04 september, 2017

Mynd frá lokum sjötta áratugarins.


Ég var að hreinsa þessa mynd, en hún var afskaplega rispuð og illa farin. Hún er reyndar ansi óskýr enn, en á henni má þó greina ýmislegt. Ég hef áður sett inn skýringarmynd sem þessa, en en er talsvert eldri.
Ég tel að þessi mynd hafi verið tekin því sem næst árið 1958 eða 1959. Ég tel svo vera vegna þess að þarna er ekki hafin bygging á nýja bænum í Hveratúni, en það er risið gróðurhús í LaugaRgerði. Hjalti og Fríður fluttu í Laugarás 1957 og ræktuðu fyrst í gróðurhúsum Ólafs Einarssonar (nr. 5). Byggðu síðan gróðurhús og pökkunarskúr (nr. 2) áður en þau fluttu í eigið íbúðarhús í lok ár 1965. Vonandi er þetta rétt. :)
Að öðru leyti má sjá á þessari mynd:
1. Gróðurhús sem tilheyrðu Sólveigarstöðum.
2. Gróðurhús og pökkunarskúr Laugargerðis.
3. Fjárhús frá Hveratúni (í í brekkufætinum sunnan íbúðarhússins í Kvistholti)
4. Skúlagata.
5. Gróðurhús í eigu Ólafs Einarssonar, læknis. Þar stendur nú bragginn einn eftir.
6. "Gamli bærinn" í Hveratúni, sem Börge og Kitta Lemming byggðu 1942 eða 43. Þau hurfu á braut 1945.
7. Pökkunarskúr í Hveratúni. Hann mun hafa komið frá Skálholti og svei mér ef hann stendur ekki þarna fyrir framan kirkjun 1956 :) (sjá mynd)


8. Gróðurhús í Hveratúni: "Bennahús"
9. Lítið gróðurhús, getur hafa verið kallað "Kotið". Notað fyrir uppeldi og blómarækt (aðrir vita meira en ég um þetta).
10. "Þróin" steinsteypt vatnsþró þar sem heitt affall af gróðurhúsunum var kælt og síðan notað til vökvunar.
11. Gamli pökkunarskúrinn.Hann var með tveim rýmum. Vinstra megin var pökkunaraðstaða en hægra megin tækja- og áburðargeymsla.
12. "Nýja húsið" gróðurhús.
13. "Pallahús" gróðurhús
14. "Miðhúsið" gróðurhús.
15. "Kusuhús" gróðurhús. Í vesturenda þess var kýrinni á bænum, henni "Kusu" komið fyrir.
16. Hveralækur (græna brotalínan)
17. Heimreiðin í Hveratún.
Fremst á myndinni er garður þar sem ýmislegt var ræktað. Ætli Ólafur læknir hafi ekki fyrst ræktað þarna, en síðan nýttur af Hveratúnsfólki.

Á flókaskóm til framtíðar.

"Nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, ekki fara þangað!"
Þetta er lítilsháttar samantekt á viðbrögðum sem ég fékk í kjölfar þessa pistils.
Ég hygg að megin ástæða þessara skelfingarópa, eða ákalls hafi verið sá skilningur að ég hygðist, með því að vera kominn á eftirlaun, umsvifalaust hverfa inn í eitthvert svarthol, gefa allt upp á bátinn, leigja göngugrind og baðstól hjá Sjúkratryggingum, kaupa flókaskó og prjónað vesti, fara að hlusta á 20. endurtekninguna á dagsrá Rásar 1, þróa með mér ýmisskonar öldrunarsjúkdóma, fara vikulega á opið hús í Bergholti, sitja þar og kemba ull, eða skera út fugla, jafnvel prjóna þumla.

Mér er ljúft að geta þess, að enn sem komið er, hyggst ég ekki gera neitt af ofangreindu og sannarlega vona ég að ég geti haldið áfram í 20-30 ár að sannfæra þau ykkar sem óttaslegnust eruð fyrir mína hönd, að ég eldist hreint ekki neitt. Ég gæti helst óttast það að yngjast, en mér hugnast einhvern veginn ekki að verða aftur eins og táningur, með allar þær byrðar sem þeir þurfa að bera, blessaðir.

