, enda er, eins og allir vita, aldrei stormur í Laugarási, alltaf logn. Helst að maður heyri hvína í trjátoppunum í mesta óveðri. 
"Nei, það er vegna þess að það er stormur innan í mér", svaraði ég, til að halda samlíkingunni - fannst ófrumlegt að segjast bara vera veikur.
"Ég skila þessu til fG, mér sýnist bíllinn vera að koma." 

Þar með lauk símtalinu með þökkum frá mér.

Það næsta sem gerðist var, að á vegg minn á fésbókinn var komin setningin: "Svo bregðast krosstré sem önnur tré.", sem ég svaraði óðara með eftirfarandi hætti: "Það kemur að því þegar flest þessi óbreyttu tré hafa brugðist. Vil frekar hafa hann svona: Eftir bregðast krosstré öðrum trjám."  Svar við þessum snilldarleik mínum barst seint og um síðir: "Verði þinn gráðugi vilji", sem mér er í rauninni ekki alveg ljóst hvað merkir, en kýs, með tilliti til fG (sem hér var á ferðinni) að túlka sem svo að hún telji að þarna hafi komið fram slík snilld að engu væri til að svara. Nema þá að viðhorf hennar til mín sé samsvarandi því sem fram kemur í hinum kristna texta sem þarna var vitnað til, svo ekki varð um villst. 

Það gerðist nú ekkert frekar í þessum málum fyrr en í morgun að ég lét mig hafa það, hreysti minnar einnar vegna, að skella mér á vinnustað til að reyna að reisa við orðspor mitt, en þá komst ég að því að veikindi höfðu verið eina umræðuefni gærdagsins á vinnustaðnum, svo mikil tíðindi höfðu þarna verið á ferðinni.

Það vissi ég að fG myndi taka mér fagnandi með sínum hætti, enda varð sú raunin. Samskiptin hófust með því að hún tilkynnti mér að það væri ekkert að mér, hverju ég svaraði á þann veg að það væri alveg rétt - þetta væri ekki nokkur skapaður hlutur. Þá fór auðvitað eins og ég vissi - hún hóf að vorkenna mér svo fárveikum - ég þyrfti nú bara að drífa mig heim og ná þessu úr mér. Þessu hélt hún áfram fram að hádegi með þeim afleiðingum að ég var farinn að efast um að ég kæmist heim hjálparlaust. Það var sprottinn út á mér kaldur sviti og hnerrar og hóstar voru óstöðvandi. Ég fór heim með fyrra fallinu, með von um á mér tækist að koma þessu í lag með lítilli vorkunnsemi frá fD, en auðvitað fór það svo að hún bauðst til að taka að sér skylduverk mitt þennan daginn, auðvitað ekki mín vegna, heldur þess sem njóta skyldi verka minna. Ég veit þó að annað býr að baki.

Öfug sálfræði verður seint ofmetin. 

Það er huggun harmi gegn að veikindin áttu sér stað á þeim degi sem flestir starfsmenn í vestrænum ríkjum kjósa að tilkynna veikindi. Sætt er sameiginlegt skipbrot.

3 ummæli:

  1. Með hreppstjórasnýtunum stundi og blés
    hinn stálhrausti maður og hélt sig til hlés
    en vappand' um heima hann við sig lítt kann
    - hann verkjað' í hjartað, af samvisku brann.

    Í vinnunni heldur í volli sé flest
    já vont er að leggjst í signaða pest
    með harmkvælum stórum svo hélt 'ann af stað
    og hnerrand' og rauðeygur ók þar í hlað.

    En viti menn þegar hann vasklega gekk
    á vinnustað, töluvert áfall hann fékk:
    allt var í lagi, en umhyggjan stór
    að honum steðjað' og veinað' í kór:

    "Ó, lof mér að yla þér örlitla mjólk,
    elskan mín Palli" hrein kvenþjóðarfólk

    en Páll gerðist rjóður af röddunum þeim
    redda sér vann- og fór snimmendis heim.

    Hirðkveðill tjáir sig um veikindi PMS, viðtökur á vinnustað hans og lukkulegan flótta...

    SvaraEyða
  2. Ekki laust við að þessi kveðskapur kallaði fram brosviprur.
    Þakkir, fH

    SvaraEyða
  3. hihihihi, hnjé, hnjé,

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...