19 apríl, 2018

Ekkert spor

Sumardagurinn fyrsti. Það held ég nú.
Ekki get ég neitað því, að það eru ýmis merki í umhverfinu um að veturinn er að gefa eftir. Fuglar syngja eins og á hverju vori og ég tek mig til og ætla nú aldeilis að fanga þetta fiðurfé, sem lætur svo dátt, á mynd.
Ég fer í smávegis bíltúr í bítið.
Hvítá umlykur Laugarás á þrjá vegu og það hlýtur að vera talsvert af þessum söngvurum þar að finna.
Jú, mikil ósköp, það vantar nú ekki.
Álftir og grágæsir. Einn tjaldur og einn stelkur.

Eftir fuglaskim byrja ég enn og aftur að efast um að mér sé ætlað að komast í tæri við einhverja merkilega fugla. Annaðhvort fela þeir sig þegar ég nálgast, eða þá að ég fer alltaf á stjá á vitlausum tíma dags.
Eitthvað er það.
Mér kemur í hug, að ef til vill þurfi ég að fara í læri á næsta bæ, nú eða bara að hætta að reyna að sjá aðra fugla en álftir og grágæsir.

Úr því fuglaúrvalið er ekki meira fer ég að huga að öðru. Minnist frásagnar sem ég fékk frá brúarvinnumanni, af því þegar hann synti yfir ána og skildi síðan eftir fórspor sitt í blautri steypu til minningar um afrekið.
Ég fór að leita að þessu 60 ára gamla fótspori, undir syðri stöpli brúarinnar, en fann bara steypuklessu með tveim stöfum: HV.  Hver var þessi HV? Þar sem ég hef ekki lista yfir alla þá sem komu að brúarsmíðinni, veit ég það auðvitað ekki. Kannski er þetta eitthvert seinni tíma verk.
Jæja, kannski er sporið undir nyrðri stöplinum. Mögulega er það undir vatnsyfirborðinu, en það er mikið í ánni núna.
Ég mun finna þetta spor, ef það er finnanlegt.

Meiri gæsir og álftir. Söngur allra hinna, sem ekki vilja leyfa mér að sjá sig.
Kannski er ég bara þessi sem sé bara stóra fugla, ekki þessa litlu ræfla sem þarf að tæla með matargjöfum svo þeir láti sjá sig.

Stórir fuglar eru líka ágætir.

Gleðilegt sumar og takk fyrir vetrarlesturinn.

14 apríl, 2018

Ragnar Lýðsson


Ragnar Lýðsson
Fuglarnir kyrja vorsöngvana síðan fyrir utan gluggann og það er loksins farið að hlýna og sumarkoman liggur í loftinu. Það getur hinsvegar kólnað áður en við er litið. Á Íslandi er ekki á vísan að róa þegar veðurfarið er annars vegar.

Þannig er þetta einnig með líf okkar mannanna: þó vor og sumar blasi við í lífi okkar þá getur napur vetrarkuldinn og myrkrið skollið á áður en minnst varir.

Raggi Lýðs var skólafélagi minn og jafnaldri, þannig séð, í Reykholtsskóla í gamla daga, svo fórum við hvor í sína áttina, bjuggum löngu síðar í sömu götu um tíma og ennþá löngu síðar hittumst við þegar gamlir samnemendur komu saman til að rifja upp barnaskólaárin.

Það er svona.

Þrátt fyrir að leiðir okkar Ragga hafi ekki skarast verulega á lífsleiðinni, hef ég vitað af honum og hann væntanlega af mér.
Maður fréttir alltaf af fólki.

Þann 31. mars, lést Raggi með sviplegum hætti. Útför hans er gerð í dag.


