Maður er alltaf minntur á það við og við, að leiðin liggur hinn sama veg hjá okkur öllum. Æviköflunum fjölgar, eitt tekur við af öðru og við vitum það eitt fyrir víst að það kemur að því fyrr eða síðar, að dagar okkar verða ekki taldir frekar.
Þetta er ekki eitthvað sem menn velta endilega mikið fyrir sér í önn dagsins og ekki eyða menn tímanum mikið í að hlakka til eða kvíða. Allt hefur sinn gang óháð öllum pælingum um spurningar sem byrja á hvenær eða hversvegna.
Einn þeirra einstaklinga sem hafa verið mér samtíða hér í sveit svo lengi sem ég man eftir mér og sem hefur verið áberandi í lífi okkar Tungnamanna áratugum saman, lést s.l. miðvikudag, 25. febrúar.
Arnór Karlsson, sem áður fyrr var alltaf kallaður Arnór á Bóli, en síðar Arnór í Arnarholti var mikill félagsmálamaður og ég held hann hafi komið að flestu því, félagslegs eðlis, sem fólk hefur ástundað allt frá því hann fyrst hafði skyn til eða tækifæri, fram á síðasta dag. Hann var einn af þessum Erkitungnamönnum; þeim sem maður hlýtur alltaf að tengja við Biskupstungur. Hann hefur líklega haft mikil áhrif á þá menningu sem hér hefur þróast, og sem aðgreinir Tungnamenn frá fólki í nágrannasveitum. Þegar ég tala um menningu þá á ég við eitthvað það sem maður sér og skynjar, en kann ekki að orða.
Ég veit að Arnór var kennari við Reykholtsskóla þegar ég var þar nemandi fyrir ekki svo mörgum árum, eða þannig. Hann var líka kennari þar á sama tíma og ég fyrir enn færri árum.
Það var á þeim tíma sem Arnór átti stutt samtal við nýjan kennara og hafði hug á að kynna sér hverra manna hún væri, eins og hans var von og vísa. Þetta var samtalið:
Arnór: Og hvaðan kemur þú?
Kennari: Ja, ég kem nú úr Reykjavík.
Arnór: Nú, jæja. Ættlaus aumingi.
Samtalið varð ekki lengra.
Arnór stundaði ýmiskonar fræðastörf, var sauðfjárbóndi og sat í allskyns stjórnum og nefndum, m.a. lengi í hreppsnefnd. Eflaust má telja lengi ef tiltaka á allt sem hann hefur lagt lið.
Ætli megi ekki segja um þennan ágæta mann, að hann hafi haldið í heiðri þeirri hugsun, að það er fortíðin sem við hljótum alltaf að byggja á. Hann bar með sér keim af því sem liðið er um leið og hann var ávallt tilbúinn að tileinka sér nýungar og prófa nýja hluti.
Hvíli Arnór í friði.
Hann var alltaf hugumstór og knár
SvaraEyðahann bar vel með þokka tuga ár,
nema að hann nennti' ei kvænast mér
nú fær hann best séð hvað upp þá sker!
En við hittumst aftur karlinn minn
og þá tjúttum aftur nokkrum sinn ...
Ég hélt í hönd hans meðan rétt grillti í meðvitund og spjallaði um allt og ekkert; sagði fréttir; skammaði hann fyrir að hafa ekki fengið sér góða konu ---og endaði á að fara með vísu fyrir hann eftir Steingrím Thorsteinsson; kyssa svo á höndina hans - og fara.
(Bloggskapur með brosi til Arnórs sem skilur oftast skensið í mér)
Hirðkveðillinn.