14 júní, 2019

Skálholt: Prestur og söfnuður óánægðir hvor við annan


Af vefnum skalholt.is
Fyrir nokkru barst mér í hendur bók nokkur, sem inniheldur að mestu leyti reikningshald fyrir Skálholtskirkju frá 1913 til 1988.  Auk reikninganna eru skráðar nokkrar vísitasíur prófasta í Árnesprófstsdæmi, ein kirkjuskoðun og einn safnaðarfundur. Þessa texta birti ég hér fyrir neðan.

Ég hef nú, eftir að hafa borið það undir vígslubiskup og formann sóknarnefndar, skilað þessari bók á Héraðsskjalasafn Árnessýslu, því auðvitað eiga svona gögn þar heima.  Ég leyfi mér að ítreka við ykkur öll sem þetta sjáið, að athuga hvort heima hjá ykkur leynist mögulega gögn sem eiga að rata til varðveislu á héraðsskjalasafninu.
 Ekki meira um það, en hér eru umræddir textar:

 Vísitasía 1913

EFTIRRIT
Vísitasíugjörð í Skálholti 28. júlí, 1913.

Árið 1913, 28. júlí, vísiteraði prófasturinn í Árnessprófastsdæmi, séra Valdimar Briem, kirkjuna í Skálholti. Af viðkomandi mönnum var auk prófastsins enginn viðstaddur, nema umboðsmaður kirkjunnar, Skúli læknir Árnason í Skálholti. Sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson á Ólafsvöllum, var fjarverandi, svo og allir sóknarnefndarmennirnir: Þorfinnur Þórarinsson á Spóastöðum, Bergur Jónsson á Helgastöðum og Jón Wíum á Iðu. Hafa þeir sjálfsagt ekki verið viðlátnir, enda ef til vill haft lítið að athuga eða haft litla von um árangur.
Um kirkjuna er það að segja, að síðan hún var síðast vísiteruð, af Þórhalli biskupi Bjarnarsyni, 4. sept. 1910 hefir hún fengið talsverða og alldýra aðgerð, sem fólgin hefir verið í þessu: Skekkjan, sem orðin var á kirkjunni, hefir verið löguð svo sem smiðurinn, er stóð fyrir aðgerðinni, hefir treyst sér til án þess að rífa húsið algerlega, en hvergi nærri hefir það tekist til hlítar. Kirkjan hefir verið járnklædd á norðurhlið og vesturgafli, svo að hún er nú öll járnvarin. Gólfið í kirkjunni hefir verið endurbætt á þá leið, að nýir hlerar hafa verið settir yfir legsteinana, sem eru undir ganginum í framkirkjunni. En kórgólfið, sem er talsvert gallað, er enn óendurbætt. Nýir gluggar hafa verið settir í kirkjuna. Ennfremur hefir verið þiljað fyrir geymsluloftið í kirkjunni. Svo hefir og öll kirkjan verið máluð að utan og innan, - að utan brúnleit á þaki, en gráleit á veggjum; að innan ljósblá hið efra með hvítum listum, en ljósgrá hið neðra. Á altari og predikunarstól hefir liturinn verið skírður upp. Kirkjan, sem að utan er fremur óásjáleg að allri gerð yfirleitt, ekki síst turninn, sem mjög er til óprýði, lítur nú að innan miklu betur út en áður. Sömuleiðis hefir tekist að þétta hana nokkuð svo að hún er nú ekki eins gisin sem fyr, og væri settur hæfilegur ofn í hana verður ekki annað sagt en að hún sé sæmilega vistleg til notkunar á öllum árstímum.
En hinsvegar virðist kirkjan hvergi nærri samboðin þeim stað, sem hún stendur á.
Eiganda kirkjunnar er þó ekki sök á því gefandi, að því leyti, að eigi er til þess að ætlast að hann á sinn kostnað eingöngu, reisi þar "monumentala" kirkju. En hinsvegar  dylst það víst fæstum, er athuga það rækilega, að miklu heppilegra hefði verið að endurbyggja svo stórgallað hús en láta káka við aðgerð á því, sem er lítt framkvæmanleg til nokkurrar hlítar. En við það, sem komið er, verður nú sjálfsagt að sitja fyrst um sinn.
Sem stendur er kirkjan mjög lítið notuð til messugjörða. En þegar farið verður að nota hana betur þykir nauðsynlegt að setja ofn í hana. - Kirkjan er í góðri hirðu ásamt áhöldum hennar, sem öll eru hin sömu og áður.
Kirkjugarðurinn er yfirleitt í sæmilegu standi, og ný grind úr timbri hefir verið sett á sáluhlið.
Úr Fálkanum, 3. árg. 1930

Til yfirheyrslu í kristindómi komu 2 nýlega fermd ungmenni (frá Auðsholti). Eitt vantaði (frá Iðu).
Um kirkjulegt ástand í söfnuðinum og samband prests og safnaðar, er líkt að segja og áður. En annars var lítið tilrætt um það að þessu sinni, þar sem flesta viðkomendur vantaði. Söfnuðurinn er hvattur til að sækja kirkjuna betur en nú er gjört, þá er færð og veður og aðrar ástæður leyfa.
Sjóðsbók fyrir kirkju og sókn var löggilt, en gjörðabók vantar og þarf að útvega hana sem fyrst. Sé þessi vísitasíugerð innfærð í hana.
Valdimar Briem, Skúli Árnason
Rétt eftirrit eftir vísitasíunni staðfestir
Valdimar Briem.

Vísitasía 1918

Árið 1918, 4. nóv., vísiteraði prófasturinn í Árnesprófastsdæmi, Kjartan Helgason, kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson, umboðsmaður kirkjueiganda Skúli Árnason og formaður sóknarnefndar Bergur Jónsson.
Engin börn komu til yfirheyrslu.
Kirkjan er í góðu standi og vel hirt, svo og áhöld hennar.
Meiri hluti kirkjugarðsins er nýhlaðinn upp og prýðilega gerður (úr torfi og grjóti) en það sem eftir er á að leggjast næsta sumar..
Söfnuðurinn er, að kalla, hættur að sækja kirkju og presturinn að slá slöku við komur sínar, svo að á þessu ári hefur presturinn ekki messað nema einu sinni eða tvisvar. Prestur og söfnuður eru óánægðir hvor við annan að þessu leyti. Kirkjulífið er í ólagi.
Kjartan Helgason, Br. Jónsson, Skúli Árnason, Bergur Jónsson.