Það mun hafa verið þessi kafli í pistlinum sem olli uppnáminu sem varð:


Í gær hitti ég síðan konu úr Biskupstungum, eitthvað eldri er hún en ég, sem skoraði á mig að stofna hóp á Facebook fyrir þá sem komnir eru yfir sextugt. Þar væri hægt að ræða málefni þessa hóps og ef til vill efla starf fyrir þennan aldurshóp í Tungunum.Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég tek þetta dramtíska skref. Væri ég með því, að gefa endanlega eitthvað upp á bátinn? Væri ég með því að hefja samkeppni við Félag eldri borgara í Biskupstungum (FEBÍB)? Kannski ekki - enda eru þeir víst ekki margir alla jafna á samfélagsmiðlum og tilheyra annarri kynslóð. Kannski vantar einhvern vettvang fyrir þessa millikynslóð, sem er ekki alveg hætt þátttöku í atvinnulífinu, en er farið að draga aðeins saman seglin, þó í fullu fjöri.

Þetta er allt mjög saklaust og opið, hinsvegar leyni ég því ekki, að mér er ljóst, að tíminn verður ekki stöðvaður og sannarlega tími kominn til að mín kynslóð takist á við það verkefni að búa sér og þeim sem á eftir koma áhyggjulaust ævikvöld, eins og sagt er.  Kynslóðin sem ég tilheyri er sú fjölmennasta sem fæðst hefur á þessu landi. Ef þetta samfélag tekur sig ekki saman í andlitinu og tryggir öldruðum sómasamlegt ævikvöld nú, hvernig ímyndar fólk sér að ástandið verði þá eftir 15-20 ár?
Það er rétt og satt svo langt sem það nú nær, að lífið er núna. Þetta er svona speki í anda þess sem fuglar himins og dýr merkurinnar tileinka sér. Ég vil helst trúa því að ég sé ekki þeirrar gerðar  og þess vegna vil ég hafa það þannig að hindranirnar sem nú eru í fjarlægri framtíð, verði horfnar þegar ég kem þangað sem þær voru. Annað er óásættanlegt.

Ég þakka, þrátt fyrir þetta, þá umhyggju sem birtist mér í áhyggjum mín vegna, en tel, að mikilvægara sé að hafa áhyggjur af yfirvofandi kjarnorkustríði.


03 september, 2017

Er þetta þá svona?

