11 október, 2009

Vegna Guðmundi

- ég komst ekki vegna hestinum sem lá á veginum.
- vegna fækkun sjúklinga var spítalinn lagður niður.
- hann fagnaði vegna sameiningu sveitarfélaga
- vegna fréttaaukanum missti ég af matnum.
- ég hringdi vegna lögregluþjóninum sem hafði komið á staðinn.
- vegna samningu laga um réttarbætur til handa Jóni.

Tvær ofangreindra setninga komu fyrir í fréttum í kvöld.
Hafa lesendur eitthvað við þær að athuga?

Ég hef það vissulega og mér virðist að þessi tjáningarmáti sé orðinn regla frekar en undantekning.



Raunveruleikatenging

Hér hefur bláminn verið allsráðandi að undanförnu.
Moggaumboðsmaðurinn í Laugarási birtist hjá gamla unglingnum þegar ég var þar staddur, og var að koma færandi hendi með nýjasta moggann til aflestrar. Eitthvað hef ég verið búinn að senda skýr skilboð um þau mál, því viðkomandi flýtti sér að fela moggann bak við sig - um stund.

Blátunnur hafa kallað á mikla athygli undanfarna daga. Það hefur frést af þeim á flugi um Bláskógabyggð og Grímsnes. Nú eru þær flestar komnar heim og standa stilltar á sínum stað, í það minnsta fram að næsta hvelli.
________________________________

Ég hef verið að dunda mér við að fara í gegnum gamlar myndir þessa helgina, en fátt er betur til þess fallið að opna manni sýn inn í þann raunveruleika að árin líða.
Ég læt hér fylgja dæmi um það. (liggur við að þessari uppgötvun fylgi lítilsháttar blámi hugans).

Svona var Kvistholt vorið 1984.

Svona var staðan sumarið 2008


09 október, 2009

Vandræðalegt - enn blátunna


Það er ekki auðvelt að vera blátunnuumráðamaður þessi dægrin :(

Það eru fleiri hundar svartir...


... en hundurinn prestsins.

Það eru til ýmsar tegundir af fólki. Það er t.d. til steypufólk og það er til timburfólk. Ég flokka mig sjálfan sem timburfólk. Ég styrkist meira að segja í þeirri sannfæringu þegar mér berst sérstakt tilboð um skýli utan um nýju blátunnuna mína; tilboð, þar sem mér eru boðnar mismunandi útfærslur á steyptu skýli, sem er fleiri hundruð kíló að þyngd og kostar fleiri tugi þúsunda.


Nú bíð ég í ofvæni eftir tilboði frá framleiðendum í mínum flokki með létt skýli á hagstæðu verði.
Ég er tilbúinn að hæla slíkt skýli niður og bera á það á hverju ári, ef það er málið.


Í þessu sambandi við ég gleðja áhyggjufulla: það fauk enginn moggi. Það var fyrsta verk gamla unglingsins þegar hann vaknaði í morgun, að líta út um glugga til að athuga með moggafyllta blátunnuna. Hún var horfin. Hann varð miður sín (segjum það allavega) þar til hann komst að því að samtunnunotandinn hafði komið heila klabbinu í skjól.

08 október, 2009

Moggamengunamartöð

"Ég fékk mér heilsubótargöngu í morgun til þess að vígja nýju blátunnuna"
Það er gamli unglingurinn sem hefur orðið. Hann hafði komist að því við lestur bæklingsins um blátunnuna, að í hana skyldi mogginn fara að loknum lestri. Hann tók sig, sem sagt, til og bar í tunnuna stærðar haug af mogganum, sem hafði safnast umm hjá honum undanfarnar vikur.

Hann er í þeirri aðstöðu að fá moggann hvort sem hann vill eða ekki. Það er hinsvegar augljóst, að hann vill hann þó svo Tíminn hefði verið hið eina sanna dagblað.
Aðspurður um hvort hann óttaðist ekki að smitast af boðskap moggans svaraði hann því til, að svo væri ekki því það sæti ansi lítið eftir að lestri loknum.

Hvað um það, hann flutti moggastaflann í blátunnuna nýju, sem stendur enn þar sem starfsmenn sorpfyrirtækisins höfðu skellt henni niður - á hálfgerðum berangri - þó slíkt fyrirbæri sé nú ekki til í Laugarási.

Sá gamli hafði síðan heyrt það að spáð er víðáttubrjáluðu veðri í nótt og á morgun og velti því fyrir sér hvort ekki séu líkur á að tunnan fjúki af stað og mogginn með og síðan úr tunnunni og út um allt.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig staðan í trjágróðrinum í Laugarási verður í fyrramálið. Ætli maður sitji uppi með moggann fyrir augunum eftir allt?
Ja, hann Davíð!

03 október, 2009

Landið

Ísland er ekkert að víla fyrir sér að leyfa börnum sínum að njóta andstæðna.

Í gær sátu ökumenn fastir í faratækum sínum á heiðum uppi. Það ringndi og/eða snjóaði á láglendi. Hvassviðrið feykti haustgulum blöðum trjánna burt til að þau gætu orðið jarðvegur næsta árs. Í dag skín sólin aftur og gærdagurinn er horfinn. Sólin er að vísu ekki jafn hátt á lofti og á sumarsólstöðum, en hún er þarna og gefur fyrirheit um að það komi aftur sumar.

Í fyrra engdust sakleysingjar í gjöreyðingarárás bankahruns, blámannaheimsku og græðgi. Traust hvarf og trúin á að landið gæti risið á ný fauk burt með haustvindunum. Kannski sest trúin einhvers staðar aftur innan skamms og skýtur rótum.

Síðustu ár flæktist þjóð í kaldbláum vef gróðapunga, illvirkja, falsspámanna og svikara. Þjóðin hlaut skaða af. Hugtakið "landið bláa" fékk nýja og ógeðfellda merkingu. Það er samt von um að vefurinn rakni og þjóðin verði aftur frjáls. Það eru merki á lofti, lágt eins og vetrarsól. Blái vefurinn er farinn að trosna þó einkennileg öfl hans reyni enn að veiða sakleysingja með bláskrift sinni.
Á dimmasta vetri, þegar eilíf nótt virðist ráða ríkjum, skín alltaf lítill sólargeisli lágt á lofti, sem boðar vor, sem boðar sumar. Það er hægt að treysta landinu. Traustið á mönnunum bíður betri tíma.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...