Vísitasía 1922

Árið 1922, 15. júní vísiteraði próf., séra Kjartan Helgason kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson, kirkjuhaldarinn, Skúli læknir Árnason og formaður sóknarnefndar, Víglundur Helgason. 
Eitt barn kom til yfirheyrslu í kristnum fræðum og bóklestri og reyndist mjög vel.
Kirkjan er í sómasamlegu ástandi og vel hirt og sömuleiðis áhöld hennar.
Meirihluti kirkjugarðsins er í ágætu standi, en austur og suðausturhliðin er orðin fornfáleg.
Um kirkjulegt ástand í söfnuðinum er sama að segja og áður, enda er presturinn farinn að lasnast og als ekki fær um að koma til kirkju á vetrardag nema í bezta veðri.
Kjartan Helgason, Br. Jónsson, Skúli Árnason, Víglundur Helgason

Kirkjuskoðun 1924

Árið 1924, 10. júní skoðaði prófasturinn, séra Kjartan Helgason í Hruna kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru kirkjuhaldarinn, Skúli Árnason læknir og formaður sóknarnefndar Jón Wium á Iðu.
Börn komu engin til yfirheyrslu.
Kirkjan er gömul timburkirkja, en nokkurn veginn stæðileg og í góðri hirðu, öll járnklædd að utan og máluð að utan og innan.
Áhöld hennar eru öll hin sömu og verið hafa, en nýlega hefur kirkjueigandinn, bankastjóri Hannes Thorsteinsson sent kirkjunni sálmasöngsbók Sigfúsar Einarssonar, í góðu bandi og þakkar sóknarnefndin fyrir þá gjöf.
Kirkjan á ekki ofn; hljóðfæri er fengið að láni við kirkjulegar athafnir.
Grafreiturinn er óvenjulega stór í hlutfalli við sóknina. Meiri hluti kirkjugarðsins er nýlega hlaðinn úr torfi og grjóti og í ágætu standi og trégrind í hliðinu hefur nýlega verið endurbætt. Austurhlið garðsins og nokkuð af suðurhliðinni er úr tómu grjóti, en af sér gengin og ekki gripheld, þarf sem fyrst, helst á næsta hausti að hressa við þann kafla girðingarinnar.
Sóknarpresturinn, Séra Brynjólfur Jónsson er orðinn aldraður maður og lasburða. Kemur hann sjaldan til kirkju og kirkjan illa sótt.
Kjartan Helgason, Skúli Árnason, Jón H. Wium.

Safnaðarfundur 1925

Hinn 6. sept, 1925 var haldinn safnaðarfundur í Skálholti. Fundinum stýrði séra Eiríkur Stefánsson á Torfastöðum að afstaðinni guðsþjónustu. Þar var kosin sóknarnefnd og hlutu þeir kosningu: Skúli Árnason í Skálholti, Víglundur Helgason í Höfða og Jón H. Wium á Iðu.
Skúli Árnason
Víglundur Helgason
Jón H. Wium.
Eiríkur Þ. Stefánsson.
--------------------

Um séra Brynjólf Jónsson (1850-1925) prest á Ólafsvöllum, sem þjónaði Skálholti á þeim tíma sem hér um ræðir.


Síðasti prestur í Reynisþingum var sr. Brynjólfur Jónsson, síðast á Ólafsvöllum og löngum kenndur við þann stað. Hann var sonur Jóns háyfirdómara Péturssonar, tvíburabróðir við sr. Pétur Kálfafellsstað.
Sr. Brynjólfur vígðist til Meðallandsþinga vorið 1875. Ekki var hann þar nema árið. Næsta vor fékk hann Reynisþing og settist að á Heiði. Þar var hann í 6 ár unz hann fluttist austur að Hofi í Álftafirði, síðan var hann einn vetur á Bergsstöðum í Húnaþingi. Þá fékk hann Ólafsvelli þar sem hann var prestur til dauðadags.
Vorið 1925 fór sr. Brynjólfur til Reykjavíkur á prestastefnu svo sem venja hans mun hafa verið. Hann ofkældist á leiðinni, lagðist veikur þegar suður kom og andaðist á heimili Helgu dóttiur sinnar 2. júlí.
Skeiðamenn komu suður til að bera hann til grafar, en yfir moldum hans töluðu þeir sr. Magnús Helgason og Friðrik Hallgrímsson.
Sr. Brynjólfur mun hafa orðið næsta minnistæður öllum þeim, sem höfðu af honum einhver kynni. Frægastur var hann fyrir stálminni og hinn þaulfróðasti í mörgum efnum. Hann kunni embættismannaskrár Norðurlandaríkjanna utan bókar, enda hafði hann Hof- og Statskalender Dana í höndum sér á deyjandi degi. (Vörður 18. júlí '25).
(úr: Kirkjur og prestar í Reynisþingum, eftir séra Gísla Brynjólfsson, Mbl. 9. janúar 1966)
--------------------

Feitletranir og skyggingar á texta eru mínar 




05 júní, 2019

Fundur um ljósleiðara

Það hvarflar nú ekki að mér, annað en halda þeirri stefnu minni að reyna að fylgjast með í umhverfi mínu svo lengi sem þess er nokkur kostur. Það var ein ástæða þess, að ég fór á fund í gærkvöld í Slakka, þar sem oddiviti og sveitarstjóri Bláskógabyggðar voru mætt til að upplýsa um áætlanir og fyrirkomulag ljósleiðaravæðingar í sveitarfélaginu.
Ég ætla ekki hér að reyna að fara í gegnum þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir um þessi mál á vef sveitarfélagsins. Bara nefna það sem fram kom á fundinum, eins og það blasti við mér.

Ég hef hikað við að sækja um aðgang að þessu vegna þess sem stendur á umsóknarblaðinu um skuldbindingu og sem sjá má hér til hliðar. Ég var einhvernveginn ekki tilbúinn til að sækja um eitthvað sem ég vissi ekki hve mikið myndi kosta. Eftir fundinn í gær veit ég hinsvegar, að þetta er ekki eins og ég hafði skilið og óttast.

Þegar fyrir liggur hve margir hafa sótt um verður haft samband við hvern og einn, enda munu þá liggja fyrir nákvæmari útlistanir að endanlegum kostnaði.

Á fundinum kom fram, að samkvæmt skilgreiningu í þessu verkefni, telst Laugarás vera þéttbýlisstaður, með sama hætti og Reykholt og Laugarvatn, en nokkuð hefur verið á reiki hvernig þessi þéttbýliskjarni flokkast, eftir því hver flokkar. Það sem þarna mun ráða úrslitum er, að svokallað "ljósnet" hefur verið lagt í tengiskúrinn við Asparlund, (eða Kirkjuholtsveg 1). Þar sem ljósnetið er komið, telst vera þéttbýli. Þá er það frá.

„Ísland ljóstengt“, sem er verkefni á vegum ríkisins þar sem veitt er styrkjum til sveitarfélaga til lagningar ljósleiðara í dreifbýli, gera það að verkum að ekki eru veittir styrkir til að tengja íbúðarhús og fyrirtæki í þéttbýli og heldur ekki til að tengja sumarhús. Því til grundvallar liggur það mat stjórnvalda að tengingar í þéttbýli séu almennt betri en í dreifbýli og því sé ekki eins mikil þörf á að leggja opinbert fé í að bæta tengingar þar.
 Það er sem sagt svo að styrkur ríkisins nær ekki til þéttbýlisstaða - eins og Laugaráss.

Það hefur komið fram, að grunngjaldið sem allir verða að greiða, sem tengjast vilja við ljósleiðara, er kr. 250.000. Þetta er sú upphæð sem staðir sem teljast til dreifbýlis þurfa að greiða og ekkert umfram það. Afgangurinn er greiddur með ríkisstyrknum.