Það var engu líkara en ellin ætlaði að taka mig með trompi á fyrsta degi.
Þegar þeir sem yngri eru héldu til vinnu, ákvað ég að hugsa frekar um heilsuna, klæddi mig upp og skellti mér í hressingar- eða heilsubótargöngu. Logn og blíða svo sem vant er í Þorpinu í skóginum, lítilsháttar ilmur af hausti í loftinu, tækið stillt á markmið dagsins.
Fyrirhuguð leið lá út fyrir á, með viðkomu í bakaleiðinni í apótekinu, enda hefur mér verið sagt að ef ég ætla að vonast til að ná sjötugsaldri þurfi til að koma tiltekin lyf, og það var kominn tími á uppfæra birgðirnar.
Léttur í spori lagði ég síðan í hann, blístraði jafnvel með sjálfum mér, sveiflaði handleggjunum hressilega og fullvissaði sjálfan mig um að þetta væri nú lífið.
Þar sem ég nálgaðist brúna var ekki laust við að mér fyndist eitthvað vera að gerast í vinstra fæti. Einhverskonar doðatilfinning fór að láta á sér kræla, en ég taldi þetta auðvitað bara vera tilfallandi, bara hluti af endurnýjun vöðvanna og æðakerfisins. Það myndi lagast þegar jafnvægi kæmist á.
Fyrir utan brú hafði bætt nokkuð í þessa tilfinningu og ekki laust við að vinstri fóturinn væri orðinn svo dofinn að sjálfvirkur göngutakturinn liði fyrir.
Ég ákvað þarna að skipta yfir í stýrðan göngutakt, til að að lagfæra þessa veilu. Það gerði ég með því að beita hægri fæti venjulega, en þegar kæmi að vinstra fæti að flytjast fram, lyfti ég honum umtalsvert hærra. Áður en ég tók á þetta ráð, leit ég vel í kringum mig, því ekki vildi ég verða til þess að einhver áhorfandi þyrfti að fara að velta fyrir sér hvaða stælar þetta væru, og jafnvel skella upp úr yfir atganginum.
Hvað um það, í allmarga metra gekk ég svona, hægri fóturinn gekk eins og venjulega, en sá  vinstri hófst hátt á loft í hverju skrefi. Viti menn, doðatilfinningin hvarf úr vinstra fætinum og ég gekk hressilega áfram, vissi að þetta hafði bara verið eitthvað tilfallandi.
Það reyndist nú samt ekki hafa verið svo, því eftir nokkra metra með venjulegri gönguaðferð fór allt í sama farið, og nú hafði það bæst við, að niðurstig vinstri fótar endaði í einhverskonar skelli á malbikinu, skelli sem ég hafði ekki stjórn á. Til að reyna að útskýra þetta nánar, þá er það þannig, við venjulega göngu, að hællinn nemur fyrst við jörðu, síðan ilin og því næst færist þunginn fram á tær, sem spyrna fætinum fram í næsta skref.  Vinstri fóturinn á mér hafði það hinsvegar svo að hann hálf skall á jörðinni, allur í einu og beið þess síðan að sá hægri myndi knýja hann áfram í næsta skref.
Með svona göngulagi má ljóst vera, að sá sem hefði horft á, hefði  séð fyrir sér draghaltan eldri borgara.
En, ég þurfti að koma við í apótekinu.
Upp að dyrum þess liggja steintröppur. Upp þessar tröppur þurfti ég að komast og það taldi ég ekki verða mikið mál; lyfti vinstra fæti til að stíga í neðstu tröppuna og veit síðan ekki fyrr til en ég slengist fram fyrir mig. Til þess að komast hjá því að lenda á andlitinu bar ég fyrir mig hendurnar. Sú hægri náði ekki  fyllilega rétt á tröppu, eða réttara sagt það var aðeins vísifingurinn sem náði á tröppubrún og hefur líklega sveigst aftur í einar 90°, en það vissi ég ekki þá, því mér var of mikið í mun að tryggja að fallið yrði eins virðulegt og kostur væri, enda var þarna annar viðskiptavinur á leið í apótekið.
Það þarf auðvitað ekki að hafa um það mörg orð, en ég spratt umsvifalaust á fætur og lét sem ekkert væri, valhoppaði upp þær tröppur sem eftir voru, heilsaði frú Geirþrúði og bauð hana velkomna aftur til starfa eftir námsleyfi og fékk hjá henni lyfjaskammtinn.
Gekk síðan heimleiðis.
Við allt þetta hafði vinstri fóturinn komist í samt lag og starfaði fullkomlega eðlilega það sem eftir var göngunnar.
En þá tók hægri vísifinguinn að gefa frá sér ótvíræð merki um að hafa orðið fyrir umtalsverðu hnjaski. Liðurinn sem tengir fingurinn við höndina stokkbólgnaði og fyrr en varði var höndin orðin eins og á fulla kallinum í Skeiðaréttum/Reykjaréttum í gamla daga, þegar hann var búinn að berja mann og annan.
Svona var staðan þegar fD kom heim úr vinnu: flest hafði þróast til verri vegar. Hún jós auðvitað yfir mig vorkunnsemi sinni og umhyggju; hafði orð á því að líklega tengdist þetta því stóra skrefi sem ég hafði nýtekið, inn í heim eftirlaunaþegans.
Ég sagði fátt, en hugsaði því meira.

Í gær hitti ég síðan konu úr Biskupstungum, eitthvað eldri er hún en ég, sem skoraði á mig að stofna hóp á Facebook fyrir þá sem komnir eru yfir sextugt. Þar væri hægt að ræða málefni þessa hóps og ef til vill efla starf fyrir þennan aldurshóp í Tungunum.

Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég tek þetta dramtíska skref. Væri ég með því, að gefa endanlega eitthvað upp á bátinn?  Væri ég með því að hefja samkeppni við Félag eldri borgara í Biskupstungum (FEBÍB)? Kannski ekki - enda eru þeir víst ekki margir alla jafna á samfélagsmiðlum og tilheyra annarri kynslóð.  Kannski vantar einhvern vettvang fyrir þessa millikynslóð, sem er ekki alveg hætt þátttöku í atvinnulífinu, en er farið að draga aðeins saman seglin, þó í fullu fjöri sé.

