14 janúar, 2010

Janúarkrísa (1)

"Af hverju rennur ekki úr vaskinum?"
Það var fD sem þarna hafði orðið og sem ábyrgum manni og 'altmuligmand', bar mér auðvitað skylda til að bregðast við með einhverjum hætti.
"Það er ekki gott að segja", sagði ég eftir að ég var kominn inn í eldhúsið og leit þar augum hálffullan vaskinn. Ekki reyndist vera tappi í vaskinum, svo ekki var það ástæðan. FD hóf þarna tilraunir til að fá vaskinn til að tæma sig, með því að nota einhverjar lofttæmingaraðferðir, sem sjálfsagt má líkja við það þegar drullusokkur er notaður, en þessar aðgerðir báru ekki árangur. Eins og mín var von og vísa, lagði ég til við við skyldum bíða og sjá til hvort vaskurinn tæmdist ekki af sjálfu sér. Með það yfirgáfum við eldhúsið (ætli það hafi ekki verðið komnar fréttir). Það leið ekki mjög langur tími þar til það heyrðist eitthvert 'glugg glugg' hljóð úr eldhusinu og við nánari athugum kom í ljós, að vaskurinn var tómur, en hljóðið heyrðist áfram þó nokkra stund. Ég neita því ekki, að mér var létt, en ég neita því ekki heldur, að einhversstaðar innra með mér gat ég greint vott af grun um að þarna væri þessu máli ekki lokið.

Það sem hér hefur verið lýst, gerðist milli jóla og nýárs. Í framhaldinu gerðist það, við og við, að það gluggaði í vaskinum, en alltaf tæmdist hann. Jóla- og gamlársdagsmatarleirtauið var þvegið í uppþvottavélinni og þvottar voru þvegnir eins og vera bar. Alltaf fór vatnið eitthvert. Ég gerði mér vonir um að hér væri aðeins um að ræða eðlilega framvindu meðan kerfið ynni sjálft að því að laga sig.
"Það kemur vatn upp úr niðurfallinu", hljómaði dag einn, rétt fyrir áramótin, neðan úr kjallara.
"Upp úr niðurfallinu? Það getur ekki verið", en þrátt fyrir svarið ákvað ég að skoða málið, með þá óþægilegu hugsun bak við eyrað, að nú færi stundin að nálgast; stundin, þegar ég þyrfti að fara að gera eitthvað í málinu.
Það sem blasti við mér, þegar niður kom, var einhverskonar salli á kjallaragólfinu í kringum niðurfallið. Það var hinsvegar enga bleytu að sjá. Mér þótti ljóst, að vatn hefði runnið að niðurfallinu, en ekki úr því. Leit á bakvið ísskápinn og frystikistuna, en fann engan mögulegan uppruna vatns þar. Þar með ákvað ég að aðhafast ekkert frekar - þetta hlyti að hafa verið eitthvað tilvilljanakennt. Með það fór ég aftur upp til að sinna einhverju sem mér hugnaðist betur, en einhver óútskýranlegur óþægindahnútur gerði aftur vart við sig, ekki þó þannig að hann truflaði mig verulega. Ég greindi það, hinsvegar, að fD var ekki rótt.

Það var síðan síðla dags á sunnudegi, þegar húsið var að fyllast af gestum, þegar þvottavélin var á fullu, þegar ég var að njóta helgarfrísins, þegar framundan var krefjandi vinnudagur, að mér heyrðist ég heyra vatnshljóð neðan úr kjallara. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að sinna þessu, það gætti átt sér eðlilegar skýringar. Það varð þó úr, að gegn vilja mínum fór ég niður stigann og inn í geymslu. Það sem við mér blasti sendi vægan kuldahroll niður hrygginn.

Framhald þessa máls er líklegt.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...