Þar sem um er að ræða skilgreinda þéttbýlisstaði, eins og Laugarás, þarf fólk að greiða sín 250.000, en síðan ræðst það af fjölda umsókna hvort sú upphæð dugi fyrir kostnaði af lagningunni. Ef ég einn myndi til dæmis sækja um hér í Laugarási, gæti ég reiknað með talsvert háum reikningi umfram 250 þúsundin. Ákveðum við hinsvegar öll að sækja um, er, að sögn oddvita og sveitarstjóra, líklegast að kostnaður umfram þessa upphæð verði jafnvel enginn.
Þetta þýðir augljóslega, að því fleiri sem sækja um, því líklegra er að enginn aukakostnaður verði.

Lítilsháttar pæling í þessu sambandi: 
Ég á íbúðarhús í Laugarási, sem mun væntanlega standa hér inn í framtíðina. Ég hef kannski engan áhuga á að fá einhvern ljósleiðara inn á gafl hjá mér - tel mig engu bættari með honum. Með því viðhorfi er ég auðvitað að minnka verðgildi eignar minnar til framtíðar, en þeir sem ekki tengjast í þessari atrennu, en vilja gera það síðar, munu standa frammi fyrir miklum aukakostnaði (þetta kom fram hjá oddvita).
Mín niðurstaða er sú, að ef ég reyni nú að hugsa lengra en til næstu mánaða, sé engin spurning um mikilvægi þess að taka inn hjá mér ljósleiðara. Ég tel þetta vera tækifærið.

Við þurfum ef til vill að átta okkur á að breytingar eru að verða á flestu í Þorpinu í skóginum eins og almennt þar sem garðyrkja, eða önnur yrkja hefur átt sinn blómatíma. Það er líklegra en ekki að garðyrkjubýli muni, mörg hver, ekki lifa til næstu kynslóðar íbúa. Leitt, en fátt sem við getum gert í því.
Af þessum sökum er mikilvægt að brúa bilið eins og nokkur er kostur.
Ljósleiðarinn er ein leiðin til þess, þó svo maður geti alveg ímyndað sér, að innan ekki svo langs tíma kom fram önnur og enn öflugri aðferð við að tengja fólk við hvað sem er.
Pælingu lokið.
----------------------

Við þurfum að sækja um fyrir lok júní, eða sem allra fyrst, þar sem unnið er að skipulagningu verksins sem er framundan svo hægt verði að bjóða það út. Það er líklegt að þetta útboð verði í tvennu lagi: annarsvegar vegna dreifbylisins og hinsvegar vegna þéttbýliskjarnanna.

Þegar fundum oddvita og sveitarstjóra í þéttbýliskjörnunum er lokið (þeir eru í þessari viku og næstu) verður sent dreifibréf  á alla bæi, þar sem fjallað verður um ljósleiðaramálin.

Ýmislegt fleira var rætt varðandi Laugarás á þessum fundi, en flest af því finnst mér að ætti heima á íbúafélagi/hagsmunafélagi eða hverfisráði Laugaráss. Slíkt félag myndi geta gert mikið gagn - um það varð ég enn sannfærðari í gær.

Ég verð nú að segja, að mæting Laugarásbúa hefði mátt vera meiri, en öfugt við mig, þá er nú margt fólk í vinnu á þeim tíma sem þarna var um að ræða, svo þetta er að vissu leyti skiljanlegt, allt saman.

Loks finnst mér, að reglulegir smáfundir af þessu tagi með íbúum á hverjum stað, gætu breytt miklu varðandi samskipti íbúa við sveitarstjórn.







02 júní, 2019

Kvenfélag Biskupstungna 1929-1949-2019


Kvenfélag Biskupstungna er 90 ára á þessu ári. Það var stofnað 24. janúar 1929. Fyrsti formaður félagsins var frú Anna Eggertsdóttir í Laugarási. Eftir að hún flutti burt úr sveitinni árið 1932 tók við frú Sigurlaug Erlendsdóttir á Torfastöðum, og hún var formaöur í 23 ár, eða til ársins 1955.
Ef einhver skyldi ímynda sér að ég sé að hefja ritun á sögu Kvenfélags Biskupstungna, þess ágæta félags, þá er það ekki svo. Ég tel að það muni verða gert af öðrum og fróðari einstaklingum.

Tilefni þessa pistils er lítill blaðabunki (7 blöð, heftuð saman)  sem ég fann á gólfinu á vinnuaðstöðu minni í Kvistholti. Hvernig hann lenti þar veit ég hreint ekki - gæti hafa dottið úr einhverri bók. Það skiptir ekki öllu.  Þessi litli bunki, sem er frumrit, reyndist vera ávarp eða ræða sem var flutt á samkomu í tilefni af 20 ára afmæli kvenfélagsins, haustið 1949. Það kemur ekki fram hver höfundur textans er, en ég til víst að um sé að ræða þáverandi formann þess, frú Sigurlaugu Erlendsdóttur á Torfastöðum (1878-1966).

Fremsta blaðið.

Hér er ræðan eins og hún birtist á þessum blöðum: 

Kæru vinir. 
Kvenfélag Biskupstungna býður ykkur hjartanlega velkomin. Okkur er það mikil gleði að hingað eru komnar fjelagskonur, sem flutt hafa í fjarlægð og aðrir velunnarar, sem hafa sýnt fjelaginu svo mikla góðvild. Vil jeg í því sambandi nefna Bjarna Gíslason og fjölskyldu hans, sem í minningu eiginkonu og móður, gáfu sjúkrasjóði okkar stórhöfðinglega gjöf. Ágústa, húsfreyja frá Lambhústúni var ein af okkar  ágætu fjelagskonum.
Við höfum margra góðra kvenna að sakna á liðnum árum úr okkar fámenna hóp, en um það þýðir ekki að sakast. Það er lífsins órjúfandi lögmál að heilsast og kveðjast, minnast og sakna.
En - ef við sjáum sólskinsblett í heiði, þá  viljum við fegnar fá að staðnæmast þar um stund. Og í kvöld óskum við þess innilega að mega eiga með ykkur eina slíka stund, vinir og fjelagar.
Við höfum því miður lítið að bjóða af skemtiföngum, sem kölluð eru, en við mætum ykkur með hlýjum og þakklátum hugum, að þið vilduð vera  hjer með okkur þessa kvöldstund.
Þótt fjelagsskapur okkar sje nú orðinn tuttugu ára, þá ætla jeg þó ekki að rekja hjer sögu hans. Við höfum ekki af miklu að státa með framkvæmdir. Það hefur farið lítið fyrir okkur, eins og segja má, hingað til um íslenskar sveitakonur. Þær hafa unnið störf sín í kyrþey og innan síns heimilis. Þær hafa átt það sameiginlegt með öllum konum veraldar, sem dýrmætast finnst í þessum heimi, móðurást og fórnfýsi, sem er og verður gefanda og þyggjanda til heilla og blessunar.
Þótt ég sé algjörlega utanveltu í þeim stórmálum sem á döfinni eru í dag, þá er þó langt í frá að jeg vilji vanmeta kall þeirra kvenna, sem vilja vekja okkur til þess að hugsa um þjóðfjelagsmál og heimta þau rjettindi sem eðlilegust er að stæðu til boða þeim sem finna svona mikið til þess að þau vanti.
En það er sannfæring mín, að í engu starfi þjóðfjelagsins sje til veglegra verkefni en það, ef konunni tekst að skapa gott heimili. Jeg veit það, að aldrei hefur hún átt þar við rammari reip að draga en nú.
Þessi snauði, hugsunarlausi hraði, hann dregur máttinn úr huga hennar og höndum, til þess að bjarga þeim verðmætum, sem hingað til hafa verið grundvöllur undir góðu heimili. Hún þarf því sannarlega að hafa sig alla við ef hún á ekki að verða eins og sá, sem misst hefur stjórn á fleyi sínu og verður að þola að hver aldan annarri meiri skoli í burtu farminum. Þeim sem ekki eru því bjartsýnni, finnst nú allra veðra von. Það er því ekkert hjegómamál, að konurnar geti og vilji með fjelagsskap sínum sýna hver annarri skilning of vinarþel. Jeg veit það, að fjelagsskapur kvenna í sveitunum minnsta kosti, er ekki bundinn neinum stórfeldum málum, þótt við hinsvegar vildum fegnar leggja lið því sem til heilla horfir í sveitinni.
En, hver annarri viljum við vera það, sem góður vinur er, hvort sem um gleði eða sorg er að ræða. - Eptir því sem kynning er meiri og betri, eptir því hjaðnar ýmiskonar misskilningur og sitthvað annað sem fjarlægir fólk.  Þótt ekkert gerðist annað á fundum okkar en það, að finna vinarhugi hver annarrar þá væri það sannarlega ómaksins vert að finnast og sjást og talast við.
Þessum fjelagsskap okkar hefur því orðið það mikils virði, að til móts við okkur hafa komið margar ágætar konur, sem í sveitina hafa flutt nú á síðustu árum. Og þeim sem staðið hafa með okkur frá byrjun, erum við þakklátar fyrir hverja stund, sem samtök okkar hafa fært okkur nær hver annarri í góðvild og skilningi.
Það er ágætt að trúa á hamingju sína. Og nú trúi ég á hamingju kvenfélagsins.
Sumarið var sannarlega erfitt á flesta lund. En nú hefur sólin skinið í heiði  undanfarna daga, og lítur helst út fyrir að þetta verði hinn besti sumarauki.
Þótt við sjéum dálítið á eptir tímanum að minnast þessa afmælis, þá hefðum við líklega aldrei getað kosið á betra veður en nú.
Og gleymast ekki furðu fljótt erfiðleikar þegar betur blæs?
Og nú óska ég þessu kvenfjelagi allrar blessunar í framtíðinni, um leið og  jeg þakka því allt sem það hefur verið mjer á umliðnum árum.