------------------------------

Svona til að koma í veg fyrir misskilning, þá var raunveruleikinn ekki alveg eins dramatískur og látið er í veðri vaka hér fyrir ofan. 
Andið rólega, góðu konur. 😁

31 ágúst, 2017

31 rauð rós, súkkulaðikaka og vínarbrauð

Á þessum degi, 31. ágúst, anno 2017, lýk ég starfi mínu fyrir þá góðu stofnun, Menntaskólann að Laugarvatni.  Ugglaust mun ég síðar fjalla um ýmislegt sem þar gerðist, á þeim árum sem ég gekk þar um ganga, fyrst sem nemandi í 4 ár og síðan sem starfsmaður í 31.

Eins og nærri má geta hef ég orðið nokkuð góða sýn á þessa stofnun í gegnum súrt og sætt, en það er ekki bara hún sem slík sem skiptir mestu, heldur fólkið sem ég hef kynnst og unnið með. Það hefur verið af ýmsu tagi, allt frá því að vera nánast stórundarlegt og upp í það sem kalla má eðal. Sem betur fer tilheyrir langstærstur hluti hópsins síðarnefnda flokknum frekar.

Ég fór nú bara úteftir í morgun, svona rétt eins og aðra morgna á þessu hausti, nákvæmlega þegar ég var tilbúinn. Gerði síðan nákvæmlega það sem mér datt í hug, en það fólst aðallega í því að undirstinga fólk (í eldri kantinum flest) vegna myndasöfnunar minnar fyrir vef NEMEL (Nemendasamband Menntaskólans að Laugarvatn). Þessi söfnun er langt komin, en það eru ennþá gloppur sem ég er óðum að fylla í.  Ég ætla mér ekki að hætta þessari söfnun fyrr en á þennan vef eru komnar myndir frá öllum árum sem skólinn hefur starfað, en fyrir þá sem ekki vita, þá var hann stofnaður 1953.

Jæja, svo skellti ég mér í kaffi á kennarastofuna, svona rétt eins og maður gerir. Mér fannst eitthvað óvenju fjölmennt þar, Helga Kristín, frænka*  (sem áfram mun halda þarna á lofti merki ættarinnar, vel og rækilega) tók til við að bera súkkulaðikökur á borð, ásamt þeyttum rjóma.  Magnús, Selfyssingur, reyndist hafa kippt með sér vínarbrauðslengju neðan að.

Það næsta sem gerðist var að frænka tilkynnti að þetta væri til komið vegna þessa síðasta dags míns í starfi, sem ég brást við með því að halda þakkarræðu, sem var ekki löng, en  ræða samt.
Þegar henni var lokið og neyslan á veitingunum rétt hafin, birtist Áslaug, staðgengill skólameistara, með fangið fullt af rauðum rósum, eina fyrir hvert ár. Þetta gerði hún fyrir hönd starfsmannafélagsins, STAMEL.
Auðvitað kallaði þetta á aðra þakkarræðu, sem var einnig mjög stutt.
Þegar veitingunum höfðu verið gerð skil, kvaddist fólk og þakkaði fyrir samstarfið og þessu lauk síðan með því Pálmi dró fána lýðveldisins í hálfa stöng (sjá neðst), sem er svo sem vel skiljanlegt.
Allt þetta stand snerti mig eðlilega. Það hefði sjálfsagt snert mig enn meira ef ég hefði nú verið að yfirgefa húsnæðið endanlega, en svo er auðvitað ekki. Ætli ég verði ekki þarna í einhverju formi, meira og minna komandi vetur.

Mér fannst flestir hafa talsverðar áhyggjur af því sem við tekur hjá mér. "Hvað ætlarðu eiginlega að gera í fyrramálið?"
Ég hef nú bara áhyggjur af því hvernig best verður að skipuleggja það sem bíður mín, enda á besta aldri og tilbúinn að kýla á þær áskoranir sem framundan eru.
Ég neita því hinsvegar ekki, að einn strengur í mér mun sennilega sakna þess að hverfa út úr þeim líflega vinnustað sem ML hefur verið.

