03 maí, 2019

Undur Laugaráss (996)

María Sól Ingólfsdóttir
Ég fer ekki ofan af því að það er eitthvað við Laugarás sem leiðir unga fólkið sem hér vex úr grasi til ákvarðana um framtíð sína sem eru oft á tíðum frábrugðnar því sem gengur og gerist.  Ég hef áður fjallað um þann fjölda doktora sem Laugarás hefur alið og í þann hóp kann að hafa bæst síðan ég fór yfir það mál.
Hér geri ég að umfjöllunarefni tónlistarmenn sem hér hafa drukkið í sig einhvern þann elexír sem leiddi þá inn á listabrautina.
Í gærkvöld fengum við fD  að vera viðstödd útskriftartónleika Maríu Sólar Ingólfsdóttur frá Engi, úr Listaháskóla Íslands í Salnum í Kópavogi, en hún er nú að ljúka burtfararprófi í söng þaðan, áður en hún heldur til frekara náms á erlendri grund.  Við erum þakklát fyrir að hafa vera boðið á þessa glæsilegu tónleika og þar var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, enda er það haft eftir stúlkunni að í hennar huga sé tónlist galdur, hvorki meira né minna.


Ef ég svo læt hugann reika yfir aðra tónlistarmenn úr Laugarási koma þessi helst í hugann:


ELÍN GUNNLAUGSDÓTTIR frá Brekkugerði, 
tónskáld og tónlistarkennari


Elín lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987. Útskrifaðist frá sama skóla úr tónfræðadeild árið 1993. Þar sem kennarar hennar í tónsmíðum voru þeir Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Guðmundur Hafsteinsson. Árið 1998 lauk hún post graduate námi frá Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag og þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik Haakma Wagenaar.


Elín býr og starfar á Selfossi. 

(texti af vef Ísmús)

EGILL ÁRNI PÁLSSON frá Kvistholti,  
söngvari og söngkennari


Egill lauk 8.stigi frá Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur árið 2008 og fluttist til Þýskalands sama ár.  Hann tók þátt í og vann til verðlauna í keppnum eins og Kammeroper Schloss Rheinsberg og Oper Schloss Laubach.
Í kjölfarið bauðst honum að taka þátt í viðburðum eins og Classic Open Air í Berlin ásamt sópransöngkonunni Lucia Aliberti,  Gala tónleikum í Mercedes World í Berlín og Das Lied von der Erde í Frankfurt og Berlín.
Egill var fastráðinn við Gerhardt-Hauptmann Óperuhúsið í Görlitz árið 2010. 
Egill hefur ferðast víða til að læra hjá bestu kennurum sem völ er á eins og David L. Jones í New York,  Janet Williams, Prof.Edwin Scholz og Prof. Wolfgang Millgramm í Berlín. Að auki hefur hann sótt einkatíma hjá: Johan Botha, Reiner Goldberg, Elisabeth Mayer-Topsöe og Kiri Te Kanawa.  Meðal stjórnenda sem hann hefur unnið með og sótt tíma hjá eru: Martin Fischer-Dieskau, Kevin McCutcheon, Howard Griffiths og Frank Strobel svo einhverjir séu nefndir.
Egill hefur lokið 4 ára námi í kennslu og söngtækni við David Jones Voice Studio í New York, og er að ljúka námi til kennsluréttinda hjá Associated Board of the Royal Schools of Music.

Árið 2016 kom út fyrsta plata Egils “Leiðsla”.

Egill er formaður Félags Íslenskra Söngkennara og í stjórn Fagfélags Klassískra Söngvara á Íslandi auk þess að vera kennari við Söngskólann í Reykjavík.

HREIÐAR INGI ÞORSTEINSSON, frá Launrétt II, 
tónskáld og kórstjóri




Hreiðar Ingi Þorsteinsson lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2001 og BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands 2007. Ári síðar lauk hann burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík. Erlendis stundaði hann tónsmíða- og kórstjórnarnám í Finnlandi og Eistlandi, lauk við MA-gráðu í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Tallinn, útskrifaðist þaðan með láði árið 2011. Hreiðar Ingi hefur að námi loknu fengist við tónsmíðar og kórstjórn. Hann er meðlimur í Tónskáldafélagi Íslands og stjórnar þremur kórnum: Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Kór Menntaskóla í tónlist og Ægisif.
(texti af vef ísmús)

LAUGARÁSKVARTETTINN
Egill Árni Pálsson og Þorvaldur Skúli Pálsson frá Kvistholti,
Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt II


Það er nú ekki hægt annað en minnast á Laugaráskvartettinn, sem hóf göngu sína upp úr aldamótum og hefur síðan þegar færi hefur gefist, komið saman til æfinga og tekið upp allmikið efni. 
Það má kynnast verkefnum þeirra félaga betur hér. 

Loks má hér sjá nýjustu upptöku sem gerð hefur verið af söng Laugaráskvartettsins, í Skálholtsdómkirkju í október, 2016. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti, sem annaðist upptökuna ásamt mynd- og hljóðvinnslu.


Við bíðum eftir því að Laugaráskvertettinn nái að koma saman áfram, til að auðga tónlistarlífið, en þar er yfir Atlantsála að fara.  Kannski verður það á þessu vori. 😃

Eins og alltaf, þegar maður fer að telja upp nöfn þá er möguleiki á að gleyma einhverjum. Ég biðst fyrirfram forláts ef sú er raunin og vona að ég verði þá látinn vita svo ég geti bætt úr.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...