Ég óska Kvenfélagi Biskupstungna til hamingju með afmælið. 

Ég hyggst koma þessum blöðum á Héraðsskjalasafn Árnessýslu, en þangað eigum við að skila gögnum af þessu tagi - er það ekki bara?

23 maí, 2019

Þúsund eru þeir (1000)


Ég var nú búinn að sjá fyrir mér að þegar ég settist niður til að skrifa þúsundasta pistilinn minn á þessum einkamiðli, yrði umfjöllunarefnið tímamótaverk, sem yrði lengi í  minnum haft, ja, í það minnsta mínu minni. Ég ákvað síðan að leyfa honum að verða bara sama lágstemmda lognmollan og svona yfirleitt.

Það liggur við að um þessa pistla megi segja að þeir hafi snúist um að fara aldrei yfir þá línu sem hugurinn kallar eftir hverju sinni. Ég hef reynt að fara aldrei yfir þessa ósýnilegu línu milli þess að má og ekki má, án þess í rauninni að vita hvað það er sem má. Vissulega held ég nú að þau ykkar sem þetta hafa lesið að einhverju marki, vitið í stórum dráttum helstu skoðanir mínar á hinu og þessu. Það væri nú líka eitthvað undarlegt við það ef þær væru enn duldar eftir allan þennan tím og allan þennan pistlafjölda.
Ég ætla ekkert að neita því, að oft hef ég verið kominn á fremsta hlunn með að láta frá mér skoðanir á mönnum og málefnum sem hefðu gengið lengra, en áður en af því hefur orðið hefur mér oftast tekist að bremsa mig af, með í huga framgöngu þeirra sem tjá sig í athugasemdum á samfélagsmiðlum og sem mér hefur verið í nöp við.
Ég á þó margt ósagt og hver veit nema ég tjái mig með afdráttarlausari hætti þegar ég verð ekki lengur sakaður um eiginhagsmunapot.

Pistlarnir 1000


Tölfræðin segir mér, að þessum pistlum mínum hafi verið flett um 220.000 sinnum frá því í febrúar 2008 þegar ég byrjaði að feta mig inn á þessa braut með þessum orðum:
Upphafið - endirinn?
Það sem hér er skráð er fyrst og fremst athugun á því hvernig þessi undarlegi heimur bloggsins virkar - hvort framhald verður nokkurntíma á skrifum af þessu tagi af minni hendi, verður að ráðast af því hvort ég tel þennan tjáningarmáta henta mér. Eins og staðan er nú tel ég svo ekki endilega vera.
Þarna varð ekki aftur snúið. Ríflega 4000 dögum síðar eru pistlarir orðnir þetta margir, sem þýðir að í þessi 11 ár hef ég skrifað pistil á fjögurra daga fresti að jafnaði. Mig undrar það dálítið, velti því fyrir mér hvort hér sé um að ræða einhverskonar þráhyggju eða athyglissýki. Vangavelturnar um það verða ekki langar, enda þykist ég þess fullviss, að hér sé bara um að ræða eðlilega tjáningarþörf, sem finnur sér auðveldari leið í gegnum ritað mál en mælt.

Reglulegir lesendur hafa nú ekki verið fleiri en svona 200 oft talsvert undir hundraðinu. Aðeins í júni 2017 náði lesendafjöldinn umtalsverðum hæðum, en það var þegar ég, í sakleysi mínu að sjálfsögðu, skrifaði pistil undir fyrirsögninni "Aumingja konurnar". Til þessa dags hafa 5672 lesið hann, langflestir í kjölfar athugasemda nafntogaðs einstaklings við hann. Næst flesta lesendur (2583) fékk svarpistill, "Til Hildar" sem ég skrifaði þessum nafntogaða einstaklingi skömmu síðar.  

Ekki meira um það.

Framhaldið

Framundan er tími breytinga. Ætli ég verði ekki að reikna með því að sá tími verði mér tilefni til tjáningar af ýmsu tagi, það vona ég í það minnsta. Ég lít á þessi pistlaskrif sem mögulega leið til að viðhalda starfsemi heilans, en á sama tíma efast ég um hvort ýmislegt það sem ég læt frá mér fara, hæfi þeim aldri sem ég hef náð. Þeim efasemdum sópa ég jafnskjótt út af borðinu, tilbúinn að hætta að taka mið af þeim einstaklingum úr fortíðinni sem þá voru á mínum núverandi aldri. 

Ég þakka tryggum lesendum gegnum tíðina fyrir lesturinn og vonast til að halda einhverjum þeirra við efnið um ókomna framtíð.