Í október 2011 hittust gamlir skólafélagar og kennarar í Reykholti. Þarna má sjá í aftari röð f.v. Páll M Skúlason,
Sveinn A. Sæland, Sigurður Þórarinsson, Pétur Hjaltason, Gunnar Sverrisson, Ragnar Lýðsson,
Eyvindur Magnús Jónasson, Ragnhildur Þórarinsdóttir, Þorsteinn Þórarinsson, Guðrún Hárlaugsdóttir.
Fremri röð f.v. Geirþrúður Sighvatsdóttir, Renata Vilhjálmsdóttir, Þuríður Sigurðardóttir, Þórir Sigurðsson,
Kristín Björnsdóttir.





11 apríl, 2018

"Lifðu núna" Er það nú vitlegt?

Þar sem ég ek niður á Selfoss, tæmi ég plastflöskuna sem ég var að drekka úr, renni niður hliðarrúðunni og hendi henni út.
Ég lifi núna.

Ég finn síðu á facebook og kemst þar í samband við fíkniefnasala og panta stöff hjá honum. Síðan skelli ég því í mig og nýt upplifunarinnar.
Ég lifi núna.

Mig langar að berja nágranna minn. Fer heim til hans og gef honum einn á hann.
Ég lifi núna.

Ég veit fátt betra en sælgæti. Kaupi það í kílóavís og nýt þess í botn að gúffa því í mig.
Ég lifi núna.

Ég læt vaða yfir femínista og réttrúnað í samfélaginu á blogginu mínu.
Ég lifi núna.

Mig langar í 75" sjónvarp á vegginn hjá mér. Ég panta það á Hópkaup.
Ég lifi núna.

Ég nenni ekki að burðast með eitthvert pokadrasl undir innkaupin mín og kaupi þess vegna alltaf plastpoka þegar ég fer í búð.
Ég lifi núna.

Ég er eins og fuglarnir á pallinum. Þeir eru ekkert að spá í hvað gerðist í gær, hvað þá að þeir velti fyrir sér hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.
Þeir lifa núna.


Ég veit fullvel hver hugsunin á bakvið þetta tískufyrirbæri "Lifðu núna" er.  Vefurinn sem ber þetta heiti fjallar sannarlaga um mikilsverð málefni:
Markmiðið með rekstri vefsíðunnar er að gera líf og störf þeirra landsmanna sem eru komnir um og yfir miðjan aldur sýnilegri en þau eru, auka umræðu um þau málefni sem tengjast þessu æviskeiði og lífsgæði þeirra sem eru komnir á þennan aldur.

Það sem ég óttast hinsvegar er, að margir skilji þetta sem svo, að við eigum í æ meiri mæli og fara að hegða okkur eins og fuglar himinsins.

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? (Mt. 6:26)

Við eigum hvorki að byggja á reynslu fortíðar, né velta fyrir okkur hvað er framundan. Við eigum að lifa núna. Það verður séð til þess að allt verði í lagi hjá okkur (Hver sem á nú að sjá til þess)

Því miður eru þetta skilaboðin sem maður heyrir orðið allt í kringum sig. Þetta er að verða næstum eins og kveðja:
"Lifðu núna!" = Bless
"Já, einmitt. Lifðu núna!" = Bless.
Skilaboðin skiljast óhjákvæmilega sem ákveðið ábyrgðarleysi gagnvart öllu öðru en núinu, sem er til dæmis ekki æskilegt ef hugað er að  umhverfisvernd, heilsunni eða afleiðingum þess sem maður gerir. 

Niðurstaða mín er því sú, að við ættum frekar að segja:
NJÓTTU LÍFSINS 
Hugsaðu til þess sem gerðist í gær og lærðu af því. veltu fyrir þér hvað morgundagurinn ber í skauti sér og gerðu þitt til að hann verði ekki síðri en dagurinn í dag. Að þessu búnu skaltu njóta dagsins, njóta þess að lifa.

Svo mörg voru þau óskiljanlegu orð.