Starfsfólk ML, fyrr og nú:  Kærar þakkir fyrir samstarfið og umhyggjusemina.
----------------
Vegna þessa með fánann: Fáninn var í framhaldinu dreginn að hún, þar sem Laugvetningar fagna í dag undirritun samnings um íþróttamannvirkin á Laugarvatni. Pálmi gerði samt hlé á drættinum um stund og að því leyti er það sem sagt er hér að ofan rétt með farið.  Upphafstónar jarðarfararsálmsins "Kallið er komið, komin er nú stundin...." heyrðust hljóma undir athöfninni á kennarastofunni.

*dóttir Mannsa frænda, en við Mannsi (Sæbjörn Eggertsson) erum systkinasynir

29 ágúst, 2017

HPH: Sextíu ára - 60+ - á sjötugsaldri

Það sem hér fylgir gerir það í tilefni af því að Halldór Páll Halldórsson, skólameistari fyllir sjötta tug ævi sinnar í dag. Þar sem hér er ekki um að ræða minningarorð eftir látinn mann, er hér fram borið ýmislegt sem ekki yrði sagt ef svo væri.

Við Halldór Páll höfum starfað sama í næstum tvo tugi ári og það er sökum þess langa tíma sem ég leyfi mér að fara út á ystu nöf í því sem hér fylgir, hvort sem er í máli eða myndum.

Ef einhver hefur haldið því fram eða er þeirrar skoðunar að pilturinn nálgaðist fullkomnun eitthvað meira en við hin, þá er það auðvitað ótrúlegur misskilningur.

Ég hef ákveðið, að skrifa ekki samfelldan texta af þessu tilefni, heldur henda á loft smámyndum til að freista þess að búa til mynd af karlinum, oftar en ekki örlítið skreytta, svona til fullnægja þörf minni fyrir að bæta heldur í, en hitt.
Ég þykist þess fullviss að Halldór Páll sætti sig við þetta án þess að eftirmálar verði af hans hálfu, enda að verða síðustu forvöð, þar sem ég er í þann mund að hverfa ínn á svið þar sem ábyrgðarleysið eitt ríkir..

Samstarf okkar hefur verið eins og maður getur ímyndað sér að best verði. Við erum reyndar ótrúlega ólíkar persónur og þessvegna snertifletir til núnings af einhverju tagi, varla finnanlegir.

Þá skelli ég mér í mannlýsinguna, sem er hreint ekki í stíl við það sem gerist í Íslendingasögum: "Hann var hárprúðr maðr á yngri árum, en svá mun eigi lengr vera".

Leggjum þá af stað:
(þennan hluta mun ég síðan fjarlægja áður en varir)
Honum er ekkert vel við að viðurkenna það þegar hann hefur rangt fyrir sér. Þá finnur hann oftar en ekki einhverja leið út úr því, þannig að maður maður gæti, með góðum vilja, sannfærst um að það sem rangt hafði verið, væri í rauninni rétt. Það var einmitt þannig þegar hann fór upp í vitlausa (eða rétta) rútu á Kýpur fyrir nokkrum árum.

Honum er mikið í mun að vera þar sem hlutirnir gerast.
Honum finnst gaman á fundum.
Hann á ekki hundinn sinn.
Hann sést stundum á gangi með plastfötu, bæði um ganga skólans og utandyra.
Það stendur stundum plastfata í dyrunum á skrifstofunni hans.
Hann kann að gyrða sig í brók.
Hann afneitar ítrekað raunverulegum pólitískum skoðunum sínum.
Hann hefur tileinkað sér þýska orðaröð þegar hann vill vera formlegur.
Hann er íhaldssamur umbreytingasinni.
Það hefur orðið léttara yfir höfðinu á honum með árunum.
Hann sækir sér í pólitíska næringu hjá hársnyrtinum sínum.
Hann ýtir við fólki með ýmsum hætti.
Hann minnir fólk á.
Hann ekur á vinstri akrein þegar það er hægt.
Hann gerir  yfirleitt það sem er rétt, hvort sem það er rétt eða ekki.
Hann hefur gaman af að sýna óvenjulegar hliðar á sér.
Hann er búinn að vera lengur en hann ætlaði í upphafi.
Hann kann að tala við mæður.
Hann endar alltaf ræður með því að hvetja fólk til að njóta vel, en ég á enn eftir að skilja það..
Hann er gjarnan langorðari en ástæða væri til.
Honum leiðist ekki að tala.
Hann er ekki nýjungagjarn þegar kemur að bifreiðaeign.
Hann er, eins og stundum vill vera, eðlisþykkur.
Hann gefur sig úr fyrir að vera mikill göngumaður (frásögnum hans
af gönguafrekum hefur farið fækkandi).
Hann á það til að henda fram vísum.
Hann söng, en annað og merkilegra varð til þess að hann hætti því.
Hann gerir kröfur, en er harla sveigjanlegur þegar á hólminn er komið.
Hann getur hlegið að sjálfum sér og þá ískrar oft í honum..
Hann er alltaf að hugsa um fjárheimildir og fjárhagsáætlanir.
Hann á það til að hverfa heim í Garð til að vinna.
Hann spjarar sig á Spjör, Spjararbóndinn.
Hann tekur stundum upp á því að senda tölvupósta.
Hann treystir ólíklegasta fólki.