17 maí, 2019

Samviskuspurningar (999)

Þetta líf okkar er stöðug tímamót, mis stór eða merkileg, en tímamót samt. Það sem gerist óhjákvæmilega við tímamót er, að maður lætur hugann reika, eða hugur manns er látinn reika. Innan úr skáp var ég allt í einu kominn með í hendurnar teikningu frá árinu 2001, sem leiddi síðan til þess að hugurinn fór á flug um árabilið frá 1974 og talsvert fram á þessa öld, fram og til baka. Elstu nemendur mínir frá árunum í Lýðháskólanum í Skálholti eru nú nánast jafngamlir mér, sem ekkert geri nema yngjast og þroskast, sem er góð blanda.
Elstu nemendurnir úr Reykholtsskóla eru hálfsextugir og þau elstu úr ML eru nokkuð skriðnir yfir fimmtugt.

Svona gerðist þetta. Og svo þurfti þessi teikning að falla í hendur mínar og trufla mig við flokkunina á því sem fer eða verður.
Það er hægara sagt en gert að standa í slíku. Hvað geri ég t.d. við svona mynd?  Frumrit, eftir þekktan skopmyndateiknara, að ég held.  Verður kannski verðmæt með tímanum - er ef til vill þegar orðin það.  Hvað geri ég við svona mynd?

Hvað geri ég við litlu bókina frá tveim grunnskólastúlkum frá því um jól 1981?


Þetta er snúið, allt saman og tilefni til heimspekilegra vangaveltna og spurninga um lífið og tilveruna. Þessi spurning er til dæmis nokkuð áleitin: Hversvegna ætti maður yfirleitt að geyma eitthvað?  Hversvegna geymdi ég teikninguna og litlu bókina um hann Herra Kjána (það var örugglega meining hjá þeim, stúlkunum, með þessu bókarvali)?  Ég hef ekki svarið við því. Skynsami strengurinn í mér telur tilganginn engan vera. Þetta mun allt, fyrr eða síðar verða að dufti. Tilfinningastrengurinn í mér kveður það ekki koma til mála að henda svona verðmætum minningum í pappírsgáminn.

Þessir tveir strengir toga í mig, hvor í sína áttina og tefja fyrir því að ég geti haldið áafram við að flokka það sem á að fara, í einn kassa og það sem á að vera, í annan. 

ps. mér finnst ungt fólk hafa fallega rithönd áður fyrr, fallegri en nú er orðin raunin. Hvað varð um almennilega skriftarkennslu,eiginlega?

14 maí, 2019

Takk fyrir matinn (998)

Það verða að teljast forréttindi að rölta út á pall á svona morgni og sitja þar um stund, baðaður í þakklæti fugla himinsins; þakklæti fyrir matinn á liðnum vetri, þakklæti fyrir að hafa ekið nánast sérstaka ferð í kaupstað þegar fóðrið var upp urið, þakklæti fyrir að þrífa eftir þá með háþrýsitidælu, úrganginn og kornið sem þeir dreifðu um allan pall, þakklæti fyrir að fá að brosa ítrekað í myndavélarauga og verða þannig ódauðlegur - um stund.
Þakklæti til mín fyrir að vera ég.

Þakklætið sýna þeir með því að syngja fyrir mig, hver með sinni rödd svo undir tekur í skóginum allt um kring, með því að flögra í fögnuði sínum yfir blíðviðrinu og einfaldlega lífinu, með því að atast við matborðið og þykjasr vera ógnandi og reiðir hver við annan, með því að tylla sér á grein og skanna svæðið og tryggja að af mér stafi engin ógn, áður en þeir láta vaða í eplið eða sólblómafræið, eða maískornin.

Auðvitað veit ég að þeir eru mér ekkert þakklátir. Það gæti varla verið fjær hugsun þeirra eða ætlan, að ímynda sér að mér beri einhverjar þakkir, að þeirra mati.
Þeim finnst það vera réttur sinn og aldeilis sjálfsagt að hafa aðgang að mat á þessum stað, dag hvern.
Þeir eru bara að hugsa um sjálfa sig, í fullu samræmi við það eðli sem í þeim býr.

Þeir eru ekki að syngja fyrir mig, heldur fyrir þann eða þá sem þeir vilja makast við.
Svo held ég nú líka að veðrið hafi mikil áhrif á söngþörfina.

Ég veit það fullvel, að þeir eru ekki að syngja fyrir mig, en það getur enginn láð mér þó ég túlki lífsgleði þeirra sem þakklæti sem beinist að mér.
Aðeins mér.
Það er minn réttur.

(þetta er prósaljóð, ef einhver skildi telja það vera eitthvað annað)

08 maí, 2019

Spjaldaður (997)

Það hefur æxlast þannig, að ég lendi oftar en ekki bak við myndavélar. Frá þessu átti sér stað umtalsverð breyting þar sem tríóið: ég, fD og fR lögðum leið okkar til Kúbu og Kanada í fyrri hluta marsmánaðar. Auðvitað tók ég aragrúa af myndum, en þarna varð sú breyting á að fR hafði tekið með sér forláta spjaldtölvu og myndaði af miklum móð, þar á meðal mig, alls óvanan slíkri meðferð.
Það sem meira er þá tók hún sig til fyrir skömmu og sendi mér afraksturinn, að því er mig varðaði.

Auðvitað eru myndirnar ágætar, í sjálfu sér, eins og vænta mátti, en mér fannst samt eitthvað ekki vera eins og ég hafði séð það fyrir mér. Þetta eitthvað er ég sjálfur. 
Það er ljóst, að ég verða að fara að venja mig við þá hugsun um eða sýn á sjálfan mig, að ég er ekki sá sem ég er, þar sem ég birtist á ljósmyndum, sem ég hef ekki sjálfur tekið og unnið úr.

Hvað um það, þegar svona tækifæri kemur upp í hendurnar á manni þá er ekki um annað að ræða en gera eitthvað úr því. Því birti ég hér fyrir neðan umræddar myndir, sem ég hef aðeins sett mín fingraför á. Í þeim birtist sú manneskja sem ég er, víst.

Fyrsta mynd: Indælt morgunverðarborð í Casilda.


Önnur mynd: Sama borð þar sem tríóið er saman komið.


Þriðja mynd: Sama borð, annar tími. Ég hef reyndar ekki reykt árum saman, sem samt....


Fjórða mynd: Havana í 1948 árgerð, þar sem mér var ætla að spjalla við bílstjórann af þekkingu um bifreiðina.


Fimmta mynd: Kirkja í Vinales. Maður fer inn í kirkjur þar sem þær eru. Já, það eru kirkjur á Kúbu.


Sjötta mynd: Endurmenntun í reykingum. Maður sleppir því ekki að prófa ekta Kúbuvindla.


Sjöunda mynd: Mávarnir við Niagarafossana voru harla vanir túristagerinu.


Áttunda mynd: Á Front Street í Toronto, fyrir framan Glenn Gould Studíóið situr sjálfur Glenn Gould á bekk. Glenn Gould (1932 - 1982) var kanadískur píanóleikari og einn þekktasti og virtasti píanóleikari 20. aldar. Hann var dáður fyrir túlkun sína á verkum J.S. Bach.


Þá höfum við það gott fólk. 
Nú þekki ég sjálfan mig betur og líklegast þið einnig. 











