04 september, 2017

Á flókaskóm til framtíðar.

"Nei, nei, nei, nei, nei, nei, nei, ekki fara þangað!"
Þetta er lítilsháttar samantekt á viðbrögðum sem ég fékk í kjölfar þessa pistils.
Ég hygg að megin ástæða þessara skelfingarópa, eða ákalls hafi verið sá skilningur að ég hygðist, með því að vera kominn á eftirlaun, umsvifalaust hverfa inn í eitthvert svarthol, gefa allt upp á bátinn, leigja göngugrind og baðstól hjá Sjúkratryggingum, kaupa flókaskó og prjónað vesti, fara að hlusta á 20. endurtekninguna á dagsrá Rásar 1, þróa með mér ýmisskonar öldrunarsjúkdóma, fara vikulega á opið hús í Bergholti, sitja þar og kemba ull, eða skera út fugla, jafnvel prjóna þumla.

Mér er ljúft að geta þess, að enn sem komið er, hyggst ég ekki gera neitt af ofangreindu og sannarlega vona ég að ég geti haldið áfram í 20-30 ár að sannfæra þau ykkar sem óttaslegnust eruð fyrir mína hönd, að ég eldist hreint ekki neitt. Ég gæti helst óttast það að yngjast, en mér hugnast einhvern veginn ekki að verða aftur eins og táningur, með allar þær byrðar sem þeir þurfa að bera, blessaðir.

Það mun hafa verið þessi kafli í pistlinum sem olli uppnáminu sem varð:


Í gær hitti ég síðan konu úr Biskupstungum, eitthvað eldri er hún en ég, sem skoraði á mig að stofna hóp á Facebook fyrir þá sem komnir eru yfir sextugt. Þar væri hægt að ræða málefni þessa hóps og ef til vill efla starf fyrir þennan aldurshóp í Tungunum.Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég tek þetta dramtíska skref. Væri ég með því, að gefa endanlega eitthvað upp á bátinn? Væri ég með því að hefja samkeppni við Félag eldri borgara í Biskupstungum (FEBÍB)? Kannski ekki - enda eru þeir víst ekki margir alla jafna á samfélagsmiðlum og tilheyra annarri kynslóð. Kannski vantar einhvern vettvang fyrir þessa millikynslóð, sem er ekki alveg hætt þátttöku í atvinnulífinu, en er farið að draga aðeins saman seglin, þó í fullu fjöri.

Þetta er allt mjög saklaust og opið, hinsvegar leyni ég því ekki, að mér er ljóst, að tíminn verður ekki stöðvaður og sannarlega tími kominn til að mín kynslóð takist á við það verkefni að búa sér og þeim sem á eftir koma áhyggjulaust ævikvöld, eins og sagt er.  Kynslóðin sem ég tilheyri er sú fjölmennasta sem fæðst hefur á þessu landi. Ef þetta samfélag tekur sig ekki saman í andlitinu og tryggir öldruðum sómasamlegt ævikvöld nú, hvernig ímyndar fólk sér að ástandið verði þá eftir 15-20 ár?
Það er rétt og satt svo langt sem það nú nær, að lífið er núna. Þetta er svona speki í anda þess sem fuglar himins og dýr merkurinnar tileinka sér. Ég vil helst trúa því að ég sé ekki þeirrar gerðar  og þess vegna vil ég hafa það þannig að hindranirnar sem nú eru í fjarlægri framtíð, verði horfnar þegar ég kem þangað sem þær voru. Annað er óásættanlegt.

Ég þakka, þrátt fyrir þetta, þá umhyggju sem birtist mér í áhyggjum mín vegna, en tel, að mikilvægara sé að hafa áhyggjur af yfirvofandi kjarnorkustríði.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...