Sannarlega gæti ég haldið lengi áfram, því af nógu er að taka, en þessi gallagripur hefur átt afar mikinn þátt í því að starf mitt við ML hefur gengið þokkalega áfallalaust.

Heill þér, sextugum, Halldór Páll og njóttu vel í námi, lífi og starfi. Það má öllum ljóst vera að námi okkar í þessu jarðlífi lýkur aldrei.
😎





28 ágúst, 2017

Sjö manna maki

Einhver myndi segja að þessi pistill einkenndist af svokölluðu "karlagrobbi" sem sagt er að einkenni ákveðinn tíma í ævi karlmanna; tímann þegar þeir eru stignir út af vinnumarkaðnum og enginn getur lengur krafið þá um að sanna mál sitt.
Karlagrobb hefur mér sýnst felast í sögum sem viðkomandi segja af afrekum sínum og ævintýrum, oftast sem þeir eru einir til frásagnar um, enda oftar en ekki allir aðrir sem að sögunum koma, komnir yfir móðuna miklu.
Dæmi um upphaf svona sögu gæti verið: "Þegar ég var þarna um árið á vélbátum Narfa BS53 frá Súgandafirði, gerði á útmánuðum þetta aftakaveður á norðaustan. Ég .................."  og svo framvegis. Eftir því sem aldurinn færist síðan meira yfir eiga minningarnar það síðan til að verða ævintýralegri og svakalegri, eins og er auðvitað alveg eðlilegt. Fortíð okkar litast nefnilega sterkari litum eftir því sem lengra líður.

Jæja, þá er inngangurinn búinn og ég skelli mér í karlagrobbið, sem jafnframt má líta á sem nokkurskonar gagnrýni á samfélagsþróun, hér og annarsstaðar; kannski aðallega sem slíka.


Það var áður fyrr talað um að menn (aðallega var það nú reyndar notað um karlmenn) væru þúsundþjalasmiðir. Auðvitað er svona fólk til enn, meira að segja má finna þessi eintök innan stofnunarinnar sem ég hef verið að vinna hjá: bæði karla og konur.  Þróunin hefur hinsvegar legið eindregið í þá átt að þessi tegund fólks sé í útrýmingarhættu. Í staðinn eykst sérhæfing og fólk verður í æ meira mæli aðeins fært um að smíða eina til tvær þjalir. Þannig væri hægt að tala um einhvern sem "tveggjaþjalasmið"; hann gæt t.d. ekið bíl og borið á pallinn, en ekkert annað. Hann kynni t.d. ekki að skipta um dekk, eða setja í þvottavél.

Ég........loksins kemur að því ......... ólst upp í heimi sem var talsvert einfaldari en sá sem við lifum nú. Stærsti munurinn felst líklega í tækni og tækjum. Það var vissulega til útvarp, en auðvitað var sjónvarpið ekki komið, svo ekki sé nú talað um tölvur og allt sem nöfnum tjáir að nefna og sem tengist þeirri þróun allri saman.  Ég læt vera að taka afstöðu til þeirrar þróunar hér, enda stærra mál en svo.