03 maí, 2019

Undur Laugaráss (996)

María Sól Ingólfsdóttir
Ég fer ekki ofan af því að það er eitthvað við Laugarás sem leiðir unga fólkið sem hér vex úr grasi til ákvarðana um framtíð sína sem eru oft á tíðum frábrugðnar því sem gengur og gerist.  Ég hef áður fjallað um þann fjölda doktora sem Laugarás hefur alið og í þann hóp kann að hafa bæst síðan ég fór yfir það mál.
Hér geri ég að umfjöllunarefni tónlistarmenn sem hér hafa drukkið í sig einhvern þann elexír sem leiddi þá inn á listabrautina.
Í gærkvöld fengum við fD  að vera viðstödd útskriftartónleika Maríu Sólar Ingólfsdóttur frá Engi, úr Listaháskóla Íslands í Salnum í Kópavogi, en hún er nú að ljúka burtfararprófi í söng þaðan, áður en hún heldur til frekara náms á erlendri grund.  Við erum þakklát fyrir að hafa vera boðið á þessa glæsilegu tónleika og þar var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, enda er það haft eftir stúlkunni að í hennar huga sé tónlist galdur, hvorki meira né minna.


Ef ég svo læt hugann reika yfir aðra tónlistarmenn úr Laugarási koma þessi helst í hugann:


ELÍN GUNNLAUGSDÓTTIR frá Brekkugerði, 
tónskáld og tónlistarkennari


Elín lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987. Útskrifaðist frá sama skóla úr tónfræðadeild árið 1993. Þar sem kennarar hennar í tónsmíðum voru þeir Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Guðmundur Hafsteinsson. Árið 1998 lauk hún post graduate námi frá Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag og þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik Haakma Wagenaar.


Elín býr og starfar á Selfossi. 

(texti af vef Ísmús)

EGILL ÁRNI PÁLSSON frá Kvistholti,  
söngvari og söngkennari


Egill lauk 8.stigi frá Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur árið 2008 og fluttist til Þýskalands sama ár.  Hann tók þátt í og vann til verðlauna í keppnum eins og Kammeroper Schloss Rheinsberg og Oper Schloss Laubach.
Í kjölfarið bauðst honum að taka þátt í viðburðum eins og Classic Open Air í Berlin ásamt sópransöngkonunni Lucia Aliberti,  Gala tónleikum í Mercedes World í Berlín og Das Lied von der Erde í Frankfurt og Berlín.
Egill var fastráðinn við Gerhardt-Hauptmann Óperuhúsið í Görlitz árið 2010. 
Egill hefur ferðast víða til að læra hjá bestu kennurum sem völ er á eins og David L. Jones í New York,  Janet Williams, Prof.Edwin Scholz og Prof. Wolfgang Millgramm í Berlín. Að auki hefur hann sótt einkatíma hjá: Johan Botha, Reiner Goldberg, Elisabeth Mayer-Topsöe og Kiri Te Kanawa.  Meðal stjórnenda sem hann hefur unnið með og sótt tíma hjá eru: Martin Fischer-Dieskau, Kevin McCutcheon, Howard Griffiths og Frank Strobel svo einhverjir séu nefndir.
Egill hefur lokið 4 ára námi í kennslu og söngtækni við David Jones Voice Studio í New York, og er að ljúka námi til kennsluréttinda hjá Associated Board of the Royal Schools of Music.

Árið 2016 kom út fyrsta plata Egils “Leiðsla”.

Egill er formaður Félags Íslenskra Söngkennara og í stjórn Fagfélags Klassískra Söngvara á Íslandi auk þess að vera kennari við Söngskólann í Reykjavík.

HREIÐAR INGI ÞORSTEINSSON, frá Launrétt II, 
tónskáld og kórstjóri




Hreiðar Ingi Þorsteinsson lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2001 og BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands 2007. Ári síðar lauk hann burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík. Erlendis stundaði hann tónsmíða- og kórstjórnarnám í Finnlandi og Eistlandi, lauk við MA-gráðu í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Tallinn, útskrifaðist þaðan með láði árið 2011. Hreiðar Ingi hefur að námi loknu fengist við tónsmíðar og kórstjórn. Hann er meðlimur í Tónskáldafélagi Íslands og stjórnar þremur kórnum: Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Kór Menntaskóla í tónlist og Ægisif.
(texti af vef ísmús)

LAUGARÁSKVARTETTINN
Egill Árni Pálsson og Þorvaldur Skúli Pálsson frá Kvistholti,
Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt II


Það er nú ekki hægt annað en minnast á Laugaráskvartettinn, sem hóf göngu sína upp úr aldamótum og hefur síðan þegar færi hefur gefist, komið saman til æfinga og tekið upp allmikið efni. 
Það má kynnast verkefnum þeirra félaga betur hér. 

Loks má hér sjá nýjustu upptöku sem gerð hefur verið af söng Laugaráskvartettsins, í Skálholtsdómkirkju í október, 2016. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti, sem annaðist upptökuna ásamt mynd- og hljóðvinnslu.


Við bíðum eftir því að Laugaráskvertettinn nái að koma saman áfram, til að auðga tónlistarlífið, en þar er yfir Atlantsála að fara.  Kannski verður það á þessu vori. 😃

Eins og alltaf, þegar maður fer að telja upp nöfn þá er möguleiki á að gleyma einhverjum. Ég biðst fyrirfram forláts ef sú er raunin og vona að ég verði þá látinn vita svo ég geti bætt úr.

25 apríl, 2019

Jæja, þá er víst komið sumar (995)

Það er allavega komið vor, þó ekki sé nú hægt að segja að gróðurinn sé kominn á einhverja hvínandi siglingu.
Merkin eru samt þarna, ótvíræð og ekki auðvelt að ímynda sér hvernig hægt er að lesa í þau á annan hátt en þann, að framundan sé enn eina ferðina gróandi, hlýindi og hálsbindi.

Kannski er þetta síðasta vorið, síðasta vorið í Kvistholti.
Maður veit ekki.
Maður veit svo fátt.
Maður þykist auðvitað vita heil ósköp, en veit svo varla neitt nema eitthvað smávegis um það sem liðið er; geymir það í höfðinu og byggir á því til að reyna að meta líkindi þess að eitthvað tiltekið gerist síðan í framtíðinni.

Það sem maður hefur fast í hendi er það sem er hér og nú, allt sem gerist á morgun er ekki til, nema ef til vill í voninni um að það verði með einhverjum ásættanlegum hætti.
Jú, sumt er fyrirsjáanlegra en annað. Þannig munu auðnutittlingarnir sennilega koma á pallinn til að leita að sólblómafræinu sínu, þrestirnir líklega að kroppa í eplið, hrossagaukurinn mögulega hneggja og gera sig til fyrir verkefnið sem hann veit einhvernveginn að bíður hans.


Sumarið var tími sem maður hlakkaði til og er enn í vissum skilningi.
Það sem hefur breyst er, að tilhlökkunin er kvíðablandin. Hvernig verður veðurfarið hér á norðuhveli? Má búast við því sama og síðastliðið sumar? Skýjahula og votviðri á Suðurlandi, blíða fyrir norðan og austan, ógnvænlegar hitabylgjur og þurrkar á meginlandi Evrópu?  Er þetta kannski það sem bíður okkar næstu árin?
Hve mörg ár?
Hvað gerist þá?
Það er komin upp óvissa sem snýst í rauninni um framtíð lífs á jörðinni, hvorki meira né minna. Maður veltir því fyrir sér, svo nöturlegt sem það nú er, hvort maður lifir það að deyja út ásamt öðru lífi á jörðinni, eða hvort maður getur vonast til að hverfa á braut meðan allt leikur enn í stórum dráttum í lyndi.