08 apríl, 2018

Gústaf Ólafsson

Við Hvítá, hjá Auðsholtshamri 1980
Unglingar hafa einhvernveginn fengið á sig það orð á öllum tímum, líklegast, að geta verið snúnir viðureignar, enda undir það seldir að vera að ganga í gegnum þá miklu umbreytingu sem á sér stað þegar barninu er skipt út fyrir fullorðna manneskju.
Haustið 1979 fór ég að kenna ensku og dönsku í Reykholtsskóla og auðvitað mikið til reynslulaus, en hafði þó kennt unglingum einn vetur (1974-5) í Lýðháskólanum í Skálholti, .

Sannarlega voru unglingarnir sem ég stóð frammi fyrir í Reykholti ekkert ólíkir unglingum svona almennt. Þeir voru með ýmsum hætti eins og við var að búast og mis auðvelt við þá að eiga, fyrir utan það, auðvitað, að ég kann að hafa verið mis fær um að takast á við verkefnið.

Ég var viðstaddur minningarstund um einn þeirra í Skálholti í gær, Gústaf Ólafsson frá Arnarholti, en hann lést í Sundsvall í Svíþóð þann 29. janúar síðastliðinn eftir baráttu við ágengan og banvænan sjúkdóm, rétt rúmlega fimmtugar.
1980 - Við minnismerkið um Sigríði í Brattholti
ásamt Brynjari á Heiði.

Þessi piltur var einn þeirra sem ég fékk að kenna fyrstu árin mín í Reykholti. Hann var einn þeirra ótal ungmenna sem ég hef fengist við í gegnum árin, en hafa síðan horfið sjónum mínum þó minningin um þau skjótist stundum í hugann. Ég velti því stundum fyrir mér hvað varð um allt þetta unga fólk: hvort það fór inn á þær brautir sem ég hafði ímyndað mér eftir kynnin við þau.
Í gær fékk ég að vita ýmislegt sem ég ekki vissi um lífshlaup Gústafs, sem ég treysti mér ekki til að fara rétt með hér, enda brallaði hann víst margt eftir að hann slapp frá mér um og upp úr 1980.

Hann er eftirminnilegur eins og reyndar flestir nemendur mínir fyrstu árin.
Ég get sagt það sama um Gústaf og bræður hans tvo, Jónas Inga og Ingvar, að þeir báru með sér að vera afar heilsteyptir ungir menn. Fremur rólyndir, að mig minnir, léttir í lund, lifandi, góðlegir, kurteisir. Þeir báru heimili sínu gott vitni.


Það er auðvitað gömul tugga, þetta með að foreldrar eigi ekki að þurfa að fylgja börnum sínum til grafar. Gömul tugga, vegna þess óréttlætis sem okkur finnst í því fólgið, en jafnframt staðfesting á því, að ekkert okkar getur búið við þá fullvissu að fá að lifa eins lengi og við viljum helst.

Fjölmargir skólafélagar Gústafs voru viðstaddir ágæta minningarathöfn í Skálholti í gær. Mér fannst afar sérstakt að sjá þarna nokkra fyrr um nemendur mína, sem ég hef geymt í hugarfylgsnum óbreytt, sem börn,  næstum 40 ár.  Það má segja að þetta hafi verið ákveðin áminning um það sem maður veit svo sem, að hvað sem öðru líður, leiðir tíminn allar lífverur, jafnt og þétt, hiklaust og fumlaust, allt frá upphafi lífs til loka þess. Við verðum víst að sætta okkur við það.

1980: Ingólfur á Iðu segir frá Iðuferju. 
Myndirnar sem ég læt fylgja hér, eru frá vormánuðum 1980, þegar nemendur Reykholtsskóla fóru í vettvangsferðir til að kynna sér ýmislegt um árnar sem setja mark sitt á líf okkar í Biskupstungum. Eldri hópurinn  tók Hvítá fyrir. Leiðin lá, meðal annars, að Gullfossi og að ferjustöðunum tveim: Iðuferju, þar sem Ingólfur Jóhannsson á Iðu, spjallaði við krakkana, og Auðsholtsferju, þar sem Einar Tómasson kom yfir um á ferjubát til að hitta okkur.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...