Ég hef stundum verið spurður að því hvort lífið hafi ekki verið óþolandi leiðinlegt í gamla daga, þegar allt var svarthvítt. Ég neita því ekki, að stundum velti ég fyrir mér hvað í ósköpunum við notuðum allan þann tíma í sem við notum nú í allskyns afþreyingu. Hvað gerðum við t.d. á kvöldin? Jú, það var spennandi framhaldsleikrit í útvarpinu, lög unga fólksins, útvarpssagan, það var lesið og börn léku sér úti við.  Ég veit ekkert hvort það var eitthvað betra fyrir okkur sem manneskjur, svo sem, en þannig var þetta bara.

Mér finnst að við höfum kannski verið að ýmsu leyti tengdari raunveruleikanum en nú er. Heimurinn var miklu minni og viðráðanlegri og maður þurfti að takast á við fjölbreytilegri verkefni í þessum afmarkaða heimi. Það þurfi það gefa hænunum, vökva (í gróðurhúsunum) og sinna ýmsu sem til féll á garðyrkjubýli. Síðar þurfti að gera við bíldruslur, byggja hús, grafa skurði, takst á við áföll. Í sem stystu máli: bjarga sér við ólíklegustu aðstæður.

Ég dreg þetta saman svona: heimurinn var hlýrri, raunverulegri og nánari, en hann er nú.

Oh, it's a fine life, the life of the gutter. It's real: it's warm: it's violent: you can feel it through the thickest skin: you can taste it and smell it without any training or any work. Not like Science and Literature and Classical Music and Philosophy and Art.                                                                                                        -G.B. Shaw: Pygmalion (My Fair Lady)

Ætli sé ekki rétt að fara nú að koma mér að kjarna málsins og ástæðu þess að ég skrifa þennan pistil.
Eins og ég greindi frá í síðasta pistli er ég nú um það bil að stíga út af hefðbundnum vinnumarkaði. Við þau tímamót hefur það blasað við, að það myndaðist lítið skarð sem þurfti að fylla í innan stofnunarinnar.  Ég er nú búinn að komast að því, að hvorki meira né minna en sjö starfsmenn hafa tekið að sér þau verkefni sem ég sinnti.
Tveir deildu á sig því sem tilheyrði stöðu aðstoðarskólameistara.
Þrír taka að sér þann hlutann sem notaður var til ljósmyndurnar og myndvinnslu fyrir vefinn.
Einn tekur að sér textaskrif vegna heimasíðu.
Einn tekur að sér ýmsa upplýsingavinnslu.
Samtals eru þetta þá sjö manns.
Auðvitað tek ég það fram, því ég þykist vita, að einhverjum geti fundist ég seilast, með þessu, heldur langt í karlagrobbinu, að þarna tekur þetta fólk að sér afmarkaða hluta þess starfs sem ég sinnti,  vissulega misstóra hluta og allt er þetta auðvitað öndvegisfólk.  Ég vil þar á móti halda því til haga, að starfið sem ég sinnti var óhemju fjölbreytt og skemmtilegt og gaf mér færi á að reyna mig á ólíkum sviðum.

Það sem ég er svo að fara með þessu snýst um þá skoðun mína, að við, í þessu nútímasamfélagi, séum æ meir að missa sjónar á heildarmyndinni. Við verðum í æ ríkari mæli fagidjótar, þar sem við verðum sérfræðingar á æ afmarkaðri sviðum, t.d. fuglafræðingar sem eru sérhæfðir í rjúpunni, eða píplagningamenn sem hafa hitalagnir í fjölbýlishúsum að sérgrein. Frábært fólk á sínu sviði, en lætur sig oft litlu skipta allt hitt. Fyllir kannski hóp þeirra sem tjá sig fjálglega um mál í athugsemdum á samfélagsmiðlum, án þess að hafa nokkra innsýn eða skilning.

Það má alveg halda því fram að þetta einkennist dálítið af fortíðarþrá hjá mér, en það er í rauninni ekki svo, því þó svo ég sé ekki kominn með Netflix, eða búinn að fara í Costco eða HogM og bíði í viku eftir að sjá næsta þátt af breska sakamálaþættinum á RUV, þá held ég að mér hafi tekist að fylgjast nokkuð vel með og hef bara gaman af ýmsum þeim tækninýjungum sem spretta fram. Ég er meira að segja farinn að gæla við þá hugmynd að kaupa mér 75" HDR tæki á vegginn í Kvistholti, en á enn eftir að rökræða það um stund við fD.