Þetta er ekki fagrar pælingar. Þetta eru pælingar svartsýnismannsins og svartsýni er víst ekki það sem við þurfum þessi árin. Það er skylda okkar að takast á við það verkefni, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að jörðin verði lífvænleg til langrar framtíðar.
Þá skyldu getum við hinsvegar ekki uppfyllt nema til komi sú forysta,  fyrir því lífsformi sem valdið hefur því að staðan er eins og hún er (manninum) sem dugir til að snúa við. Sú forysta er ekki fyrir hendi enn og það sem verra er, æ fleiri virðast stökkva á vagn þeirra sem hafa hátt um að allt tal um hlýnun jarðar, sé bara bull og vitleysa. Fólk stekkur á þennan vagn í fávisku sinni og þörfinni fyrir sterka leiðtoga.
Við þurfum sterka leiðtoga, sem eru raunverulega tilbúnir í að leiða mannkynið í því verkefni sem blasir við. Einhvern sem tekst að sannfæra okkur um að aðgerða sé þörf, leiðtoga sem hefur nægilega skýra sín á leiðina til baka í framtíðinni. Vandinn er hinsvegar sá, að slíkt fólk á ekkert sérstaklega upp á pallborðið hjá kjósendum þessa heims. Við erum nefnilega í eðli okkar dálítið heimsk og gjörn á að stökkva á skyndilausnir, sem hljóma vel í dag, en eiga sér enga framtíð.


Þetta er nú einhver dimmasti pistill sem ég hef hingað til leyft mér að skella hér inn og í sannleika sagt velti ég fyrir mér hvort ég hef yfirleitt rétt til að láta svona nokkuð frá mér. 
Ég held ég geri það samt.
Það eina sem einhver ykkar munu líklega hugsa er: "Hvílíkt svartnættisraus!"  Fleira mun ekki gerast, vona ég (það er alltaf þessi von).

Í rauninni er það svo, að ég veit ekkert, þó ég telji mig kannski vita ýmislegt. Ég veit ekkert, í þem skilningi, að það sem ég þykist vita um framtíðina byggist á þvi sem ég heyri í umhverfi mínu, sé í kringum mig og ímynda mér síðan í framhaldinu. Svo get ég ekkert annað en vonað það besta, rétt eins og við öll.
Ég ætla að vona það besta, og stefni á að gera mitt til að reyna að bæta fyrir það sem mín kynslóð og kynslóðirnar þar á undan hafa gert til að tefla framtíð lífs á jörðinni í tvísýnu.
Annað get ég ekki gert.
Það eina sem ég græði á þessari fyrirætlun minni, hvernig svo sem til tekst með hana, er að ég get líklega lagt höfuðið að koddann á kvöldin, sáttur við minn þátt.

Ekki meira um þetta, heldur bara það sem var upphaflegur tilgangur minn með þessu pistli á sumardaginn fyrsta:
Gleðilegt sumar. 


20 apríl, 2019

Við öllu búinn (994)

Jarðarbúar hafa áhyggjur af því á vatnsskortur sé yfirvofandi og að margir séu þegar farnir að þjást vegna hans.  Þetta er sannarlega áhyggjuefni.  Ísland er ekki land þar sem líkur eru á skorti á þessu lífgefandi efni í fyrirsjáanlegri framtíð og það má reikna með að fólk muni í æ ríkari mæli sækja hingað einmitt vegna vatnsins.  
Ég ætlaði mér nú ekki að velta mér upp úr "sviðsmyndum" af þessu tagi hér og nú, heldur tæpa á mjög praktísku máli, en þar er um að ræða vatn á vitlausum stöðum.


Skálholtskirkja, föstudagurinn langi, 2019
Ég reyni enn að beita tenórrödd minni í Skálholtskórnum og er farinn að velta fyrir mér hvenær þeim þætti í lífi mínu lýkur og hvað verður til þess að ég læt af þessum söng þegar að því kemur.
Verður það bara einfaldlega ellin?
Verður það kannski dvínandi trúarhiti minn?
Verða það flutningar mínir af svæðinu?
Kannski bara kórfélagarnir?
Þessu get ég ekki svarað enn, enda ekki umfjöllunarefni hér.

Eins og vænta má þá, er mikið sungið þessa dagana: á skírdagskvöld, á föstudeginum langa og á páskadag, en nú er sá dagur framundan og ég hef verið að velta fyrir mér, hvernig best verður að takast á við hann, ekki vegna tónlistarlegs vanda af neinu tagi, því þar er allt á hreinu. Trúarlega þætti læt ég öðrum í eftir, því sem við á, svo þar er ekki um vanda að ræða.
Nei, hér er um að ræða afar hagnýtan (praktískan) vanda, sem ég er að leita bráðra lausna á.

Skálholtsdómkirkja lekur.
Á skírdagskvöld hófu dropar að falla ofan á kórinn þar sem hann söng af hjartans lyst viðeigandi trúarverk. Það féllu dropar á öxlina á sópransöngkonu og það féllu dropar á nótur tenórsöngvara. Aðvitað létu þau þetta ekki á sig fá, enda of einbeitt í söng sínum til þess. Ég reikna samt með að þau hafi hugleitt þessa reynslu í framhaldinu.

Skálholtskirkja, föstudagurinn langi, 2019
Í gær, á föstudaginn langa, rigndi enn og lekinn sýndi meira ógnandi tilburði en áður. Tenórarnir þrír máttu hafa sig alla við að tapa ekki einbeitingu og tókst það. Sópranarnir höfðu þá fært sig framar og þannig í skjól fyrir þessu vatni, sem seytlað hafði niður í gegnum kirkjubygginguna; fundið sér leið niður á milli samskeyta, sem eiga auðvitað að vera örugg.

Það voru ræddar lausnir, en engar sem leyst gætu í bráð þann vanda sem þarna er við að eiga. Ég set hér efst mynd af mögulegri lausn, en það þarf ekki að hugsa lengi til þess að komast að því að til fambúðar myndi vandinn teljast óleystur.  Það má ímynda sér hvernig kirkjugestir myndu bregðst við 20 manna kór syngja "Bjarna" undir svona höfuðfötum. Líklegast færi boðskapurinn fyrir ofan garð og neðan.

Það þarf að grípa til varanlegrar lausnar á dómkirkjulekanum. Hann hefur verið fyrir hendi árum saman og fer vaxandi.
Það er ekki svo að ég eigi einhverra perónulegra hagsmuna að gæta í þessu máli, utan auðvitað að sitja í polli einstaka sinnum. Hér er um að ræða stærra mál en svo, og er hluti af þeirri vegferð sem þessi þjóð er á og reyndar allar vestrænar þjóðir, gagnvart trú og kirkju. Mig grunar, að það verði ekki vegna trúarinnar eða kirkjunnar, sem Skálholtsdómkirkju verður við haldið svo sem full þörf er á.  Þegar gert verður við hana eins og þarf, þá munu verða að koma til sjónarmið sem snúa að varðveislu menningarminja og ómetanlegra dýrgripa sem þessi þjóð á. 

