28 febrúar, 2009

Öðruvísi

Mannskepnan aðlagast umhverfinu eða menningunni sem hún lifir og hrærist í og eftir því sem hún staldrar við lengur nálgast hún það æ meir að verða hluti af umhverfinu. Hápunkti nær manneskja síðan með því að verða umhverfið sjálft. 
Manni verður þetta auðvitað fullljóst við að heimsækja aðrar þjóðir og uppgötvar hvernig þær haga lífi sínu að mörgu leyti með öðrum hætti en við. Það getur meira að sesgja gengið svo langt að maður áttar sig ekki á hvernig húsbúnaður, eisn og bara klósettskálar virka.

Það þarf ekki að fara til útlanda til að upplifa menningarmun. Hann er fyrir hendi, jafnvel milli tveggja nágranna, sem hafa búið hlið við hlið árum saman.

Hér kann einhver að velta fyrir sér hvert í ósköpunum ég er að fara með þessu. Það skal nú skýrt.
Ég tók þátt í starfi Skálholtskórsins, sáluga nánast svo telja megi í áratugum. Ég lít svo á, að þar sem þátttaka mín náði yfir svo langt tímabil, þá hafi ég í það minnsta haft áhrif á þá menningu sem þar þróaðist. Ég vil ekki ganga svo langt að halda því fram, að ég hafi beinlínis verið menningin, þó ég gæti það alveg ef ég væri þannig innréttaður. Í öllu falli hrærðist ég þarna í umhverfi sem ég þekkti orðið vel og sem mér leið bara nokkuð vel í.

Nú er enginn Skálholtskór lengur, en það er önnur umræða.
Í sama sveitarfélagi starfar annar kór af svipuðum toga og Skálholtskórinn. Þetta er Söngkór Miðdalskirkju. Ég hef líklega þrisvar áður kíkt í heimsókn til þessa kórs við sérstök tækifæri og í dag er framundan fjórða skiptið. 

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom til æfinga hjá þessum kór, var að þar var menningin önnur. Hvorki betri né verri, bara önnur. Hér var kannski um að ræða annarskonar samskipti milli radda, eða innan hverrar raddar fyrir sig. Þeirra menning hefur þróast í gegnum áratugi, alveg eins og menning Skálholtskórsins. 
Lítið dæmi um þennan menningarmun er, að Laugdælir hafa kaffi og með því í æfingahléum. Í gærkvöld voru t.d. 4 sortir.
Allt er þetta sjálfsagt hið ágætasta mál.

Kórar tveir starfa með konum
og köllum.
Þeir djamma með dætrum og sonum
og öllum.

- ég veit, ég veit.

1 ummæli:

  1. Allt getur Palli ort um
    einnegin greint frá sortum,
    sönglist og menningu og mönnum
    og magnþrungum skemmtanaönnum.

    (Bloggskapur um kóra, djamm og kaffibrauð)
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...