24 ágúst, 2017

Það þarf að finna nýjan takt, svo einfalt er það.

Ilmurinn í loftinu gefur til kynna að haustið sé í nánd.
Ys og þys sumarsins tekur enda, haustverkin taka við og síðan kemst allt í fastar skorður vetrarins áður en varir.
Börnin byrjuð í skólanum, en hann er líklega sá þáttur í lífi okkar sem setur okkur hvað mestar skorður.
Sumum okkar.
Fara á fætur, koma börnunum í skólann og skella sér í vinnuna.
Taka síðan við börnunum úr skólanum, græja kvöldmatinn, koma börnunum í rúmið, fara að sofa til að vakna aftur til nýs vinnudags.
Ætli þetta sé ekki svona hjá flestum barnafjölskyldum.
Ákveðinn rammi sem skólinn setur.
Ef ekki væri skólinn væri ýmislegt hægt, en það verður að bíða næsta sumars.

Ilmurinn í loftinu setur okkur í ákveðnar stellingar.
Mörgum reynist þetta erfitt.
Frelsið fyrir bí og framundan fjötarnir sem náttúran klæðir gróður jarðar í, og fjötrarnir sem binda okkur í klafa kaldra og dimmra vetrarmorgna, mánuðum saman.
Ekkert ljós eða birta nema skíman í kringum jólin, flugeldarnir og áramótabrennurnar.
Eftir það frost og snjór fram á vor.
En það kemur vor.

Ég hef lifað þessu taktfasta lífi í áratugi.
Ilmur haustsins hefur minnt mig á það, fyrst af öllu, að skólinn sé framundan.
Nýtt skólaár, nýr vetur, enn á ný nýjar áskoranir, fleira nýtt fólk, ávallt ungt fólk, ávallt yfirkomið af spennu vegna komandi vetrar, ávallt með fyrirheit um að standa sig.

Unga fólkið fyrir 35 árum er að komast á sextugsaldurinn núna.
Eftir 35 ár verður unga fólkið núna komið á sextugsaldurinn og unga fólkið fyrir 35 árum að njóta síðustu sólargeislanna í lífi sínu.
Það verður farið hausta í lífi þess. Ilmurinn fer ekki á milli mála.

Nú þarf ég að fara að finna mér nýjan takt.
Framundan er líf án skóla.
Vekjarklukkan hefur ekkert hlutverk lengur.
Enginn kaldur bíll til að setja í gang á frostköldum morgni.
Bjallan er hætt að klingja í eyrunum.
Ungmennin hætt að spyrja hvort tíminn sé ekki a[ verða búinn.
Engar frekari tilraunir til að fá unglinga til að sjá lífið í víðara samhengi.
Enginn Shakespeare.
Enginn tilhlökkun vegna jólaleyfis eða skólaloka að vori.

Nýr taktur.
Ég átta mig á, að alla ævi, frá fimm ára aldri hefi ég verið í skólatakti.
Fyrst hjá Sigurbjörgu í Launrétt, þá í Reykholtsskóla, Héraðsskólanum á Laugarvatni, Menntaskólanum að Laugarvatni, Lýðháskólanum í Skálholti, Háskóla Íslands, Reykholtsskóla og Menntaskólanum að Laugarvatni.
Þetta er dálítið merkilegt, svona þegar maður horfir til baka.
Lífið hefur verið skóli, þar sem stundataflan hefur rammað inn hvern dag.
Framundan er engin stundatafla.
Bara dagur eftir dag.
Hver dýrðardagurinn á fætur öðrum, þar sem stærsti vandinn mun líklega felast í því að forgangsraða öllu því sem ég þarf að koma í verk.

Ég þarf að koma ýmsu í verk, svo lengi sem heilafrumurnar starfa með nokkurnveginn eðlilegum hætti.
Ég þarf að búa til stundatöflu.
Virkja vekjaraklukkuna aftur.
Skella mér í hressingargöngu á frostköldum vetrarmorgnum,
Vera kominn heim áður en snjallsíminn hringir inn í fyrsta tíma.
Setjast að skilgreindu verkefni í skilgreindan tíma.

Hlakka til að takast á við nýtt líf.

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...