Skálholtskirkja, föstudagurinn langi, 2019

Ég er með þessu ekki með neinar meiningar gagnvart einu né neinu, en tel bara einfaldlega að trúarbrögð, hverju nafni sem nefnast, eigi ekki upp á pallborðið hjá þjóðinni, af tveim ástæðum fyrst og fremst, (að mínu mati, sem er bara mitt mat, og ekkert annað):
1. Kirkjunni hefur mistekist að ná til fólks, sennilega, annarsvegar, vegna þess að henni hefur ekki tekist að ganga í takt við tímann og, hinsvegar, vegna þess að ýmsir þjónar hennar hafa  ítrekað klúðrað málum með tilheyrandi afleiðingum í hugum fólks.
2. Þessi þjóð, eins og aðrar vestrænar þjóðir, telur veraldleg verðmæti standa framar og vera mikilvægari en þau sem andleg myndu teljast. Það er nánast svo, að hver manneskja líti orðið á sjálfa sig sem guð sinn.

Hvað sem þessu öllu líður, þá þarf að halda áfram endurreisn Skálholts. Viðgerð á gluggum Gerðar Helgadóttur og altarisverki Nínu Tryggvadóttur, tókst einstaklega vel.  Það verður hinsvegar að sjá til þess, að byggingin sem hýsir þessar gersemar fái það viðhald sem veitir þeim það skjól sem þær þurfa.


16 apríl, 2019

42 (993)

Hann kann að teljast fremur undarlegur, þessi titill, en auðvitað, svona eins og búast má við af mér, þá er hann vel ígrundaður. Hann hefur velkst um í huganum dögum saman.
Ég mun hér veita svar við því sem fyrr er nefnt, en hið síðara, sem ég setti í sviga bíður síns tíma.

Hve oft höfum við ekki spurt okkur sjálf knýjandi spurninga um tilveruna, tilganginn með þessu öllu? Hve oft höfum við ekki gefist upp og sætt okkur við að svar eða svör af þessu tagi eru ekki okkur ætluð í smæð okkar og áhrifaleysi?
Ef hægt er að tala um einhverja niðurstöðu úr pælingum af þessu tagi, þá er hún sú, að við séum ekki þess verð, í samhengi við lífið, alheiminn og allt, að geta öðlast einhver svör sem byggjandi er á. Jú, satt er það, að við höfum hæfileikann til að spyrja svona spurninga, en við höfum sennilega ekkert að gera við möguleg svör við þeim. Þau myndu ekki breyta neinu, nema mögulega því, að við fengjum einhverskonar fullvissu um hve lítils virði við erum í rauninni og þar með færi úr okkur allt loft og við tæki bara hreint ekki neitt, nú eða eitthvað sem við viljum bara ekki leiða hugann að.

Jæja, þá er ég kannski búinn að kippa fótunum undan lífsvilja einhvers, og það er miður, og ég get beðist velvirðingar á því og mun nú reyna að bera í bætifláka.

Sannarlega getum við reynt að sjá okkur í samhengi við lífið sjálft, alehiminn og allt sem er, en við getum líka minnkað samhengið, smækkað heiminn sem við búum í, verið íbúar jarðarinnar, Vesturlanda, Evrópu, Íslands, Árnessýslu, Bláskógabyggðar, Laugaráss og jafnvel bara Kvistholts. Við hvert skref sem tekið er nær manni sjálfum að þessu leyti stækkar maður og verður mikilvægari í sjálfum sér og meðal allra hinna sem búa í umhverfinu.  Maður getur meira að segja litið á sjálfan sig sem allt sem máli skiptir í veröldinni og ég er viss um að sumir ganga svo langt að heimur þeirra  snýst um ákveðna líkamshluta eða líffæri, jafnvel bara eina graftarbólu. .

Æ, já, það er bara gaman að þessu og þessar hugrenningar mínar,í smæð minni, eiga sér rætur í tölunni 42.
Annarsvegar er vegna þess að í sögunni "The Hitch Hiker's Guide to the Galaxy" eftir Douglas Adams kemst Deep Thought að því að svarið við spurningunni um lífið, alheiminn og allt sé 42, eins  og sjá má hér fyrir neðan:
“O Deep Thought computer," he said, "the task we have designed you to perform is this. We want you to tell us...." he paused, "The Answer.""The Answer?" said Deep Thought. "The Answer to what?""Life!" urged Fook."The Universe!" said Lunkwill."Everything!" they said in chorus.Deep Thought paused for a moment's reflection."Tricky," he said finally."But can you do it?"Again, a significant pause."Yes," said Deep Thought, "I can do it.""There is an answer?" said Fook with breathless excitement."Yes," said Deep Thought. "Life, the Universe, and Everything. There is an answer. But, I'll have to think about it."...Fook glanced impatiently at his watch.“How long?” he said.“Seven and a half million years,” said Deep Thought.Lunkwill and Fook blinked at each other.“Seven and a half million years...!” they cried in chorus.“Yes,” declaimed Deep Thought, “I said I’d have to think about it, didn’t I?"
[Seven and a half million years later.... Fook and Lunkwill are long gone, but their descendents continue what they started]
"We are the ones who will hear," said Phouchg, "the answer to the great question of Life....!""The Universe...!" said Loonquawl."And Everything...!""Shhh," said Loonquawl with a slight gesture. "I think Deep Thought is preparing to speak!"There was a moment's expectant pause while panels slowly came to life on the front of the console. Lights flashed on and off experimentally and settled down into a businesslike pattern. A soft low hum came from the communication channel.
"Good Morning," said Deep Thought at last."Er..good morning, O Deep Thought" said Loonquawl nervously, "do you have...er, that is...""An Answer for you?" interrupted Deep Thought majestically. "Yes, I have."The two men shivered with expectancy. Their waiting had not been in vain."There really is one?" breathed Phouchg."There really is one," confirmed Deep Thought."To Everything? To the great Question of Life, the Universe and everything?""Yes."Both of the men had been trained for this moment, their lives had been a preparation for it, they had been selected at birth as those who would witness the answer, but even so they found themselves gasping and squirming like excited children."And you're ready to give it to us?" urged Loonsuawl."I am.""Now?""Now," said Deep Thought.They both licked their dry lips."Though I don't think," added Deep Thought. "that you're going to like it.""Doesn't matter!" said Phouchg. "We must know it! Now!""Now?" inquired Deep Thought."Yes! Now...""All right," said the computer, and settled into silence again. The two men fidgeted. The tension was unbearable."You're really not going to like it," observed Deep Thought."Tell us!""All right," said Deep Thought. "The Answer to the Great Question...""Yes..!""Of Life, the Universe and Everything..." said Deep Thought."Yes...!""Is..." said Deep Thought, and paused."Yes...!""Is...""Yes...!!!...?""Forty-two," said Deep Thought, with infinite majesty and calm.” ― Douglas Adams, The Hitchhiker's Guide to the Galaxy

Hinsvegar er það vegna þess að í dag, eru 42 ár síðan við fD hófum vegferð okkar saman í gegnum lífið.

Hér hef ég sem sagt notað töluna 42, bæði til að merkja það sem er óendanlegt og ofar skilningi okkar og einnig til að minnast 42 ára hjónabands í örheimi.

Bara nokkuð vel gert, þó ég segi sjálfur frá. 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...